Kvikmyndir

Mission Kashmir

Leikstjórn: Vidhu Vinod Chopra
Handrit: Vikram Chandra, Vidhu Vinod Chopra og Atul Tiwari
Leikarar: Sanjay Dutt, Hrithik Roshan, Preity Zinta, Puru Rajkumar, Sonali Kulkarni og Jackie Shroff
Upprunaland: Indland
Ár: 2000
Lengd: 150mín.
Hlutföll: www.imdb.com/Title?0248185
Einkunn: 2

Ágrip af söguþræði:
Lögregluforinginn Inayat Khan ættleiðir ungan dreng í Kashmír eftir að hafa drepið fjölskyldu hans í blóðugum átökum við hættulegan íslamskan hryðjuverkamann. Þegar drengurinn, sem heitir Altaaf, áttar sig nokkru síðar á því að það var fósturfaðirinn, sem hafði drepið fjölskyldu hans, flýr hann til hryðjuverkamannsins fyrrnefnda og heitir því að ná fram hefndum. Altaaf er þjálfaður sem hryðjuverkamaður í Afganistan og sendur tíu árum síðar aftur til Kashmírs til að koma þar af stað allsherjarstríði, en þar kynnist hann á ný æskuvinkonu sinni og lendir í blóðugum átökum við fósturföður sinn.

Almennt um myndina:
Flestar kvikmyndir, sem framleiddar eru á Indlandi, eru dans- og söngvamyndir og gildir þar einu hvort um er að ræða drama, gamanmyndir, morðgátur eða harðhausamyndir eins og í þessu tilfelli. Þessi mynd á það sameiginlegt með mörgum indverskum kvikmyndum að kvikmyndatakan og klippingar eru hvarvetna til fyrirmyndar en yfir snilldina er síðan stráð góðum slatta af væmni og yfirdrifinni dramatík. Jafnframt er alls siðgæðis gætt en það er aðeins í allra nýjustu myndunum eins og þessari að persónurnar eru sýndar kyssast og er þá jafnan aðeins um svonefnda ,,mömmukossa” að ræða.

Indverjar hafa sent frá sér margar stórgóðar myndir og má þar t.d. nefna Bollywood myndirnar Lagaan (Ashutosh Gowariker: 2001) og Asoka (Santosh Sivan: 2001) sem og óháðu myndirnar Salaam Bombay! (Mira Nair: 1988), Bandit Queen (Mira Nair: 1994) og Fire (Deepa Mehta: 1996). Mission Kashmir telst hins vegar aðeins miðlungs kvikmynd, þrátt fyrir fallega kvikmyndatöku. Þar kemur helst til yfirgengileg væmni og óvenju heimskuleg atriði, sem eru reyndar mörg svo heimskuleg að erfitt er að verjast hlátri. Sem dæmi mætti nefna þegar lögregluforinginn Inayat Khan kemur heim til sín án þess að vita að tímasprengja hafi verið falin í skjalatöskunni hans. Honum er strax greint frá því að eiginkona hans sé í slæmu þunglyndiskasti, en til þess að hressa hana við kemur hann til hennar syngjandi og dansar við hana eldhress með hríðskotabyssu í hendi, en á meðan tifar sprengjan í skjalatöskunni. Reyndar er ljóst að Indverjar eru ekki sammála mér í dómi mínum því að myndin var tilnefnd til fjölda verðlauna á helstu indversku kvikmyndahátíðunum og féllu nokkur þeirra meira að segja henni í skaut.

Meginboðskapur myndarinnar dregur dám af því hvar hún er framleidd. Samkvæmt myndinni elska Indverjar Kashmír og þar með alla, sem þar búa, múslimana meðtalda. Stríðið, sem þeir eiga í, er hins vegar eingöngu við islamska hryðjuverkamenn, sem hata Kashmír og vilja eyða því. Þess vegna er ljóst að Kashmír er best komið í höndum friðelskandi Indverja, en Indland og Pakistan hefur um skeið verið á barmi kjarnorkustyrjaldar út af þessu umdeilda landsvæði, sem nefndur hefur verið hættulegasti staðurinn í heimi.

Það er vissulega ánægjulegt að indversk Bollywood mynd skuli rata á íslenskar myndbandaleigur (á DVD í fullu breiðtjaldi) og það með vönduðum íslenskum texta. Það er bara vonandi að þetta sé forboði um frekari innreið indverskra kvikmynda hingað upp á klakann.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Meginþema myndarinnar er hefndin og hörmulegar afleiðingar hennar, bæði fyrir gerandann og aðstandendur hans. Fórnarlömbin eru yfirleitt saklaust fólk sem hafa það eitt til saka unnið að vera á röngum stað á röngum tíma.

Þótt áróður myndarinnar sé mjög hliðhollur Indverjum gæta þeir þess þó að sýna islam í réttu ljósi. Það kemur t.d. skýrt fram að í islam er morð á saklausu fólki bannað og dreymir Altaaf meira að segja þann sannleik eftir að hafa framið hryðjuverk í nafni trúar sinnar. Jafnframt er indverska stjórnin sýnd gera mistök og ganga of langt í baráttu sinni gegn hryðjuverkamönnum. Þannig er reynt að gæta hlutleysis og meira að segja fær einn shíki að fljóta með svo að fulltrúar helstu trúarbragðanna á svæðinu (að kristni frátalinni) séu allir til staðar.

Í rauninni eru sterk samtrúarleg stef í myndinni. Lögreglustjórinn, sem er múslimi og kvæntur hindúa, segir eitthvað á þá leið að ólík trúarbrögð skipti engu þegar ástin sé til staðar. Í einu dans- og söngvaatriði myndarinnar er textinn ennfremur á þá leið að tónlistin innihaldi bæði Kóraninn og Bhagavat-Gitua, Allah og Ram og að hún sé stéttlaus með öllu. Athyglisvert er að sviðsmyndin í kringum söngvarann og dansarana í þessu tónlistaratriði minnir mjög á lýsingar Kóransins á paradís. Boðskapurinn er því augljós. Sameinuð og laus við alla fordóma í trúarefnum og mannlegum samskiptum getum við eignast paradís á jörð.

Auk þess er athyglisvert að unnusta Altaafs skuli heita Súfí, en nafnið vísar sennilega til súfísmans, enda virðist Súfí aðhyllast áþekka dulhyggju. Þá má svo e.t.v. greina vísun til Gandhis í myndinni en hann á að hafa hvatt hindúa sem myrti barn múslima í hefndarskyni að taka að sér munaðarlaust múslimabarn til að greiða fyrir syndir sínar. Þetta er það sem músliminn Inayat Khan gerir að áeggjan hindúískrar eiginkonu sinnar þegar hann ákveður að taka að sér munaðarlaust barn til að bæta fyrir þá misgjörð að hafa drepið fjölskyldu þess.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Kóraninn, Bhagavat-Gita
Persónur úr trúarritum: Guð, Ram
Guðfræðistef: dómsdagur, jihad, ást, hatur, sköpunin
Siðfræðistef: morð, hryðjuverk, umburðarlyndi, stéttaskipting, hefnd
Trúarbrögð: islam, hindúismi, shikismi, súfismi
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: Ganges fljótið, Hazratbal, Shankracharya, paradís, moska, indverskt hof
Trúarleg tákn: hálfmáni
Trúarlegt atferli og siðir: útför, bálför, fórnir, tilbeiðsla, ölmusugjafir, blessun, föstudagsbæn, bænakall
Trúarleg reynsla: draumur