Kvikmyndir

Predator 2

Leikstjórn: Stephen Hopkins
Handrit: Jim Thomas og John Thomas
Leikarar: Kevin Peter Hall, Danny Glover, Gary Busey, Rubén Blades, Maria Conchita Alonso, Bill Paxton, Robert Davi, Adam Baldwin, Kent McCord, Morton Downey, Calvin Lockhart, Steve Kahan og Henry Kingi
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 1990
Lengd: 103mín.
Hlutföll: 1.85:1
Einkunn: 2

Ágrip af söguþræði:
Geimverurnar eru aftur mættar til jarðar til að veiða sér til skemmtunar, nema hvað nú er það ekki í frumskógum Mið-Ameríku heldur í stórborginni Los Angeles. Sem fyrr getur aðeins einn maður stöðvað geimverunar, ofurjaxlinn Mike Harrigan (Danny Glover).

Almennt um myndina:
Leikstóri kvikmyndarinnar, Stephen Hopkins, á frekar skrikkóttan ferlil að baki. Hann hefur leikstýrt drasli á borð við A Nightmare On Elm Street 5: The Dream Child (1989) og Lost in Space (1998) sem og hinni ágætu Under Suspicion (2000), sem verður að teljast í hróplegri mótsögn við allt sem hann hefur áður gert. Stephen Hopkins er ekki ókunnugur spennumyndum, eins og kvikmyndirnar Dangerous Game (1987), Judgment Night (1993), Blown Away (1994), The Ghost and the Darkness (1996) og sjónvarpsþættirnir 24 bera vott um en flestar þeirra eru í besta falli aðeins miðlungs góðar.

Höfundar handrits eru bræðurnir Jim og John Thomas, en þeir hafa skrifað öll sín handrit saman. Predator var þeirra fyrsta handrit, en þeir hafa einnig skrifað handrit kvikmyndanna Predator 2 (1990), Executive Decision (1996), Mission to Mars (2000) og Behind Enemy Lines (2001). Þá eru þeir höfundar sögunnar að baki hinnar misheppnuðu myndar Wild Wild West (1999).

Myndin líður fyrir slaka persónusköpun, hræðilegan ofleik og ofnotaðar klisjur. Það versta við myndina er vondu karlarnir, en þeir eru svo yfirgengilega vondir og sneiddir allri mennsku að þeir missa allan trúverðugleika og verða hjákátlegir fyrir vikið. Myndin fer þó batnandi þegar á líður, sérstaklega þegar slökustu leikararnir týna tölunni.

Eins og í fyrri myndinni eru tæknibrellurnar flottar en ennþá hafa þeir ekki séð að sér hvað sjón geimveranna varðar. Þótt þær eigi aðeins að geta séð hluti út frá hita þerra, greina þær samt kalda hluti sem heita eins og plastbyssu ungs stráks, sem geimveran sér sem rauða.

Til gamans má geta að í geimskipi geimveranna er að finna hauskúpu af skepnunni úr Alien myndunum og er það líklega til þess gert að heiðra fjórleikinn fræga. Reyndar eru fleiri tengsl við Alien-myndaröðina því leikarinn Bill Paxton lék einnig í Aliens (1986). Hann virðist vera dæmdur til að vera drepinn í myndum sem þessum, en honum er stútað af rándýrinu í þessari mynd og hefur áður verið drepinn af ófreskjunni í Aliens og af eyðandanum í The Termitator (1984).

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Karlhormónar eru enn fyrirferðameiri í þessari mynd, en þeirri fyrri. Eins og oft á við um hetjur í harðhausamyndum eru gjörðir Mikes Harrigans á mörkum hins löglega og glæpsamlega og virðist honum ómögulegt að fara að fyrirmælum yfirmanna sinna. Samtal Harrigans við Phil Heinemann, yfirmann sinn, er mjög lýsandi fyrir þetta. Þegar Heinemann bendir honum á að hann sé hermaður og beri því að fara að fyrirmælum svarar hann blákalt: „We’re fighting for our lives down there, and you’re downtown shoving pencils and kissing ass! I don’t roll for anybody, especially for the feds, without a god damn good explanation!“ Hér er því að finna sömu ofurstælana og brengluðu karlímyndina, þar sem karlmennskan felst í því að gefa skít í umhverfið og lúta aðeins eigin dutlingum.

Eins og í fyrri myndinni eru geimverurnar sagðar djöflar og sem fyrr dragast þær að ofbeldinu. Þá krælir einnig á sömu efasemdinni um ágæti tækniframfara og vísinda, en nú reyna vísindamennirnir að koma í veg fyrir að geimverurnar séu drepnar svo að þær geti veitt innblástur við þróun nýrra vopna. Þannig minnir myndin óneitanlega um margt á Alien 3.

Guðfræðilega eru vondu karlarnir þó áhugaverðastir, en þeir stunda vúdúgaldra og mannfórnir. Leiðtogi þeirra, King Willie, virðist þó eitthvað hallur undir kristindóminn enda óvenju vel að sér í Biblíunni. Hann er jafnan með snákastaf í annarri hendi og bein í hinni, sem hann kastar til ótt og títt, líklega til að sjá inn í framtíðina. Snákastafurinn er einnig hnífur, en um leið og hann ber hann upp að andlitinu, þannig að það glampar á augu snáksins, segir hann: „Þú sérð ekki augu djöfulsins fyrr en hann kemur kallaður.“ Hér er líklega verið að vísa til snáksins í sögunni af Adam og Evu, en í kristinni túlkunarhefð er snákurinn djöfullinn.

Þegar King Willie sér eina geimveruna nálgast og áttar þar með sig á því að dagar hans eru taldir hefur hann yfir upphafsvers Sálms 87, „Drottinn grundvallar borg sína á heilögum fjöllum“, og endar síðan á orðinu „Sela“. Enda þótt það orð komi oft fyrir í sálmunum, t.d. 3. versi þessa sálms, vita fræðimenn ekki hvað það merkir. Í fljótu bragði sé ég ekki hvernig sálmurinn tengist söguþræði myndarinnar. Ástæðan fyrir því að vitnað er í sálminn er líklega sú að það hefur þótt bæði dulúðugt og svalt.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Sl 87:1
Hliðstæður við texta trúarrits: 1M 3
Persónur úr trúarritum: djöfull, draugur, Guð, geimvera
Guðfræðistef: illska
Siðfræðistef: eiturlyfjaneysla, morð, hroki, stolt
Trúarbrögð: vúdú
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: andaheimur, Babýlon
Trúarleg tákn: snákur, bein, kross, geimskip
Trúarlegt atferli og siðir: mannfórn, spádómur, ákall