Kvikmyndir

Pulp Fiction

Leikstjórn: Quentin Tarantino
Handrit: Quentin Tarantino og Roger Avary
Leikarar: John Travolta, Bruce Willis, Samuel L. Jackson, Uma Thurman, Tim Roth, Amanda Plummer, Eric Stoltz, Phil LaMarr, Frank Whaley, Burr Steers, Ving Rhames, Paul Calderon og Rosanna Arquette
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 1994
Lengd: 154mín.
Hlutföll: 2:35:1
Einkunn: 4

Ágrip af söguþræði:
Vincent og Jules eru skósveinar mafíu- og undirheimaforingjans Marcellusar. Þeir eru látnir vinna skítverkin fyrir hann og er þeim fylgt fram eftir á viðburðarríkum morgni. Síðan er sagt frá óförum Vincents um kvöldið þegar hann er sendur gegn vilja sínum út með Míu, eiginkonu foringjans, til að skemmta henni. Samtímis tekur boxarinn Butch við mútugreiðslu frá Marcellusi fyrir að tapa hnefaleikakeppni en hann svíkur hann og stingur af án þess að gera sér grein fyrir að leiðir þeirra muni brátt liggja aftur saman með afdrifaríkum hætti.

Almennt um myndina:
Kvikmyndin Pulp Fiction er framleidd af fyrirtækjunum A Band Apart, Jersey Films og Miramax Films í Bandaríkjunum. Hún er mjög góð í alla staði og sérstaklega vel tekin enda hefur leikstjórinn Quentin Tarantion stúderað kvikmyndir frá unglingsaldri og á sér marga eftirlætis leikstjóra sem hann vísar til í myndum sínum. Þetta var önnur mynd Tarantinos en sú fyrri var Reservoir Dogs (1992) sem sömuleiðs fékk frábærar viðtökur og vakti athygli á Tarantino sem leikstjóra svo um munaði.

Myndin byrjar köld og hrá á veitingastað þar sem par ákveður að ræna staðinn. Í rauninni er myndin byggð upp af þremur sögum sem allar fléttast saman í eina. Myndinni er svo skipt í fimm kafla sem sýndir eru í rangri tímaröð og gerir það söguna eilítið flókna fyrir áhorfandann. Það er hins vegar einmitt það sem Tarantino vill. Áhorfandinn á að glíma við söguna í stað þess að ganga að allri framvindunni vísri.

Allir leikararnir hæfa hlutverkum sínum vel og er gaman að sjá John Travolta í þessu stóra hlutverki sem undirheimaskósveinn, leigumorðingji og heróínfíkill, en á þessum árum var ferill hann í mikilli lægð og getur hann þakkað Quentin Tarantino fyrir að hann skuli nú geta valið úr ótal hlutverkum. Það sama er hægt að segja um Samuel L. Jackson, hann fer alveg á kostum sem hinn léttgeggjaði en jafnframt trúaði og alvörugefni glæpamaður.

Tarantino og tengsl við aðrar myndirMyndin kemur inn á margar aðra kvikmyndir. Tarantino blandar t.d. myndum sínum Reservoir Dogs og Pulp Fiction saman á skemmtilegan hátt, en hann notar sama kaffihúsið í upphafsatriði beggja mynda. Eins má nefna að í báðum fyrrnefndum myndum Tarantinos eru menn sem hafa eftirnafnið Vega. En það eru þeir Vic Vega í Reservoir Dogs (leikinn af Michael Madsen) og Vincent Vega í Pulp Fiction (leikinn af John Travolta). Tarantino segir að þessir tveir menn séu bræður og hefur hann gælt við þá hugmynd að gera mynd um þá. Einnig hefur Tarantino búið til sígarettutegund sem heitir Red Apple sem hann notar í myndum sínum, þar á meðal í Four Rooms, Kill Bill og í Pulp Fiction sést Butch kaupa sér pakka af þeim eftir fund sinn með Marcellus.

Tarantino blandar einnig vel saman ýmsum kvikmyndastefjum. Notar hann t.d. hina sígildu film noir kvikmyndatöku í leigubílnum þegar Butch flýr af hólmi eftir að hafa sigrað hnefaleikarkeppnina en dæmi um kvikmynd í anda film noir er Double Indemnity (Billy Wilder: 1944). Annað gott dæmi er þegar Vincent keyrir í eiturlyfjavímu til Míu. En þar er notast við process skot þar sem innsett gata sést í bakgrunni, nokkuð sem var mikið notað í gömlum myndum. Með þessu er Tarantino að vekja athygli á “cinematic conventions” eins og Jean-Luc Godard gerði mikið í sínum myndum. Annað atriði sem hann líkir eftir Godard og raunar einnig eftir François Truffaut er þegar Vincent og Jules sækja töskuna fyrir Marcellus í byrjun myndarinnar. Þá eru þeir sýndir fyrir framan útidyrahurð en stíga aðeins í burtu frá henni til að drepa tímann. En myndavélin fylgir þeim ekki eftir heldur er áfram á hurðinni og leggur þar með áherslu á að hún sé aðalatriðið. Einnig má sjá myndbrot þar sem ýmis atriði líkjast öðrum misþekktum kvikmyndum, en þar má t.d. nefna atriðið þegar Butch stoppar á rauðu ljósi og Marcellus gengur yfir gangbrautina fyrir framan bílinn. Þetta atriði minnir mjög á atriði í Psycho (Alfred Hitchcock: 1960) þegar Marion hefur stolið 40.000 dollurum frá George Lowery. Hún er á leið út úr bænum með ránsfenginn og bíður á rauðu ljósi þegar Lowery gengur yfir gangbraut fyrir framan bílinn. Uppáhaldsskot Tarantinos og aðalsmerki hans er þegar myndavélin er höfð ofan í skotti á bíl um leið og það er opnað. Dæmi um slíka myndatöku má einnig finna í Reservoir Dogs og Kill Bill 1. Ef menn eru forfallnir kvikmyndaáhugamenn má oft sjá ótal vísanir í hinar ótrúlegustu myndir úr kvikmyndasögunni og þá sérstaklega hjá leikstjórum á borð við Tarantino sem nýtir sér allt það sem hann er hrifnast af.

Hægt er að sjá blöndu úr mörgum persónum úr kvikmyndasögunni í Míu en þar má nefna leikkonurnar Louise Brooks í Die Büchse der Pandora (Georg Wilhelm Pabst: 1926), Anna Karina í Une femme est une femme (Jean-Luc Godard: 1961) og Melanie Griffith í Something Wild (Jonathan Demme: 1986). Allar persónurnar sem þessar leikkonur leika leiða karlmenn í ógöngur eins og Mía gerir einnig.

Eftirminnileg atriði.Það sem gerir þessa mynd frábæra eru smáu atriðin, og þá sérstaklega samræðuhlutarnir. En óvenjulegt stílbragð með hnyttnum orðaskiptum er eitt helsta aðalsmerki Tarantino, eins og samræður þeirra Jules og Vincents, Pumkins/Ringo og Honey Bunny í byrjun myndarinnar eru dæmi um. Þessir hlutar gera það að verkum að nánast er hægt að samsamast fólkinu í myndinni. En svo er það annað sem í raun skiptir höfuðmáli í flestum ef ekki öllum kvikmyndum en það er tónlistin, sem er hér alveg mögnuð. Ótal sígild gömul dægurlög sem mörg hver hafa svo til týnst í allri lagaflórunni á liðnum áratugum eru gegnumgangandi í allri myndinni. Lög eins og Jungle Boogie með Kool and The Gang og You can never tell með Chuck Berry hljóta endurnýjun lífdaga í myndinni. Hægt er að fá þessi lög ásamt mörgum öðrum og ýmsum samræðuhlutum úr myndinni á geisladisk sem er alveg hreint magnaður.

McGuffin eða sálinQuentin Tarantino skilur áhorfandann eftir með ýmislegt til að brjóta heilann um eftir myndina. Þannig hafa margir velt fyrir sér hvað sé í töskunni sem Jules og Vincent sækja fyrir Marcellus. Hvað getur verið svona merkilegt að þeir eru tilbúnir að myrða og deyja fyrir hana. Ýmsar tilgátur hafa verið í gangi milli manna inni á Netinu. Það sem fólk er einna hrifnast af er að í töskunni eru demantarnir úr ráninu sem framið var í Reservoir Dogs, gullföt Elvisar (leikinn af Val Kilmer) í kvikmyndinni True Romance, gullstangir eða dularfulla þýfið úr Repo Man. En sú hugmynd sem fólk hefur haldið mest á lofti er að í töskunni sé sál Marcellusar og sú staðreynd að talnalásinn á töskunni er 666 á að rökstyðja það. Það sem hugsanlega er í gangi hér er það sem kallast hefðbundið McGuffin dæmi að hætti Hitchcocks. En það felst í að kynna eitthvert lykilatriði, oftast hlut, sem skiptir eitt sér engu máli fyrir myndina heldur aðeins að því marki hvaða vægi sögupersónurnar leggja í það.

Verðlaun og viðurkenningarMyndin var heiðruð víða um heim með ýmsum verðlaunum, þótt sumum þætti þau ekki vera nógu mörg. Myndin fékk t.d. aðeins ein Óskarsverðlaun fyrir besta frumsamda handritið þrátt fyrir sjö tilnefningar. Einnig fékk hún sex Golden Globe tilnefningar en hlaut aðeins ein verðlaun og var það einnig fyrir besta handritið. Á BAFTA hátíðinni í Bretlandi fékk myndin átta tilnefningar og vann þar tvenn, fyrir besta handritið og besta leikarann í aukahlutverki sem var Samuel L. Jackson. Að auki fékk Quentin Tarantino David Lean-verðlaunin fyrir leikstjórn.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Hér verður fjallað um siðfræðistef í kvikmyndinni. Sagt verður frá drápum og tvöföldu siðferði í kvikmyndinni og fjallað er um trúarstef. Farið verður í gegnum ræðu Jules þar sem hann styðst við Ezekiel 25:17. Endurlausnarstefið og guðlegt inngrip verða einnig skoðuð.

Siðfræðistef innan myndarinnarMyndin er í hrottafengnara lagi en þrátt fyrir það er hið illa aldrei sýnt í jákvæðu ljósi þar sem persónum hefnist fyrir fólskuverk sín í myndinni. Til að mynda eru eiturlyf nánast aldrei sýnd með jákvæðum hætti í myndinni, t.d. munar litlu að Mia bíði bana af völdum ofneyslu heróíns. Það er því bara það hvernig Tarantino sýnir ofbeldið sem gerir myndina virkilega ógeðslega. Alls eru sjö dauðsföll í myndinni sýnd en tvö dauðsföll eru gefin til kynna. Telst það nú ekki mikið miðað við hasarmynd. Drápin í myndinni eru oftast jöfnuð út með jákvæðum þáttum þar sem mörgum er forðað frá dauða eða aðstæðurnar gerðar fyndnar. Dæmi um það er atriðið þar sem Vincent drepur óvart ungan mann, sem vann fyrir Marcellus, í bílnum eftir að þeir ná í töskuna. Þar eru aðstæðurnar gerðar fyndnar, hugsanlega til að koma í veg fyrir að áhorfendinn finna til með þeim látna.

Þegar ofbeldisatriði eða morð eiga sér stað er myndavélinni sjaldnast beint að fórnarlambinu, heldur frekar að gerandanum eða einhverjum tengdum honum. Gott dæmi um slíkt er atriðið þegar Mía er lífugð við, en þá er myndavélinni beint að eiginkonu eiturlyfjasalans um leið og nálin fer í gegnum brjóstið í staðinn fyrir að beina henni að atburðinum. Í öðru atriði, með þeim Butch og Marcellus, er áhorfandinn látinn geta sér til um hvað sé að gerast fyrir Marcellus inni í kjallaraherberginu með nauðgurunum. Það er ekki fyrr en Butch bjargar honum að við sjáum hvað er verið að gera við hann. Þessi nálgun sem Tarantino tekur dregur því úr raunsæi atburðanna.

Dæmi um skemmtilega unnið siðfræðistef í myndnni er atriðið þegar Butch tekur á móti mútugreiðslunni á barnum, en þar er andliti hans skipt til helminga. Þarna er hugsanlegt verið að sýna bæði góðu og illu hliðina á Butch, eða gefa til kynna að hann hafi þegar tekið ákvörðun um að svíkja Marcellus. Í þessu sama atriði er aðeins sýndur hnakki Marcellusar til að árétta völd hans og gera hann þannig um leið dularfyllri og meira spennandi. Plásturinn á hnakka hans vekur hins vegar ýmsar spurningar hjá áhorfendum og hafa ýmsar mislangsóttar kenningar komið fram um hver sé ástæða hans. (http://www.hugi.is/dvd/threads.php?page=view contentId=192836#192839). Samkvæmt einni slíkri kenningu hefur djöfullinn tekið sál hans, en til eru sögur um að djöflar taki sálir manna einmitt í gegnum sár á hnakkanum. En eins og minnst var á hér fyrir ofan átti taskan að innihalda sál Marcellusar. Raunverulega ástæðan fyrir plástrinum er hins vegar sú að leikarinn Ving Rhames, sem leikur Marcellus, var með ljótt sár eða ör á hnakkanum. Ákváðu því förðunarmeistararnir að hylja það með plástri til að hlífa áhorfendum þegar hann væri sýndur í nærmynd (Pulp Fiction ­ aukaefni).

Gert er grín að tvöföldu siðferði í atriðinu þegar Vincent er að kaupa heróín af dópsalanum Lance. Þar sést Vincent kaupa heróín en um leið er hann að segja Lance frá því að einhver hafi rispað bílinn sinn. Eru þeir sammála um að slíkur verknaður sé það glæpsamlegur að aflífa ætti þann sem gerði þetta. Tarantino kemur þessu til skila á mjög flottan hátt. Greinilegt er að Lance og Vincent telja verra að rispa bíl en að kaupa, selja eða nota heróín. Það er einnig gaman að sjá löngu útgáfuna af þessu atriði en þar sést enn betur að hvað hugsunarhátturinn hjá þeim er brenglaður.

Að lokum er gaman að minnast á að mikið er blótað í myndinni eins og gert er í mörgum hasarmyndum nú til dags. Til dæmis er orðið „Fuck“ sagt alls 271 sinni í myndinni. (http://www.imdb.com/title/tt0110912/trivia.)

Trúarstef í myndinniTrúarstef í þessari mynd eru ekki mörg en þrátt fyrir það er eitt frægasta atriðið úr henni bein tilvitnun úr Biblíunni. Þar eru um að ræða eitt svalasta atriði sem sýnt hefur verið í kvikmynd.

Esekíel 25:17Þessi eftirminnilega biblíutilvitnun kemur fyrst við sögu þegar Jules drepur Brett og félaga hans í byrjun myndarinnar, svo aftur í miðri myndinni og loks í lok hennar. Þarna er um að ræða ritningartexta úr Gamla testamentinu, nánar tiltekið Esekíel 25:17, sem hljómar svona á ensku í meðferð Jules.

The path of the righteous man is beset on all sides by the inequities of the selfish and the tyranny of evil men. Blessed is he who, in the name of charity and good will, shepherds the weak through the valley of darkness, for he is truly his brother’s keeper and the finder of lost children. And I will strike down upon thee with great vengeance and furious anger those who attempt to poison and destroy my brothers. And you will know my name is the Lord when I lay my vengeance upon you.

En þegar farið er að skoða biblíutextann kemur í ljós að hann er ekki tekinn beint upp úr Biblíunni heldur útfærður þaðan með krassandi hætti. Tarantino fannst biblíutextinn nefnilega ekki alveg nógu svalur við nánari íhugun, þannig að hann bætti aðeins við hann og lagfærði til að ná fram viðeigandi dramatík. Í þessari útgáfu Jules er dregin upp mynd af þeim hefnigjarna Guði sem margir segjast upplifa í Gamla testamentinu og vill Jules augljóslega samsama sig við hann. Þegar upprunalegi textinn er skoðaður breytist hann töluvert.

Therefore thus says the Lord God, I will stretch out my hand against the Philistines, cut off the Cherethites, and destroy the rest of the seacoast. I will execute great vengeance on them with wrathful punishments. Then they shall know that I am the Lord, when I lay my vengeance on them.

Eins og sést eru aðeins tvær síðustu setningarnar sem eru líkar í báðum textunum. Reyndar er minnst á „brother’s keeper“ í 1. Mósebók 4:9, en framsetningin á biblíutilvitnuninni er annars algjör tilbúningur hjá Tarantino sem þó hæfir einhvern veginn myndinni vel og gæti ennfremur vel átt heima í Biblíunni.

Upphaflega skrifaði Tarantino þetta vers fyrir séra Jakob í blóðsuguhrollinum From Dust Till Dawn (Robert Rodriguez: 1996) og átti þetta vers að halda Vampírunum í burtu, en ákvað að lokum að nota það í Pulp Fiction. Tarantino skrifaði þetta vers til minningar um séra Harry Powell, “the murderous man of God” sem leikinn er af Robert Mitchum, en fjallað er um hann í myndinni Night of the Hunter (Charles Laughton: 1955).

EndurlausnarstefFinna má a.m.k. tvenn áberandi endurlausnarsef í myndinni. Annað þeirra er í lok myndarinnar þegar Jules ákveður að drepa ekki Pumkin/Ringo og Honey Bunny. Einnig fær hann Vincent ofan af því að drepa þau, en á því andartaki ákveður hann að snúa baki við glæpum og reyna að verða betri maður. Jules kemur með ræðu um hvernig hann skilgreinir sig í Ezekíelræðunni sinni. Hann vill meina að hann sé vondur en hann sé að reyna vera góður eða rétt eins og hann segir við Ringo ,,… I’m the tyranny of evil men. But I’m tryin’. I’m tryin’ real hard to be a shepherd.’’ Hitt er þegar Butch bjargar Marcellus frá nauðgurunum tveimur. Þegar þeir hittast fyrst eftir svik Butch lenda þeir í slagsmálum sem enda inni í verslun. Þar eru þeir dregnir meðvitundalausir niður í kjallara verslunarinnar (niður í helvíti) og þeir bundnir og síðan er kastað uppá hvor verði tekinn á undan. Marcellus verður svo ólánsamur að verða fyrir valinu og er hann dreginn inn í annað herbergi þar sem ekkert er sýnt hvað gert er við hann. Í millitíðinni nær Butch hins vegar að losa sig og ætlar að flýja en á síðustu stundu ákveður hann að snúa við og bjarga Marcellusi. En þetta verður í raun algjör vendipunktur hjá honum. Hann grípur með sér nærtækt vopn uppi í versluninni sem vill svo skemmtilega til að er samúrajasverð sem síðar átti rækilega eftir að koma við sögu í nýjustu mynd Tarantinos, Kill Bill 1 og 2. Með sverðinu nær hann að bjarga Marcellusi sem lætur þar með ágreiningsefni þeirra niður falla. Butch fer því frjáls maður á mótorfáki annars nauðgarans. Á mótorfáknum á stendur orðið Grace en freistandi er að álykta að Butch sé þar að hverfa frá helvíti fyrir tilstilli náðar ­ náðar Guðs.

Gaman er bera saman endurlausn þeirra Jules og Butch og hvernig þeir tengjast á ólíkan hátt. Báðir eru þeir glæpamenn á sinn hátt og báðir eru tengdir Marcellus en á mismundi hátt. Báðir fengu þeir endulausn en Jules sér þá endurlausn sem trúarlega en Buch sér hana eflaust sem heppni eða að hún sé honum algjörlega að þakka.

Guðlegt inngripSnemma í myndinni er skotið á Jules og Vincent af stuttu færi, en kúlurnar hitta þá ekki. Mikið hefur verið rætt um hvort um guðlegt inngrip er að ræða í þessu atriði eða aðeins heppni. Fólk skiptist þar í tvo flokka rétt eins og þeir félagar í myndinni. Jules trúir því að Guð hafi gripið inn í og forðað þeim frá kúlunum en Vincent trúir því að þetta hafi verið einskær heppni. Þegar horft er á myndina sjást skotförin greinilega í veggnum áður en skotið er á þá og hefur þetta orðið tilefni ýmissa vangaveltna. Margir telja að um kraftaverk sé að ræða, en aðrir álíta að staðurinn sem fórnarlömbin búa í sé það mikil skítahola að götin hafi hreinlega verið þar fyrir. Enn aðrir telja að um klippivillu eða fljótfærnisvillu sé að ræða. Það hlýtur þó að teljast frekar ólíkleg ástæða þar sem í myndinni koma fram atriði sem afsanna þá tilgátu. Dæmi um slíkt kemur fram í sama atriði þegar það er sýnt í fyrra skiptið. Þá sést Jules klára skotin í byssunni þegar hann skýtur Brett. En þegar atriðið er sýnt aftur seinna í myndinni hefur Jules nokkur skot eftir í byssunni til að skjóta manninn sem skýtur á þá. Einnig má sjá dæmi um svipað þegar Honey Bunny öskrar á fólkið á veitingastaðnum. En þá fer hún ekki með sama texta í bæði skiptin sem atriðin eru sýnd, sem er í byrjun og enda myndarinnar. Þetta eru það stór mistök að ólíklegt er að Tarantino myndi ekki taka eftir þeim.

Einnig er athyglisvert að í sama atriði skuli kross vera sýndur uppi í horni myndrammans þegar skotið er á þá. Líklega er það gert til að árétta trúarlegt vægi þess sem gerist fyrir Jules. En eftir að hann er farinn úr íbúðinni minnist hann á Biblíuna í bílnum við Vincent og segir að “augu sín séu nú galopin” og að nú muni hann hætta öllum glæpum. Það verður því að teljast kaldhæðnislegt að sá sem trúir ekki að um guðlegt inngrip hafi verið að ræða skuli láta láti lífið í myndinni en ekki sá sem trúir.

Heimildaskráhttp://www.imdb.com/title/tt0110912/ (20.3.2005)

http://www.unomaha.edu/jrf/ (9.3.2005)

Pulp Fiction (DVD diskur ­ aukaefni)(22.3.2005)

Pulp Fiction http://www.hugi.is/dvd/threads.php?page=view contentId=192836#192839 (10.4.2005)

Quentin Tarantinohttp://www.hugi.is/kvikmyndir/articles.php?page=view contentId=1296626#1296629 (10.4.2005)

Roger Ebert. Secrets of Pulp Fictionhttp://www.godamongdirectors.com/tarantino/faq/secrets.html (9.3.2005)

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Biblían, Ezekíel 25:17
Persónur úr trúarritum: Fjárhirðir, Jesús Kristur og Drottinn
Guðfræðistef: Dauðinn, trú, kraftaverk, refsing Guðs
Siðfræðistef: Morð, lygi, siðleysi, eiturlyfjaneysla, nauðgun
Trúarbrögð: Kristni
Trúarleg tákn: Kross á vegg með krossfestum Jesús
Trúarlegt atferli og siðir: Ritningalestur
Trúarleg reynsla: Kraftaverk, bænheyrsla, upprisa, lækning