Kvikmyndir

Pancho Villa

Leikstjórn: Eugenio Martín
Handrit: Eugenio Martín [undir nafninu Gene Martin] og Julian Zimet [undir nafninu Julian Halevy]
Leikarar: Telly Savalas, Clint Walker, Chuck Connors, Anne Francis, Ángel del Pozo, Mónica Randall, Dan van Husen, José María Prada, Luis Dávila, Ben Tatar og Alberto Dalbés
Upprunaland: Spánn og Bretland
Ár: 1973
Lengd: 87mín.
Hlutföll: 1.55:1 (var sennilega 1.85:1)

Ágrip af söguþræði:
Árið 1916 gerir mexíkanski byltingarforinginn Pancho Villa innrás í Bandaríkin og hertekur smábæinn Columbus í Nýju Mexíkó þegar hann er svikinn um stóra vopnasendingu.

Almennt um myndina:
Slæmur spaghettí-vestri sem kryddaður er með fjölda fúlra brandara. Leikstjórinn Eugenio Martín er sömuleiðis ábyrgur fyrir öðrum hörmulegum spaghettí-vestra sem þykir jafnvel enn verri, Bad Man’s River (1972).

Pancho Villa var einn af þekktustu byltingarforingjunum í borgarastyrjöldinni í Mexíkó á árum fyrri heimsstyrjaldarinnar og byggir myndin því að nokkru leyti á sögulegum atburðum enda þótt framsetningin sé auðvitað að mestu hreinn skáldskapur.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Framsetningin er í raun ósköp hefðbundin fyrir spaghettí-vestrana enda eru mannslífin þar yfirleitt einskis virði og flestir skotnir til bana af minnsta tilefni. Sjálfur signir Pancho Villa sig í kirkjunni í Columbus eftir að hafa skotið þar nokkra til bana, en presturinn hneykslast á því og sakar hann um guðlast.

Guðfræðistef: vilji Guðs, hús Drottins, guðlast, fyrirgefning
Siðfræðistef: manndráp, hræsni
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja
Trúarleg tákn: altari, kross, skriftastóll, talnaband
Trúarleg embætti: prestur
Trúarlegt atferli og siðir: bæn, signun
Trúarleg reynsla: bænheyrsla