Kvikmyndir

One Silver Dollar

Leikstjórn: Giorgio Ferroni [undir nafninu Calvin Jackson Padget]
Handrit: Giorgio Ferroni [undir nafninu Calvin Jackson Padget] og Giorgio Stegani [undir nafninu George Finley]
Leikarar: Giuliano Gemma [undir nafninu Montgomery Wood], Ida Galli [undir nafninu Evelyn Stewart], Pierre Cressoy [undir nafninu Peter Cross], Andrea Scotti [undir nafninu Andrew Scott], Massimo Righi [undir nafninu Max Dean], Benito Stefanelli, Tullio Altamura [undir nafninu Tor Altmayer], Nello Pazzafini, Franco Fantasia [undir nafninu Frank Farrel], Giuseppe Addobbati [undir nafninu John MacDouglas], Nazzareno Zamperla, Gino Marturano [undir nafninu Jean Martin] og Ignazio Spalla [undir nafninu Pedro Sanchez]
Upprunaland: Ítalía og Frakkland
Ár: 1965
Lengd: 90mín.
Hlutföll: www.imdb.com/Details?0059114
Einkunn: 2

Ágrip af söguþræði:
Bræðurnir Gary og Phil O’Hara börðust saman í her Suðurríkjanna í borgarastyrjöldinni í Bandaríkjunum, en voru loks teknir fanga af Norðanmönnum og sendir í fangabúðir. Að stríðinu loknu heldur Gary heim til konu sinnar en Phil fer vestur á bóginn til að freista gæfunnar. Gary saknar þó brátt bróður síns og reynir að hafa uppi á honum aftur.

Þegar Gary kemur loks til bæjarins Yellowstone, tekur hann þar boði vellauðugs landeiganda um að fella eftirlýstan byssubófa fyrir dágóða fúlgu, en sá reynist enginn annar en bróðir hans, sem gengið hafði til liðs við útlaga er berjast gegn kúgun valdhafanna á svæðinu. Bræðurnir eru leiddir í gildru og skotnir, en silfurdollari í vinstri brjóstvasa Garys bjargar lífi hans og strengir hann þess heit að hefna sín á misgjörðarmönnunum.

Almennt um myndina:
Þessi miðlungs spaghettí-vestri er augljós stæling á bandarísku vestrunum, enda vinnslan að mestu í samræmi við þá og samtölin fyrirferðamikil. Ensku talsetningunni er þó áfátt eins og svo oft áður hjá Ítölum og leynir uppruninn sér því ekki, jafnvel þótt flestir aðstandendur og leikarar myndarinnar séu látnir bera ensk nöfn.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Hefndarþemað er meginstef kvikmyndarinnar en það er í anda lögmálsins ‚auga fyrir auga, tönn fyrir tönn‘. Einnig er það sagður vilji Guðs hvort hetjan lifi eldraunina af, en silfurdollarinn bjargar ítrekað lífi hans, enda reyna skúrkarnir sífellt að skjóta hann í hjartastað og tæma jafnvel byssur sínar á sama blettinn á vinstri brjóstvasa hans án þess að detta til hugar að skjóta hann einhvers staðar annars staðar. Silfurdollarinn reynist honum því sannkallaður heillagripur.

Hliðstæður við texta trúarrits: 3M 24:20
Guðfræðistef: vilji Guðs
Siðfræðistef: manndráp, hefnd, félagsleg kúgun, heiður, svik
Trúarleg tákn: kross, heillargripur
Trúarlegt atferli og siðir: bæn