Kvikmyndir

Obchod na korze

Leikstjórn: Ján Kadár og Elmar Klos
Handrit: Ján Kadár, Elmar Klos og Ladislav Grosman
Leikarar: Ida Kaminska, Jozef Kroner, Hana Slivková, Martin Hollý, Adám Matejka og Frantisek Zvarík
Upprunaland: Tékkóslóvakía
Ár: 1965
Lengd: 128mín.
Hlutföll: 1.33:1
Einkunn: 4

Ágrip af söguþræði:
Myndin fjallar um samspil tveggja einstaklinga í slóvakíska bænum Sabinov í skugga helfararinnar árið 1942. Einstaklingarnir tveir eru gömul Gyðingakona, Rozalie Lautmann að nafni, sem rekur litla verslun og trésmiður að nafni Tono Brtko, sem hefur af hinum nýju ráðamönnum fasista fengið það hlutverk að taka yfir verslunina. Það hlutverki fær hann annars vegar vegna þess að hann er aríi og hins vegar vegna þess að mágur hans hefur komist til áhrifa hjá hinum nýju valdhöfum.

Rozalie gamla, sem heyrir illa og skilur ekki hvað um er að vera, telur að hún hafi fengið elskulegan aðstoðarmann. Svo fer raunar að með þeim Rozalie og Tono tekst vinskapur, en áhorfandinn bíður þess alltaf að gamla konan átti sig á því sem raunverulega er að gerast og að þetta geti varla endað nema illa. Helfararmyndir enda sjaldnast vel frekar en líf þeirra Gyðinga sem kynntust helförinni af eigin raun.

Almennt um myndina:
Jan Kadár, leikstjóri myndarinnar, leitast í raun og veru ekki við að fjalla um helförina sem atburð heldur beinir hann kastljósi sínu að því hvernig hún hefur áhrif á líf tveggja einstaklinga. Þetta reynist áhrifarík nálgun á viðfangsefni sem er í raun svo óumræðanlegt í öllum sínum hrikaleik að vandséð er hvernig unnt sé að gera því skil á hvíta tjaldinu.

Þá er það athyglisvert í helfararkvikmynd, en þó engan veginn einsdæmi (sbr. Schindler’s List) að önnur aðalpersóna myndarinnar er ekki Gyðingur.

Myndin snýst um það siðferðilega val sem milljónir manna stóðu frammi fyrir í síðari heimsstyrjöldinni, þ.e. hvernig bregðast skyldi við því þegar nágrönnum þeirra var smalað saman og þeir fluttir á brott fyrir þá sök eina að þeir voru Gyðingar. Hér var spilað á óttann, eins og fram kemur í myndinni, þar sem klifað er á því að þeir sem elska Gyðinga séu verri en Gyðingarnir sjálfir. Jafnframt er það gert alveg ljóst að þeir sem komi Gyðingum til hjálpar muni sjálfir uppskera dauðarefsingu.

Hér skal tekið undir þau orð kvikmyndagagnrýnandans James Kendrick að það sem geri Verslunina á Aðalstræti jafn minnistæða og raun ber vitni sé hvernig teflt er saman hinu hörmulega og hinu skondna í sögunni. Sú samtvinnun er til þess fallin að vekja til umhugsunar. Það er því mikill misskilningur, sem oft hefur verið haldið fram, að kímni hafi ekki verið notuð í helfararkvikmyndum fyrr en í La vita è bella (Roberto Benigni: 1997).

„Af öllum kvikmyndum mínum stendur Verslunin á Aðalstræti mér næst,” hefur Jan Kadár, leikstjóri myndarinnar, sagt og hann bætir við: „Elmar Klos og ég störfum venjulega saman á jafnræðisgrundvelli, en í þetta sinn gaf hann mér frjálsar hendur. Hann veit að ég er ekki að hugsa um örlög hinna sex milljón pyntuðu Gyðinga heldur að verk mitt er mótað af örlögum föður míns, vina föður míns, mæðra þeirra sem stóðu mér nærri og fólks sem ég þekkti.“ Kadár segir ennfremur að hann hafi ekki áhuga á alhæfingum heldur vilji hann gera tilfinningaríkar myndir. Hann segir að flétta myndarinnar snúist í raun og veru um misskilning.

Sagan sem myndin byggir á gerðist ekki í bænum Sabinov en bærinn hafði ekki breyst frá þeim tíma sem atburðirnir sem lýst er gerðust og var þar af leiðandi heppilegur sem leikmynd. Kadár leikstjóri hefur borið mikið lof á íbúa bæjarins fyrir aðstoð þeirra, hvernig þeir hjálpuðu við að endurskapa ýmis smáatriði í myndinni og ekki síður fyrir það hversu vel þeir hafi reynst í aukahlutverkunum.

Ekki ber Kadár minna lof á tvo aðalleikara myndarinnar, Idu Kaminská og Josef Kroner. „Ég vissi áður en tökurnar hófust að Kroner var eini kandídatinn í hlutverkið [hlutverk Tono Brtko]. Byrjunin sannaði að ég hafði á réttu að standa. Þeir runnu einhvern veginn saman í eitt og Kroner spannaði svið manns sem leið miklar kvalir eftir að hafa orðið valdur að dauða yfir á svið eiginleika í stíl Chaplins. Hann hjálpaði á ótrúlegan hátt til við að undirstrika hinar farsakenndu hliðar sögunnar. Það vantar flokkun fyrir slíka frammistöðu ­ hann er of sterkur persónuleiki.“ Varla getur leikari kvartað undan slíkri umsögn leikstjóra síns.

Ekki er Kadár síður ánægður með hvernig til tókst með hlutverk gömlu Gyðingakonunnar: „Þegar ég hugleiddi hvernig ég ætti að velja í hlutverk ekkju Heinrichs Lautmanns, sem rekur búð sem selur borða, reimar og tölur, þá var ég ráðþrota. Tékkóslóvakía ræður ekki yfir neinni leikkonu af eldri kynslóðinni með þá lífsreynslu sem þarf til að skapa svo flókinn og óvenjulegan persónuleika. En pólskir starfsbræður mínir drógu athygli okkar að Idu Kaminská. Hún er á sjötugsaldri, framkvæmdastjóri, leikstjóri og einn af aðalleikurum Gyðinglega leikhússins í Varsjá. Hún er dóttir Esterar Rakelar Kaminská, hinnar frægu pólsku leikkonu sem stofnaði leikhúsið fyrir hundrað árum. […] Ida Kaminská ber örlög ekkju Latmanns innra með sér og í leik sínum byggir hún á raunverulegri reynslu.“

Og Kadár heldur áfram: „Við vorum heppin að fá Kroner og Kaminská sem aðalleikara okkar í Versluninni á Aðalstræti. […] Ég er sannfærður um að áhorfendur munu seint gleyma hinni hvíthærðu, heyrnardaufu og hálfrugluðu gömlu konu með hið sakleysislega andlit. Mér er ekki kunnugt um öflugri minnisvarða um fasismann og fórnarlömb hans.“

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Myndin glímir við hina kunnu spurningu úr 1. Mósebók: „Á ég að gæta bróður míns?” Hvergi er þó vitnað beint í þá spurningu en vel má segja að myndin snúist um það siðferðilega vandamál sem spurningin getur haft í för með sér. Í lok myndarinnar stendur Tono í örvæntingu sinni frammi fyrir valinu um að bjarga lífi gömlu konunnar og tefla þar með eigin lífi í tvísýnu: „Það er annað hvort ég eða hún,” segir hann við sjálfan sig og bætir síðan við: „Hún verður að fara.”

Gagnrýnendum myndarinnar virðist alveg hafa sést yfir að Babelsturninn gegnir þýðingarmiklu hlutverki í myndinni. Við sjáum snemma að verið er að reisa mikinn turn á torgi í miðjum bænum. Turninn er kallaður Babelsturninn og trúlega er það ekki tilviljun þegar turnunum tveimur, Babelsturninum, sem er í smíðum, og kirkjuturni bæjarins er teflt saman á einum stað í myndinni. Loks blasir Babelsturninn við þegar verið að safna Gyðingum saman og flytja þá úr bænum. Hann stendur því sem áhrifamikið tákn fyrir hroka mannanna sem haga sér eins og Guð sé ekki til og ekki síður stendur hann fyrir sundrungu þeirra, sbr. 1M 11: 9. Þá kemur hann vel heim og saman við það sem leikstjórinn Kadár hefur sjálfur sagt að sé flétta myndarinnar, þ.e. misskilningur.

Hvíldardagurinn kemur og við sögu í myndinni. Gamla konan ávítar Tono fyrir að hafa opnað búðina á hvíldardegi og til að koma sér úr þeirri klípu setur hann skilti utan á búðina þar sem stendur: „Lokað vegna viðgerða.“ Við sjáum líka Rozalie gömlu halda hvíldardaginn helgan af mikilli trúarlegri lotningu. Trúrækni hennar leynir sér ekki.

Samspil þeirra Tonos og Rozalies er oft með gamansömum blæ. Eitt sinn þegar mikið er að gera í búðinni reynist lítil hjálp í Tono, sem veit lítið hvar einstakar vörur er að finna. Þegar gömlu konunni finnst sem hann þvælist bara fyrir henni segir hún með skírskotun í þekkta sögu úr Gamla testamentinu: „Stattu ekki þarna eins og kona Lots?” (1M 19: 26.)

Ef hugað er að því hvernig þjáning og von birtast í myndinni þá má segja að gömlu konunni hafi tekist að útiloka sig frá vonsku heimsins fyrir utan búðardyr hennar vegna þess að henni er farið að förlast, hún heyrir illa og lifir í heimi ímyndunar. Að vissu leyti má því segja að fylgifiskar ellinnar verndi hana gegn þeirri þjáningu sem fjölmargir trúbræður hennar og ­ systur finna ríkulega fyrir. Hún ‚gleymist‘ líka þegar öðrum Gyðingum hefur verið smalað saman till brottflutnings frá bænum og út í óvissuna sem í flestum tilfellum hefur verið dauði.

Tono hefur greinilega bundið vonir við að auðgast á búðinni en kemst fljótlega að því að gamla konan hagnast ekki á versluninni. Það er samfélag Gyðinga í bænum sem styður hana fjárhagslega og margar skúffur verslunarinnar reynast tómar. Vöruúrvalið er bæði lítið og rýrt. Von Tonos um fjárhagslegan ávinning af versluninni bregst þannig fljótlega þó svo að fulltrúar Gyðingasamfélagsins greiði honum eitt sinn álitlega peningaupphæð fyrir að vernda gömlu konuna. Það leynir sér ekki að hann finnur fljótlega til sterkrar verndartilfinningar í garð hinnar gömlu en jafnframt barnalegu Rozalie. Von um peningagróða snýst þannig upp í von um að honum takist að vernda Rozalie fyrir þeim örlögum sem sýnilega bíða Gyðinga bæjarins.

Sálarangist Tonos kemur vel fram þegar hann drukkinn reynir síðla kvölds að sýna Rozalie fram á hvað hún eigi í vændum og hún verði að flýja. Hér er eitt af hinum skondnu atriðum myndarinnar. Gamla konan misskilur hann algjörlega, telur að hann geti ekki farið heim til sín drukkinn og býr um hann af móðurlegi umhyggju inni í versluninni. Í þessum áhrifamikla þætti myndarinnar birtist gagnkvæm væntumþykja þeirra þrátt fyrir allan misskilninginn. Tono þjáist sýnilega mjög í þeirri illviðráðanlegu stöðu sem hann er kominn í. Hann getur ekki gert Rozalie grein fyrir því hvaða hætta bíði hennar og hann reynist heldur ekki nein hetja þegar kemur að því að hann metur stöðuna svo að valið standi á milli hennar og hans. Eigi hann að bjarga sjálfum sér getur hann ekki bjargað henni.

Það er ekki síst á þessum skilum í myndinni sem áhorfandinn upplifir að þrátt fyrir að myndin virðist á yfirborðinu fyrst og fremst vera að segja sögu tveggja einstaklinga í skugga helfararinnar þá hefur hún sterka skírskotun til þess sem gerðist út um alla Evrópu. Fólk hafði í flestum tilfellum ekki hugrekki til að koma Gyðingum til hjálpar. Vafalaust hefur það fólk yfirleitt verið ósköp venjulegt fólk, þekkt að því að vera vinsamlegt í daglegum samskiptum en óttinn var slíkur að það vildi sjaldnast taka áhættu, ekki tefla í tvísýnu með hlutskipti eigin fjölskyldu til að gera það sem gera þurfti til að vernda Gyðinga. Auðveldasta leiðin var auðvitað að snúa sér undan, láta eins og maður vissi ekkert um það sem var að gerast. Svarið við spurningu Biblíunnar: „Á ég að gæta bróður míns?“ varð því í reynd oft á þann veg að það gæti ég ekki gert við slíkar aðstæður. Ég hlyti að hugsa fyrst um sjálfan mig.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Tóran, 1M 11:1-9, 1M 19: 26, Pd 1:9, Mt 22:37, Lk 10:7, Lk 10:27
Hliðstæður við texta trúarrits: 1M 4:10, Ok 27:15, Mt 6:28
Persónur úr trúarritum: dýrlingur, Guð, Lot, kona Lots, Móse
Sögulegar persónur: foringinn
Guðfræðistef: dauðinn, babelsturninn, dýrlingar, smiður, píslarvætti, Guð, vilji Guðs, spámaður, illskan (óttinn rót alls ills), Guð gyðinga, fyrirboði, hvíldardagurinn, miskunn, heimsendir
Siðfræðistef: andlegt ofbeldi, stríð, kynþáttahatur, kynþáttamisrétti, fasismi, einfeldni, traust, ást, samúð, helförin, þjóðernishyggja, óttinn, pogrom, sjálfsvíg, manndráp, ofbeldi gegn konum, sigur
Trúarbrögð: gyðingdómur, kristindómur, rómversk-kaþólska kirkjan, nazismi, frímúrarar
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja
Trúarleg tákn: davíðstjarnan, storkur, haló, kross
Trúarleg embætti: biskup, erkibiskup, prestur (rómversk-kaþólskur), rabbíni, nunna
Trúarlegt atferli og siðir: kirkjuklukknahringing, dýrðarsöngur (Gloria in exelsis deo), bæn, krjúpa fyrir presti, ritningarlestur, halda sabbatsinn
Trúarlegar hátíðir, sögulegir atburðir: sabbatinn