Kvikmyndir

Rembrandt

Leikstjórn: Jannik Johansen
Handrit: Anders Thomas Jensen, Jannik Johansen
Leikarar: Lars Brygman, Sonja Richter, Nikolaj Coster Waldau, Jakob Cedergren, Nocolas Bro, Paprika Steen og Sören Pilmark
Upprunaland: Danmörk
Ár: 2003
Lengd: 109mín.
Hlutföll: 1.85:1
Einkunn: 2

Ágrip af söguþræði:
Fjórir smákrimmar eru fengnir til að stela málverki. Ránsferðin er vel heppnuð og gengur nánast áfallalaust fyrir sig, en í misgripum stela þeir vitlausu málverki: Eina Rembrandt málverkinu sem er til í Danmörku. Enda þótt auðvelt hafi verið að stela málverkinu þá reynist þeim erfiðara að selja það.

Almennt um myndina:
Rembrandt er fimmta kvikmynd danska leikstjórans Janniks Johansen og byggir hún á sannsögulegum atburðum, en feðgar stálu Rembrandt málverki í Danmörku árið 1999. Myndin er ágætlega leikin, en Lars Brygman, sem leikur föðurinn Mick, ber þar af enda hann hefur fengið verðskuldað lof fyrir leik sinn.Rembrandt siglir á sömu mið og myndir á borð við I Kina spiser de hunde (1999) og Gamle mænd i nye biler (2002) eftir Lasse Spang Olsen sem og Lock, Stock and Two Smoking Barrels (1998) og Snatch (2000) eftir Guy Ritchie. Þessi mynd er þó laus við hraðann og flóknar fléttur fyrrnefndra mynda en leggur þeim mun meiri áherslu á persónusköpun og dýpt.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Kvikmyndin geymir athyglisverðar hliðstæður við nokkra ritningartexta, skemmtilega sögu af endurlausn og ógrynni af siðferðisstefjum.

SiðferðisstefEins og á við um flestar glæpamyndir er Rembrandt uppfull af siðferðisstefjum. Aðalsöguhetjurnar eru smákrimmar sem eru fastagestir fangelsa ríkisins, þó vanalega stuttan tíma í senn, enda láta þeir sér nægja að stela brotajárni og öðru jafn ómerkilegu. Það er áhugavert að það skuli enginn heiður gilda á meðal þjófa og fjölskyldubönd hafa þar enga merkinu. Þannig svíkur faðir Micks fjórmenningana og vísar einum þjófinum á þá til að stela málverkinu. Þegar gengið er á hann svarar hann eitthvað á þessa leið: „Hann bauð betur.“

Í myndinni er einnig komið nokkuð inn á áfengis- og spilafíkn. Hvað spilafíknina varðar þá lýsir myndin vel því siðferðilega gjaldþroti sem fórnarlömb hennar verða fyrir. Kenneth, einn fjórmenningana, er svo pikkfastur í skuldafeni að hann er tilbúinn að svíkja og jafnvel drepa þá einu sem höfðu reynst honum vel í lífinu.

Í myndinni koma jafnframt fyrir fordómar í garð eldra fólks, en ein algengasta svívirðingin er að kalla sér eldri menn gamla skúrka.

Sódóma og GómorraÞað er áhugavert að samfélagið sem myndin birtir er gjörspillt, í raun svo spillt að leitun er að heiðarlegri og góðri mannesku. Þannig eru flestir þjófar, morðingjar, vændiskonur o.s.frv. Feður svíkja syni sína, vinir vini sína og ein eiginkonan á sér elskhuga með vitund og samþykki eiginmanns síns. Meira að segja lögreglan er spillt og brýtur landslög til að ná sínu fram. Myndin gerist því í nokkurs konar Sódómu eða Gómorru.

Eplið og eykin – syndir feðrannaÍ myndinni sjáum við þrjár kynslóðir þjófa. Faðir Micks, Frank, er þjófur, Mick er þjófur og Tom sonur hans er þjófur. Í upphafi myndarinnar er einnig ljóst að það er ekkert sérstaklega gott samband milli þessara feðga. Samband Franks og Micks kristallast kannski í orðum sem faðirinn lét falla þegar móðir Micks var jarðsungin: „Þú skalt ekki búast við því að fá jafn mikla athygli og þú fékkst meðan móðir þín var enn á lífi.“

Greinilegt mynstur virðist vera fyrir hendi hjá þessum feðgum: Sérhver faðir hefur vanrækt son sinn og uppeldi hans og í það heila verið honum slæm fyrirmynd. Afleiðingin er sú að allir hafa þeir fetað í fótspor feðra sinna. Þetta minnir á textann um syndir feðranna í Gamla testamentinu:

„Drottinn, Drottinn, miskunnsamur og líknsamur Guð, þolinmóður og harla trúfastur, sem auðsýnir gæsku þúsundum og fyrirgefur misgjörðir, afbrot og syndir, en lætur þeirra þó eigi með öllu óhegnt, heldur vitjar misgjörða feðranna á börnum og barnabörnum, já í þriðja og fjórða lið.“ (2M 34.6-7)

Áhugavert er að skoða þessi orð í ljósi orða móður Micks sem á að hafa sagt: „Það er aldrei börnunum að kenna.“ Skilja má þessi orð hennar á þann veg að börn beri ekki ábyrgð á gjörðum sínum, enda eru þau afurð foreldranna, ef svo má að orði komast.

Vonin um betra líf – hið góða lífGrundvallarstef í myndinni er vonin um betra líf – þ.e. endurlausnarstef. Þessi von er sýnd með ýmsum hætti í myndinni, meðal annars með auglýsingaskilti sem auglýsir draumaferð til paradísar. Þetta skilti kemur nokkrum sinnum fyrir í myndinni.

Ólíkar skoðanir eru á því í myndinni hvað felst í hinu góða lífi. Mick og Trine, unnusta hans, standa fyrir ólíkar áherslur. Hann vill ferðast (sbr. auglýsingaskiltið), en hún vill mennta sig. Mick telur sem sagt að það þurfi að eiga sér stað róttæk breyting og að hann þurfi að komast á nýjan stað til að lífið verði gott. Hann sér einnig þýfið sem einu leiðina út úr núverandi ástandi. Trine neitar að reiða sig á glæpi og sér tilgang í því að mennta sig, nokkuð sem Mick á erfitt með að skilja, enda eru þau að verða milljónamæringar eftir söluna á málverkinu.

Mick skilur Trine ekki fyrr en hún tekur Rembrandt sem dæmi og bendir honum á að hann hafði litla peninga á milli handanna þegar hann dó. Átti reyndar nánast ekkert, aðeins málverk og Biblíu. Hann sinnti hins vegar köllun sinni og skildi eitthvað eftir sig sem hann gat verið stoltur af. Það er á þessari stundu sem Mick áttar sig á því að ef hann breytir ekki lífi sínu mun hann ekki skilja neitt eftir sig nema smán. Hann lýsir því því yfir við Trine að eftir þetta muni hún verða stolt af honum.

Fyrsta skref Micks til að bæta eigið líf er að bæta samband sitt við son sinn og reyna að tryggja að hann geti öðlast betra líf, eða eins og hann segir: „Börnin eiga aldrei að þjást fyrir syndir feðranna.“ Mick þarf að læra að elska son sinn þrátt fyrir alla hans galla. Í þessu sambandi er áhugavert að í myndinni kemur fram að Rembrandt málaði konuna á málverkinu með allar sínar hrukkur vegna þess að hann „Hann elskaði hana svo mikið að honum var sama um ófullkomleika hennar.“

Þá áttar Mick sig á því að hið sanna líf fellst ekki í því að stela heldur að skapa og gefa af sér. Eina leiðin út úr vítahringnum er að iðrast og koma heiðarlega fram.

Jesús –Júdas – fórninÍ myndinni er afturhvarf Micks tengt fórn Krists. Kenneth, félagi Micks, og einn fjórmenninganna sem stálu málverkinu, glímir við spilafíkn. Hann skuldar stórfé vegna þessa. Lánadrottinn hans kemst að því að þeir eru að reyna að selja málverkið og setur honum afarkosti: Vilji hann halda lífi þá þarf hann að svíkja félaga sína og greiða lánardrottninum þrjá fjórðu af því fé sem þeir fá fyrir málverkið, en fær sjálfur að halda fjórðungi.

Þegar Mick ákveður að skila málverkinu og peningunum sem þeir höfðu fengið greitt fyrir það tekur Kenneth upp byssu og hótar að skjóta hann og Tom ef þeir afhenda honum ekki peningana. Tom ræðst á Kenneth en tekst ekki betur til en svo að í slagsmálunum skýtur Kenneth Mick í síðuna. Hér er því að finna áhugaverða hliðstæðu við guðspjöllin. Eins og Júdas svíkur Tom félaga sína, og eins og Kristur er Mick særður síðusári þegar hann fórnar sjálfum sér fyrir félaga sína. Hann er meira að segja tilbúinn að taka á sig syndir félaga sinna og taka einn út refsingu fyrir glæpinn.

Þessi afstaða Micks hefur djúpstæð áhrif á son hans og verður til þess að feðgarnir upplifa vissa endurlausn. Endurlausnin er undirstrikuð í þeim tveimur atriðum sem sýna Mick á leið í fangelsi. Í fyrra skiptið mætir hann syni sínum sem er að sleppa út. Þá virðist samband feðganna frekar slæmt, þeir eru ekki samstilltir og virðast ekki bera mikla virðingu fyrir hvor öðrum. Í síðara skiptið fara þeir saman í fangelsi, en nú sem félagar og samherjar, tilbúnir að greiða fyrir syndir sínar og félaga sinna.

Hliðstæður við texta trúarrits: 1M 18-19; 2M 34.6-7
Persónur úr trúarritum: Júdas, Jesús Kristur
Guðfræðistef: von, endurlausn, eftirsjá, iðrun, fyrirgefning, sátt, fórn
Siðfræðistef: innbrot, þjófnaður, svik, lygi, blekking, fjárhættuspil, klám, græðgi, spilling, framhjáhald, hórdómur, áfengisneysla, fordómar, morð