Kvikmyndir

Nimeh-ye penhan

Leikstjórn: Tahmineh Milani
Handrit: Tahmineh Milani
Leikarar: Niki Karimi, Mohammad Nikbin, Atila Pesiani, Soghra Abissi, Afarin Obeisi og Akbar Moazezi
Upprunaland: Íran
Ár: 2001
Lengd: 108mín.
Hlutföll: 1.66:1
Einkunn: 3

Ágrip af söguþræði:
Íranskur dómari er sendur í kvenfangelsi víðsfjærri heimili sínu til að hlýða á kvartanir og náðarbeiðni dauðadæmdrar konu sem brátt verður tekin af lífi fyrir að hvetja til að stjórnvöldum verði steypt af stóli og kommúnísku þjóðfélagi komið á í staðinn. Þegar eiginkona dómarans, Fereshteh að nafni, kemst að því hvert hann eigi að fara, grípur hún til eigin ráða og skrifar honum bréf sem hún síðan laumar í farangur hans ásamt gamalli dagbók sinni. Kvöldið áður en dómarinn hittir dauðadæmdu konuna finnur hann bréfið og dagbókina þar sem hann kemur sér fyrir á hóteli og fer þegar að lesa það sem þar stendur.

Í bréfinu ljóstrar eiginkonan ýmsu upp um fortíð sína sem hann hafði ekki vitað um, en á háskólaárum sínum skömmu eftir stjórnarbyltingu islamskra heittrúarmanna þar í landi árið 1979 hafði hún sjálf verið virkur meðlimur í kommúnistaflokki landsins sem áður hafði barist gegn keisaranum en nú gegn múslimum. Um það leyti sem stjórnvöld freistuðu þess að ganga milli bols og höfuðs á kommúnistaflokknum dróg hún sig hins vegar í hlé frá honum enda með lögregluna á hælunum og þjökuð af ástarsorg að auki. Maðurinn sem hún hafði orðið ástfanginn af, virtur rithöfundur og tímaritaútgefandi sem á yngri árum hafði sjálfur verið kommúnisti, reyndist kvæntur og faðir í ofan á lag enda þótt samneyti hans við auðuga eiginkonu sína og son væri ekkert lengur. Þar sem eiginkonan kenndi í brjóst um Fereshteh skaut hún skjólshúsi yfir hana enda stúlkan nauðalík yngri systur hennar sem hafði verið æskuást eiginmannsins en fallið í valinn í misheppnaðri uppreisn kommúnista árið 1953. Það var því á heimili auðugu eiginkonunnar sem Fereshteh hafði fallist á að annast um sem hún kynntist síðar syninum þegar hann sneri heim úr löngu háskólanámi í Bandaríkjunum og gengu þau að lokum í hjónaband.

Tilgangur eiginkonunnar með bréfinu er því að sýna eiginmanninum fram á að brot dauðadæmdu konunnar tengist honum sjálfum og fjölskyldu hans meir en hann hafði haldið í von um að það verði til að milda afstöðu hans til hennar.

Almennt um myndina:
Óhætt er að segja að þessi íranska kvikmynd sé sannkölluð kvennamynd enda gerð af einum þekktasta leikstjóra Írana meðal kvenna, Tahmineh Milani, og fjallar um konur í landi hennar, hlutskipti þeirra og reynslu. Sumir gagnrýnendur myndarinnar hafa reyndar haldið því fram að hér sé um ósvikna lítt ígrundaða sápu að ræða sem fæstir hefðu veitt athygli hefði hún verið bandarísk eða bresk. Enda þótt myndin sé vissulega ekki alveg gallalaus verður sú gagnrýni að teljast ósanngjörn enda markmið leikstjórans augljóslega það að hvetja til fyrirgefningar, sátta og félagslegs réttlætis í þjóðfélagi sem þarf svo mjög á því að halda eftir áralangar blóðsúthellingar og styrjaldir, en stríðið við Írak á árunum 1980-1988 kostaði alls um eina og hálfa milljón mannslífa.

Í raun er gerð myndarinnar í flesta staði góð og leikararnir margir trúverðugir, sérstaklega þó hin hæfileikaríka og fagra leikkona Niki Karimi í hlutverki eiginkonunnar Fereshteh sem eitt sinn hafði verið sannfærður kommúnisti og barist gegn yfirráðum múslima í landinu. Niki Karimi hefur leikið í allmörgum írönskum kvikmyndum á liðnum árum, m.a. í Do zan (1999) hjá sama leikstjóra, og verið að því er virðist óhrædd við krefjandi hlutverk sem alls óvíst er að myndu falla í kramið hjá ráðamönnum þar í landi. Hún hefur líka hlotið mikið lof fyrir frammistöðu sína í hlutverki Fereshtehs og var í því sambandi m.a. valin besta leikkonan á egypsku kvikmyndahátíðinni í Kaíró árið 2001.

Helsti galli myndarinnar er leikur Mohammads Nikbins í hlutverki rithöfundarins og tímaritaútgefandans sem reynist síðar faðir dómarans en hann virkar þar væminn um of og raunar ósköp litlaus, enda þótt áhersla sé lögð á hversu kurteis og fágaður hann sé í allri framkomu. Reyndar er væmnin mikið til leikstjóranum sjálfum um að kenna enda eru atriðin þar sem Fereshteh fylgist með rithöfundinum áður en að formlegum kynnum þeirra kemur áréttuð með hægri framvindu og tilfinningaþrunginni tónlist. Einnig má gagnrýna myndina fyrir að skýra ekki betur samskiptaleysi rithöfundarins við eiginkonuna og sérstaklega soninn en heilir tveir áratugir líða án þess að hann virðist gera sér grein fyrir að unga konan sem hann varð ástfanginn af en sneri við honum baki hafi síðar gengið í hjónaband með syni hans. Þó hefur annað eins gerst í raunveruleikanum og er vart hægt að segja að þetta skemmi svo mjög fyrir myndinni þegar upp er staðið. Í heildina er hér því um að ræða bæði áhugaverða og góða kvikmynd með tónlist sem er þrátt fyrir allt víðast hvar virkilega fín.

Það sem er þó ekki hvað síst áhugavert við kvikmyndina eru allar þær miklu raunir sem leikstjórinn Tahmineh Milani þurfti að ganga í gegnum eftir að hún hafði lokið við gerð hennar. Strax við frumsýninguna í Teheran í Íran varð myndin þegar umdeild og réðust ýmsir heittrúaðir múslimar af hörku gegn henni. Fljótlega var Tahmineh Milani handtekin og dauðarefsingar krafist yfir henni, en áður en málinu var lokið fyrir dómstólum tók Mohammad Khatami forseti landsins upp málstað hennar og lét leysa hana úr haldi. Kvikmyndin var leyfð á ný og hefur Tahmineh Milani haldið kvikmyndagerð sinni ótrauð áfram síðan, en síðast sendi hún frá sér spennumyndina Vakonesh panjom (2003) sem einnig er með Niki Karimi í aðalhlutverki.

DVD diskurinn sem hér er til umfjöllunar er gefinn út af útgáfufyrirtækinu Irmovies.com sem sérhæfir sig í írönskum kvikmyndum fyrir bandaríkjamarkað. Tungumálið er blessunarlega persneska en ekki síðari tíma ensk talsetning og fylgir enskur texti með sem verður því miður full ógreinilegur þegar baksviðið er hvítt eða mjög bjart. Myndgæðin eru svo sem þolanleg en sannarlega hefur margt betra verið gefið út á DVD. Það verður hins vegar að teljast með öllu óþolandi að nafn útgáfufyrirtækisins skuli vera haft langtímum saman með áberandi hætti niðri í vinstra horni myndrammans. Engu að síður er vel þess virði að kaupa þessa útgáfu myndarinnar enda alls óvíst hvort hún verði nokkurn tímann aðgengileg á tungumálum sem þorri Íslendinga getur skilið.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Eins og svo margar íranskar kvikmyndir byrjar þessi á orðunum „Í nafni Guðs“ til að árétta að hún sé gerð Guði til dýrðar.

Þegar fylgismenn trúarleiðtogans Seyyeds Ruhollahs Khomeinis (1900-1989), jafnan titlaður Ayatollah, steypa íranska keisaranum af stóli í janúar 1979 er hin 19 ára gamla Fereshteh, aðalsöguhetja myndarinnar og síðar eiginkona dómarans, sannfærður kommúnisti sem berst fyrir félagslegu réttlæti og frelsi kynsystra sinna, en sjálf hafði hún alist upp í mikilli fátækt og er aðeins nýflutt til ættingja sinna í höfuðborginni til að hefja þar háskólanám. Fylgið við kommúnismann er skýrt með því að sýna bág kjör fjölskyldunnar í heimabænum þar sem foreldrarnir þurfa að sofa á gólfinu með miklum fjölda barna sinna.

Á veggspjöldum Fereshtehs og vinkvennanna má sjá myndir af Che Guevara og öðrum þekktum kommúnistaleiðtogum og uppsker ein þeirra aðfinnslur frá flokksforystunni þegar hún verður uppvís að því að hafa bætt þar við mynd af Gary Cooper, uppáhalds bandaríska leikaranum sínum, í herberginu sínu. Kröfurnar um árangur í boðunarstarfinu fyrir kommúnistaflokkinn er miklar og hika meðlimirnir ekki við að ljúga til að ná sínu fram, t.d. með því að fá lögregluna til að keyra sig á sjúkrahús á þeirri forsendu að þar bíði sjúkur ættingi meðan raunverulegi tilgangurinn reynist sá að dreifa þar ólöglegum kommúnískum áróðursbæklingum. Vinkonurnar innan flokksins eru margar ósáttar við þá einhæfu ímynd sem flokkurinn virðist vilja skapa þeim og kvarta þær undan því hversu auðveldlega sé hægt að þekkja þær úr af klæðaburðinum einum sem minni helst á fátæklinga. Allar þurfi þær óhjákvæmilega að bera slæður eftir byltinguna en flokkurinn krefjist þess að klæðaburðurinn sé eins látlaus og kostur er og að þær klæðist helst kínverskum maóskyrtum, hvorki faðri sig né máli og láti allar skemmtanir og tómstundir víkja fyrir flokksstarfinu.

Gagnrýnin á kommúnismann er beinskeytt en ekki er laust við að það hvarfli að áhorfandanum að henni sé allt eins beint gegn núverandi valdhöfum landsins. Segja má að gagnrýnin sé hvað hörðust þegar flokksfulltrúinn Nasrin, miðaldra kona sem er leiðtogi stúlknanna, er spurð hvað flokkurinn hafi að segja um ást karls og konu en hún segist ekkert um það vita og hvetur í staðinn til þess að forystan verði spurð um það bréfleiðis. Þegar svo svarið berst frá flokksforystunni þá er ástin sögð mikils virði en á byltingartímum sem þessum sé enginn tími fyrir hana.

Fereshteh tekur fyrst eftir rithöfundinum og tímaritaútgefandanum virta á kaffistofunni þar sem kommúnistasella hennar fundar jafnan og fær hún tækifæri til að ræða við hann þegar hann snýr sér óvænt að henni á minningarfundi um látinn vinsælan leikara. Þegar nokkrir herskáir múslimar elta hana síðar á röndum um götur borgarinnar eftir að hafa staðið hana að verki við að dreifa kommúnískum áróðursbæklingum gegn ráðamönnum vegna fyrirætlana þeirra um að loka háskólum landsins í nafni íslömsku byltingarinnar, leitar hún í ofboði skjóls í ólæstu húsi sem reynist í eigu rithöfundarins, en þar hefjast kynni þeirra fyrir alvöru. Á heimilinu hittir hún m.a. frú Pahlevan, rithöfund sem sat fimm ár í fangelsi á valdatíma keisarastjórnarinnar, en hún bendir henni kurteislega á að hún verði einnig að kynna sér sögu og menningu sinnar eigin þjóðar en ekki bara sögu Sovétríkjanna og annarra kommúnistaríkja.

Enda þótt rithöfundurinn sem Fereshteh verður ástfangin af hafi á yngri árum verið kommúnisti líka er hann orðinn afar vestrænn í háttum, keyrir um á dýrum Range Rover jeppa og vill senda hana í nám til Englands sem hann hefur miklar mætur á og vill helst sjálfur flytjast til. Fereshteh er sannfærð um að hann sé einhleypur og verður það henni því mikið áfall þegar hún kemst að því að hann er ekki aðeins kvæntur heldur eigi hann líka fullorðinn son sem sé í háskólanámi í Bandaríkjunum. Engu máli skiptir þótt hann hafi lengi sniðgengið bæði eiginkonu sína og son, hún vill ekki taka saman við kvæntan mann sem auk þess kemur ekki fram við hana af fullum heilindum, jafnvel þótt ljóst sé að hann sé afar ástfanginn af henni.

Miðaldra eiginkona rithöfundarins sem reynist vellauðug kemst brátt að sambandi hans við Fereshteh og hefur samband við hana til að fá hana til að snúa baki við honum. Eiginkonan greinir Fereshteh frá því að í raun sé hún nauðalík yngri systur hennar sem eiginmaðurinn hafði upphaflega verið ástfanginn af en sú var líka sannfærður kommúnisti og lést í misheppnaðri byltingartilraun árið 1953. Þar sem eiginkonan kennir í brjóst um Fereshteh, sem á í engin hús lengur að venda vegna tengsla sinna við kommúnistaflokkinn, býður hún henni bæði heimili og atvinnu gegn því að hún haldi sig fjærri eiginmanninum um ókomna tíð og samþykkir hún það. Fyrir vikið lokar Fereshteh sig að mestu af frá umheiminum með eiginkonunni og hjúkrar henni næstu árin enda heilsutæp.

Þegar sonurinn snýr svo aftur heim verða þau ástfangin og ganga í hjónaband en það er einmitt hann sem sendur er í myndarbyrjun til að hlýða á mál dauðadæmdu konunnar án þess að gera sér grein fyrir að ástkær eiginkona hans, faðir og móðursystir höfðu öll verið kommúnistar líka. Áður en hann leggur af stað ákveður Fereshteh því að skrifa honum bréfið til að hvetja hann til að auðsýna konunni sem dæmd hafði verið til dauða fyrir kommúnískar stjórnmálaskoðanir sínar bæði sanngirni og miskunnsemi en í því skyni gerir hún honum í fyrsta sinn grein fyrir bakgrunni sínum og ættingja hans.

Tveimur áratugum eftir að Fereshteh hafði snúið baki við rithöfundinum hittast þau óvænt á ný í erfidrykkju föðurs eins af gömlu vinkonum hennar úr flokknum og bendir hann henni þá á að hún hafi í raun aðeins kynnt sér eina hlið málsins, þ.e. sjónarmið ákærandans, eiginkonunnar. Sjálfur hafi hann hins vegar aldrei fengið tækifæri til að skýra sína hlið á málinu og nú sé það orðið of seint enda hafi það verið örlög þeirra að ná aldrei saman. Fereshteh bregður þegar hún áttar sig á þessu og viðurkennir að sjálfsagt hafi hún reynst þar slæmur dómari. Þau kveðjast hins vegar án þess að ræða málið frekar, en fyrir vikið fær áhorfandinn heldur ekki að heyra sjónarmið rithöfundarins.

Beinast liggur við að líta á helstu persónur myndarinnar sem persónugervinga stórs hluta íranskra landsmanna og þess þjóðfélagskerfis sem þeir búa við. Þannig má líta á Fereshteh, eiginkonu dómararans, sem persónugerving íranskra kvenna sem þurftu mikið til að draga sig í hlé á opinberum vettvangi eftir byltinguna, en hún lokar sig af og hjúkrar velgjörðarkonu sinni og móður verðandi eiginmanns síns vegna beiðni hennar og þess félagslega öryggis sem það veitir henni, en sjálf er hún eftirlýst af lögreglunni sem bíður við gamla heimilið hennar til að geta handtekið hana. Titill myndarinnar Huldi helmingurinn (á ensku The Hidden Half) vísar þannig bæði til hennar og allra þeirra írönsku kvenna sem lokaðar eru inni á heimilunum með einum eða öðrum hætti og fá ekki að tjá sig til jafns við karlmennina.

Segja má að auðuga eiginkonan og móðir dómarans standi fyrir hefðina sem eldri kynslóðirnar eru gjarnan svo fastheldnar á enda er það hún sem lokar Fereshteh af með sér frá umheiminum. Líklega stendur dómarinn, sonur tákngervings hefðarinnar, ennfremur fyrir réttarkerfið í Íran og þá karlmenn sem viðhalda því, en Fereshteh aðlagar sig ekki aðeins að því heldur tekur hún að elska fulltrúa þess, eignast börn með honum og fær hann smám saman til að auðsýna hinum seku sanngirni og miskunnsemi. Þetta þýðir samt ekki að hún sé sátt við ástand mála í landi sínu enda sýnir hún t.d. dagblöðum eiginmannsins engan áhuga og segir að ekkert þeirra tali sitt tungumál. Jafnframt kvartar hún undan því í bréfi sínu til hans að hún sem kona fái sjaldnast að segja hug sinn á opinberum vettvangi ólíkt honum sem njóti þeirra forréttinda að vera karlmaður. Því sé kominn tími til eftir sautján ára langt hjónaband að hún kynni sig fyrir honum eins og hún er í stað þess að haga sér sífellt eins og allir ætlist til af henni.

Loks er freistandi að líta á rithöfundinn sem persónugerving Vesturlanda eða a.m.k. þess hluta Írana sem hneigðust til þeirra og reyndu að festa lífsmáta þeirra í sessi meðal landsmanna sinna en var að lokum hafnað vegna ótrúmennsku, a.m.k. að mati byltingarmanna, eins og sést af því þegar Fereshteh ákveður að snúa við honum baki eftir að hafa komist að sannleikanum um fjölskylduhætti hans. En eins og rithöfundurinn bendir henni síðar á hlustaði hún í raun aldrei á sjónarmið hans og því má vera að hann hafi eftir allt saman haft sitthvað til síns máls.

Líklega talar Tahmineh Milani, leikstjóri myndarinnar og handritshöfundur, fyrir munni Fereshtehs þegar hún hvetur til sanngirni, miskunnsemi og fyrirgefningar til handa þeim sem urðu undir í byltingunni árið 1979. Raunar einkennist persónusköpun hennar öll af bjartsýni enda er víða sýnt hvernig hið góða er laðað fram í manninum, jafnvel þótt rithöfundurinn reynist ekki allur þar sem hann er séður, starfsemi kommúnista sé aðfinnsluverð í mörgum efnum og islamskir byltingarsinnar beiti andstæðinga sína margvíslegu ofbeldi þegar þeir reyna að kveða þá niður. Hjónaband Fereshtehs og dómarans einkennist af ástúð og gagnkvæmri virðingu og snertir bréf hennar augljóslega við honum áður en hann heldur til fundar við dauðadæmdu konuna í fangelsinu. Áhorfandinn fær reyndar aldrei að vita hvernig dómarinn tekur á máli hennar því að myndin endar um leið og hún tekur að gera grein fyrir máli sínu fyrir honum, en vonin er þó sannarlega þar til staðar enda er viðmót hans alúðlegt. Jafnframt er það athyglisvert að upphafsorð dauðadæmdu konunnar eru orðrétt þau sömu og hjá eiginkonunni í bréfinu þar sem hún greinir frá bágri æsku sinni en þannig renna þær í raun saman í eitt.

Þrátt fyrir þá jákvæðu mynd sem dregin er upp af dómaranum og eiginkonu hans í myndinni kemur það ekki alveg á óvart þótt ýmsir heittrúaðir byltingarsinnar meðal múslima hafi orðið ósáttir við myndina. Enda þótt kommúnistaflokkurinn sé gagnrýndur fyrir ýmislegt er samt alljákvæð mynd dregin upp af flestum félögum hans sem berjast gegn byltingarstjórninni en átökin milli stuðningsmanna þeirra beggja eru tíð og eru múslimarnir víða sýndir beita andstæðinga sína hörku. Myndin er því ekki síður gagnrýnin á fylgismenn byltingarstjórnar Khomeinis en kommúnistaflokkinn og nær gagnrýnin til hlutskiptis þegnanna allt fram til dagsins í dag eins og sjá má m.a. af konunni sem dæmd hefur verið til dauða fyrir stjórnmálaskoðanir sínar. Jafnframt er tekið fram að illa hafi farið fyrir flestum vinkonum Fereshtehs innan flokksins en leiðtoginn Nasrin var tekin af lífi, ein var dæmd í 10 ára fangelsi, önnur var leyst úr haldi eftir að hafa iðrast þar og sú þriðja fékk hæli í Þýzkalandi sem pólitískur flóttamaður.

Það er engin tilviljun að myndin skuli heita Huldi helmingurinn því að þannig er málum háttað með konurnar í Íran, helminginn af landsmönnum sem lítið fær að tjá sig. Engu að síður er stórkostlegt að listamenn á borð við Tahmineh Milani fái nú að tjá sig og gera grein fyrir sjónarmiðum sínum, jafnvel þótt þeim séu settar ýmsar skorður.

Sögulegar persónur: Che Guevara
Guðfræðistef: miskunnsemi, fyrirgefning, píslarvætti, örlög
Siðfræðistef: ást, ofbeldi, samviskufrelsi, félagsleg staða kvenna, dauðarefsingar, framhjáhald, lygi, blekking, sanngirni, fátækt, sjálfsmynd manna, bylting, stéttaskipting, frelsi, lygi, siðferðileg skylda, þögn
Trúarbrögð: islam, kommúnismi
Trúarleg tákn: slæða