Kvikmyndir

Repulsion

Leikstjórn: Roman Polanski
Handrit: Gérard Brach, Roman Polanski og David Stone
Leikarar: Catherine Deneuve, Ian Hendry, John Fraser, Yvonne Furneaux, Patrick Wymark, Renee Houston, Valerie Taylor, James Villiers, Helen Fraser, Hugh Futcher, Monica Merlin, Imogen Graham og Mike Pratt
Upprunaland: Bretland
Ár: 1965
Lengd: 104mín.
Hlutföll: 1.85:1
Einkunn: 4

Ágrip af söguþræði:
Carole Ledoux er falleg en kynferðislega bæld ung kona, sem býr með eldri systur sinni Hélène. Carole hefur óbeit á karlmönnum og þá sérstaklega kærasta Hélène. Þegar systir hennar og kærasti fara í sumarfrí missir Carole tengslin við raunveruleikann og verður þjökuð af ranghugmyndum og ofskynjunum um endurteknar nauðganir og kynferðislega áreitni.

Almennt um myndina:
Roman Polanski hefur löngum sannað að hann sé einn mesti snillingur kvikmyndasögunnar. Repulsion er gott dæmi um það. Eins og í síðari myndum sínum Rosemary’s Baby (1968) og The Tenant (1976), en allar þrjár hafa verið nefndar þríleikur, fjallar Polanski um geðveiki og ógn borgarlífsins og einverunnar í lokuðum íbúðum.

Og eins og í flestum myndum meistarans er kvikmyndatakan og klippingar óaðfinnanlegar. Með tiltölulega litla og einfalda sögu tekst Polanski að skapa óhugnanlegan raunveruleika þar sem jafnvel veggir íbúðar Carole rifna í sundur þegar geðveikin nær sterkari tökum á henni. Og ekki má gleyma stórkostlegum leik Catherine Deneuve sem þarf að tjá geðveiki stúlkunnar í nánast þöglu hlutverki.

Þetta er fyrsta mynd Polanski á ensku en hann kemur fyrir í myndinni sem skeiðaleikari. Myndin var tilnefnd til BAFTA verðlaunanna fyrir kvikmyndatöku en Roman Polanski fékk FIPRESCI verðlaunin og silfurbjörninn á Berlin International Film Festival.

Ég sá myndina síðast hjá Bíói Reykjavík og er ljóst að hún stendur enn fyllilega fyrir sínu sem hryllingsmynd en áhorfendum var nokkuð oft brugðið og undir lokin mátti heyra saumnál detta í salnum. Myndin fékk síðan lófaklapp þegar henni lauk. Að lokum má geta þess að ég hitti meistara Polanski á kvikmyndahátíð hér í Reykjavík árum áður og var svo heppin að sitja við hlið hans í bíóinu. Ólíkt því sem margir hafa sagt fannst mér hann með eindæmum vingjarnlegur og alþýðlegur.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Megið stef myndarinnar er kynferðisleg bæling og hræðilegar afleiðingar hennar (í anda Freuds). Hélène er frjálslynd í kynferðismálum og er t.d. í sambandi við kvæntan mann, meðan Carole virðist hafa óbeit á öllu sem hefur með karlmenn að gera. Lögð er áhersla á bælingu hennar með því að sýna unnuklaustur við hliðina á heimili systranna. Polanski leggur þó nokkra áherslu á klaustrið og ræða t.d. systurnar um það, en Hélène spaugar með það að kirkjuklukkurnar séu að bjóða henni í vilt partý. Tengsl skírlífis og geðveiki má því túlka sem sneið til rómversk-kaþólsku kirkjunnar.

Það kemur hvergi fram í myndinni hvers vegna Carole hefur óbeit á karlmönnum. Samkvæmt slagorði myndarinnar á hún að vera hrein mey: „The nightmare world of a virgin’s dreams becomes the screen’s shocking reality!“ Freistandi hefði verið, ef ekki væri fyrir þessa setningu, að útskýra sýnir Carole og óbeit hennar á karlmönnum sem afleiðingar sifjaspells. En svo má velta því fyrir sér hvað þeir máttu segja á þessum tíma og hvort við erum bundin af slagorði myndarinnar þegar kemur að túlkun hennar.

Þá má einnig túlka myndina sem gagnrýni á alhæfingar eða fordóma kvenna ígarð karla sem stundum hafa fylgt baráttu þeirra fyrir jafnrétti. Það ert.d. áhugavert að flestar umræður kvenmanna á vinnustað Carole snúast umhversu mikil svín karlmenn séu. Er Polanski kannski að vara við því aðbaráttan gegn kvenfyrirlitningu snúist upp í andhverfu sína og fari aðnærast á fordómum og hatri í garð karla? (Sjá t.d. kvikmyndina The WorldAccording to Garp: 1982.)

Siðfræðistef: framhjáhald, morð, nauðgun, kynlíf, sifjaspell, femínismi, áreitni, geðsjúkdómar
Trúarbrögð: rómversk-kaþólska kirkjan
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja
Trúarleg tákn: kross, öfugur kross, kirkjuklukka
Trúarleg embætti: nunna