4. árgangur 2004, Innlýsing, Vefrit

Píslir Krists í ljósi fjórða þjónsljóðsins

Góðir forsýningargestir!

Í allri þeirri miklu umræðu erlendis sem átt hefur sér stað um þá kvikmynd sem við erum að fara að horfa á virðist mér sem mönnum hafi yfirsést yfirskrift myndarinnar eða þýðing hennar. Ég vek því sérstaka athygli ykkar á þessari yfirskrift. Hún er sótt í Gamla testamentið, í rit Jesaja spámanns, nánar tiltekið svokallað 4. þjónsljóð hans sem er að finna í Jesajaritinu k. 52:13-53:12.

Kristur þjáist.Þjónsljóð það sem hér um ræðir er meðal áhrifamestu en jafnframt umdeildustu kafla alls Gamla testamentisins. Hin hefðbundna túlkun kristinna manna á umræddum texta var sú að hér væri um að ræða spádóm Jesaja um þjáningu og dauða Jesú Krists. Um leið vil ég minna á að Jesaja hefur oft í sögu kristninnar verið nefndur guðspjalla­maður Gamla testamentisins og rit hans kallað fimmta guðspjallið.

Strax í 1. kafla (v. 5-6) Jesajaritsins er að finna texta sem í sögu kristninnar, einkum á miðöldum, var oft túlkaður þannig að hann segði fyrir um píslir Jesú Krists. Þar segir:

„Höfuðið er allt í sárum . . . Frá hvirfli til ilja er ekkert heilt, tómar undir og skrámur og nýjar benjar, sem hvorki er kreist úr né um bundið eða þær eigi mýktar með olíu.“

Óneitanlega kemur þessi lýsing vel heim og saman við myndina af Jesú í lok píslargöngu sinnar í mynd Gibsons.

• • •

Enginn texti hins mikilvæga og áhrifamikla Jesajarits hefur þó haft jafn mikla þýðingu og 4. þjónsljóðið. Yfirskrift myndarinnar er, eins og áður sagði, sótt í Jes 53:5 þar sem segir:

… hann var særður vegna vorra synda
og kraminn vegna vorra misgjörða. ..
fyrir hans benjar urðum vér heilbrigðir.

Vissulega er sagt frá píslum og þjáningum Jesú Krists í guðspjöllum Nýja testamentisins, en ef finna á sterkari hliðstæður við þær píslir sem við sjáum á hvíta tjaldinu í mynd Mel Gibsons þá liggur beinna við að huga að því riti Gamla testamentisins sem nefnt hefur verið Fimmta guðspjallið og þá alveg sérstaklega fjórða þjónsljóði þess.

Í þjónsljóðum Jesaja er því lýst hve afskræmdur af þjáningu og þrengingum þessi harmkvælamaður verður og það svo mjög að líkist varla mennskum manni. Hann er forsmáður, menn hrækja á hann og svívirða.

Þar er líka vert að taka eftir einu stefi sem vel kemur fram í píslargöngu Krists eins og hún er sýnd í mynd Gibsons. Það er þögn þess sem þjáningarnar má þola. Þögnin er einmitt mikilvægt og áberandi stef í 4. þjónsljóðinu sbr. Jes 53:7:

„Hann var hrjáður, en hann lítillætti sig og lauk eigi upp munni sínum. Eins og lamb sem er leitt til slátrunar, og eins og sauður er þegir fyrir þeim, er klippa hann, lauk hann eigi upp munni sínum.“

Í áðurnefndu þjónsljóði Jesaja kemur einnig fram að þjáning harmkvælamannsins eða þjónsins, eins og spámaðurinn kallar hann, er staðgengilsþjáning, sbr. Jes 53:5:

„Hegningin, sem vér höfum til unnið, kom niður á honum…“

Raunar má benda á lýsingar úr fleiri þjónsljóðanna sem eiga sér samsvörun í mynd Gibsons af píslum Krists. Þannig segir í 3. þjónsljóðinu (50:6): „Ég bauð bak mitt þeim sem börðu mig og kinnar mínar þeim, sem reyttu mig. Ég byrgði eigi eigi ásjónu mína fyrir háðungum og hrákum.“

Tíminn leyfir ekki að rekja öll þau fjölmörgu dæmi úr Jesajaritinu sem í gegnum aldirnar hafa verið túlkuð sem spádómar um píslir Krists, en það sem þegar hefur verið rakið er þess eðlis að ekki þarf neinn að undra að þannig hafi verið túlkað.

• • •

Sjálfum finnst mér mynd Gibsons bera nafn með rentu. Henni er ætlað að fjalla um píslir Krists, ekki boðskap hans fyrst fremst eða rekja ævi hans. Hvort tveggja kemur þó við sögu í myndbrotum, glefsum eða endurliti þar sem hann hugsar til baka til ýmissa fyrri atburða í lífi sínu meðan á píslargöng­unni stendur. Þau atriði eru yfirleitt vel og fagmannlega gerð þó jafnan séu þau aðeins glefsar eða brot.

En myndinni er ætlað að fjalla um píslir Krists og kross­festingu og draga ekkert úr þeim þjáningum sem þar áttu sér stað. Alltaf má deila um hvort of langt hafi verið gengið í þeim efnum, en titill myndarinnar villir a.m.k. ekki á sér heimildir. En hæpið er að krefast þess af framleiðanda myndarinnar að hann fjalli um eitthvert allt annað viðfangsefni en hann hefur tekið sér fyrir hendur. Þetta er mynd um atburði föstudagsins langa og þannig ber að dæma hana.

Ekki get ég skilið við þetta efni án þess að nefna að löngum hefur verið það mikið deiluefni um hvern þjónsljóðin fjalli. Þar hefur kristna menn og Gyðinga ekki síst greint á, a.m.k. á fyrri öldum þegar Gyðingar héldu því staðfestlega fram að þjónsljóðin ættu við um Ísrael en kristnir menn töldu þau spádóm um Jesú Krists. Vera má að sú staðreynd að yfirskrift myndarinnar sé sótt í eitt þjónsljóðanna sé meðal þess sem hafi orðið til að vekja þá gagnrýni að myndin sé and-gyðingleg. Sjálfur tel ég mig mikinn gyðingavin en á þó mjög erfitt með að taka undir með þeim sem halda því fram að gyðingahatur sé eins og rauður þráður í myndinni.

Arameiskan sem Jesús og lærisveinar hans tala — og það finnst mér einn af stórum kostum myndarinnar — ætti a.m.k. að verða til þess að þau sem kynnu að hafa gleymt því minnist þess að Jesús og lærisveinar hans voru Gyðingar.

• • •

Ég vil enda þessi orð mín á því að vitna í prófessor Þórir Kr. Þórðarson sem hafði um 40 ára skeið með höndum kennslu í G.t.-fræðum við guðfræðideild H.Í. Hann segir í einu fjölrita sinna um fjóðra þjónsljóð Jesaja:

„Þegar þetta kvæði hafði verið ort, hóf það göngu sína og lifði öld fram af öld í lífi manna sem það lásu og skoðuðu sitt eigið líf í skuggsjá þess og hlutu lausn undan ygg og ótta lífsins við að sjá rísa af gulnuðu bókfelli dulúðuga mynd Einhvers sem bauð illsku og ofbeldi byrginn allt til dauða, þar til hann fékk fullnaðarmerkingu sína í lífi Hans sem lauk eigi upp munni sínum þótt smánaður væri og hæddur og var mjúkátur þótt hann væri leiddur til dauða og gerðist meðalgöngumaður Guðs og manna, en hlaut sigurlaunin og gerðist Frelsari heimsins, — Hans, sem í þessu kvæði bendir á leið krossins, leið hins fórnandi kærleika sem í upprisunni og upphafningunni hlýtur þann kraft sem mun að lokum sigra heiminn.“

Dr. Gunnlaugur A. Jónsson er prófessor í Gamlatestamentisfræðum við Guðfræðideild Háskóla Íslands.