Kvikmyndir

Raising Arizona

Leikstjórn: Joel Coen
Handrit: Joel Coen og Ethan Coen
Leikarar: Nicolas Cage, Holly Hunter, Trey Wilson, John Goodman, William Forsythe, Sam McMurray, Frances McDormand, Randall ‘Tex’ Cobb og M. Emmet Walsh
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 1987
Lengd: 90mín.
Hlutföll: 1.85:1
Einkunn: 3

Ágrip af söguþræði:
Síbrotamaðurinn H.I. skiptir um iðju þegar hann verður ástfanginn af lögreglukonunni Ed. En þegar í ljós kemur að Ed er óbyrja ákveða þau að taka til sinna ráða og ræna barni af hjónum sem eignuðust fimmbura.

Almennt um myndina:
Þetta er þriðja mynd Coen bræðra en hún vakti verðskuldaða athygli fyrir frumlega kvikmyndatöku og skemmtilegan frásagnastíl. Rétt eins og með fyrstu mynd bræðranna Blood Simple (1984) virkar kvikmyndatakan ekki eins frumleg og fersk eins og á sínum tíma, enda hafa fjölmargir fetað í fótspor Coen bræðranna.

En kostir þessarar myndar felast ekki aðeins í frumlegri kvikmyndatöku. Handritið er stútfullt af óborganlegum setningum á borð við: ,,H.I., you’re young and you got your health, what do you want with a job?“ og ,,I tried to stand up and fly straight, but it wasn’t easy with that son’ bitch Reagan in the White House.“ Samtölin eru stórkostleg en flest of löng til að birta hér. Ég læt þó eitt fljóta með til gamans, en þar eru krimmarnir Gale og Evelle að reyna að fá H.I. til að taka þátt í ránsferð með sér:

Gale: „You understand, H.I.? If this works out, it’s just the beginning of a spree to cover the entire southwest proper. And we keep going until we can retire. Or we get caught.“Evelle: „Either way, we’re fixed for life.“

Leikurinn er einnig stórfenglegur. Nicolas Cage hefur sjaldan verið betri en Holly Hunter stelur samt senunni, enda skrifuðu Coen bærður hlutverkið sérstaklega fyrir hana. Eins og í flestum myndum bræðranna er John Goodman jafnframt í aukahlutverki.

Til gamans má geta að fimmtán börn ,,léku“ fimmburana í myndinni en eitt þeirra var rekið þegar það lærði að ganga.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Eins og í flestum gamanmyndum ristir hvorki guðfræðin né siðfræðin djúpt. Nóg er af vísunum og þemum en fæst af því skiptir veigamiklu máli og er meira til gamans. Þó eru nokkur þemu verulega fyrirferðamikil.

H.I. dreymir t.d. reglulega en draumar hans eru svo raunverulegir og rætast svo bókstaflega að hann kallar þá frekar sýnir. Hann dreymir t.d. ógurlegan dómsdagsmótorhjólakappa (The Lone Biker of the Apocalyps), sem virðist á einhvern hátt tengdur syndum hans. Þetta er því ekki dómsdagur alheimsins heldur miklu frekar dómsdagur H.I. sjálfs. Þessi dómsdagsmótorhjólakappi hatar allt smátt og fagurt og leikur sér t.d. við það að sprengja upp kanínur með handsprengjum. Ástæðan fyrir þessu hatri hans á hinu litla og sæta er tattúeruð á upphandleg hans, en þar stendur stórum stöfum: Mamma elskaði mig ekki!

Í myndinni er gert grín af byssuæði Bandaríkjamanna en önnur hver manneskja er með hlaðna byssu og lögreglan lætur kúlunum rigna yfir almenning til að stöðva bleyjuþjóf!

Ennig er vísað til kærleika múslima í garð hinna fátæku og talað um kynlíf sem viðfangsefni djöfulsins, en tengsl kynlífs við djöfulinn má líklega rekja til sögunnar af Adam og Evu. Að lokum má geta þess að H.I. dreymir í lok myndarinnar stað þar sem allir foreldrar eru sterkir, vitrir og hæfir og öll börn eru hamingjusöm og ástsæl. Hann klikkir síðan út með því að segja að þessi staður hafi ekki verið langt í burtu, kannski hafi hann verið Utah! Fylkið Utah er að sjálfsögðu höfuðvirki mormóna.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Jh 8:7
Hliðstæður við texta trúarrits: 1M 3
Persónur úr trúarritum: geimverur, engill, andi, Jason
Guðfræðistef: forlagatrú, dómsdagur
Siðfræðistef: afbrot, glæpir, hefnd, þjófnaður, fordómar, mannrán, ofbeldi, klíkuskapur, opið hjónaband, lygar, kúgun, sjálfselska, jafnrétti kynjanna, kynlíf, góðgerðarstarf
Trúarbrögð: islam, mormónar
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: helvíti, himnaríki, El Dorato, Utah, paradís
Trúarlegt atferli og siðir: bölvun, bænir
Trúarleg reynsla: draumur, sýn