Leikstjórn: Franco Prosperi
Handrit: Peter Berling, Antonio Cucca, Claudio Fragasso og Alberto Marras
Leikarar: Ray Lovelock, Martin Balsam, Elke Sommer, Heinz Domez, Ettore Manni, Peter Berling, Riccardo Cucciolla, Ernesto Colli, Dante Cleri, Massimo Ciprari og Francesco D’Adda
Upprunaland: Ítalía
Ár: 1976
Lengd: 90mín.
Hlutföll: 1.33:1 (var sennilega 1.85:1)
Einkunn: 1
Ágrip af söguþræði:
Ungur rannsóknarlögreglumaður segir ítölsku mafíunni stríð á hendur þegar móðir hans lamast í skotárás eiturlyfjasmyglara. Hann fær leyfi frá yfirmanni sínum til að sviðsetja vopnað rán, sem hann er síðan dæmdur í langa fangelsisvist fyrir, en í fangelsinu tekst honum að koma sér í mjúkinn hjá mafíuforingja sem þar dúsar og hyggur á flótta. Þegar þeim loks tekst að flýja, ákveður mafíuforinginn að hefna sín á þeim sem sviku hann í hendur lögreglunnar, en fyrir vikið upphefst blóðug styrjöld innan mafíunnar.
Almennt um myndina:
Frekar slök hrottafengin ítölsk sakamálamynd sem er þó betur leikin en margar aðrar hraðsoðnar hassarmyndir frá því landi. Ray Lovelock er þannig nokkuð fínn sem rannsóknarlögreglumaðurinn, sem villir á sér heimildir til að komast inn í mafíuna, og þeir Martin Balsam og Riccardo Cucciolla hafa oft reynst traustir aukaleikarar. Helsti galli myndarinnar er þó handritið sem hefði mátt vera betur útfært.
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Það eru engin augljós trúarstef að finna í þessari mynd. Athygli vekur þó persónusköpun rannsóknarlögreglumannsins sem hikar ekki við að myrða óvopnaða smáglæpamenn til þess að félagar hans innan mafíunnar átti sig ekki á því hver hann sé. Misgjörðir sínar afsakar rannsóknarlögreglumaðurinn á þeim forsendum að hann hafi aldrei átt frumkvæðið að þessum manndrápum og hafi í raun verið tilneyddur. Þegar upp er staðið er því enginn munur á honum sjálfum og þeim glæpamönnum sem hann berst gegn.
Guðfræðistef: illskan
Siðfræðistef: blekking, rán, manndráp, hefnd