Leikstjórn: Ingmar Bergman
Handrit: Ingmar Bergman
Leikarar: Gunnar Björnstrand, Ingrid Thulin, Gunnel Lindblom, Max von Sydow, Allan Edwall, Kolbjörn Knudsen, Olof Thunberg, Elsa Ebbesen, Lars-Owe Carlberg og Tor Borong
Upprunaland: Svíþjóð
Ár: 1963
Lengd: 77mín.
Hlutföll: 1.33:1
Einkunn: 3
Ágrip af söguþræði:
Við andlát eiginkonu sinnar biður trú séra Tómasar Ericssonar, landsbyggðarprests í sænsku þjóðkirkjunni, skipsbrot. Á föstudeginum langa leitar til hans sjómaður í sjálfsvígshættu. Presturinn er svo upptekinn af eigin trúarefa og vonbrigðum að hann er ófær um að miðla guðstraustinu til sjómannsins sem fyrirfer sér. Ástand prestsins er slæmt bæði líkamlega og andlega en kennslukonan í þorpinu sem hann hefur átt í ástarsambandi við lítur á það sem köllun sína að hlúa að honum. Bæklaður meðhjálpari með stöðuga verki undirbýr messu þrátt fyrir augljóst messufall. Kennslukonan mætir í messuna og er presturinn þar kominn fyrir altarið og tónar dýrðarsönginn.
Almennt um myndina:
Kvikmyndin Kvöldmáltíðargestirnir (Nattvardsgästerna) er önnur myndin í svonefndum trúarþríleik Ingmars Bergmans þar sem hann er sagður hafa gert upp við trúna og kristindóminn. Sjálfur hafnar Bergman því að hægt sé að tala um trúarþríleik í þessu sambandi enda þótt hann hafi eitt sinn talað um það sjálfur að það hafi verið á þessum tíma sem hann gerði upp sakirnar við kristna trú. Trúarleg viðfangsefni höfðu þó gegnt veigamiklu hlutverki í fyrri myndum hans, ekki síst frá gerð Sjöunda innsiglisins (Det sjunde inseglet) árið 1957, og þau áttu eftir að koma við sögu áfram í myndum hans eftir þetta, t.d. í Persónu árið 1966.
Þessi mynd er eins og hinar tvær í þríleiknum nokkuð drungaleg og skildleikinn við leiksviðið er sláandi. Atburðarásin er hæg, persónurnar fáar og myndirnar spanna stutt tímabil í lífi þeirra, mesta lagi nokkra sólarhringa. Eins og aðrar kvikmyndir Bergmans eru Kvöldmáltíðargestirnir vel upp byggð og leikararnir skila hlutverkum sínum mjög vel.
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Viðfangsefni kvikmyndarinnar er það sama og í myndinni Sjöunda innsiglið, þótt tímabilið og umgjörðin sé önnur. Upphaflega hugmyndin að myndinni, sem gerist í sænskum bæ um miðja 20. öldina, gekk út á það að presturinn sem misst hefur trúna á Guð lokar sig inni í kirkjunni og neitar að hleypa nokkrum inn eða koma út sjálfur fyrr en Guð hefur birst honum og talað til hans. Þetta atriði var hins vegar ekki með í endanlegri gerð myndarinnar, en þjónusta prestsins í kirkjunni og glíma hans við vantrúna er engu að síður meginþema hennar.
Trú prestsins, sem heitir Tómas eins og lærisveinninn vantrúaði, beið hnekki þegar hann missti eiginkonu sína, sem honum finnst að hafi verið honum allt í öllu. Þegar myndin hefst heldur hann við kennslukonuna í bænum sem heitir Marta, eins og önnur þekkt persóna guðspjallanna.
Atburðir myndarinnar eiga sér stað milli föstudagsins langa og páskadagsmorguns, þ.e. þess tíma er leið frá því að Kristi fannst Guð hafa yfirgefið sig á krossinum á Golgata og þar til hann reis upp frá dauðum sem sigurvegari, samkvæmt frásögn guðspjallanna. Rammi myndarinnar er guðsþjónusta með altarisgöngu sem hefst í kirkjunni í Mitsunda og endar í anexíunni Frostnäs. Þessir tveir staðir geta því táknað upphaf og lok píslargöngu Krists.
Í millitíðinni fær séra Tómas það verkefni að veita sjómanni sálgæslu sem misst hefur trúna á lífið en það mistekst og fyrirfer sjómaðurinn sér og skilur eftir sig eiginkonu og hóp barna sem presturinn getur hvorki huggað né hjálpað. Prestinum tekst hins vegar mætavel að særa og niðurlægja kennslukonuna Mörtu, sem trúir ekki á Guð, en er viss um að hún hafi köllun til þess að bjarga þessum óhamingjusama og vanþakkláta presti. Hann játar trúleysi sitt fyrir sjómanninum sem leitaði til hans í neyð sinni. Vonleysi þess sem hugleiðir sjálfsvíg verður eins konar spegill eigin eymdar og hann áttar sig á því á hve veikum grunni trú hans er byggð. Hann hafði gert sér þá mynd af Guði að hann hefði aðallega þann tilgang að tryggja andlega velferð hans sjálfs og væri fyrst og fremst upptekinn af því að hugga hann og styðja og bæta honum upp allt það sem á vantaði að hinn jarðneski faðir hans væri hlutverki sínu vaxinn.
Eiginkona séra Tómasar hafði bætt honum upp það sem móðir hans hafði ekki getað veitt honum og þess vegna var hún ómissandi. Þegar hún fellur frá stendur hann eftir einn og varnarlaus. Ekkert hald er í þeim Guði sem hann hafði búið sér til sjálfur og í prestsþjónustu sinni getur hann ekkert gefið af sér, hvorki ástkonu sinni né sóknarbörnum sem glíma við sorg og sálarháska.
Sjálfsfyrirlitning hans bitnar á Mörtu sem þjáist m.a. af exem í lófunum, og það blæðir úr henni á sama stað og naglaförin voru á höndum Krists(sb. listasöguna. Sagnfræðingar telja að naglarnir hafi farið í gegnum úlnliðina). Það má líta á Mörtu sem Kristsgerving, eða staðgengil Krists, gagnvart prestinum. Marta þjáist með honum eins og Kristur þjáist með hinum þjáðu og elska hennar er jafn óeigingjörn og hans. Kærleikur hennar leitar ekki síns eigin, hún umber prestinn þrátt fyrir að hann særi hana, auðmýki og afneiti og hún fyrirgefur allt. Þetta er sá kærleikur, sem Páll postuli lýsir svo vel í fyrra bréfi sínu til Korintumanna kærleikur sem trúir öllu og vonar allt, og fellur aldrei úr gildi. Það er þessi kærleikur sem er meiri en spádómsgáfa og öll þekking.
Þjáningin vegna þagnar Guðs hvílir eins og mara á prestinum. Presturinn tekur þögn Guðs persónulega til sín og telur hana auðmýkjandi fyrir sig. Hann er svo upptekinn af hugarangri sínu og einmanaleika að hann sér ekki hvernig Kristur birtist í fólkinu í kringum hann.
Bæklaður kirkjuvörður undirbýr guðsþjónustuna í Frostnäs af stakri alúð og nákvæmni þótt kirkjusóknin sé lítil sem engin. Hann álasar ekki Guði fyrir kryppu sína og stöðuga verki. Hann hefur farið að ráðum prestsins og lesið guðspjöllin á nóttunni þegar hann liggur kvalinn og getur ekki sofið. Fyrst hafði þessi lestur lík áhrif og svefntöflur, en það breyttist þegar hann kom að píslarsögunni. Hann setur sig í spor Krists og telur að líkamlegar þjáningar hans hafi ekki verið það versta eins og margir virðast halda enda stóðu þær aðeins yfir í nokkrar klukkustundir.
Mesta þjáning Krists fólst í því að lærisveinar hans brugðust honum og að lokum Guð sjálfur eins og kemur fram þegar Kristur hrópar á krossinum: „Guð minn, Guð minn hví, hefur þú yfirgefið mig.“ (Mk 15:34.) Þetta segir sá einn sem veit að enginn skilur hann og að hann er einn og yfirgefinn. Séra Tómas virðist að lokum gera sér grein fyrir þessu og það gefur honum kjark til að messa.
Þegar Ingmar Bergman var að vinna að undirbúningi þessarar myndar virðist samband hans við föður hans hafa verið með betra móti og hann biður hann að koma með sér í heimsókn í nokkrar kirkjur til að kanna aðstæður.
Móðir Ingmars Bergman var þá á sjúkrahúsi og gamli maðurinn var farinn að láta á sjá. Þeir ferðuðust aftur saman eins og forðum þegar Ingmar fylgdi föður sínum á predikunarferðum hans milli kirknanna, en nú var það faðirinn sem var fylgdarsveinninn. Sonurinn hlustaði þó á athugasemdir og ráð föður síns og gladdist yfir því að þeir skyldu vera sammála um mikilvægi niðurlags myndarinnar. Um þetta sagði Ingmar Bergman síðar:
„Þegar hringt var til messu og ómur kirkjuklukknanna barst út yfir sléttuna, hafði presturinn ekki enn látið sjá sig og nú tók við löng þögn. Pabbi gerðist órólegur og tautaði eitthvað. Eftir nokkrar mínútur heyrðist hvar bíll erfiðaði upp brekkuna, hurð skelltist aftur og presturinn hentist inn ganginn á milli sætaraðanna. Er hann kom að grátunum snéri hann sér við og leit yfir söfnuðinn rauðgljáandi augum. Hann var grannvaxinn með sítt hár og vel snyrt skeggið náði varla að hylja langa hökuna. Hann sveiflaði handleggjunum eins og skíðamaður, hóstaði, hárið var allt í óreiðu og enni hans roðnaði. „Ég er veikur“, sagði hann, „ég er með tæpleg þrjátíu og átta stiga hita. Það er kvef.“ Hann leitaði eftir samúðarfullu augnaráði en bætti svo við. „Ég er búinn að tala við prófastinn og hann gaf mér leyfi til að flytja stytta guðsþjónustu. Altarisgöngunni verður sleppt, við syngjum sálm og síðan flyt ég predikun eins vel og ég get. Að því búnu syngjum við sálm og látum þar við sitja. Nú fer ég inn í skrúðhúsið og set upp prestakragann.“ Hann hneigði sig og beið síðan átekta nokkur augnablik, rétt eins og hann hefði vænst lófaklapps, eða að minnsta kosti einhverra merkja um samúð. Þegar enginn sýndi hin minnstu viðbrögð, hvarf hann að baki þykkri hurð. Pabbi reyndi að standa á fætur, honum var brugðið. „Ég verð að tala við þennan mann, þú verður að hleypa mér framhjá þér.“ Hann fór fram á gólfið og haltraði við stafinn inn í skrúðhúsið. Þar tóku við stutt en hvöss orðaskipti. Eftir nokkrar mínútur kom meðhjálparinn fram, brosti vandræðalega og tilkynnti að altarisganga færi fram. Aldraður klerkur ætlaði að aðstoða starfsbróður sinn. Organistinn og hinir fáu kirkjugestir sungu inngöngusálminn og í lok annars vers gekk pabbi inn, klæddur messuskrúða og kraga. Er söngurinn þagnaði, sneri hann sér að okkur og mælti með hinni hægu en frjálslegu rödd sinni: „Heilagur, heilagur, heilagur veri Herrann Sebaot. Veröldin er full af dásemd hans.“ Ég fann hér lokin að Kvöldmáltíðargestunum og auk þess reglu, sem ég hef ávallt fylgt og mun fylgja: Hvað sem öllu líður, ber þér að halda guðsþjónustu þína. Það skiptir miklu fyrir kirkjugestina og enn meira fyrir þig sjálfan. Hvort það skiptir einnig miklu máli fyrir Guð, verður að koma í ljós. Ef enginn Guð er til annar en von þín, skiptir það einnig miklu máli fyrir þann Guð.“
Séra Tómas í Kvöldmáltíðargestunum var líka með hitasótt og íhugar að aflýsa messunni sem meðhjálparinn hefur undirbúið af mikilli samviskusemi. Á síðustu stundu ákveður hann hins vegar að messa. Marta er eini kirkjugesturinn en þrátt fyrir trúleysið meðtekur hún sakramentið, sem byggir á þeirri grunnhugsun að máltíðin sé sameining hinna trúuðu í því kærleikssamfélagi sem Kristur stofnaði til með lífi sínu og dauða. Í kærleikssamfélagi heilagrar kvöldmáltíðar öðlast maðurinn frið fyrir augliti Guðs og fyrirgefningu synda sinna.
Við gerð Kvöldmáltíðargestanna var Ingmar Bergman gagntekinn af trúarjátningu sem hann hafði gert að boðskap myndarinnar Eins og í skuggsjá, upphafs trúarþrennunnar svo nefndu: Guð er kærleikur og kærleikurinn er Guð. Bergman var ósáttur við endi þeirrar myndar og vildi vinna betur úr kenningunni um kærleika Guðs sem honum fannst rúmast illa innan þess ramma sem kirkjustofnunin og embætti hennar settu.
Ingmar Bergman hefur sagt að eftir að listin varð viðskila við tilbeiðsluna þá hafi hún misst áhrifamátt sinn. Til eru ótal viðtöl við hann þar sem trúarglíma hans og afstaða til trúmála ber á góma. Yfirleitt er hann miklu betur að sér um þessi mál en spyrlarnir og kemur hann sér því oft undan að svara beint eða beinir umræðunni í þá átt sem hann sjálfur vill. Hér er eitt dæmi:
Spyrill: „Hefur þú nokkurn tímann upplifað þig sem trúboða, spámann?“
Bergman: „Nei því fer fjarri. Trúmálin eru nú ekki á eina bókina lærð hvað mig varðar.“
Spyrill: „O’Neill á að hafa sagt: „Öll leiklist er út í hött ef hún tekur ekki á einn eða annan hátt á afstöðu mannsins til Guðs.““
Bergman: „Já, ég hef oft vitnað til þessarra orða og fólk misskilur yfirleitt hrapalega það sem ég er að reyna að segja. Nú um stundir er það fullyrt að öll list sé pólitísk, en ég segi að öll list hafi með siðfræði eða siðferðilega afstöðu að gera. Þetta er það sama í raun og veru. Þetta er spurningin um það hvernig við nálgumst viðfangsefnið og það var þetta sem O´Neill átti við.“
Bergman var spurður að því hver afstaða hans var til trúmála þegar hann vann að gerð myndarinnar um Kvöldmáltíðargestina og hvernig hún birtist í listsköpun hans. Hann svaraði: „Þegar trúarleg yfirbygging lífskoðana minna hrundi og hvarf, hurfu einnig hindranirnar og minnimáttarkenndin sem ég fann oft fyrir sem skapandi nútímalegur listamaður. Ég hreinsaði þetta allt út við gerð myndarinnar um gestina við kvöldmáltíðarsakramentið.“
E.t.v. má túlka niðurlag myndarinnar á þá leið að trúin sem gefur manninum von og svarar ítrustu tilvistarspurningum mannsins, sem honum virðist áskapað að glíma við, sé fólgin í óeigingjörnum kærleika kærleika sem krefst þess ekki að allt gangi upp áður en maðurinn getur sýnt hvað í honum býr. Þetta er kærleikur sem hvorki setur fyrir sig formið né aðstæður heldur gefur sig allan á stað og stund eins og ekkert sé sjálfsagðara í öllum heiminum.
Þetta er kærleikur sem læknar lamaða, gefur blindum sýn, hungruðum brauð og fiska – og trúlausum presti kjark til að messa.
Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Biblían, Mk 15:34, píslarsaga Jesú Krists
Hliðstæður við texta trúarrits: Lærisveinninn Tómas, Marta
Persónur úr trúarritum: Guð, Jesús Kristur
Guðfræðistef: kvöldmáltíðarsakramentið, tilvist Guðs, nálægð Guðs, bænheyrsla, kærleikur, samfélag trúaðra, fyrirgefning, auglit Guðs, synd, þjáning Krists, friðþæging Krists, dauðinn
Siðfræðistef: sjálfsvíg, fötlun, þjáning, sorg
Trúarbrögð: kristindómur, lútherska kirkjan í Svíþjóð, trúleysi
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja
Trúarleg tákn: brauð, vín, veggkross, altari, píslasár
Trúarleg embætti: prestur, meðhjálpari, organisti
Trúarlegt atferli og siðir: skriftir, sálgæsla, messa, altarisganga, bæn, húsvitjun, kirkjusókn
Trúarlegar hátíðir, sögulegir atburðir: föstudagurinn langi, páskar
Trúarleg reynsla: efi