Leikstjórn: King Vidor
Handrit: Talbot Jennings og Laurence Stallings, byggt á skáldsögunni Northwest Passage, Book I, ‘Rogers’ Rangers’ eftir Kenneth Roberts
Leikarar: Spencer Tracy, Robert Young, Walter Brennan, Ruth Hussey, Nat Pendleton og Louis Hector
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 1940
Lengd: 122mín.
Hlutföll: us.imdb.com/Details?0032851
Einkunn: 3
Ágrip af söguþræði:
Í nýlendustríði Breta og Frakka á átjándu öldinni slást Langdon Towne og Hunk Marriner slást í för með herliði Roberts Rogers majors og aðstoða það við að slátra heilu indíánaþorpi, en halda síðan þreyttir og matarlausir af stað með því í langa ferð til Wentworth-virkisins, sem reynist bæði mannlaust og án vista þegar leiðarenda er náð.
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Framan af fer heldur lítið fyrir trúar- eða biblíustefjum í kvikmyndinni Northwest Passage. Indíánarnir höfðu ekki enn fengið uppreisn æru sinnar enda myndin gerð löngu fyrir tilkomu hippabyltingarinnar þegar farið var að líta þá öðrum og jákvæðari augum. Þeir eru því hér flestir frekar heimskir og drykkfeldir og margir hverjir algjörir villimenn. Enda þótt fjöldamorð á Indíánum sé sýnt í myndinni er ljóst af bæði kvikmyndatökunni og tónlistinni að samúðin er ekki með þeim heldur Bretunum. Í dag væri slíkur atburður hins vegar viðfangsefni stríðsglæpadómstóls Sameinuðu þjóðanna.
Undir lok myndarinnar hafa hermennirnir ferðast dögum saman án nokkurs matar svo heitið getur. Þegar þeir ná loks áfangastaðnum glorhungraðir og uppgefnir komast þeir hins vegar að því að þar er engan mat að finna. Majórinn Robert Rogers (leikinn af Spencer Tracy) tekur þá til máls og segir:
– Þið gætuð haft það verr, mun verr. Þú ert menntaður Towne! Var ekki einhver í Biblíunni sem var án matar í fjörtíu daga?
– Jú, ég held að einhver í Biblíunni fastaði í fjörtíu daga. Ég held að það hafi verið Móse. [Sjá 2M 34:28; 5M 9:9 og 5M 9:18.]
– Þarna sjáið þið! Heyrið þið hvað hann sagði? Móse bragðaði ekki mat í fjörtíu daga. Hann hafði ekki einu sinni góðar rætur til að narta í. Alls ekkert! Hann fékk ekki einn einasta bita, var það nokkuð Towne?
– Nei, ekki neitt, hvorki vott né þurrt.
– Heyrið þið það? Hvorki vott né þurrt! Lítið á muninn á okkur og honum. Sjáið t.d. vatnið sem við höfum. Hreint og ferskt vatn. Hvað hefði Móse ekki gefið fyrir eina könnu af svona vatni? Hvað þá heila fötu eins og við höfum. Í staðinn fyrir að flatmaga hér iðjulausir ættum við að færa þakkir fyrir það sem við höfum. Ég er ekki mikill bænamaður en kannski kann ég nokkur biblíuvers sem ég hef haft trú á og sem hafa hjálpað mér hingað til. ,,Rödd hrópanda í eyðimörk: Greiðið veg Drottins, gjörið beinar brautir hans. [Sjá t.d. Mt:3:3.] Sjá, nú hefi ég nýtt fyrir stafni […] – Sjáið þér það ekki? Ég gjöri veg um eyðimörkina og leiði ár um öræfin. [sjá Jes 47:1.] Þar skal vera braut og vegur […] Enginn sem hana fer, mun villast, jafnvel ekki fáráðlingar. [Sjá Jes 35:8.]“
Í þeim orðum mætir breski herinn á staðinn með hressilegri tónlist og hlaðin matarbyrgðum. Ritningartextarnir eru svo áhrifamiklir að bæninni er svarað samstundis. Rogers gefst ekki einu sinni tækifæri til að klára hana. Notkun sem þessi á ritningartextum er í raun mjög dæmigerð fyrir stríðsmyndir en svipaða senu er t.d. að finna í stríðsmyndunum Sahara og Battleground. Þar rætast ritningartextarnir einnig þegar hermennirnir eru orðnir úrkula vonar.
Það er áhugavert að þeir Towne og Rogers skuli hugsa til Móse þegar spurt er um persónu úr Biblíunni sem hafi fastað í fjörtíu daga. Maður hefði frekar búist við því að þeir myndu vísa til Krists, en fastan hans úti í eyðimörkinni er mun þekktari en fastan hans Móse, sem er flestum gleymd. Engu að síður gæti það hafa verið klókindi að vísa fremur til Móse en Krists því að kristnir menn líta svo á að Móse hafi aðeins verið maður en að Jesús Kristur hafi verið og sé Guð og maður jafnt. Móse hafi því verið betri mælikvarði á getu mannsins en Jesús Kristur.
Beinar tilvísanir í texta trúarrits: 2M 34:28; 5M 9:9; 5M 9:18; Jes 35:8; Jes 40:3; Jes 47:1; Mt 3:3
Persónur úr trúarritum: Móse
Siðfræðistef: morð, stríð
Trúarbrögð: kristni
Trúarlegt atferli og siðir: fasta
Trúarleg reynsla: bænasvar