Kvikmyndir

Pollock

Leikstjórn: Ed Harris
Handrit: Barbara Turner og Susan Emshwiller, byggt á bókinni Jackson Pollock: An American Saga eftir Steven Naifeh og Gregory White Smith
Leikarar: Ed Harris, Robert Knott, Molly Regan, Marcia Gay og Harden Sada Thompson
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 2000
Lengd: 122mín.
Hlutföll: us.imdb.com/Details?0183659#writers
Einkunn: 3

Ágrip af söguþræði:
Hér er fjallað um ævi eins frægasta málara Bandaríkjanna, Jacksons Pollock, en hann er faðir slettumálverkanna. Myndin hefst á þeim tíma þegar hann var enn óþekktur málari í New York og fylgir frægðarferli hans síðan til dauðadags.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Pollock er einstaklega vel leikin mynd og kvikmyndatakan stórkostleg. Akkilesarhæll myndarinnar er hins vegar handritið. Samtölin eru reyndar vel skrifuð en það vantar afdráttarlausari sýn á viðfangsefnið. Það sem gerði t.d. Amadeus og Lawrence of Arabia að góðum ævisögulegum myndum eru áhugaverðu sjónarhornin á meistarana.

Í Amadeus er það samskipti Salieris og Mozarts sem gerir myndina fyrst og fremst áhugaverða og í Lawrence of Arabia er það barátta Lawrence við að viðhalda mennskunni. Eini rauði þráðurinn í Pollock er áfengissýki hans en samt sem áður verður áhorfandinn aldrei almennilega þátttakandi í raunum hans.

Þó ber ekki að skilja athugasemdir mínar svo að myndinni takist ekki að gera áfengissýki sem sjúkdómi góð skil. Ed Harris er einstaklega sannfærandi sem hinn forfallni sjúklingur sem lítur á sjúkdóm sinn sem hvert annað náttúrufyrirbæri, eða eins og hann orðar það skömmu áður en hann leggur í mjög langan drykkjutúr: ,,Þetta gengur yfir.“

Eiginkona hans er einnig góð í hlutverki hins meðvirka aðila, sem lítur á það sem heilaga skyldu sína að taka eiginmann sinn fram yfir sinn eigin frama og lífsgleði. Öll hennar ævi snýst um það að gæta þess að Pollock haldi sér frá flöskunni og að hann verði sér ekki til skammar komist hann í áfengi.

Niðurstaða myndarinnar er sú að Pollock hefði getað orðið enn stórkostlegri listamaður hefði áfengið ekki komið við sögu. Öll bestu verk Pollocks eru frá þeim tíma þegar hann var þurr en um leið og hann datt í það á ný dróg úr sköpunarmætti hans og atorku.

Í myndinni er einnig komið inn á þemu eins og dramb og snilligáfu en áhugaverðasta og fyrirferðamesta stefið er engu að síður böl áfengis og þjáning aðstandenda alkohólistans.

Persónur úr trúarritum: Guð
Siðfræðistef: áfengisneysla, framhjáhald, kjarnorkuvopn, sjálfið
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja, Shangra la
Trúarlegt atferli og siðir: Brúðkaup
Trúarleg reynsla: draumur