Leikstjórn: André De Toth
Handrit: Melvyn Bragg og Lotte Colin, byggt á sögu eftir George Marton
Leikarar: Michael Caine, Nigel Davenport, Nigel Green, Harry Andrews, Patrick Jordan, Daniel Pilon, Martin Burland, George McKeenan, Bridget Espeet, Bernard Archard, Aly Ben Ayed, Vivian Pickles, Enrique Ávila og Mohsen Ben Abdallah
Upprunaland: Bretland
Ár: 1968
Lengd: 113mín.
Hlutföll: 1.33:1 (var 2.35:1)
Einkunn: 3
Ágrip af söguþræði:
Síðla árs 1942 er breskur liðsforingi sendur með hóp dæmdra sakamanna yfir víglínuna til að sprengja í loft upp eldsneytisbirgðarstöð þýzku skriðdrekahersveitanna í Sahara eyðimörkinni. Annað reynist þó bíða þeirra á áfangastaðnum en þeir höfðu vænst.
Almennt um myndina:
Mjög góð bölsýn bresk stríðsmynd sem framleidd var af Harry Saltzman, en hann er hvað þekktastur fyrir að hafa framleitt fyrstu og bestu myndirnar um njósnarann James Bond í samvinnu við Albert R. Broccoli. Stríðsmyndin á þó ekkert skylt við Bond-myndirnar enda er dregið úr öllum hetjuskap og þess í stað varpað gagnrýnu ljósi á blóðbaðið í síðari heimsstyrjöldinni.
Myndin er fagmannlega gerð og eru margir leikararnir traustir, ekki síst Michael Caine í hlutverki breska liðsforingjans og Nigel Green og Harry Andrews í hlutverki breskra herforingja sem skipuleggja leiðangur árásarsveitarinnar bak við víglínuna.
Eins og í svo mörgum hetjumyndum frá sjöunda áratugnum klæðast bresku hermennirnir einkennisbúningum óvinanna til að villa um fyrir þeim og geta átt aðveldara með að drepa þá þegar á þarf að halda, en slíkt hátterni er vitaskuld hvarvetna flokkað til stríðsglæpa. Framan af klæðast þeir ítölskum einkennisbúningum en eftir að hafa fellt nokkra þýzka hermenn klæðast þeir þýzkum einkennisbúningum. Hetjuskapurinn er þó lítill sem enginn enda hermennirnir flestir vægðarlausir dæmdir sakamenn sem kallaðir hafa verið í þjónustu hersins. Aðeins liðsforingjanum blöskrar vægðarleysið en hann fær litlu um það ráðið enda undir hollustu mannskaparins kominn á óvina svæði.
Bresku herforingjarnir reynast ekki síður vægðarlausir og hika þeir ekki við að fórna eigin mönnum ef því er að skipta. Þegar í ljós kemur að sendiför árásarsveitarinnar bak við víglínuna muni ekki skila tilætluðum árangri, ákveða bresku herforingjarnir í staðinn að ljóstra upp um hana til að villa um fyrir þýzka hernum. Og bresku hermennirnir hika ekki heldur við að fella óvopnaða hermenn andstæðinganna, jafnvel þótt þeir séu með hvítan fána á lofti.
Það er einna helst í ítölskum og þýzkum kvikmyndum sem jafn neikvæð mynd hefur verið dregin upp af stríðsrekstri bandamanna í síðari heimsstyrjöldinni, en þarna eiga sigurvegararnir sjálfir hlut að máli enda framleiðslan alfarið bresk. Þetta þýðir samt ekki að aðstandendur myndarinnar séu þar með að taka upp málstað nazista og fasista heldur eru þeir aðeins að sýna fram á að bandamenn hafi ekki verið neinir englar heldur.
Í efnistökum myndarinnar má finna vissa samsvörun við stríðsmyndina The Dirty Dozen (Robert Aldrich: 1967), en hún segir frá hópi dauðadæmdra stríðsglæpamanna, sem sendur er í hættulegan leiðangur bak við víglínuna, en öllum þeim, sem komast lifandi frá honum, er heitið uppreisn æru sinnar. Báðar þessar myndir eru í raun anti-stríðsmyndir sem leggja áherslu á ljótleika og jafnvel fáránleika stríðsins. Stríðsmyndin Play Dirty er þó alls engin endurgerð myndarinnar The Dirty Dozen og stendur vel fyrir sínu.
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Bölsýn mynd er dregin upp af helstu sögupersónum myndarinnar og stríðsrekstrinum almennt, en það er ekki síst áréttað í lok myndarinnar. Trúarstefin er þó af skornum skammti að öðru leyti en því að nokkrar af sögupersónunum eru múslimar og má sjá eina þeirra handleika þar talnaband. Kemur það ekki á óvart í ljósi þess að myndin gerist að mestu leyti í Egyptalandi. Styrkleiki myndarinnar er þó ekki síst fólginn í persónusköpuninni þar sem allir reynast syndugir og hver og einn uppsker eins og hann sáir.
Guðfræðistef: bölsýni, synd, manneðlið
Siðfræðistef: stríð, manndráp, þjófnaður, vantraust, nauðgun, stríðsglæpur, blekking
Trúarbrögð: islam
Trúarleg tákn: talnaband
Trúarlegt atferli og siðir: greftrun