Leikstjórn: Jorge Montesi og Dominique Othenin-Girard
Handrit: Brian Taggert, byggt á sögu eftir David Seltzer og Harvey Bernhard
Leikarar: Faye Grant, Michael Woods, Michael Lerner, Madison Mason, Ann Hearn, Jim Byrnes
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 1991
Lengd: 97mín.
Hlutföll: us.imdb.com/Details?0102585
Einkunn: 1
Ágrip af söguþræði:
Satan hefur ekki gefist upp og reynir enn einu sinni að koma barni sínu til valda á jörðinni. Nú hefur hann hins vegar lært af reynslunni, barn hans er að þessu sinni stúlkubarn og hverjum dytti í hug að stúlka gæti verið andkristur?
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Fyrir það fyrsta var það fáranleg hugmynd að gera fjórðu framhaldsmyndina í Omen seríunni. Í Omen III kemur Jesús aftur til jarðar og myndin endar á því að vitna í Opinberunarbókina þar sem því er haldið fram að guðsríki sé komið. Þessi staðhæfing er greinilega gleymd í fjórðu myndinni og það er ekki að sjá að endurkoma Krists hafi haft nokkur áhrif. Það er meira að segja gengið út frá því sem staðreynd að hún hafi ekki enn átt sér stað.
Og svo er það söguþráðurinn. Það mætti halda að höfundarnir hafi reynt að endurskrifa handritið að fyrstu myndinni. Þema og plott myndanna er nánast það sama. Hjón ættleiða barn, en vita ekki að barnið er afkvæmi Satans. Kirkjunnar fólk ber ábyrgð á fæðingu og ættleiðingu dóttur Satans. Hjónin eru vel stæð og faðirinn er háttsettur og valdamikill. Barnið fær nafn sem tengist djöflinum. Áður var það Damien en nú Delia (hljómar eins og Devil). Barnið týnist í skógi og foreldrar verða hræddir. Svartur hundur gætir barnsins. Fyrsta barnfóstran deyr og sú síðari er djöfladýrkandi sem stendur vörð um barnið. Höfuð andstæðings Deliu fær að fjúka í “slysförum”. Dýr óttast barnið. Móðurina grunar að ekki sé allt með feldu en faðirinn er blindur fyrir því sem er að gerast. Móðirin er aftur ólétt og óttast um barn sitt. Hún fer að rekja uppruna Deliu. Þeir sem reyna að koma upp um Deliu farast af “slysförum”. Ef þetta hljómar ekki kunnuglega þá veit ég ekki hvað.
Þessi mynd er þó ekki alveg eins. Afkvæmi Satans er stúlkubarn en ekki sveinbarn (þessi munur er þó gerður minni í lok myndarinnar) og rómversk kaþólsku kirkjunni hefur verið skipt út fyrir nýaldarsinna. Það eru þessi síðastnefndu sem sjá að Delia er komin frá djöflinum. Delia hræðist kristalana sem þau bera um hálsinn (en hún virðist ekki hræðast krossa!) og kristalarnir verða svartir ef þeir eru nálægt Deliu. Áran hennar er einnig vond og þeir nýaldarsinnar sem eru næmir fyrir straumum frá fólki missa mátt sinn. Einnig kemur söfnuður fyrir sem leikur sér að snákum í messum sínum. Ef snákurinn bítur ekki viðkomandi, mun sá/sú hin(n) sami/sama lifa heimsslitin af. Þau sem eru bitin munu hins vegar deyja.
Þótt búið sé næstum því að skipta kaþólsku kirkjunni út fyrir nýaldarsinna þá er myndin engu að síður að miklu leyti byggð á Opinberunarbókinni. Í myndinni er eftirfarandi texti lesinn upp: „Þá sá ég dýr stíga upp úr hafinu. Það hafði tíu horn og sjö höfuð og á hornum þess voru tíu ennisdjásn og á höfði þess voru guðlöstunar nöfn.“ (Opb 13:1). Textinn er túlkaður þannig að dýrið sé andkristur, hornin tíu tákni tíu sameinaðar þjóðir og að sjö höfuð tákni sjö þjóðarleiðtoga sem munu sverja dýrinu hollustu. Presturinn sem túlkar þennan texta segir að ástæðan fyrir því að andkristur sé að komast til valda sé sú að mennirnir hafi syndgað. Þeir menga jörðina, kúga bróður sinn og drýgja hryllilega glæpi. Synd okkar kallar þannig yfir okkur heimsslitin. Þessi afstaða er mjög áhugaverð því í flestum myndum eru heimsslitin fyrirfram ákveðin stund en hér eru þau afleiðingar siðleysis. Ef marka má myndina þá væri hægt að slá heimsslitin af ef mannkynið hagaði sér betur. Í mörgum heimsslitamyndum er litið svo á að Bandaríkin séu hin nýja Róm en í þessari mynd er Róm Róm, og þegar húsbóndinn á heimilinu ákveður að flytja til Rómar gerir móðirin sér grein fyrir því hvað er á seyði!
Það er einkennandi fyrir þær heimsslitamyndir sem koma frá bókstafstrúarhreyfingum að andkristur boðar einingu mannkynsins og ein trúarbrögð. Þetta stef er einnig að finna í þessari mynd. Ég verð að viðurkenna að slík afstaða fer í taugarnar á mér. Hvað er svo vont við það að mannkynið sameinist? Að það ríki eining og friður á meðal manna? Hvers vegna er það slæmt að fjandskap á milli trúarbragða linni? Það má hugsa sér margt verra en þetta.
Það sorglega við þessa mynd er að hún hefði getað verið miklu betri. Það eru nokkur atriði í myndinni sem eru þriggja stjörnu virði en svo eru önnur atriði sem eru alveg hryllilega léleg. Nú er mér ekki kunnugt um hvernig samvinnu leikstjóranna var háttað, en maður fær það á tilfinninguna að þeir hafi skipt með sér verkum en ekki unnið saman, svo ólíkt er handbragðið frá senu til senu. Annað atriði sem fór í taugarnar á mér er að framleiðendur myndarinnar höfðu ekki einu sinni fyrir því að semja nýja tónlist fyrir myndina og notuðu þess í stað tónlistina úr Omen III. Þó ber að geta þess að loka atriðið er nokkuð flott, en þá gengur Delia með föður sínum og bróður niður göngustíg sem myndar öfugsnúinn kross.
Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Biblían, 2M 20:5-6, 2M 34:7, 4M 14:18, 5M 7:9-10, Jes 11:8, Dn 7:23, Mt 2:1-12, Lk 2:1-20, Opb 13:1, Opb 13:18
Hliðstæður við texta trúarrits: 1M 3
Persónur úr trúarritum: andkristur, Guð, heilagur andi, Jesús Kristur, María mey, Nói, Þrenningin
Guðfræðistef: ára, endurholdgun, erfðarsyndin, heimsslit, syndir feðranna, tilviljun
Siðfræðistef: glæpur, græðgi, hungursneyð, lauslæti, lygar, mengun, mútur, ofjölgun,
Trúarbrögð: Nýaldarsinnar, rómversk kaþólska kirkjan, djöfladýrkendur
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: helvíti, kirkja, klaustur, paradís, róm
Trúarleg tákn: kirkjuklukka, kristall, kross, öfugsnúinn kross, róðukross, svartur hundur, tarotspil, tunglmyrkvi
Trúarlegt atferli og siðir: borðbæn, bæn, íhugun, kórsöngur, signing, skírn
Trúarleg reynsla: sýn