2. árgangur 2002, Vefrit

Rautt, hvítt og blátt! Litanotkun í þríleik Kieslowskis

Inngangur

ÞrírFyrst voru kvikmyndir ekki í lit. Samt skiptu litir máli. Það var hreint ekki sama hvernig búningar, leikmynd og umhverfið allt var á litinn. Þeir sem unnu við kvikmyndir í árdaga urðu sérfræðingar í að þekkja hvernig daufir jafnt sem skærir litir komu út í grátónaskalanum, vissu til dæmis upp á hár hvernig hárauður kjóll kæmi út í svart/hvítri mynd. Svo litir hafa alltaf skipt máli í kvikmyndum. En þeir skipta jafnvel enn meira máli nú til dags.

Sumir kvikmyndaleikstjórar nota liti mjög meðvitað. Meðal þeirra eru Kieslowski heitinn, Ingmar Bergman, Sally Potter og mexíkóski leikstjórinn Alfonso Cuarón. Aðrir nota liti markvisst án þess að gera sér grein fyrir því. Oft er það þannig að leikstjórar fullyrða að þeir noti ekki tákn. En hefðir fyrir merkingu ýmis konar tákna og lita fléttast inn í allt okkar umhverfi og menningu og oft á tíðum tökum við alls ekki eftir því af því að það er eitthvað svo sjálfsagt. Þannig er það með suma leikstjóra líka… þeir segjast ekki nota tákn vegna þess að þeir gera það ómeðvitað. Ég ætla hér sérstaklega að fjalla um litanokun leikstjórans Krysztof Kieslowski í Þríleik hans, Bláum, Hvítum og Rauðum.

Pólski leikstjórinn Krysztof Kieslowski fæddist í Varsjá 27. júní 1941, en lést fyrir aldur fram þann 13. mars 1996 eftir hjartaaðgerð. Eftir Kieslowski liggja margar perlur kvikmyndasögunnar, bæði heimildamyndir og leiknar kvikmyndir. Þær myndir Kieslowski sem flestir þekkja eru án efa þríleikurinn, “Þrír litir: Blár, Hvítur, og Rauður og eflaust muna líka margir “Tvöfalt líf Veróníku”, mynd um unga stúlku og tvífara hennar og nöfnu. Segja má að með röð tíu þátta fyrir sjónvarp, byggðum á boðorðunum tíu, hafi meistari Kieslowski verið kynntur fyrir umheiminum. „Dekalog“ (Boðorðin tíu, 1988) eru enn sýnd á sjónvarpsstöðum um allan heim og í augum sumra sýna þau snilli Kieslowskis sem sögumanns og frábærs leikstjóra best af öllum hans verkum. Ég gæti talað lengi um Kieslowski og feril hans en það eru litirnir sem við beinum sjónum að núna. Ég tek hvern lit fyrir sig, segi frá ýmsum metafórum og erkitýpum sem tengist honum í mismundandi samfélögum og segi frá notkun hans í mynd Kieslowski. Vonandi höfum við líka tíma til að sýna stutt brot úr myndunum sem styðja frásögnina.

Það er stundum sagt að litir séu lykillinn að sál fólks vegna þess hve vel þeir nái til undirmeðvitundarinnar. Hver einasti litur í litaskalanum setur fram þögla yfirlýsingu til áhorfandans. Hvernig áhorfandinn nemur litinn er svo undir ýmsu komið, til dæmis hvernig augu hans meðtaka liti, og hvaða áhrif umhverfi, samfélag og menning hafa haft á viðkomandi.

Lita-sálarfræði er ónákvæm og frekar óljós vísindagrein sem átti lengi framan af erfitt uppdráttar sem alvarleg vísindagrein. Hins vegar hefur hún jafnframt verið ein sú allra vinsælasta. Litir tengjast tilfinningum og hafa áhrif á undirmeðvitundina. Flestir hafa heyrt um helstu áhrif lita á tilfinningar okkar, til dæmis að litir sem flokkaðir eru sem hlýjir eða heitir litir eins og appelsínugulur og rauður gefa frá sér strauma sem eru spennandi og líflegir.

Rauður

Rauður.Vissar metafórur eða erkitýpur virðast tengjast ákveðnum litum. Ef við tökum rauðan sem dæmi þá er það sá litur sem snýst allra mest um tilfinningar, tengist gjarnan ást, kynlífi, orku, eldi og hættu. Í sumum tilfellum er rauður tengdur við grimmd, árásargirni, stríð, reiði skömm og jafnvel synd en allir litir hafa tvöfalda merkingu bæði jákvæða og neikvæða. Flest höfum við tilhneygingu til að tengja rauðan við stöðvunarskyldumerki, brunaboða, blóð, rósir og helvíti.

Í alþýðumenningu er rauði liturinn litur ástar og ástríðu. Yfirleitt í tengslum við blóm, oftast rósir, og hjörtu. Til eru ótal orðatiltæki þar sem rauði liturinn kemur við sögu, eins og að við segjums „sjá rautt“ þegar við erum reið og á ensku er stundum sagt: „today red, tomorrow dead“ sem gæti útlagst: í dag rauð á morgun dauð. Rauð ljós á næturklúbbum standa fyrir ástríðu og jafnvel vændi meðan rautt umferðarljós þýðir stop!

Frá upphafi hafa ólíkir menningarheimar notað liti í margbreytilegum tilgangi, rétt eins og við gerum nú til dags og rauði liturinn hefur fylgt manninum frá fyrstu tíð, svo ég haldi áfram með hann. Hellisbúar notuðu rauðan lit, járnblöndu, til að mála á hellisveggi fagra list sem við dáumst að enn að. Neanderdals menn lituðu lík með rauðum lit, sennilega til að reyna að gefa þeim aftur hlýju með lit blóðs sem táknaði líf.

Í sögunni hefur rauði liturinn haft mismunandi merkinu eftir löndum og þjóðflokkum. Í Egyptalandi til forna voru dýr sem voru rauð að lit hötuð vegna þess að rauði liturinn tengdist ofbeldi þar. Í fornri list Mexíkóa var rauði liturinn sjaldséður en þegar hann var notaður var það til að mála blóð, eld eða sólina. Rauður stóð fyrir austur hjá Maya Indíánum en í Mexíkó til forna táknaði hann suðrið.

Í Kína táknaði rauði liturinn einnig suðrið til forna og á tíma Chou (keisara) veldisins, 1056-258 fyrir Krist var rauður heilagur litur, litur sem gaf líf. Rauður var einnig litur gæfu Guðsins sem útdeildi auði til fólks. Við tengjum enn rauða litinn við Kína, en nú til dags er tengingin við kommúnismann og rauða fánann.

Í hefðbundinni list Kristninnar var rauði liturinn litur Krists, litur blóðs og píslarvættisins. Ennfremur stóð rauði liturinn fyrir einlæga ást, eins og ást Jóhannesar á meistara sínum Jesú Kristi. Jóhannes er oft íklæddur rauðu á málverkum.

Hins vegar hefur rauði liturinn tvöfalda merkingu í Kristninni, því að syndugar konur klæddust yfirleitt rauðu eins og til dæmis Babylon, móðir allra gleðikvenna og syndar á jörðinni. Þess má geta að heiðin tákn voru einnig oft máluð með rauðu.

Rauður Kieslowskis

Og þá er það rauði liturinn í mynd Kieslowskis Rauðum frá 1994.

„Rauður“ segir frá ungum nema og fyrirsætu, Valentine, sem verður fyrir þvíað keyra á hund. Hún fer með hundinn til eigandans, dómara á eftirlaunum, og með þeim þróast sérkennilegt vináttusamband.

Kieslowski vildi ekki viðurkenna að hann notaði symbol eða tákn meðvitað í myndunum sínum en sagði nú samt að rauði liturinn í Rauðum væri ekki til skrauts. Hver einasti rauður hlutur í myndinni hefði ákveðna merkingu. Svona yfirlýsingar eru náttúrulega skemmtileg áskorun og hægt er að sjá þetta greinilega með því að rýna í Rauðan.

Í upphafsatriðinu áður en myndin hefst sjáum við Auguste, sem er einn af aðal söguhetjunum, reyna að hringja í kærustuna sína. Við fylgjum símaþráðunum frá hans símtóli niður á hafsbotn, eftir símalínunum og áfram upp í símtól stúlkunnar. Hún er að tala í símann svo blikkandi ljós sést sem, táknar að síminn sé á tali. Þetta er mjög rautt atriði. Hankarnir sem festa símalínurnar eru rauðir og í lok atriðisins fyllir rautt blikkandi ljós hálft tjaldið. Það er vel hægt að skilja það sem svo að þetta rauða blikkandi ljós sem Auguste fær þegar hann reynir að ná til elskunnar sinnar tákni; Stopp! Þetta ástarsamband er í hættu!… þar sem rauði liturinn getur staðið fyrir, ást, hættu og stöðvun.

Í herbergi Auguste er mikið af rauðum hlutum, stóll og borð svo eitthvað sé nefnt. Hann á líka rauðan bíl sem er sýndur mjög oft í myndinni. Reyndar er það ekki einungis hans bíll sem er rauður í myndinni, nokkrir aðrir líka svo sem bíll fíkniefnasala.

Skömmu eftir að okkur er sýnt herbergi Auguste með öllum þessum rauðu hlutunum læðist myndavélin upp að glugganum á herbergi aðalpersónunnar, Valentine. Í gegnum gluggann sjáum við að herbergi Valentine er einnig fullt af rauðum hlutum. Það er rauður dúkur á borðinu og á rúminu liggur rauður jakki, sem við komumst síðar að að tilheyrir elskhuga hennar sem er fjarverandi. Seinna sjáum við að eitt og annað er rautt í eldhúsinu og sturtuhengið er líka rautt.

Valentine klæðist líka einhverju rauðu í flestum senum myndarinnar og varirnar eru alltaf blóðrauðar. Nafn hennar er rautt nafn, Valentine eins og í Valentínusardegi, degi elskenda.

Svo Valentine og Auguste eru kynnt til sögunar sem rauða fólkið, fólk ástarinnar. Þau hittast ekki og verða ástfangin í myndinni. Hins vegar gefur Kieslowski það í skyn alla myndina að það eigi eftir að gerast og í lokin, þegar við sjáum þau örstutt saman sem fólk sem bjargast í ferjuslysi, verðum við samstundis sannfærð um að þau eigi eftir að verða elskendur.

Ótal fleiri hlutir í myndinni eru rauðir, veggir í balletsal, keilukúla, stólar og veggir í keiluhöll, borðdúkur á veitingahúsi, umferðarljós, stöðvunarskilti, blóð á hundinum Ritu, ól sem Rita hefur um hálsinn, umhverfi á dýraspítala, rautt ljós í myrkraherbergi ljósmyndara, föt björgunarfólks, við sjáum líka rautt plötuumslag, bókarkápu, leikhústjöld og svona mætti lengi telja. Þá eru ferjumiðarnir líka rauðir eins og þeir séu fyrirboði um ferjuslysið síðar í myndinni.

Lýsingin er einnig oft á tíðum rauðleit, rauður filter notaður á linsu og alls konar rauður bakgrunnur í mörgum senum.

En hvað þýðir þá rauði liturinn í Rauðum, mynd pólska leikstjórans Kieslowski? Hann getur víða staðið fyrir hlýju, eða ást og ástríðu en annars staðar fyrir hættu og viðvörun.

Hvítur

HvíturOg þá er það hvíti liturinn. Hægt er að líta á hvíta litinn annað hvort sem hlutlausan, hálfgert litleysi eða sem hina fullkomnu blöndu allra lita. Það er ljósið sem hefur allt að segja. Hvíti liturinn táknar það sem enn er óspillt, fullkomið sakleysi í Paradís fyrir spillinguna og getur speglað markmið mannsandans að komast í það ástand aftur.

Hvíti liturinn táknar hreinleika, sakleysi, og hefur trúarlega tenginu samanber hvíta prestakraga og prestklæði sem tákn fyrir hreinleika og sannleika og sömu tilvísun hafa skírnar- og brúðarkjólar. Þessi hvítu klæði sem tákna hreinleika eiga sér langa sögu því vitað er að Pythagoras sagði söngvurum að bera hvít klæði þegar þeir væru við sálmasöng. Svo má ekki gleyma því að hvít dúfa hefur lengi verið tákn heilags anda.

Í neikvæðri merkingu getur hvítt tengst dauðanum, líkklæði eru hvít þó það sé í sjálfu sér ekki neikvætt… það er búið að hreinsa sálina af öllum tilfinningum og því er við hæfi að líkið sé hvítklætt. Hvítur hestur í draumi er fyrirboði um andlát.

Draugar eru hvítir þjóðtrú víða um heim og sú mynd af þeim hefur færst yfir í teiknimyndir og kvikmyndir. Þá er hvítur líka litur siðvendni og jómfrúrlitur. Mjög sterk hefð er fyrir því hvernig hvíti liturinn er notaður í kvikmyndum.

Hvítur Kieslowskis

Hvítur“(1993) er um mann, Karol Karol, sem missir getuna á brúðkaupsdaginn og getur ekki notið ásta með eiginkonu sinni upp frá því. Á húmorískan, en þó nærfærinn hátt er fylgst með hvaða afleiðingar þetta hefur.

Hvíti liturinn er oft tákn sem tengist sakleysi eða dauða og þannig er það líka í Hvítum Kieslowskis. Dominique, hin unga brúður Karol Karol, er sakleysið uppmálað með hvítt slör sem flögrar um eins og englavængir. Karol er vissulega líka saklaus þó hann sé fyrir rétti, eini glæpurinn sem hann hefur framið er að geta ekki fullkomnað hjónabandið. Hann missir allt sitt vegna þess, eiginkonu, vinnu, kretitkort og allar sínar eigur. Þegar dómarinn veitir Dominique skilnað hleypur Karol inn á baðherbergi og gubbar í hvítt klósett. Veggirnir eru líka hvítir. Karol klæðist alltaf hvítri skyrtu eða hvítum nærbol. Hvíti liturinn er svo enn meira áberandi þegar neðra andlit hans er þakið hvítri raksápu meðan hann talar við bróður sinn, Jurek. Vinnufötin hans, rakarasloppurinn, er líka hvítur.

Karol Karol er einfaldur, lítill maður þegar myndin hefst. Meira að segja dúfurnar velja hann til að drita á. Þær skilja eftir sig hvítan dúfnaskít sem hann reynir að þurka af frakkanum sínum með vasaklút. Dúfur koma oft fyrir í myndinni. Karol virðist vera hrifinn af þeim, brosir þegar hann sér þær nema þegar þær drita á hann.

Í endurliti (flashback) sjáum við nýgift parið, Dominique og Karol, ganga í átt að kirkjudyrunum að loknu brúðkaupinu og fyrir utan opna kirkjuhurðina eru dúfur. Seinna í myndinni í samskonar endurliti kyssast þau með dúfurnar í bakgrunni. Þegar þau kyssast fljúga dúfurnar upp og tjaldið verður alhvítt.

Sami ”effekt” er notaður aftur síðar í myndinni, Dominique og Karol elskast og tjaldið verður alhvítt í smástund þegar hún fær í fyrsta sinn fullnægingu með honum.

Lýsingin er oft mjög hvít í myndinni og sumar senur yfirlýstar örlítið viljandi. Allra hvítasta senan er þegar Karol fylgist með Dominique yfirgefa hann í hvítum bíl. Hvíta ljósið er líka oft notað til að lýsa upp hluta andlita í annars dökkum senum. Andlit Dominique er alltaf snjóhvítt, ljósið sér um það. Hún er eins og hvít postulínsstytta. Eins og styttan sem Karol Karol tekur með sér til Póllands og gerir að hálfgerðum staðgengli hennar.

Þegar Karol er kominn til Póllands sýnist borgin Varsjá alltaf hvít í bakgrunni fjölda sena. Stundum gera snjór eða frosnar tjarnir myndina jafnvel ennþá hvítari. Umhverfið er mjög hvítt, bæði innanhúss og utan. Veggir í húsum eru hvítir, götuljósin eru hvít, hvít gluggatjöld, gluggaumgjarðir líka, hvítar hurðir, hvítar flísar á lestarstöðinni og flestir bílanna eru hvítir. Meira að segja flugvélin og stigin upp í hana eru notuð sem hvítur bakgrunnur fyrir Karol sem ekki sést þá, enda lokaður niðri í ferðatösku.

Þegar þjófar stela töskunni og fara með hana á afvikin stað velja þeir snævi drifnar hæðir og þegar þeir sjá sér til mikilla vonbrigða að taskan inniheldur engin verðmæti, heldur Karol, henda þeir honum í snjóinn og skilja hann þar eftir.

Í öllum herbergjum er mikið um hvíta hluti. Í herbergi Karols í húsi bróður hans í Póllandi eru tveir hvítir lampar, hvítur blúndudúkur, hvít gluggatjöld, hvítt símtæki, hann drekkur kaffið sitt úr hvítri könnu, og á hvítri hillu er hvít stytta og hvítt box við hliðina á henni.

Hvítur pappír er líka áberandi í myndinni, dómarinn í byrjun myndarinnar handleikur hvíta pappíra, svo eru það hvít skírteini, hvítar teikningar af landinu sem Karol kaupir, reikningar, dánarvottorð, blaðsíður úr bókum, hvítur pappakassi sem hann geymir peningana sína í og síðast en ekki síst hvíti pappírinn sem hann setur á greiðuna sem hann spilar á.

Blár

BlárBlái liturinn er dreyminn og andlegur og hann er jafn kaldur og rauði liturinn er heitur og ástríðufullur. Blár er litur stöðugleika og öryggis og vekur traust. Sálfræðingar sem hafa rannsakað undirmeðvitundina segja bláa litinn þann lit sem hjálpar best til að slaka á spennunni innra með okkur. Sá blái er mildur, léttur og skapar þægilega afstöðu til lífsins.

Fyrst og fremst hefur blár verið litur himinsins. Í Egyptalandi til forna tengdist blái liturinn Amon Ra, guði himins. En tengsl við hafið og vatn almennt eru lika sterk. Stundum hefur blár litur líka verið sagður miðill sannleikans, gegnsær svo sem í vatni, lofti, kristal og demanti. Því er blátt litur stöðuleika og litur þess sem alltaf verður til og við getum treyst.

Og hann stendur fyrir frið, trú, einlægni og sannleika. Guðinn Óðinn klæðist blári skikkju, María mey klæðist bláu og þegar Jesús kennir lærisveinunum er hann íklæddur bláu. Blár er litur sem táknar sannleika guðs og eilífleika og hefur því gjarna verið notaður sem tákn um ódauðleika.

Í þjóðtrú í mið-Evrópu er blátt litur trúmennsku og heiðarleika en svo hefur hann einnig verið litur þess sem er svolítið leyndardómsfullt eða erfitt að útskýra.

Í pólitískri merkingu er þetta alls staðar í vestrænum heimi eins og hér, litur sem stendur fyrir konservatíva eða íhaldssama flokka. Blár er mjög ráðandi litur í kvikmyndum, til dæmis sem himinn eða vatn. Þekkt er að nota sjó, öldur eða bara rennandi vatn til að skapa ákveðna stemmingu, og ef grannt er skoðað er til dæmis mjög algengt að fólk klæðist bláu í kvikmyndum. Það er heldur engin tilviljun að svo margir einkennisbúningar eru bláir. Ekki síst hjá flugfélögum og bönkum svo dæmi séu tekin, þar sem mikilvægt er að umhverfið kalli fram traust og rósemi.

Grábláu jakkafötin sem forsetar og stjórnmálamenn kæðast gjarna eru líka gott dæmi. Rautt bindi er punkturinn yfir i-ið, gott til að sýna að þrátt fyrir allt öryggið og stöðugleikan sem fötin gefa til kynna búi þeir yfir þeirri glóð og ástríðuhita sem þarf til að vera góður leiðtogi.

Blái liturinn tengist stundum ákveðnum trega og eftirsjá… allir þekkja tónlistina sem við köllum í daglegu tali Blús. Í árdaga var blár litur ekki mikið notaður og ástæðan var trúlega sú að það var svo erfitt að komast yfir efni til að blanda hann.

Blár Kieslowskis

Og þá snúum við okkur að “Bláum” úr smiðju Kieslowski. „Blár“ (1993) segir frá konu, Julie, sem missir fjölskyldu sína í bílslysi. Myndin sýnir hvernig hún tekst á við sorgina og reynir að hefja nýtt líf. Er sá sem elskar nokkru sinni frjáls?

Í byrjun myndarinnar rétt fyrir bílslysið sjáum við bláan bíl keyra. Þetta er djúpblár fjölskyldubíll, og inni í honum eru hjónin Julie og Patrice og dóttirin Anna. Myndavélarauganu er beint að undirvagni bílsins annað slagið… við fáum á tilfinninguna að eitthvað sé að. Það er ekki einungis sýnt undir bílinn, þess á milli eru víð skot sem sýna að fólkið er greinilega á ferð snemma morguns. Blátt mistur liggur yfir öllu, og meira að segja vegurinn er frekar blár en grár. Þessi bláa birta er mjög greinileg og áberandi ekki síst þegar Anna litla þarf að fara út úr bílnum til að pissa.

Mikið af bílunum sem við sjáum í myndinni eru frá gráum lit og yfir í svartan, en alltaf með bláum tón. Það er að segja þeir bílar sem ekki eru alveg bláir. Meira að segja Sandrine á blágráan bíl. Sandrine er ástkona Patrice, Julie kemst að því um miðja mynd að eiginmaður hennar hafði átt ástkonu og hún er ber barn hans undir belti. Oliver er sá eini sem á vínrauðan bíl, enda sker hann sig virkilega úr. Oliver er tónskáld, vinur og samstarfsmaður Patrice og Julie. Hann er ástfanginn af Julie.

Snemma í myndinni, rétt fyrir bílslysið, hendir Anna, dóttir Julie, bláum glanspappír utan af bláum sleikipinna út um bílrúðuna. Blái pappírinn flýgur upp til himna, rétt eins og fyrirboði um að skömmu síðar fljúgi sál litlu stúlkunnar sömu leið… upp til himna. Síðar í myndinni finnur Julie samskonar sleikipinna í veskinu sínu. Hún bryður hann í uppnámi og reiði, það er eins og hún sé að reyna að kyngja sorginni og sársaukanum svo hún geti hafið nýtt líf. Að mínu mati eru þessi viðbrögð Julie við sleikipinna Önnu, sem hún finnur óvænt í veskinu, sterkasta táknið um að hún getur ekki útilokað minningarnar. Bláa glerdropaljósakrónan úr herberginu hennar Önnu er það eina úr fortíðinni sem hún tekur viljandi með sér inn í framtíðina.

Atriði á spítalanum eftir að Julie hefur gert sér grein fyrir að fjölskylda hennar er látin er líka mjög blátt. Oliver tekur með sér lítið ferðasjónvarp til þess að Julie geti horft á jarðarför feðginina. Þegar Oliver kveikir á sjónvarpinu er á skjánum mynd af bláum himni og fallhlífastökkvara sem svífur um í blámanum. Aðrar myndir á sjónvarpsskjám sem við sjáum í „Bláum“ eru í sama stíl. Gamall maður í teygjustökki, blár himinn í bakgrunni og maður sem gengur á línu með sama bláa bakgrunni. Þessar myndir sýna allar ákveðið frelsi, frá upphafi hefur mannkynið dreymt um að geta flogið um frjáls eins og fuglinn.

Julie klæðist svörtum og bláum fötum alla myndina. Eina undantekningin er hvíta sjúkrahústreyjan og og hvíti bolurinn sem hún sefur í. Annars er hún alltaf í svörtu og bláu. Oftast bláum gallabuxum, svörtum toppi og svörtum jakka. Á ensku er að vera blá og marin, “black and blue” og það má segja að hún sé “black and blue” bæði að utan og innan. Aðrir í myndinni klæðast gjarna gráu, einnig svörtu og bláu munurinn liggur í að það er stundum, en ekki einungis eins og Julie.

Allir sem eru viðstaddir jarðarförina klæðast bláu, gráu, blágráu og svörtu. Gestirnir, tónlistarfólkið, fjölmiðlafólkið og ræðumaðurinn. Það er svo sem mjög eðlilegt þar sem um jarðarför er að ræða en þarna er blái tóninn yfir öllu því gráa og svarta.

Þegar Julie lokar augunum og heyrir tónverkið, Óð til sameinaðrar Evrópu, í huganum lýsir blátt ljós upp andlitið á henni, stundum allt, stundum hluta þess. Hún situr með lokuð augu en opnar þau eldsnöggt og heyrir tónlistina. Svipurinn er eins og hún hafi séð draug. Minningarnar sækja á hana. Þetta gerist tvisvar, í seinna skiptið þegar hún lokar sig úti og eyðir nóttinni á stigapallinum fyrir framan íbúðina. þetta virðist gerast þegar Julie er milli svefns og vöku. Eitt skipti þegar hún slær nokkrar nótur á píanóið en lokar því snöggt aftur kemur speglun af bláu ljósi á andlit hennar.

Það er blár veggur fyrir utan spítalann sem vekur athygli manns þegar fréttakona sem er að búa til þátt um Patrice heimsækir Julie á sjúkrahúsið. Blái liturinn af veggnum speglast á andliti Julie og svo fyllir blái veggurinn hálft tjaldið nokkrum sinnum, eins og til að halda fréttakonunni í hæfilegri fjarlægð frá Julie, enda vill hún ekki tala við hana.

Þegar Julie kemur heim til sín í fyrsta skipti eftir slysið spyr hún hvort búið sé að tæma bláa herbergið. Við sjáum strax í framhaldi af því að bláa herbergið var herbergi dóttur hennar, Önnu. Þegar Julie kemur inn í herbergið sér hún að bláa glerdropaljósakrónan hangir þar enn. Í uppnámi rífur hún niður nokkra glerdropa og kreistir þá í lófanum. Glerdroparnir hafa lögun tára sem undirstrika sorg Julie þegar hún er minnt á missinn með því að horfa á ljósakrónuna í herbergi Önnu. En svo er ljósakrónan það eina sem hún tekur með sér til Parísar.

Gegnum alla myndina er mikið um speglanir frá glerdropum krónunnar, myndrænar og fallegar. Stundum dansa geislarnir frá bláu glerinu á andliti eða hendi Julie. Ljósakrónan er stundum í forgrunni og athygli er dregin að henni þegar Lucille minnist á hana og segist hafa átt svona krónu í æsku. Julie verður svolítið órótt þegar Lucille kemur við glerdropana, ljósakrónan er það dýrmætasta sem Julie á og engin annar má snerta hana. Julie hefur selt allt annað í viðleitni sinni til að fá frelsi frá fortíðinni, en bláa glerdropaljósakrónan er tákn um ást hennar á dótturinni Önnu, tákn um ást og minningar sem hún getur ekki flúið. Andi Önnu fylgir henni á vissan hátt með ljósakrónunni.

Mappan sem geymir nótnablöðin og myndirnar sem Patrice lét eftir sig er blá. Blekið sem hann hefur notað til að skrifa nóturnar er líka oftast blátt. Og Julie skrifar nóturnar með bláu.

Julie fer fjórum sinnum í sund í myndinni. Alltaf þegar hún er í miklu uppnámi og reynir að kæfa minningarnar. Í þremur af fjórum skiptum er laugin blárri en ella. Það er notaður blár filter á linsuna til að ná því fram. Eina skiptið sem laugin er bara eðlilega bláleit er þegar Lucille kemur að tala við hana, þá er hún ekki ein og því er liturinn eðlilegur.

Þegar hún er ein er blái liturinn sterkari. Um leið og hún heyrir tónlistina í huganum kafar hún djúpt niður í vatnið. Kæfir erfiðar minningar.

Julie fer á nektarstaðinn sem Lucille vinnur á og sér, fyrir algjöra tilviljun, heimildaþáttinn sem fréttakonan var að gera um Patrice. Öll senan er ótrúlega blá. Það er ekki bara blámi sjónvarpsskjássins; Bakgrunnurinn bak við Oliver í viðtali í þættinum er blár, allt fólkið á myndunum úr lífi Patrice klæðist bláu, grábláu eða svörtu og sumar myndirnar… sérstaklega myndirnar af Julie… eru hreinlega í bláum tón. Skærasti blái liturinn í þessari senu er þó litur fata Sandrine á mynd þar sem hún hallar höfði sínu að brjóstkassa Patrice. Myndin sem segir Julie að önnur kona hafi verið í lífi mannsins hennar.

Þegar Oliver spilar fyrir Julie á píanóið sér maður að nóturnar sem hann hefur skrifað eru bláar, blái liturinn tengist tónlistinni sterkt í myndinni. Í hvert sinn sem við heyrum tónlist Patrice, Julie eða Oliver sjáum við blátt ljós, speglun eða skugga.

Í lokasenunni þegar líf Julie rifjast upp fyrir henni meðan á samförum hennar og Oliver stendur eru myndbrotin úr lífi hennar blá. Sjónvarpsskjárinn sem móðir hennar horfir á, Lucille að horfa á tvo dansara í bláu ljósi, skjárinn þar sem sónarmynd af fóstri Sandrine sést. Sandrine snertir skjáinn eins og hún sé að reyna að snerta ófætt barnið, nákvæmlega á sama hátt og Julie snertir skjáinn þegar hún horfir á jarðarförina… snertir litlu kistuna sem Anna liggur í, eins og hún sé að reyna að snerta látið barn sitt.

Þess má geta að filterar sem eru brúnir með gylltum tón eru notaðir gegnum myndina sem mótvægi við bláa litinn. Reyndar er þessi gulbrúni tónn notaður í öllum myndum þríleiksins, Bláum, Hvítum og Rauðum og tengir þær á ákveðin hátt.

þær hefðir sem skapast í kvikmyndum oftast rætur í daglega lífinu og þannig er það einnig með litanotkun. Þegar að er gáð hafa skapast mjög margar hefðir um litanotkun sem er fylgt eftir, í sumum tilfellum meðvitað af leikstjórum eða listrænum stjórnendum eða ómeðvitað vegna þeirra áhrifa sem viðkomandi leikstjóri hefur orðið fyrir af umhverfinu.

Heimildir

Andrew, Geoff & Rew, Geoff; The Three Colours Trilogy (Bfi Modern Classics) . The British Film Institute. 1998.
Biedermann, Hans; Symbol Lexikonet. Bokförlaget Forum, Stockholm, 1991
Burger, Jeff; The Desktop Multimedia Bible. Addison-Wesley Publishing Company, 1992
Cooper, J. C.; Symboler – En uppslagsbok. 1986
Insdorf, Annette; Double Lives, Second Chances. The Cinema of Krzysztof Kieslowski . Hyperion, 1999
Kandinsky, Wassily; Concerning The Spiritual In Art. Dover Publications, Inc, New York,1977
Miller M. D. & Zaucha R.; The Color Mac. Haydens Books, 1995
Noble, Mary & Waddington, Adrian; The Art of Color Calligraphy. Quarto, Inc., 1997
Stok, Danusia; Kieslowski On Kieslowski. Faber and Faber Limited, London, 1993
Og myndirnar, Blár, Hvítur og Rauður