Leikstjórn: Akira Kurosawa
Handrit: Masato Ide, Akira Kurosawa og Hideo Oguni, byggt á leikritinu Lear konungur eftir William Shakespeare
Leikarar: Tatsuya Nakadai, Akira Terao, Jinpachi Nezu, Daisuke Ryu, Mieko Harada, Yoshiko Miyazaki, Takashi Nomura, Hisashi Igawa, Peter Yui og Masayuki Yui
Upprunaland: Japan og Frakkland
Ár: 1985
Lengd: 160mín.
Hlutföll: 1.85:1
Einkunn: 4
Ágrip af söguþræði:
Kvikmyndin Ran er að mestu leyti byggð á leikritinu Lear Konungur eftir William Shakespeare en að hluta sækir hún viðfangsefni sitt einnig í söguna af Mori, frægum konungi í Japan sem var uppi á 16. öld. Konungurinn Hidetora, sem er sjötíu ára gamall, ákveður að afsala sér völdum og afenda þau sonum sínum þremur. Taro, sá elsti, á að halda um stjórnartaumana en Jiro og Saburo eiga að ríkja yfir öðrum og þriðja kastalanum og lúta elsta bróðurnum. Til að leggja áherslu á einingu fjölskyldunnar lætur Hidetora þá brjóta ör, sem þeir gera nokkuð auðveldlega. Þegar hann afhendir þeim hins vegar þrjár örvar og biður þá að brjóta þær allar í einu reynist það erfiðara. Þannig vill Hidetora leggja á mikilvægi þess að bræðurnir standi saman.
Saburo, yngsti bróðirinn, leggst gegn þessu og bendir á að hollusta og eining haldi ekki saman konungsríki sem byggt er á grimmd og hernaði. Fyrir þetta er Saburo bannfærður en Hidetora áttir sig samt fljótlega á því að yngsti sonurinn hafði á réttu að standa og fær að kenna á eigin karma.
Almennt um myndina:
Kvikmyndin Ran hefur verið á topp tíu listanum hjá mér allt frá því ég sá hana á kvikmyndahátíð í Laugarásbíó á sínum tíma. Þetta er ein af þeim kvikmyndum sem batna við hvert áhorf og maður þreytist aldrei á að rifja upp.
Leikstjóri myndarinnar, Akira Kurosawa, er einn merkasti kvikmyndagerðarmaður allra tíma. Hann fæddist 23. mars 1910 í Tokyo og var menntaður sem myndlistamaður en tilheyrði samúrajafjölskyldu. Myndlistamenntunin hafði mikil áhrif á kvikmyndir hans, en margir hafa einmitt bent á að hver myndrammi sé eins og málverk út af fyrir sig. Kurosawa málaði reyndar hverja senu í myndum sínum og því ætti slík fullyrðing ekki að koma á óvart.
Kurosawa hóf feril sinn í kvikmyndum sem aðstoðarleikstjóri árið 1943 en hann sló síðan rækilega í gegn með myndunum sínum Rashomon (1950), Sjö samúrajar (1954) og Yojimbo (1961).
En enginn er spámaður í eigin heimalandi og átti Kurosawa erfitt með að fjármagna myndir sínar í Japan vegna velgengni sinnar á erlendri grundu. Löndum hans þótti list hans ekki nægilega þjóðleg þar sem útlendingar gátu skilið hana og kunnu að meta hana. Þetta lagðist mjög þungt á Kurosawa og ekki hjálpaði það að aðkoma hans að síðari heimsstyrjaldamyndinni Tora, Tora, Tora hafði farið í vaskinn vegna listræns ágreinings. Að lokum gafst Kurosawa upp og reyndi að svipta sig lífi.
Það tókst þó sem betur fer að bjarga lífi hans og fékk hann þá loks fjármagn frá Sovétríkjunum til að gera kvikmyndina Dersu Uzala (1974) í staðinn. Francis Ford Coppola og George Lucas komu honum einnig til hjálpar síðar meir þegar þeir framleiddu Kagemusha (1980) en Kurosawa hefur sagt að hún hafi aðeins verið æfingarverkefni fyrir Ran. Steven Spielberg framleiddi síðan myndina Draumar (1990), en allir þessir þrír frægu leikstjórar hafa sagt að Kurosawa hafi haft mikil áhrif á kvikmyndagerð sína.
Áhrif Kurosawa á vesturheiminn eru reyndar óumdeilanleg en Sjö samúrajar var endurgerð sem The Magnificent Seven (John Sturges: 1960), Yojimbo var endurgerð sem A Fistful of Dollars (Sergio Leone: 1964) og Hidden Fortress (1958) var endurgerð sem Star Wars (George Lucas: 1977), svo aðeins nokkrar myndir séu nefndar. Og enn er verið að endurgera myndir hans og kvikmynda handrit hans.
Þessi stóri meistari kvikmyndasögunnar andaðist árið 1998. Rétt eins og Alfred Hitchcock fékk Kurosawa heiðursverðlaun fyrir framlag sitt til kvikmyndarinnar, en það fékk hann árið 1990. Kurosawa fékk jafnframt fjöldann allan af verðlaunum á ýmsum öðrum hátíðum.
Kvikmyndin Ran vann til margra verðlauna. Hún fékk óskarinn fyrir bestu búningana og var tilnefnd fyrir bestu sviðsmyndina, bestu kvikmyndatökuna og bestu leikstjórnina. Hún fékk BAFTA verðlaunin sem besta erlenda myndin og fyrir bestu förðunina. Hún var jafnframt tilnefnd til sömu verðlauna fyrir besta handritið, bestu kvikmyndatökuna og bestu búningana. Þá var Ran tilnefnd sem besta erlenda myndin á Golden Globes en hún vann þann titil á fjölmörgum öðrum kvikmyndahátíðum.
Kvikmyndin Ran er 27. mynd Kurosawa en hann var 75 ára þegar hann gerði hana. Orðið ran þýðir ringulreið, óreiða, glundroði eða upplausn. Kurosawa velti því fyrir sér hvað hefði gerst ef synir Moris hefðu ekki verið föður sínum trúir. Hvað ef örvarnar þrjár hefðu verið brotnar? Svarið er heimspekileg vangavelta sem endurspeglar heimssýn Kurosawas. Ran var hugðarefni og ástríða Kurosawas í tíu ár en þann tíma notaði hann t.d. til að mála söguborð myndarinnar og voru málverk hans við hvern einasta ramma gefin út með handritinu. Kvikmyndatakan fylgir þessum málverkum eftir og er glæsileg fyrir vikið.
Kurosawa óttaðist að hann gæti aldrei gert þessa mynd enda yrði þetta með dýrari myndum frá upphafi í Japan. Í myndinni voru um 1400 aukaleikarar auk þess sem 250 hestar voru notaðir í fjöldasenum, en marga þeirra þurfti meira að segja að flytja frá Bandaríkjunum til Japans. Það tók tvö ár að búa til búningana í myndina en þeir voru 700 að tölu og allir handgerðir. Kastalinn sem er lagður í rúst um miðbik myndarinnar var sérstaklega byggður í hlíðum eldfjallsins Fúji og síðan brenndur til ösku. Kurosawa hafði ekkert minna módel til að styðjast við og því urðu tökurnar að takast í fyrstu tilraun þegar þeir höfðu kveikt í kastalanum.
Í myndinni má greina mörg einkenni Kurosawa, en kvikmyndatækni hans var mjög sérstök. Hann tók senur upp með mörgum kvikmyndavélum samtímis, frá þrem til fimm sjónarhornum.
Hann setti myndavélarnar yfirleitt langt í burtu og notaði síðan aðdráttarlinsur til að komast nær viðfangsefninu. Með því að fara þessa leið breytist áferðin og dregið er úr dýpt myndrammans, þ.e. hann verður flatari fyrir vikið. Þetta getur komið mjög vel út, sérstaklega þegar leggja þarf áherslu á þjáningu eða erfiðleika aðalpersónanna, því að þegar dregið er úr dýpt myndrammans virðist ferð persóna myndarinnar sækjast hægar en ella.
Kurosawa braut margar hefðir í kvikmyndagerð. Sérkenni hans var að stilla upp þrem myndavélum hlið við hlið og klippa á milli þeirra til að komast nær eða fjær myndefninu. Þetta notar hann til þess að leggja áherslu á söguna á dramatískum stundum og tekst honum það vel upp að flestir taka ekki eftir því að myndramminn hafi „hoppað“. Þá braut hann oft 180 gráðu regluna í sama tilgangi og með sama óaðfinnanlegum árangri.
Í myndinni sést einnig hvernig hann notar leikara og hreyfingu sem liti í málverki en þetta sést t.d. í því að hann heldur fókusinum á veggnum bak við leikarana þannig að þeir verða úr fókus og fá fyrir vikið abstrakt yfirbragð, rétt eins og litir í málverki sem fljóta yfir skjáinn.
Kurosawa var mjög hrifinn af japanskri leikhúshefð sem kallast Noh. Hann notar þessa Noh leikhúshefð óspart, bæði hvað varðar hreyfingar persónanna sem og andlitsförðun. Í upphafi er andlit Hidetora málað eins og gríma púka en þegar hann verður geðveikur breytist andlitsförðun hans og minnir á grímu sorgar gamalmennis sem þarf að ráfa um jörðina og gjalda fyrir syndir sínar. Kaede er ennfremur máluð eins og gríma hefndarinnar en Sue eins og gríma uppljómunar.
Annað japanskt stef er giri, þ.e. reglur um samskipti fólks í japanskri menningu. Í myndinni er þessi regla brotin. Synir uppfylla ekki skyldur sínar við föður sinn, bræður uppfylla ekki skyldur sínar við hvern annan og samúrajar uppfylla ekki skyldur sínar við höfðingja sinn.
Þá er veðurfar notað markvist í myndinni til að tjá innri líðan aðalpersónanna. Takið sérstaklega eftir rokinu á sléttunni og hvernig skýin breytast í gegnum myndina.
Þá er vert að geta þess að tónlistin er með því flottara sem heyrst hefur á hvíta tjaldinu. Þetta á sérstaklega við um lag Tsurumaru (blinda stráksins) og lagið sem leikið er á meðan hernaðurinn í þriðja kastalanum stendur yfir.
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Guðfræði myndarinnar sækir að mestu í mahayana búddhisma en í henni er einnig að finna heilmikið af sammannlegum þáttum. Áður en lengra er haldið er rétt að minnast á nokkrar grunnkenningar búddhismans.
Kenningar Búddha eru grundvallaðar á karmalögmálinu, sem þýðir að það ráðist af líferni hvers og eins í þessu lífi hvort viðkomandi endurholdgist aftur í þessu jarðríki og þá hvernig. Þeir sem losna við að endurholdgast í þessum heimi öðlast Nirvana. Þó ber að geta þess að ólíkt theravada búddhisma kennir mahayana búddhismi að heimarnir sem unnt er að endurholdgast í geti verið margir. Í Dharma kenningu Búdda, sem einnig kallast hin fernu göfugu sannindi, er að finna leiðina til að öðlast Nirvana, en hún er eftirfarandi: 1) Þjáning fylgir ávallt þessum hverfula heimi. 2) Orsök þjáningarinnar er tanha (löngun, þrá, ástríða, fýsn). 3) Lækning þjáningarinnar er fólgin í því að öðlast Nirvana. 4) Leiðin til Nirvana er hinn göfugi áttfaldi vegur, þ.e. rétt trú, rétt áform, rétt tal, rétt breytni, rétt líferni, rétt viðleitni, rétt hugarfar og rétt sjálfgleymi eða einbeiting. Auðveldasta leiðin til að ná uppljómun er að vinna bug á fáfræði, fýsnum og þrá. Aðeins karlkyns munkar geta reyndar náð uppljómun í theravada en allir hafa kost á því í mahayana, oftar en ekki fyrir tilstilli bodhisattvas vera.
Öllum búddhistum er bannað að drepa, segja ósatt, stela, leggjast með eiginkonu annars manns og drekka áfengi. Þá eiga búddhistar að sýna foreldrum sínum og eiginkonum virðingu. Það er merkilegt að aðalpersónur myndarinnar brjóta öll þessi lögmál en vonina er aðallega að finna í aukapersónum myndarinnar og þá sérstaklega hinni trúuðu Sue. Þá er það einnig eftirtektarvert að þjáningin stafar einmitt af fáfræði, fýsnum og þrá, að hefndinni viðbættri.
Rótin að allri þessari þjáningu er Hidetora en hann fær á efri árum að kenna á illgjörðum sínum. Það er rétt eins og hann sé að taka út það illa karma sem hann hefur bakað sér. Nú kynni einhver að benda á að það sé ekki í anda búddhisma að hann taki út sitt karma í þessu lífi en á móti má benda á að í myndinni eru fjölmargar táknrænar dauðasenur Hidetora. Hann skríður t.d. í nokkurs konar gröf og kvartar yfir því að verið sé að vekja hann upp frá dauðum. Eins og áður sagði er andlitsföðrun hans einnig eins og gríma gamalmennis sem þarf að ráfa um jörðina og gjalda fyrir syndir sínar. Þá minnir landslagið þar sem hann ráfar um undir lokin á helvíti en því er einmitt oft haldið fram að þeir séu staddir í helvíti. Þá má geta þess að Kurosawa gerir meira úr synd Hidetora en Shakespeare í Lear konungi. Hidetora er ekki fórnarlamb eins og Lear heldur grimmur konungur sem hefur reist konungsríki sitt á blóði þúsunda sakleysingja. Myndin er því í raun áhugaverð útlegging á karmalögmálinu en um leið því sammannlega lögmáli að illskan komi alltaf niður á okkur að lokum.
Ein áhrifamesta sena myndarinnar er þegar herir tveggja elstu bræðranna ráðast á fámennan her Hidetora. Meirihluti þessarar senu er sýndur án hljóðs en yfir henni er leikin dapurleg tónlist í anda Mahlers. Kurosawa sagði að atriðið ætti að endurspegla það helvíti sem Búddha horfði grátandi á og að tónlistin væri eins og hjarta Búddha sem væri yfirbugað af sorg vegna endalausrar grimmdar mannsins.
Kurosawa svarar því ekki beint hvers vegna þessar hörmungar ganga endalaust yfir mannkynið en hann gefur okkur fimm ólík svör við því hvernig við getum brugðist við þeim. Þessi svör birtast í fimm aukapersónum myndarinnar. Þar ber fyrst að nefna hina trúuðu Sue, en Hidetora hafði einmitt drepið foreldra hennar og stungið augun úr bróður hennar. Framarlega í myndinni leitar Hidetora Sue uppi. Hann fer fyrst að helgistað þar sem mynd af Búddha er geymd og leggur Kurosawa áherslu á hana með því að sýna hana í dágóða stund í nærmynd. Hidetora finnur að lokum Sue á bæn uppi á hæð en þess má geta að litir himinsins eru þeir sömu og litirnir á helgimyndinni af Búddha.
Þar er að finna þetta áhugaverða samtal:
Hidetora: „Það kvelur mig að líta á þig. [Sue brosir]. Það er verra þegar þú brosir. Ég brenndi kastala þinn til grunna, þú misstir foreldra þína en samt lítur þú svona á mig. Líttu á mig með hatri. Það væri auðveldara að umbera það. Svona hataðu mig!“Sue: „Ég hata þig ekki. Allt var forákvarðað í fyrri lífum okkar. Búddha umvefur alla hluti.“Hidetora: „Aftur þessi Búddha. Hann hefur yfirgefið þennan illa heim. Verðir hans eru í útlegð, hraktir á braut af Ashur. Við getum ekki reitt okkur á miskunn Búddha.“
Eins og sést á þessu samtali er Sue fulltrúi trúarinnar en Hidetora á einmitt svo erfitt með að skilja hvernig hún getur fyrirgefið syndir hans svona auðveldlega. Það er áhugavert að af öllum þeim sem Hidetora hefur gert á hlut á hann erfiðast með að horfa framan í þá manneskju sem ber minnstan kala til hans.
Bróðir Sue, Tsurumaru, á ekki eins auðvelt með að fyrirgefa syndir Hidetora en afstaða hans birtist vel í samtali þeirra beggja:
Tsurumaru: „Það er langt um liðið Hidetora.“Hidetora: „Manstu eftir mér?“ [Honum bregður.]Tsurumaru: „Hvernig gat ég gleymt? Ég var aðeins drengur, en hvernig gat ég gleymt manninum sem jafnaði kastala okkar við jörðu og þyrmdir lífi mínu en stakkst í staðinn úr mér augun? Ég reyni að vera eins og systir mín. Ég bið til Búddha og reyni að losa mig við hatrið. En ekki einn einasta dag hef ég gleymt og ekki eina einustu nótt hef ég sofið rótt. Mér þykir leitt að geta ekki tekið á móti þér eins og höfðingja sæmir. Sem betur fer gaf systir mín mér flautu. Ég skal spila fyrir þig. Þar sem ég hef ekkert að bjóða býð ég gestrisni hjartans. Þetta er eina nautnin sem stendur mér enn til boða.“
Tsurumaru ber síðan flautuna að vörum sér og spilar af svo mikilli sorg og sársauka að Hidetora hrekst út úr kofanum. Þótt Tsurumaru leggi sig fram um að koma fram við óvin sinn eins og trú hans kennir honum er ljóst að honum reynist það ekki eins auðvelt og Sue. Tsurumaru minnir mun meira á almenning er Sue, almenning sem birgir reiðina innra með sér og berst við að lifa samkvæmt vilja Guðs en reynist það nánast um of.
Óhugnanlegasta svarið sem Kurosawa býður okkur upp á er Kaede en Hidetora hafði drepið fjölskyldu hennar sömu nótt og hún hafði gifst elsta syni hans, Taro. Kaede hefur það eina markmið í lífinu að hefna sín á Hidetora og uppræta alla ætt hans. Henni tekst það reyndar en gjörðir hennar kalla enn meiri hörmungar yfir hana sjálfa og aðra. Hefnd hennar er ekki réttlátari en svo að hún lætur myrða Sue, þrátt fyrir að hún hafi verið jafn mikið fórnarlamb og Kaede.
Samúrajinn Tango, tryggasti þjónn Hidetora, og hirðfíflið Kyoami eru svo holdgerfingar fjórða og fimmta svarsins sem í myndinni er að finna. Samtal þeirra í lok hennar er mjög lýsandi fyrir þessi viðhorf:
Kyoami: „Eru engir guðir til? … engir búddhar? Ef þið eruð til þá heyrið orð mín! Þið eruð undirförlir og illa innrættir. Leiðist ykkur svo mikið að þið þurfið að skemmta ykkur við að kremja okkur eins og maura? Er það ykkur svona mikið gleðiefni að sjá mennina fella tár?“Tango: „Hættu nú! Ekki guðlasta! Það eru guðirnir sem gráta. Þeir sjá okkur drepa hvert annað, síendurtekið frá ómunatíð. Þeir geta ekki bjargað okkur frá sjálfum okkur. Gráttu ekki! Heimurinn er skapaður svona. Mannkynið tekur sorgina fram yfir gleði, þjáninguna fram yfir frið. Líttu á fólkið í fyrsta kastalanum. Það gleðst yfir þjáningu og blóðsúthellingum. Það fagnar morðum.“
Hirðfíflið Kyoami er fulltrúi þeirra sem misst hafa trú á guðina á meðan Tango tekur undir bölsýni Kyoamis en kennir ekki guðunum um heldur mannkyninu. Tango minnir í raun um margt á Prédikararann í Gamla testamentinu. Heimsmynd hans er svört en að sama skapi á margan hátt raunsæ. Það er merkilegt að hann hefur lokaorðið hvað þessa deilu varðar á meðan fulltrúi trúarinnar og hins góða í manninum, Sue, eru tekin af lífi.
Lokaatriði myndarinnar er einstaklega áhrifamikið. Tsurumaru stendur aleinn í ljósaskiptunum í rústum kastala forfeðra sinna efst á þverhníptum kastalaveggnum. Sue, systir hans, hafði látið hann hafa helgimynd af Búddha en hann missir hana, tákn hjálpræðisins sem vísað hafði honum leiðina út úr þjáningu lífsins, úr höndum sér þegar hann gengur næstum því fram af hárri veggbrúninni. Kurosawa skilur Tsurumaru síðan eftir einan á kastalaveggnum, á meðan myrkrið færist yfir, blindan og án haldreipis trúarinnar. Freistandi er að líta á þessa senu sem táknræna útleggingu á ástandi mannsins.
Persónur úr trúarritum: guð, stríðsguð, Búddha, Amida Búddha, djöflar, Ashur
Guðfræðistef: hatur, fyrirgefning, forákvörðun, miskunn, karma, iðrun, réttlæti, guðlast, endurholdgun
Siðfræðistef: stríð, morð, eining, samstaða, græðgi, trúmennska, tryggð, hefnd, heiður, vanvirðing, baktjaldarmakk, svik, auðmýkt, sjálfsvíg, hræsni
Trúarbrögð: búddhismi, hjátrú
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: vesturparadís, helvíti, himnaríki, paradís, musteri
Trúarleg embætti: búddhanunna
Trúarlegt atferli og siðir: bæn
Trúarleg reynsla: draumur