Leikstjórn: Silvio Narizzano
Handrit: Masolino D’Amico og Win Wells, byggt á sögu eftir Rafael Sánchez Campoy
Leikarar: Franco Nero, Telly Savalas, Mark Lester, Ely Galleani, Maria Michi, Britta Barnes, Bruno Boschetti, Jean-Pierre Clarain, Beatrice Clary, Aldo De Carellis og Duilio Del Prete
Upprunaland: Ítalía og Bretland
Ár: 1972
Lengd: 85mín.
Hlutföll: 1.37:1 (var sennilega 1.85:1)
Einkunn: 2
Ágrip af söguþræði:
Allt fer á versta veg þegar þrír ólánsamir smáglæpamenn ræna gimsteinaverslun. Afgreiðslumaðurinn er skotinn til bana um leið og honum tekst að setja viðvörunarkerfið í gang en fyrir vikið ná smáglæpamennirnir ekki þeim mikla feng sem þeir sóttust eftir. Á flóttanum undan lögreglunni lenda þeir síðan í árekstri og neyðast til að ræna nýjum bíl fyrir allra augum. Nokkru síðar átta þeir sig á því að stráklingur hefur falið sig undir feldi í aftursætinu og ákveða þeir að taka hann sem gísl.
Almennt um myndina:
Hrottafengin ítölsk-bresk sakamálamynd með tónlist sem í sumum tilfellum ætti betur heima með gamanmynd, t.d. í atriðinu þar sem smaladrengur er skotinn til bana með köldu blóði. Persónusköpunin er í flestum tilfellum nokkuð heilsteypt þó svo að framvinda sögunnar sé á köflum ekki alveg nægilega sannfærandi.
Franco Nero er fínn í hlutverki eins af smáglæpamönnunum, sem reynist ekki svo slæmur inn við beinið en Telly Savalas er samur við sig í hlutverki stórhættulegs trúarbrjálæðings. Vinkona þeirra og hjálparhella er leikin af hinni fögru Ely Galleani sem m.a. lék í gulu myndinni Five Dolls for an August Moon (Mario Bava: 1970). Barnastjarnan Mark Lester leikur gíslinn eins og væri hann Olíver Twist en hann er einmitt hvað þekktastur fyrir það hlutverk í dans- og söngvamyndinni Oliver! (Carol Reed: 1968).
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Telly Savalas sönglar jafnan þekkt dægurlag um Jesúm Krist sem elski öll smábörn heimsins af hvaða kynþætti sem er. Það kemur samt ekki í veg fyrir að hann myrði mann og annan, þar á meðal börn. Í raun er persónusköpun hans mjög í anda trúarbrjálæðingsins, sem hann lék í stríðsmyndinni The Dirty Dozen (Robert Aldrich: 1967), en sá var með ritningarvers stöðugt á vörum og taldi sig eiga að tortíma öllum siðleysingum, ekki síst konum.
Á flóttanum til landamæranna skammar Savalas svo drenginn fyrir að hafa vanrækt kristnifræðinámið þegar hann kannast ekki við söguna af því þegar Guð frelsaði lýð sinn út úr þrældóminum í Egyptalandi, sem frá er greint í II. Mósebók. Smáglæpamennirnir reynast þó enginn lýður Guðs enda allir drepnir áður en þeir ná til fyrirheitna landsins handan landamæranna. Það er eins og segir í Saltaranum: „Því að Guð þekkir veg réttlátra, en vegur óguðlegra endar í vegleysu.“ (Sl 1:6.)
Beinar tilvísanir í texta trúarrits: 2M 13:17-22, 14:1-31
Hliðstæður við texta trúarrits: Sl 1:6
Persónur úr trúarritum: Jesús Kristur, Móse
Guðfræðistef: kraftaverk, kærleikur Krists, blóð Krists, samviskan, sekt, exódus
Siðfræðistef: rán, morð, ofbeldi, nauðgun, mannrán, siðblinda
Trúarleg tákn: líkkistukross
Trúarlegt atferli og siðir: sálmasöngur, bæn