Kvikmyndir

Promised a Miracle

Leikstjórn: Stephen Gyllenhaal
Handrit: David Hill og John With, byggt á bókinni We Let Our Son Die eftir Larry Parker
Leikarar: Rosanna Arquette, Judge Reinhold, Tom Bower, Giovanni Ribisi [undir nafninu Vonni Ribisi], John Vickery, Robin Pearson Rose, Gary Bayer, Shawn Elliott, Maria O’Brien, Michael Cavanaugh, Wyatt Knight, Amy Michaelson, Terry Wills, Kathy Kinney, Tuesday Knight, Christopher Burton og Bill McIntyre
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 1988
Hlutföll: www.imdb.com/Details?0095917
Einkunn: 3

Ágrip af söguþræði:
Þessi sannsögulega kvikmynd gerist árið 1973 og segir frá hjónunum Larry og Lucky Parker, sem búa með börnum sínum þremur í smábænum Barstow í Kaliforníu í Bandaríkjunum. Öll eru þau virkir þátttakendur í trúarsöfnuði, sem leggur áherslu á mikilvægi kraftaverkalækninga fyrir trú og fyrirbæn, en fjölmargir höfðu vitnað þar um reynslu sína af þeim. Lífsbarátta Parker hjónanna er ekki auðveld enda bæði atvinnulaus auk þess sem Wesley, 11 ára gamall sonur þeirra, er haldinn alvarlegri sykursýki og þarf reglulega á insúlíni að halda, en safnaðarmeðlimirnir hvetja hjónin ítrekað að framganga í trúnni og treysta Guði fyrir lækningu hans.

Þegar svo gestapredikari einn vitnar um það hvernig Guð hafði læknað sig og gert sér kleift að ganga á nýjan leik, ákveða Parker hjónin að fara með son sinn fram til fyrirbænar. Gestapredikarinn leggur áherslu á mikilvægi trúarinnar við þau og þegar bæði hann og Wesley segjast finna fyrir krafti Guðs í miðri fyrirbæninni, taka allir því sem bænheyrslu um lækningu fyrir kraftaverk.

Til að byrja með reynist Wesley stálsleginn en þegar heilsu hans tekur að hraka á nýjan leik, sannfærast foreldrarnir um að þar sé djöfullinn að ráðast á hann til að reyna trú þeirra og losa þau sig fyrir vikið við lyfin og reiða sig á bænina eina í staðinn. Þrátt fyrir það deyr Wesley í örmum þeirra og eru þau handtekin og ákærð fyrir manndráp vegna vítaverðs gáleysis. Parker hjónin halda þó enn fast í trúarsannfæringu sína og segja, að Guð ætli að reisa son þeirra upp frá dauðum innan tíðar eins og Jesús Kristur kallaði Lasarus út úr gröf sinni í Nýja testamentinu.

Almennt um myndina:
Þessi átakanlega bandaríska sjónvarpsmynd er byggð á endurminningum Larrys Parker, We Let Our Son Die, sem hann skrifaði í von um að þær yrðu öðrum víti til varnaðar og gætu bjargað þótt ekki væri nema einu barni frá því að hljóta sömu örlög og Wesley sonur hans. Bókin var gefin út árið 1980 af kristilegu bókaútgáfunni Harvest House Publishers í Bandaríkjunum. Kvikmyndin er sögð endurspegla raunveruleikann nokkuð vel enda þótt nauðsynlegt hafi reynst að breyta nöfnum og persónum sumra þeirra, sem áttu hlut að máli. Persónusköpunin er þó öll trúverðug og er óhætt að segja að hvarvetna hafi verið reynt að gæta sanngirnis.

Þannig byrjar myndin þar sem gestapredikarinn Alex Romero liggur rúmfastur á sjúkrahúsi og er að hlýða á vakningapredikun á kristilegri útvarpsstöð, en í miðjum klíðum fer hann að lofa Guð fyrir að hafa læknað sig og staulast út úr rúminu fram á gang til hjúkrunarkvennanna. Þó svo að ekki komi fram í hverju sjúkleiki hans hafi nákvæmlega verið fólginn að öðru leyti en því að um hreyfihömlun og bakveiki hafi verið að ræða, er það aldrei dregið í efa, að hann hafi trúað því sjálfur, að Guð hafi læknað hann. Kvikmyndagerðarmennirnir falla því sem betur fer ekki í þá algengu gryfju að afgreiða trúboðann sem hvern annan svikahrapp.

Rosanna Arquette og Judge Reinhold eru sérstaklega góð í hlutverkum Parker hjónanna og veita þeim trúverðuga dýpt. Bæði eru þau góðhjartaðir og heiðarlegir einstaklingar, sem vilja öllum vel og þrá það eitt að gera vilja Guðs. Fyrir vikið fær áhorfandinn samúð með þeim þó svo að honum bregði yfir gjörðum þeirra og vilji jafnvel láta þau taka afleiðingum þeirra.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Enda þótt trúarsöfnuður Parker hjónanna aðhyllist augljóslega trúarhreyfinguna, er hann aldrei nefndur með nafni. Trúarhreyfingin svonefnda er umdeild kristin vakningarstefna, sem skilgreind hefur verið sem velgengnisguðfræði og er boðuð í einni eða annarri mynd í sumum hvítasunnukirkjum og náðargjafavakningarsöfnuðum víða um heim. Áherslan er jafnan lögð á mikilvægi þess að játa trúna á kraftaverk Guðs og framganga í þeirri trú að það hafi þegar átt sér stað. Sú gagnrýni hefur komið fram á trúarhreyfinguna, að of mikið sé gert úr trúarþættinum og vilji Guðs sé í raun sniðgenginn, þar sem út frá því sé gengið að vilji hins trúaða fari alltaf saman við vilja hans. Dæmi eru jafnvel um að fólk hafi kennt syndum sínum og vantrú og jafnvel illum öndum um sjúkdóma sína og vandamál og þar með lent í mikilli sálarkreppu þegar allt hefur ekki gengið að óskum. Ýmsir talsmenn trúarhreyfingarinnar hafa engu að síður mótmælt þessum viðhorfum á þeirri forsendu að þau séu á misskilningi byggð. Einn af þekktustu forystumönnum trúarhreyfingarinnar í Evrópu er sennilega Ulf Ekman, leiðtogi Orðs lífsins í Svíþjóð, en hann hefur t.d. mótmælt því að velgengni í trúarlífinu þýði endilega líf án vandamála og leggur áherslu á að söfnuður sinn hafi aldrei boðað að sjúkdómar stafi af syndum fólks og séu þar með refsingar frá Guði. (Ekman, Ulf: I Found My Destiny: The Story of Ulf Ekman and Word of Life Church Sweden. Word of Life Publications. Uppsala. 1997. Bls. 64, 85.)

Orðfæri og bænaiðkun safnaðarmeðlimanna í kvikmyndinni minna mjög á hvítasunnumenn og náðargjafavakningarsinna en þar sem skírn heilags anda og tungutal kemur aldrei við sögu, gæti þó hér verið um helgunarsöfnuð að ræða, sem tileinkað hefur sér áherslur trúarhreyfingarinnar. Helgunarsöfnuðirnir eiga rætur að rekja til meþódista á nítjándu öldinni en sumir þeirra gengu til liðs við hvítasunnuvakninguna í upphafi tuttugustu aldarinnar þegar fyrstu hvítasunnusöfnuðirnir voru stofnaðir í tengslum við kenninguna um skírn heilags anda og tungutal sem staðfestingu á henni. Náðargjafavakningin hófst hins vegar í ýmsum rótföstum kirkjudeildum á sjötta og sjöunda áratug tuttugustu aldarinnar í Bandaríkjunum og breiddist þaðan út um allan heiminn, en hún sótti að mörgu leyti í hugmyndafræði hvítasunnumanna og hafa margir sjálfstæðir náðargjafavakningarsöfnuðir haft náin samskipti við þá. Trúarbragðafræðingurinn J. Gordon Melton, sem flokkað hefur trúarhópa í fjölskyldur eftir sögulegum og kenningarlegum skyldleika þeirra, telur þannig sjálfstæðu náðargjafavakningarsöfnuðina til hvítasunnufjölskyldunnar, en hann hefur sérstakan undirflokk, sem hann nefnir ,frelsunarhvítasunnumenn’ (Deliverance Pentecostals) fyrir þá söfnuði, er aðhyllast velgengnisguðfræðina.

Þar sem munurinn á meþódískum helgunarsöfnuðum og hvítasunnusöfnuðum er í sumum tilfellum harla lítill, er ósköp auðvelt að rugla þeim saman. Þannig hafa ýmsir flokkað Robert Duvall í hlutverki vakningapredikarans ,postulans’ í kvikmyndinni The Apostle sem hvítasunnumann þó svo að hann hafi í raun verið helgunarsinni. Að sonur Parker hjónanna skuli heita Wesley gæti bent til þess að hér sé annað hvort um að ræða helgunarsöfnuð eða hvítasunnusöfnuð með helgunarrætur, enda hét upphafsmaður meþódista einmitt John Wesley (1703-1791).

Hvort sem söfnuður Parker hjónanna flokkast undir helgunarsinna, hvítasunnumenn eða náðargjafavakninguna, þá byggir boðunin á áherslum trúarhreyfingarinnar, enda hvetja safnaðarmeðlimirnir þau hvað eftir annað til að vænta kraftaverks og framganga í trúnni. Þannig segir ein vinkona Luckyar við hana: „Mér þykir vænt um þig en ég verð að segja þetta. Ef þú tryðir á Drottin í staðinn fyrir lækna og nálar, þá trúi ég að drengnum myndi batna.“ Og við annað tækifæri segir önnur vinkonan: „Hann gerir allt fyrir þig ef þú sýnir honum að þú trúir.“

Þegar fregnir berast af því að lamaður maður hafi læknast fyrir trú, verður það forgangsverkefni bænahóps kvennanna að biðja fyrir bata Wesleys litla. Larry Parker ákveður um svipað leyti að treysta Guði alfarið fyrir fjárhagsvandræðum sínum eftir að hafa misst vinnuna sem tæknimaður á geimvísindastöð, en um leið fær hann atvinnuleysisbætur upp í hendurnar, sem hann hafði ekki átt von á. Allt verður þetta til að efla eftirvæntingu hjónanna eftir því að ef til vill muni Guð lækna son þeirra af sykursýkinni eftir allt saman.

Lamaði maðurinn, sem hafði læknast, reynist vera Alex Romero og fær hann að halda vakningarsamkomu í söfnuði Parker hjónanna sem gestapredikari. Þar segir hann, að bakveikindi sín hafi aðeins verið lygavefur djöfulsins en læknarnir hefðu reynt að telja sér trú um að hans biði aðeins „hjólastóll með sportsæti og vökvastýri“. Lýsingar Romeros á trúarbaráttu sinni og lækningu eru athyglisverðar: „Ég glímdi við trúna alla nóttina. Ég beitti allri trú minni og einbeitti mér til hins ýtrasta er ég bað um nóttina. Drottinn, ger mig verðugan þess að hljóta lækningu þína því að þú veist að ég trúi. … Í dögun settist ég upp. Ég fann undursamlega tilfinningu í bakinu. Ég steig í fæturna í trú. Lofið hann! Og ég gekk út úr sjúkrahúsinu og náði fótfestu í trúnni og ég er hér í dag til að leiða ykkur þangað. Lofið Drottin! Guði er ekkert um megn! Trúið þið því?“ Og Romero hvetur samkomugestina til að virkja trúna með sama hætti og hann hafði sjálfur gert og vitnar í Mt 17:20 í því sambandi: „Guð sendir mig til að endurnýja kraftaverkið sem Jesús Kristur lofaði þegar hann sagði: „Ef þér hafið trú eins og mustarðskorn og segið við fjallið: „Flyttu þig.“ Þá mun fjallið flytja sig.“ Eru fjöll á hjörtum ykkar sem flytja þarf í dag? Eru veikindi eða sorg sem aflétta þarf með trú? Fjárhagsvandræði? Einhver sem þarf á kraftaverki að halda, einkum lækningu? Komið þá fram!“

Undir miðri hvatningarræðunni hvíslar ein konan á næsta bekk fyrir aftan Parker hjónin að þeim: „Vitið þið ekki að Drottinn vill að litla drengnum batni? Væri hann sonur minn, gerði ég allt sem ég gæti fyrir hann.“ Við það fara þau með soninn fram til fyrirbænar við mikinn fögnuð Evans safnaðarhirðis, en gestapredikarinn segir við Wesley: „Ég trúi því að Guð lækni þig. Trúir þú því?“ Í fyrirbæninni vitnar hann síðan í Nýja testamentið þar sem Jesús Kristur heitir bænheyrslu Guðs (Mt 11:28) og Gamla testamentið þar sem segir að fyrir benjar hans verði menn heilbrigðir (Jes 53:5) og áréttar svo fyrir Guði trú þeirra: „Við trúum samkvæmt þessum ritningartextum að þú læknir. Við meðtökum lækninguna af trú.“ Ekki síst vegna þess að Romero og Wesley reynast sammála um að þeir hafi með einstökum hætti fundið fyrir krafti Guðs í fyrirbæninni, virðast allir viðstaddir taka því til marks um að kraftaverk hafi átt sér stað.

Foreldrarnir fagna kraftaverkinu og bægja efasemdunum frá sér jafnharðan og á þeim krælir. Fyrst er það faðirinn, sem efast, en konan hans hvetur hann þá áfram í trúnni. Þegar efinn sækir svo að henni líka, reynir eiginmaðurinn allt til að styrkja trú konu sinnar. Þau lesa saman ýmsa trúarhvetjandi ritningartexta úr Biblíunni (Mk 11:23, Jh 15:7) og tala um það, að Guð verði að efna loforð sitt enda geti skapara heimsins ekki verið um megn að lækna lítið barn eins og Wesley. Þegar þau síðan leita ráða hjá Evans safnaðarhirðinum sínum, tilkynnir hann söfnuðinum við mikinn fögnuð, að þau hjónin hafi ákveðið að treysta Guði fyrir lækningu sonar síns.

Þegar heilsu Wesleys tekur hins vegar að hraka, segir faðirinn við hann um leið og hann hendir lyfjunum: „Ef þú sýnir einkennin þá er það Satan sem er að freista okkar. Við biðjum Guð bara um að taka þessi einkenni frá Satan. Við biðjum Guð að styrkja okkur í trúnni svo að hann geti lokið við að lækna þig. Og við sýnum þakklæti okkar fyrir þetta kraftaverk með því að trúa á það.“ Ákvörðunin um að henda lyfjunum er því tekin af fjölskyldunni einni og er það þess vegna ekki rétt, sem kemur fram á kápu íslensku myndbandsútgáfunnar, að Parker hjónin hafi ákveðið „í samráði við [gestapredikarann] að hætta að gefa syni sínum insúlín“. Þó svo að Romero hafi lagt svona mikla áherslu á mikilvægi trúar og kraftaverka, andmælti hann í raun aldrei lyfjanotkun samkvæmt læknisráði. Ekki var það heldur afstaða trúarsafnaðarins að sniðganga bæri læknisráð, því að Wesley hafði tekið inn insúlín þar í fimm ár. Engu að síður virðast ýmsir safnaðarmeðlimirnir styðja ákvörðun Parker hjónanna í trausti þess að um kraftaverk hafi verið að ræða, enda gera þeir sér enga grein fyrir alvarleika sjúkleika drengsins.

Þegar móðirin játar t.d. fyrir vinkonum sínum í bænahópnum að hún efist stundum um að sonur hennar hafi í raun læknast, ávíta þær hana umsvifalaust fyrir vantrúna og segja hver á fætur annarri: „Ég myndi ekki efast um kraftaverk Guðs!“ „Það er guðlast á vissan hátt!“ „Það er guðlast!“ Saman halda þær síðan heim til Wesleys til að biðja fyrir honum en þá hefur veikindum hans svo stórversnað, að faðirinn sér engra annarra úrkosta en að leita lyfin uppi úti í ruslatunnu. Áður en hann nær þó að færa syninum þau í tíma, stöðva konurnar hann og skammar eiginkonan hann alveg sérstaklega með þeim orðum að með þessu háttarlagi dæmi hann drenginn til ævilangra veikinda.

Í örvæntingu sinni leitar faðirinn til eins safnaðarmeðlimsins, sem nokkrum árum áður hafði upplifað svipaða erfiðleika þegar læknar hugðu ekki ungum syni hans lífi. Sonurinn náði hins vegar fullri heilsu í kjölfar mikilla fyrirbæna og líkir safnaðarmeðlimurinn lækningu hans við upprisu Lasarusar frá dauðum. (Jh 11:1-44.) Vitnisburðurinn verður því til þess að styrkja Larry Parker í trúnni og fær hann konuna sína ofan af því að gefa syni þeirra insúlín þegar hann kemur heim á nýjan leik, en þá er hún sjálf orðin tvístígandi vegna þjáninga drengsins. Í staðinn kalla þau á Evans og biðja hann um aðstoð við að reka út þann illa anda, sem herji á Wesley, og mætir hann á staðinn og biður með þeim um stund. Um leið og drengurinn sofnar, hvetur hann foreldrana hins vegar til að leita til læknis til að fá staðfestingu á lækningunni, en faðirinn spyr hann þá á móti hvaða læknir sé betri en sá, sem sé á himninum. Við það kinkar Evans bara kolli og kveður með orðunum: „Guð blessi ykkur!“

Um morguninn deyr drengurinn meðan foreldrarnir og vinkonurnar úr bænahópnum biðja fyrir honum og bregður þeim öllum mjög. Minnug þess að Lasarus hafði verið reistur upp frá dauðum, afneita Parker hjónin því hins vegar umsvifalaust, að Guð hafi þar með snúið við þeim baki og segjast trúa því í staðinn, að hann muni reisa hann upp frá dauðum innan tíðar, enda sé það enn stórfenglegra kraftaverk en hver önnur lækning. Vinkonurnar hringja hins vegar skelfingu lostnar í Evans, sem hefur aftur samband við lögregluna. Parker hjónin standa engu að síður fast á sínu og mótmæla því alveg sérstaklega að sonur þeirra verði krufinn. Þau auglýsa meira að segja kistulagninguna sem upprisuathöfn og neita að taka þátt í greftruninni þegar að henni kemur.

Viðbrögð Parker hjónanna við andláti sonar síns eru sláandi. Engu að síður má líta á afneitun þeirra á því að hann hafi ekki fengið þá lækningu sem vænst hafði verið og sé nú dáinn fyrir fullt og allt sem varnarviðbrögð við gríðarlegu áfalli. Í rauninni höfðu þau lagt allt í sölurnar í trausti þess að þau væru að gera vilja Guðs, en eftir því sem þau gengu lengra gerðu þau málið aðeins verra.

Þrátt fyrir að hafa alla tíð hvatt Parker hjónin áfram og jafnvel tekið því sem sjálfsögðum hlut að þau sniðgengu lyfjagjöfina, firra vinkonurnar í bænahópnum sig ábyrgðinni ein af annarri og segjast ekki hafa gert sér grein fyrir hversu alvarleg veikindi drengsins hefðu verið. Jafnvel Evans segir Parker hjónunum að hann trúi því ekki að Guð muni reisa drenginn upp frá dauðum á næstu dögum og ásakar þau fyrir að hafa ekki haft samband við lækni, en þau kvarta á móti undan því að hann hafi snúið við þeim baki.

Parker hjónin eru loks handtekin og ákærð fyrir að hafa drepið son sinn með vítaverðu gáleysi, en eru síðan leyst út með tryggingu fyrir milligöngu lögfræðingsins, sem þeim hafði verið skipaður.

Í neyð sinni leita Parker hjónin meðal annars í Sálma Gamla testamentisins og fara með þá sem bænir, bæði fyrir og eftir dauða sonarins. Þannig biðja þau fyrst Sl 16:8 með bænahópnum þegar veikindi Wesleys hafa ágerst hvað mest, en þar segir: „Ég hef Drottin ætíð fyrir augum, þegar hann er mér til hægri handar, skriðnar mér ekki fótur.“ Hér sem annars staðar nota þau því Biblíuna til að réttlæta gjörðir sínar, þ.e.a.s. þau vænta þess að Guð muni hjálpa þeim eins og þau vilja, fyrst þau treysta á hann og gera vilja hans. Þau eru hins vegar alveg niðurbrotin, þegar þau eru send í fangelsið, en þar hrópar Larry örvæntingafullur versin í Sl 109:24-27, sem lýsa sálarástandi hans vel: „Kné mín skjögra af föstu, og hold mitt tærist af viðsmjörsskorti. Ég er orðinn þeim að spotti, þegar þeir sjá mig, hrista þeir höfuðið. Veit mér lið, Drottinn, Guð minn, hjálpa mér eftir miskunn þinni, að þeir megi komast að raun um, að það var þín hönd, að það varst þú, Drottinn, sem gjörðir það.“

Fyrir réttinum leggur Evans enn á ný áherslu á, að hann hafi hvatt hjónin til að leita til læknis til að fá staðfestingu á því hvort um lækningu hafi verið að ræða. Hann neitar því jafnframt að hafa nokkurn tímann fullyrt við þau, að drengurinn hafi verið læknaður af Guði, enda hafi sjúkdómseinkennin bent til þess að svo hafi ekki verið. Þrátt fyrir það viðurkennir hann að lækning fyrir trú sé ein af helstu kennisetningum safnaðarins og því hafi hann aldrei hvatt til þess að ekki yrði treyst á kraftaverk. Ekki er því að undra þótt safnaðarmeðlimunum hafi hætt til að leggja ofuráherslu á kraftaverkin á kostnað veraldlegra læknisráða enda játar ein af vinkonunum úr bænahópnum að hún hafi allan tímann haldið að drengurinn væri læknaður. Hún bendir hins vegar á, að gjörðir foreldranna hafi allan tímann helgast af ást þeirra á barni þeirra, enda hafi þjáning þeirra verið augljós meðan á veikindunum og dauðastríðinu stóð.

Smám saman rennur sannleikurinn þó upp fyrir Parker hjónunum og er sálarkreppa þeirra gríðarleg þegar þau loks viðurkenna hann fyrir sjálfum sér. Þau lýsa því að lokum yfir sekt sinni frammi fyrir dómstólnum og greinir Lucky t.d. frá því hvernig hún hafði haldið, að það væri hræðileg synd að efast um lækninguna, en fyrir vikið hefði hún glatað því sem hefði verið henni kærast, barninu sínu.

Játning foreldranna verður þó ekki til þess að breyta málflutningi saksóknarans, sem leggur áfram áherslu á ábyrgð þeirra, enda hafi þeir alla tíð gert sér grein fyrir gjörðum sínum og afleiðingum þeirra. Kjarni málsins sé sá, að foreldrarnir hafi viljað ákveða það sjálfir með hvaða hætti Guð læknaði barn þeirra og því daufheyrst við því kraftaverki, sem þeir hefðu raunverulega fengið: „Þau höfðu þegar upplifað kraftaverk læknavísindanna. Kraftaverk insúlínsins sem hafði bjargað syni þeirra í 5 ár. En þau voru ekki ánægð með það. Þau vildu meira. … Lítur ekki út fyrir að þau hafi viljað notfæra sér Guð? Að þau hafi viljað eigna sér þetta kraftaverk?“ Það hafi því verið hégómagirnd þeirra, sem hafi orðið syni þeirra að bana en ekki hlýðnin við Guð. Þau hafi í raun drepið hann með því að gefa honum ekki insúlín.

Ekki kemur á óvart að Parker hjónin skuli hafa verið fundin sek, en þar sem dómarinn taldi þau hafa auðsýnt einlæga iðrun að lokum og gert sér grein fyrir alvarleika gjörða sinna, fengu þau aðeins 5 ára skilorðsbundin dóm, enda dætrum þeirra tveim talið best komið í umsjón þeirra.

Allt verður þetta til þess að Parker hjónin endurskoða trú sína frá grunni. Þegar Evans lítur t.d. við hjá þeim í smá stund undir lok myndarinnar og hvetur þau til að sækja söfnuð sinn á nýjan leik því að safnaðarmeðlimirnir sakni þeirra svo mikið, hafnar Larry því kurteislega og segist sækja annan söfnuð í staðinn, sem sé í næstu sýslu og hafi aðrar kenningarlegar áherslur. „Við trúum að Guð lækni á marga vegu, líka með lyfjum,“ segir hann um leið og hann kveður Evans í mestu vinsemd.

Í framhaldi af því ræða hjónin saman um vanda sinn og hvað þau höfðu gert rangt. Lucky kvartar dapurlega undan því að hún hafi misst Guð, því að hún finni ekki lengur fyrir þægilegri návist hans, en maður hennar bendir henni hins vegar á, að þau muni alltaf eiga hann að. Það hafi ekki verið Guð, sem hafi brugðist þeim, heldur hafi það þvert á móti verið þau sjálf, sem brutu gegn vilja hans með því að misnota Biblíuna á svo afdrifaríkan hátt, en í því sambandi vitnar Larry í kærleiksóð Páls postula þar sem segir: „En nú varir trú, von og kærleikur, þetta þrennt, en þeirra er kærleikurinn mestur.“ (I. Kor. 13:13.)

Í kærleiksóðnum tilgreinir Páll postuli hvert dæmið á fætur öðru um vægi kærleikans í öllum mannlegum gjörðum og svarar þar meðal annars ritskýringu Alex Romero og Parker hjónanna á orðum Jesú Krists um mátt trúarinnar: „… þótt ég hefði svo takmarkalausa trú, að færa mætti fjöll úr stað, en hefði ekki kærleika, væri ég ekki neitt.“ (I. Kor. 13:2.) Það sem þau gerðu rangt var því að taka trúna fram yfir kærleikann. Það hefði með öðrum orðum enga þýðingu að skipa fjalli að flytja sig eða steypa sér í hafið (Mt 17:20, Mk 11:23), ef það væri ekki samkvæmt vilja Guðs og í samræmi við kærleika hans. Lokaorð Larrys við konu sína árétta í raun boðskap myndarinnar: „Við létum trúna alltaf hafa forgang. Þrá okkar til að sýna fram á trú okkar skyggði á ást okkar á Wesley. Ég veit að ég get elskað. Ég veit að ég get látið það ganga hér og nú. Kannski byggjum við upp nýja trú, betri og, Drottinn hjálpi okkur, skynsamari.“

Kvikmyndin Promised a Miracle er sláandi dæmi um það hvernig hægt er að misnota Biblíuna með afdrifaríkum afleiðingum. Í þessu tilfelli mistúlkuðu safnaðarmeðlimirnir þó ekki aðeins ritninguna heldur einnig boðun safnaðarins, safnaðarhirðisins og gestapredikarans, þegar þeir leituðu ekki eftir staðfestingu lækna á kraftaverkinu heldur treystu á trúna eina. Fordæmið, sem Jesús Kristur hafði gefið með því að senda þá, sem hann læknaði, til hlutaðeigandi valdhafa til að fá staðfestingu á lækningunni, var sniðgengið. (Mt 8:4, Lk 17:14.) En að sama skapi hefðu safnaðarhirðirinn og aðrir þeir, sem að málinu komu, átt að gæta betur að boðun sinni þannig að þessi alvarlegi misskilningur gæti ekki komið upp.

Dæmi eru um það hér á landi að safnaðarmeðlimir eða samkomugestir hjá einstaka trúfélögum hafi hætt til lengri eða skemmri tíma að neyta nauðsynlegra lyfja í kjölfar sambærilegra fyrirbæna og Alex Romero veitti. Þetta er því kvikmynd, sem á erindi til okkar allra.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Biblían, Sl 16:8, Sl 109:24-27, Jes 9:2, Jes 53:5, Mt 4:16, Mt 6:10, Mt 11:28, Mt 17:20, Mt 18:19, Mk 11:23, Lk 1:37, Jh 11:17, 40-44, Jh 15:7, 1Kor 13:13
Hliðstæður við texta trúarrits: Mt 8:4, Lk 17:14, 1Kor 13:2
Persónur úr trúarritum: Jesús Kristur, djöfullinn
Guðfræðistef: kraftaverk, trú, vilji Guðs, forsjá Guðs, frelsun, kærleiki Guðs, trúarstyrking, efi, sköpunin, guðlast, traust, illir andar, andsetning, upprisa, nærvera Guðs, tákn, fyrirgefning, iðrun, kærleikur, velgengnisguðfræði
Siðfræðistef: manndráp, læknisþjónusta
Trúarbrögð: hvítasunnumenn (trúarhreyfingin)
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kristileg útvarpsstöð, kirkja
Trúarleg tákn: kirkjukross, kross í hálsmeni, kross á vegg
Trúarlegt atferli og siðir: sálmasöngur, lofgjörð, borðbæn, fyrirbæn, bænahringur, bæn, biblíulestur, fasta, bænakeðja, andaútrekstur, signing, vitnisburður, kistulagning, útför, kveðjuathöfn
Trúarleg reynsla: lækning, bænheyrsla