Kvikmyndir

Priest

Leikstjórn: Antonia Bird
Handrit: Jimmy McGovern
Leikarar: Linus Roache, Tom Wilkinson, Robert Carlyle, Cathy Tyson, Lesley Sharp, Robert Pugh, James Ellis, Paul Barber, Rio Fanning og Christine Tremarco
Upprunaland: Bretland
Ár: 1994
Lengd: 98mín.
Hlutföll: 1.66:1
Einkunn: 4

Ágrip af söguþræði:
Séra Greg er nýútskrifaður, ungur laglegur maður, fullur sannfæringar um köllun sína sem prestur í rómversk-kaþólsku kirkjunni, en hann fær brátt að kenna á því að raunveruleikinn er ekki sniðinn að hugsjónum hans. Hann þarf að takast á við félagsleg vandamál í sókninni þar sem hann er kallaður til að þjóna í verkamannahverfi í Liverpool og hann þarf ekki síður að takast á við sinn innri mann.

Gamli presturinn sem hann tók við af var aldrei sáttur við sjálfan sig í prestshlutverkinu. Þegar biskupinn sagði honum upp störfum, sleppti hann sér og braust drukkinn inn í biskupsgarð vopnaður þungum róðukrossi.

Samstarfsmaður Gregs, séra Matthew Thomas, er frjálslyndur prestur sem í fyrstu gengur alveg fram af honum, en hann hafði þjónað í Suður-Ameríku og tileinkað sér þar frelsunarguðfræði sem hann útfærir meðal sóknarbarna sinna. Borgaralegt siðferði og persónulegar yfirsjónir í einkalífi fólks reiknar hann ekki til synda í heimi þar sem félagslegt órættlæti viðgengst og hrokafullir valdamenn skara eld að eigin köku. Hann líður ekki heldur samviskukvalir þótt hann brjóti mannasetningar eins og skírlífiskröfu kirkjunnar sem hann þjónar og hann á auðvelt með að fyrirgefa Greg þegar upp kemst um samkynhneigð hans. Hann styður Greg eins vel og hann getur og leggur sig fram við að fá hann til að skilja að það sé ekki synd að elska annan mann.

Biskupinn er hins vegar bæði hræsnari og þrjótur sem virðist ósnortinn af kristnum kærleika og miðar starf sitt við það eitt að láta allt líta vel út á yfirborðinu. Þessir prestvígðu menn gefa sem sagt ekki þá mynd af kirkjunni sem hún vill halda á lofti. Starfsaðstæður þeirra myndu einhverjir kalla vonlausar en myndin sýnir engu að síður einlæga trú og kirkjan er þarna hluti af lífi fólksins og það má ýmislegt læra af henni.

Almennt um myndina:
The Priest er í senn vel gerð og leikin kvikmynd sem á fullt erindi til kristinna manna bæði hér á landi sem erlendis. Enda þótt hún fjalli um prestsembættið innan rómversk-kaþólsku kirkjunnar og afstöðu hennar til þagnarskyldu presta og samkynhneigðar, talar hún ekki síður inn í aðstæður annarra kristinna kirkjudeilda. Samkynhneigð er sérstaklega viðkvæmt mál og eru skoðanir kristinna manna skiptar í þeim efnum.Myndin fjallar um aðlögun einstaklinga að kröfum, skyldum og væntingum prestshlutverksins. Það gerir sérstakar kröfur til samvisku þeirra sem það axla og snertir þá í gleði og sorg á annan hátt en flest önnur störf í þjóðfélaginu. Það er ekki nóg að kunna utan að ritningartexta, lög og reglur, hlutverkið gerir altækar kröfur til þess einstaklings sem tekur það að sér og hlýtur við margbreytilegar aðstæður að kosta innri átök, efasemdir og mikla sjálfsskoðun.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Í myndinni er fjallað á eftirminnilegan hátt um þagnarskylduna sem sérhver prestur getur þurft að vega og meta eftir eðli máls. Á hann að þegja og horfa aðgerðalaus á þegar lífi og velferð alsaklauss fólks er stefnt í bráða hættu, því er misþyrmt og það misnotað? Hann getur gefið hlutaðeigandi vísbendingar og þannig stöðvað glæpamanninn eins og séra Matthew bendir Greg á þegar hann leitar ráða hjá honum. Forhertur faðir misnotar dóttur sína meðan móðirin sinnir fórnfúsu hjálparstarfi í þágu safnaðarins. Séra Greg skortir áræði til að grípa inn í og hann skortir líka einurð til að horfast í augu við samkynhneigð sína. Í ljós kemur að hann felur sig bak við köllun sína og ásakar Krist fyrir að gera ekkert í málinu.

Kannski hefur Greg m.a. sóst eftir prestsvígslunni vegna brotinnar og veikrar sjálfsmyndar sinnar. Hann heldur að afdráttarlausar skyldur prestshlutverksins muni veita honum þá öryggiskennd sem hann á ekki sjálfur. Köllunin til prestsstarfsins felur í sér sáttmála við Guð en ekki við menn. Slík loforð eru eilíf og óháð spilltum og syndugum heimi sem flýtur sofandi að feigðarósi. En þessi skilningur á embættinu gerir Greg ekki að góðum presti. Köllun hans reynist byggð á sandi. Þegar ástmaður hans kemur fram að altarinu til að meðtaka heilagt sakramenti frýs séra Greg og getur ekki rétt honum líkama Krists. Það er mögnuð sena þar sem ástvinurinn stendur frammi fyrir honum við altarið með hálfopinn munninn og horfir bænaraugum á þann sem hann hélt vera vin sinn og bíður eftir brauðinu. Séra Greg sér fyrir framan sig ímynd djöfullegs freistara sem hefur dregið hann á tálar ­ hann sér sinn eigin Skugga. Þarna reynist hann óhæfur sem prestur, ekki vegna þess að hann er samkynhneigður heldur vegna þess að hann neitar rómversk-kaþólskum manni um sakramentið.

En Greg er góð manneskja og hann lendir í sálarháska þegar hann fær vitneskju um sifjaspellið í skriftarstólnum. Bæn hans fyrir framan róðukrossinn umbreytist í övæntingarfullan reiðilestur yfir Jesú: „Gerðu eitthvað aulinn þinn,“ hrópar hann grátandi. „Ekki hanga bara þarna á krossinum þínum eins og ekkert sé. Átt þú ekki einmitt að vera þar sem litla stúlkan er? Átt þú ekki að vera þarna og frelsa hana. Ert þú ekki einmitt þessi litla stúlka?“ Leikstjórinn vefur listavel saman baráttu séra Gregs í bæninni og þá atburðarás sem leiðir til þess að sifjaspellsmálið upplýsist. Þessi atriði gera miklar kröfur til leikaranna og þeir skila allir hlutverkum sínum frábærlega.

Messan er umgjörð myndarinnar og vettvangurinn þar sem hún nær hápunkti. Áhorfandinn er tvisvar leiddur í kirkju og hlustar á ólíkar predikanir sem eiga sér rætur í ólíkum skilningi á prestshlutverkinu. Greg er formlegur og heldur sig við opinbera trúfræði kirkjunnar en Matthew er annt um fólkið og vill létta byrðunum af því. En augliti til auglitis við Guð og náungann í sakramentisþjónustunni kemur það í ljós hvort hann er heill eða ekki. Samtöl þessara ólíku einstaklinga eru áhugaverð og vel skrifuð frá hendi handritshöfundar og gefa að mínu mati góða innsýn í þann vanda sem getur fylgt því að vera rómversk-kaþólskur prestur. Greg verður á í messunni þegar hann neitar að veita sakramentið, en hann fær uppreisn í messunni í lok myndarinnar. Frjálslyndi presturinn tekur ekki annað í mál en að þeir þjóni þar saman. Það kemur til snarpra orðaskipta við áhrifamenn í söfnuðinum og þegar að útdeilingunni kemur snýr hluti safnaðarins frá í fússi. Séra Matthew stendur þétt við hlið Gregs og umkomuleysi hans sem einstaklings er algjört. Enginn í söfnuðinum treystir sér að ganga fram fyrir hann til að þiggja af honum líkama Krists nema stúlkan sem trúði honum fyrir því í skriftarstólnum að faðir hennar misnotaði hana kynferðislega.

Það var þá eftir allt saman rétt hjá Greg að Kristur var í þessari stúlku í þjáningum hennar. Hún gengur upp að altarinu og meðtekur sakramentið hjá honum og þjónusta hans er þá aftur sönn og rétt. Hann finnur að honum er fyrirgefið. Þessi lokasena er vel gerð eins og reyndar öll myndin og það mætti segja mér að hún hafi kallað fram tár í augum margra bíógesta. Séra Greg er nú án efa fyrirmyndarprestur í kirkju sinni.

Guðfræðistef: sakramenti, prestshlutverið, fyrirgefning, trú, köllun, þagnarskylda, frelsunarguðfræði
Siðfræðistef: nauðgun, kynferðisleg misnotkun, ábyrgð, sifjaspell, hræsni, samkynhneigð
Trúarbrögð: rómversk-kaþólska kirkjan
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja
Trúarleg tákn: róðukross, skriftarstóll, altari
Trúarleg embætti: prestur, biskup
Trúarlegt atferli og siðir: messa, skriftir, jarðaför, bæn, altarisganga
Trúarleg reynsla: fyrirgefning, altarisganga