Leikstjórn: Mira Nair
Handrit: Sabrina Dhawan
Leikarar: Naseeruddin Shah, Lillete Dubey, Shefali Shetty, Vijay Raaz, Tilotama Shome, Vasundhara Das
Upprunaland: Indland
Ár: 2001
Lengd: 114mín.
Hlutföll: us.imdb.com/Title?0265343
Einkunn: 3
Ágrip af söguþræði:
Kvikmyndin Monsoon Wedding (Brjálað brúðkaup) fjallar um undirbúning fyrir brúðkaup hjá miðstéttar fjölskyldu (Punjabi) í Dehlí. Punjabar eru áþekkir Ítölum í Evrópu, þekktir fyrir ástríður, lífsnautn og sterk fjölskyldubönd. Leikstjóri myndarinnar, Mira Nair, er einn þekktasti leikstjóri Indverja. Hún vakti mikla athygli fyrir myndir sínar Salaam Bombay! (1988) og Mississippi Masala (1991).Monsoon Wedding geymir fimm ólíkar ástarsögur. Sú fyrsta fjallar um brúðhjónin sjálf, en foreldrar þeirra ákváðu að þau skyldu ganga í það heilaga. Þau eru því fyrst að kynnast í brúðkaupinu sjálfu. Það flækir síðan málin að brúðurin er enn ástfangin af giftum manni sem hún hefur lengi átt í ástarsambandi. Þriðja ástarsambandið er á milli foreldra brúðarinnar, en samband þeirra hefur í nokkurri lægð. En í gegnum allt álagið og erfiðleikana kviknar aftur blossinn milli þeirra. Þá fella hugi saman frændsystkin sem hittast í brúðkaupinu. Loks verður verktaki (nokkurs konar „wedding planner“) sem sér um skreytingar fyrir brúðkaupið ástfanginn af þjónustustúlku á heimili fjölskyldunnar. En lífið er ekki dans á rósum því hryllilegt fjölskylduleyndarmál ógnar þessari gleðilegu samkomu.
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Höfundar þessarar umsagnar eru því miður ekki sérfræðingar í indverskum trúarhefðum og -siðum. Þar af leiðandi munum við ekki fara djúpt ofan í þá þætti, en leggja frekar áherslu á almenn trúar- og siðferðisstef. Annars er rétt að vara lesendur við, í umfjölluninni sem hér fylgir er ljóstrað upp miklu um efni og framvindu myndarinnar.Fyrsta athyglisverða þemað og það sem myndin fjallar fyrst og fremst um er fjölskyldan. Eins og handritshöfundurinn sagði í viðtali: ,,Þetta er óður til fjölskyldunnar … myndin fjallar í raun um það hvað það merkir að vera fjölskylda.“ Það er um margt áhugaverðasti þáttur myndarinnar. Ólíkt brúðkaupum í okkar vestræna menningarheimi þá eru það ekki aðeins hjónaefnin sem eru gefin saman í indversku brúðkaupi heldur einnig fjölskyldan. Á það er lögð sterk áhersla í þessari mynd.Fjölskyldan er n.k. virki velfarnaðar þar sem allir hugsa um velferð hvors annars eða hér um bil. Faðirinn á reyndar erfitt með að skilja son sinn sem hefur ekki áhuga á neinu öðru en eldamennsku og dansi. Gefið er í skyn að sonurinn sé samkynhneigður, þótt ekki sé farið neitt dýpra ofan í það.Velgjörðarmaður fjölskyldunnar heitir Tej Puri. Hann býr í Bandaríkjunum og hefur tengst fjölskyldunni sterkum böndum. En í ljós kemur að hann hefur misnotað kynferðislega tvær ungar stúlkur í fjölskyldunni. Upp um hann kemst þegar eldri stúlkan sem hann hafði misnotað áttar sig á að hann gerði það sama við aðra stúlku. Hún getur ekki lengur byrgt þetta hræðilega leyndarmál inni í sér og segir frá.Í fyrstu er henni ekki trúað, en svo breytist það. Fjölskyldufaðirinn Lalit stendur frammi fyrir erfiðum spurningum: Á hann að reka Tej og konu hans burt og valda þar með sundrungu í fjölskyldunni? Getur hann hunsað þessa hryllilegu staðreynd og látið sem ekkert sé? Í raun er hér um vítahring að ræða fyrir hann. Það er sama hvernig hann velur, fjölskyldunni hefur þegar verið sundrað.Hann velur að gera hið rétta, stendur með stúlkunum og rekur Tej burt. Þetta er ekki auðveld ákvörðun. Myndin tekur vel á þessu vandamáli og er gott dæmi um eina leið sem hægt er að fara út úr svona vanda: Leið samstöðunnar.Myndin kemur einnig óbeint inn á fleiri þætti, s.s. stéttaskiptingu. Eins og flestir vita er mjög mikil stéttaskipting á Indlandi. En myndin sýnir hvernig gleðin (ef svo má að orði komast) nær yfir öll slík mörk. Þetta sést í eftirminnilegu atriði undir lok myndarinnar. Þar sameinast fjölskyldan öll í gleðidansi yfir því að brúðhjónin ungu hafa verið gefin saman. Þar koma að þjónustustúlkan Alice og P. K. Dubey sem hafa fellt hugi saman og gengið í hjónaband. Og á þessu augnabliki gengur þjónustufólkið inn í gleði húsbændanna og öfugt og allir dansa saman, gleðjast saman og eru saman. Og þannig endar myndin eiginlega á gleðinótum, á fölskvalausri og sannri gleði.
Persónur úr trúarritum: Guð
Guðfræðistef: refsing Guðs, synd, hugrekki
Siðfræðistef: fjölskyldan, framhjáhald, klám, samkynhneigð, sifjaspell, lygi, skilnaður
Trúarbrögð: Áadýrkun, hindúismi, kristni
Trúarleg tákn: kross, reykelsi
Trúarlegt atferli og siðir: Brúðkaup, bæn