1. árgangur 2001, Vefrit

Réttlæti og fögnuður kyssast. Um biblíuleg stef í kvikmyndum

Orðin í yfirskrift þessarar greinar „Réttlæti og fögnuður kyssast“ eru sótt í 85. sálm Saltarans. Þau koma við sögu í upphafi og niðurlagi ræðu sem Löwenhielm hershöfðingi heldur undir borð-um í matarveislu þeirri sem er hápunktur kvikmyndarinnar Gestaboð Babettu (Babette’s Feast). Myndin er byggð á stuttri sögu Isak Dinesen (Karen Blixen) sem birtist fyrst árið 1950 þó svo að hún kæmi ekki út í bókarformi fyrr en átta árum síðar. Samnefnd kvikmynd Gabriels Axel, sem fylgir sögunni býsna nákvæmlega, hlaut Óskars-verð-launin sem besta erlenda myndin árið 1987. Hinir trúarlegu drættir myndarinnar dyljast ekki og gera hana sérlega girnilega til túlkunar fyrir guðfræðinga.

Á liðnum árum hefur mikill fjölbreytileiki einkennt aðferðir og áherslur í kristinni guðfræði á vesturlöndum. Er þessi mikla fjöl-breytni oft skoðuð sem angi af póstmódernismanum svokallaða. Einna áhuga-verðust meðal hinna nýju leiða innan guðfræðinnar hefur mér þótt viðleitnin til að brúa bilið milli ólíkra fræðigreina og efna til samræðna milli þeirra. Samband guðfræði og menningar – kvikmyndalistarinnar þar með talinnar – er meðal þess frjóasta sem á sér stað í guðfræðinni nú um stundir. Umræðan um samband guðfræði og kvikmynda hefur þó varla hafist enn hér á landi.

Sjálfur hef ég verið talsvert upptekinn af áhrifasögu Biblíunnar (eink-um Gamla testamentisins) þar sem kannað er hvernig biblíuleg stef eru notuð og rannsökuð áhrifin sem þau hafa haft á trúarlíf einstaklinga og hópa, en ekki síður í daglegu lífi manna, sem telja sig ekki endilega neitt sérstaklega trúaða. Þar eru bókmenntir og aðrar listgreinar sérlega áhuga-verð rannsóknarefni. Það er mér því sérlega kær-komið tækifæri að fá hér að fara nokkrum orðum um notkun biblíu-legra stefja í kvik-myndum.

Greinin skiptist í tvo meginhluta. Í fyrri hlutanum verður fjallað almennnt um þátt Biblíunnar í kvik-myndum. Efni þessa hluta er svo yfirgripsmikið að það hlýtur óhjá-kvæmi-lega að verða talsvert ágrips-kennt. Fyrst er þar fjallað um kvik-myndir út af eða undir áhrifum frá Gamla testamentinu, því næst verður getið um myndir sem gerðar hafa verið um ævi Jesú og loks verður tekið dæmi af Krists-gerv-ingum í kvik-mynd-um.

Í síðari meginhluta greinarinnar hef ég valið að taka til umræðu þrjár kvikmyndir þar sem tilvísanir til ritningargreina úr Davíðs-sálmum gegna ákveðnu hlutverki þó að vissulega sé það hlutverk mis-mikið. Kvik-myndirnar eru Gestaboð Babettu (1987), Kolja (1996) og Vængir dúf-unnar (The Wings of the Dove, 1997).

Fáein orð um kvikmyndir byggðar á Biblíunni

Ýmsir háskólakennarar í biblíufræðum hafa sagt frá reynslu sinni af nemendum er spurt hafa út í ýmis atriði sem þeir töldu sig vita að ættu að vera í Biblíunni en fundu svo alls ekki þegar þeir hófu nám í biblíu-fræðum. Skýringin var yfirleitt sú að biblíuþekking þessara nemenda var meira orðin til við að horfa á kvikmyndir byggðar á Biblí-unni en lestri Biblíunnar sjálfrar.

Ekki er vafi á því að margir eldri kvik-mynda-unnendur sjá fyrir sér Charlton Heston þegar talið berst að Móse og ímynda sér að Rauða hafið hafi klofnað nákvæmlega eins og Cecil B. DeMille sýndi það í kvikmyndinni The Ten Commandments (1956). Þessa stórbrotnu kvik-mynd hlýtur jafnan að bera á góma þegar fjallað er um kvikmyndir byggðar á Biblíunni. Gefin var út bók, Moses and Egypt, (Noerdlinger 1956) til að lýsa hinni umfangsmiklu forvinnu við gerð kvik-myndar-innar. Þar kemur fram að 950 bækur, 984 tíma-rit, 1286 úrklippur og 2964 ljósmyndir voru rann-sakaðar við undirbúning myndarinnar. DeMille og samstarfsmenn hans lögðu á ráðin um gerð þessarar bókar til að sýna fram á sagnfræðilega traustan grunn kvik-myndarinnar. Þar benti DeMille á að hlutskipti kvikmynda-leik-stjórans væri erfiðara en sagnfræð-ingsins. Sá síðarnefndi gæti einfaldlega hlaupið yfir þau atriði sem hann þekkti ekki, sleppt þeim algjörlega. En kvik-mynda-gerðar-maðurinn yrði að vita hversu konar fæðu faraó lagði sér til munns, hvernig fötum Dalíla (Dm 16:4-22) klæddist og það sem líklega var erfiðast af öllu; að gera sér mynd af því hvernig Sefhafið (eða Rauðahafið) klofnaði þannig að Móse og Ísraelsmenn gátu gengið á þurru mitt í gegnum hafið á flótta sínum undan Egyptum (2M 14:15-31). DeMille orðaði vandamálið þannig: „Við urðum að tímasetja Exodus . . . Hið sagnfræðilega rétta tímabil yrði að greina nákvæmlega, raunveru-legur faraó yrði að sitja á valdastóli . . . Ekki er unnt að birta sögulegar eyður á kvikmynda-tjaldinu“ (Noerd-linger 1956:5).

Það er eftirtektarvert að blómaskeið hinna sögulegu biblíukvikmynda var á sjötta og sjöunda áratugi aldarinnar. Nokkurn veginn á sama tíma er blóma-skeið hinnar svokölluðu „Biblical Theology Movement“ í Banda-ríkjunum, en þessi hreyfing innan biblíufræðanna einkenndist ekki síst af mikilli bjartsýni á að unnt væri með aðstoð fornleifafræðinnar að greina hina sagnfræðilegu réttu atburðarás að baki biblíutextunum. Óhætt er að segja að mjög hefur dregið úr þeirri bjartsýni síðan.

Af öðrum áhrifamiklum kvikmyndum af sama meiði má nefna myndirnar Samson and Delilah eftir DeMille (1949), David and Bathseba (1951) eftir Henry King, Solomon and Sheba (1959) eftir King Vidor þar sem stór-stjörn-urnar Yul Brynner og Gina Lola-brigida fóru með aðalhlutverkin, Joseph and his Brethren (1962) eftir Irving Rapper, Sodom and Gomorrah (1963) eftir Robert Aldrich og The Bible í gerð John Hustons (1966). Ekki verður skilið við þessa upptalningu án þess að nefna kvikmyndina Ben-Hur (1959) sem dæmi um mynd sem byggir á skáldsögu sem vinnur út frá efniviði Biblíunnar og fjallar um ör-lög hinnar fyrstu kristnu manna í Landinu helga og í Róm. Myndina gerði William Wyler og Charlton Heston fór með aðalhlutverkið. Myndin sló öll met og fékk hvorki fleiri né færri en ellefu Óskarsverðlaun. Þótt blómaskeið biblíukvikmyndanna hafi verið á sjötta og sjöunda áratuginum er það ekki svo að kvikmyndaframleiðendur hafi algjörlega misst áhugann á þeim eftir það. Móse hefur haldið áfram að draga til sín athygli. Skýrt dæmi um það er hin sex tíma langa mynd Gianfranco de Bosio Moses: The Lawgiver (1975). Árið 1996 var síðan sjónvarps-myndin Moses gerð af Gerald Rafshoon. Aðalhlutverkið var í höndum Ben Kingsley. Munurinn á þessari mynd um Móse og hinni 40 ára eldri gerð DeMille birtist meðal annars í því hvernig köllunar-frásagan (2M 3:1-4:17) er meðhöndluð. Í fyrri myndinni er leitast við að fylgja frásögn Biblíunnar af nákvæmni, en í þeirri síðari er vikið verulega frá texta Biblíunnar, eins og orð Kingsley í myndinni bera með sér: „Kannski var mig að dreyma eða sólin hefur sturlað mig“ (Bach 1996:7). Loks birtist nýverið enn ein útgáfan af Móse, að þessu sinni í rándýrri teikni-mynd The Prince of Egypt (1998). Hér er um mjög vandaða mynd að ræða sem augljóslega er hugsuð fyrir ‘myndbandakynslóðina’ sem hefur mótast meira af mynd-efni en skrifuðum texta. Hér sjáum við áhugaverða þróun Mósemyndanna, frá mynd sem reyndi að vera mjög trú biblíutextunum yfir í mjög frjálslega túlkun á Móse og Exodus-atburðunum og þaðan yfir í teiknimynd ætlaða myndbandakynslóðinni.

Enginn skortur er heldur á myndum um afmarkaða þætti eða atburði byggða á Biblíunni og eru tengslin við Ritninguna mjög mismikil. Þeir sem voru á unglingsárum kringum 1980 hafa t.d. svar á reiðum höndum við einni af þeim ráðgátum sem biblíu-fræðingar hafa glímt við um aldir, spurningunni um hver hafi orðið örlög sáttmálsarkar hinna fornu Hebrea. Um afdrif arkar-innar eftir fall Jerú-salem—borgar 587 f.Kr. hafa fræði-menn á sviði Gamla testa-mentisins og sögu gyðingdóms ekki treyst sér til að fullyrða neitt. Svör kvikmyndahúsagesta við þessari miklu ráðgátu biblíufræðanna eru sótt í mynd Steven Spiel-bergs, Leitina að týndu örkinni (Raiders of the Lost Ark, 1981). Í hinni mjög svo ævin-týralegu kvikmynd komast nasistar yfir örkina en hetjan Indiana Jones bjargar henni frá þeim og færir hana í hendur Bandaríkjamanna.

Dæmi um lausleg tengsl Biblíunnar við kvikmyndir leynast mjög víða. Sennilega kemur fáum eitthvað biblíulegt í hug þegar horft er á hinn vinsæla „vestra“ Clint Eastwoods, Unforgiven (1992), enda er enga beina tilvitnun í Ritninguna að finna í myndinni. Engu að síður hefur á sann-færandi hátt verið sýnt fram á að í myndinni eru ákveðnar skír-skotanir til hins deuterónómska söguverks Gamla testamentisins (Koosed og Linafelt 1996). Í lokauppgjöri myndarinnar horfir Litli Bill (Gene Hack-man) varnarlaus í byssuhlaupið hjá William Munny (East-wood) og segir: „Ég á ekki skilið að deyja svona. Ég var að byggja hús.“ Þessi orð verða illskiljanleg ef ekki er haft í huga það sem segir í 5. Mósebók 20:5: „Hver sá maður er reist hefir nýtt hús en ekki vígt það, skal fara og snúa heim aftur, svo að hann falli ekki í orrustunni, og annar maður vígi það.“ Þetta ákvæði er eitt af þremur sem veitti mönnum undanþágu frá herþjónustu og sýnt hefur verið fram á að ákvæðin hafa að markmiði viðhald sam-félagsins á stríðstímum. Þetta atriði skýrir vel hlutverk Litla Bills í mynd-inni; að viðhalda samfélaginu.

Nafnið Dalíla á einni af aðalpersónunum skapar líka hugrenningatengsl við sögu Gamla testament-isins af Samson og Dalílu (Dm 16:4-22) og það er vafalaust engin tilviljun, og er mjög fróðlegt að bera þær nöfnur saman. Dalíla Biblí-unnar skar hárið af Samson og varð þess valdandi að hann missti þar með ofurafl sitt „gjörðist linur og [varð] sem allir menn aðrir“ (v.17). Dalíla í Unforgiven á líka í höggi við mikinn beljaka og niðurlægir hann með því að hlæja að því hversu lítt hann er vaxinn niður. Fyrir það fær hún að gjalda dýru verði. Atriðið þegar skyndi–konan Alice hjálpar Ned og félaga hans að flýja út um gluggann á vændishúsi bæjarins undan Litla Bill og mönnum hans á sér sömuleiðis fyrirmynd í enn einni af frá-sögum hins deuteró-nómska söguverks, sög-unni af því þegar portkonan Rahab í Jeríkó (Js 2) hjálpar njósnurum á sama hátt og Alice starfssystir hennar í Unforgiven. Hér er ekki rúm til að nefna fleiri athyglisverðar hlið–stæður milli þessarar kvikmyndar og Gamla testa-mentisins, en vissulega hjálpar vitneskjan um þessar hliðstæður okkur til að sjá þessa áhugaverðu mynd í allt öðru ljósi. Vafalaust er það þó svo að þessar hliðstæður sjá ekki aðrir en biblíufræðingar eða sérstakir áhuga-menn um Biblíuna.

Að lokum skal hér nefndur til sögunnar spænski kvikmyndaleikstjórinn Luis Bunuel (1900-1983), sem nefndur hefur verið upphafsmaður surrea-lismans í kvikmyndum. Guðfræðileg og biblíuleg stef eru mjög fyrir-ferðamikil í mörgum mynda hans. Læt ég nægja að benda á upphafs-atriðið í myndinni The Milky Way þar sem Hósea, einn af spámönnum Gamla testamentisins, er tekinn eftirminnilega fyrir.

Jesúmyndir

Fram að þessu hefur athyglinni einkum verið beint að myndum sem gerðar hafa verið um atburði eða persónur úr Gamla testamentinu eða eru undir áhrifum frá þessum eldri hluta Biblíunnar. Myndir um persónur úr Biblíunni hafa fylgt kvikmyndaiðnaðinum frá því að hann varð til og þar hefur engin „stjarna“ skinið skærar en Jesús frá Nasaret (Telford 1997:116). Því er óhjákvæmilegt að fara hér nokkrum orðum um þessar Jesúmyndir.

Áður en Cecil B. DeMille hafði gert hina stórbrotnu King of Kings (1927) þar sem líf Jesú var sýnt af sjónarhóli Maríu Magdalenu höfðu nærri fjörutíu útgáfur aðrar um ævi Jesú birst á hvíta tjaldinu. Árið 1935 kom fyrsta talmyndin, Golgatha. Þessi franska mynd eftir Julien Duvivier er ekki síður þekkt undir heitinu Ecce Homo. Árið 1961 kom önnur mynd með nafninu King of Kings en hún átti fátt annað en nafnið sam-eiginlegt með mynd DeMille. Í þessari mynd eru Júdas og Barabbas sýndir sem pólitískir byltingarmenn og er Jesús lítið annað en peð í tafli þeirra. Myndin var gagnrýnd af kaþólskum kirkjuyfirvöldum fyrir að gefa ónákvæma og villandi mynd af hinum biblíulegu atburðum. Þegar frá leið hefur hún hins vegar hlotið betri dóma.

Árin 1964 og 1965 komu enn tvær nýjar myndir sem voru að flestu leyti mjög ólíkar, ekki síst hvað snerti kostnaðinn við gerð þeirra. Sú fyrri, Matteusarguðspjall (Vangelo Secundo Matteo), var gerð í svart hvítu af ítalska marxistanum Pier Paolo Pasolini. Mynd George Stevens, The Greatest Story Ever Told, sem frumsýnd var ári síðar reyndist dýrasta kvikmynd sem gerð hafði verið fram til þess. Þó að ekkert væri til sparað og stórstjörnurnar Max von Sydow og Charlton Heston væru í aðal-hlutverkum eru flestir þeirrar skoðunar að hin ódýra mynd Pasolinis hafi verið betur heppnuð og áhrifaríkari. Söngleikur þeirra Time Rices og Andrew Lloyd-Webbers Jesus Christ Superstar sem notið hafði gífurlegra vinsælda varð fyrirmynd og uppi-staða í samnefndri kvikmynd Norman Jewison (1973). Myndin var tekin í Ísrael og var samtíð Jesú þar fléttuð saman við nútímann á athyglis-verðan hátt. Mynd Davids Greene Godspell (1973) endurspeglar tíðar-andann, blóma- og hippatímann, í upphafi áttunda áratugarins með svipuðum hætti og Jesus Christ Superstar og er miðuð við sama markhóp. Myndin er í formi söngleiks á götum New York.

Myndinni Jesus of Nazareth (1977) í leikstjórn Franco Zeffirelli má líkja við leit biblíufræðinga að „hinum sögulega Jesú.“ Hér fannst mörgu sanntrúuðu fólki sem loksins væru guðspjöllin meðhöndluð af heiðarleika og fræðilegri nákvæmni. Það var Anthony Burgess sem skrifaði handritið að myndinni, sem er sex og hálfur tími að lengd og gerð fyrir sjón-varp. Myndin áttu rætur sínar að rekja til loforðs sem framleiðandinn Lew Grade hafði gefið páfanum um að gera fyrir Jesú það sem hann hafði gert fyrir Móse í sjónvarpsmyndinni Moses: The Law-giver.

Mynd hins kunna leikstjóra Martin Scorsese The Last Temptation of Christ (1988) er byggð á skáldsögu gríska rithöfundarins Níkosar Kazant-zakís frá árinu 1955. Eins og skáldsagan fjallar myndin um tvíþætt eðli Krists og baráttuna milli holds og anda. Skáldsagan olli á sínum tíma miklu fjaðra-foki og það hefur myndin einnig gert, meðal annars hér á landi þar sem bæði ríkissjónvarpið og Stöð 2 hættu við að sýna hana vegna mótmæla. En margir hafi líka orðið til að hrósa henni í hástert sem stórbrotnu listaverki. Sigurður A. Magnússon (1998:155) heldur því fram að það sem hafi einkum valdið fjaðrafokinu og farið fyrir brjóstið á biblíuföstu fólki hafi verið…

„… sú hugmynd Kazantzakís, að rétt áðuren Jesús gaf upp öndina á krossinum hafi freistarinn brugðið upp augnabliksmynd fyrir ósýnum augum hans, tálsýn af rósömu og hamingjuríku lífi í skauti fjöl-skyld-unnar. Kristi virðist í þeirri andrá sem hann hafi gengið hinn slétta og auðfæra veg mannanna, kvænst og getið börn. [. . .] Og hvílíkur léttir að hafa losnað við skortinn, píslirnar og krossinn! Þetta var hinsta freistingin sem birtist eins og leiftur til að angra Frelsarann á bana-stundinni. En alltíeinu hristi Jesús höfuðið í ofboði, lauk upp augum og leit upp. Nei, hann hafði ekki brugðist.

Vafalaust hefur þetta atriði orðið til að hneyksla ýmsa en hitt hefur þó trúlega valdið meiru um hneykslunina á mynd Scorsese hversu breiskur og mannlegur Jesús er almennt sýndur í myndinni, hann smíðar krossa fyrir Rómverja, hefur kynhvöt o.s.frv.

Hér skal að lokum nefnd fransk-kandadíska myndin Jesus frá Montreal (1989) eftir leikstjórann Denys Arcand. Hún er um sérlega frumlega mynd að ræða sem yfirleitt hefur hlotið mjög góða dóma og margvíslegar viðurkenn-ingar. Henni hefur verið mjög vel tekið í löndum mótmæl-enda en síður í kaþólskum löndum. Hún fjallar um hóp óhefðbundinna leikara sem tekst á hendur það hlut-verk að endurskapa píslar-söguna í leikriti sem vekur mikla hrifningu áhorfenda en mætir hörðum andmælum kaþólskra yfirvalda. Hér er sem sé um að ræða kvikmynd sem fjallar um leikhús og því eru áhorfendur bæði innan myndarinnar og utan og líklega felst sérstaða hennar öðru fremur í því. Atburðarásin í myndinni er síðan á þann veg að leikararnir en einkum þó forsprakkinn Daniel Coulombre (Lothaire Bluteau) taka að lifa sig mjög inn í hlutverk sín, en auk þess eiga sér stað atburðir í lífi þeirra sem minna mjög á píslar-söguna. Þessir atburðir ná hámarki í því að aðalleikarinn lætur lífið í kjölfar slyss sem hann verður fyrir á lokasýningunni þegar krossinn dettur þar sem hann hangir á honum og verður hann undir krossinum. Upprisustef myndar-innar birtist svo í því að hjarta og augu leikarans eru gefin þegar hann hefur verið úrskurðaður heiladauður og við fáum að kynnast þeim er hljóta þessi líffæri að gjöf og öðlast við það sýn og nýtt líf. Loks er hliðstæða við stofnun kirkjunnar í lok myndar-innar þegar „lærisveinar“ Daniels stofna leikhús í minningu hans og er því ætlað að starfa í anda hugmynda hans. Mynd þessi er mjög til þess fallin að vekja menn til umhugsunar um samband hinna andlegu gilda og veraldlegra gilda.

Um Kristsgervinga í kvikmyndum

Í umfjölluninni um trúarlega drætti og biblíuleg stef í kvikmyndum hefur leitin að Kristsgervingum verið býsna fyrirferðarmikil og hafa menn á stundum seilst býsna langt í þeirri leit. Hér er um forvitnilegt við-fangs-efni að ræða, en rúmið leyfir ekki að því séu gerð nein viðunandi skil hér. Með Kristsgervingum er átt við persónur sem sýna sterkar hliðstæður við einhverja af grundvallarreiginleikum Jesú Krists, eins og við þekkjum þá úr Biblíunni og kristinni trú. Sjálfum finnst mér kvik-myndin Brimbrot (Breaking the Waves, 1996) eftir danska kvik-mynda-leikstjórann Lars von Trier einna áhugaverðust í þessu sambandi. Það væri tilfinn-inga-laus maður sem ekki yrði snortinn af þessari sérstæðu, nærgöngulu og áhrifaríku mynd. Hún hefur unnið til margvíslegra viðurkenninga en þó fengið misjafna dóma. Emily Watson, aðalleikkona myndarinnar, hefur hins vegar fengið nær einróma lof fyrir frábæran leik í þessari fyrstu kvikmynd sinni og var tilnefnd til Óskars-verðlauna.

Sögusviðið er lítið einangrað skoskt sjávarþorp í byrjun áttunda ára-tugsins. Íbúarnir heyra til strangtrúuðum kalvínskum söfnuði þar sem öld—ung-a–ráð karla ræður ríkjum og vill ekki einu sinni leyfa kirkjuklukkur í hinu einfalda guðshúsi þeirra. Íbúarnir eru allt annað en ánægðir með nær-veru verkamanna af olíuborpalli í grenndinni. Einn þessara aðkomu-manna, Jan að nafni (Stellan Skarsgård) hefur unnið hug og hjörtu Bess, aðalpersónu myndar-innar (Emily Watson). Eftir að þau hafa gengið í hjónaband lifa þau um stund saman í sér-lega ástríku og innilegu sam-bandi, en þar kemur að Jan verður að halda til vinnu sinnar á olíu-pall-inum. Bess er einlæg, hrekklaus og óvenjulega tilfinningarík ung kona og höfðu miklar tilfinningasveiflur hennar áður kostað hana sjúkra-húsvist. Nú verður söknuður hennar slíkur að áhorfandinn fær það á tilfinn-inguna að illa kunni að fara. Bess leitar mjög á náðir trúarinnar í örvæntingu sinni og er eitt stórfenglegasta atriði myndarinnar þar sem hún er að þrífa kirkjuna og talar til Guðs en svör hans fáum við að heyra að vörum hennar sjálfrar, eins og til dæmis: „Þú verður að vera góð stúlka.“ Hún biður Guð um að senda Jan heim og þegar hann skömmu síðar kemur heim lamaður fyrir neðan háls eftir alvarlegt slys á borpallinum lítur hún á það sem sönnun þess að Guð hafi bænheyrt hana en að Guð krefjist jafnframt mikilla fórna til að uppfylla bænir hennar. Jan er svo þung-lyndur eftir slysið að hann reynir að stytta sér aldur. Hann hvetur Bess til að taka sér elskhuga og hún skilur hann þannig að hún geti haldið honum á lífi með því að eiga í ástarsam-böndum við aðra menn og segja honum frá þeim. Kynferðisleg niðurlæging hennar og útskúfun fylgir í kjölfarið og er þessi þýðingarmesti hluti myndarinnar mjög átakan-legur og vekur margar spurningar í hugum áhorfenda. Vangveltur Gunnars J. Gunnarssonar lektors um myndina eru dæmi-gerðar fyrir skilning margra á myndinni er hann kemst þannig að orði:

Hjá því verður ekki komist að leiða hugann að því hvernig Kristur birtist í myndinni Brimbrot. Myndin segir sérstæða píslarsögu sem hefur áhorfandann algjörlega á valdi sínu, tekur hann tilfinningatökum og skilur hann eftir með óþægilegar spurningar og hugsanir. Um leið vísar myndin til píslarsögu Krists. Bess, hin saklausa og góða, gefur sig viðbjóði á vald og færir þá mestu fórn sem unnt er að færa til að sá sem hún elskar fái lifað. Jesús Kristur gengur af takmarka-lausum kærleika sínum inn í kjör syndugra manna og gefur sjálfan sig til að frelsa þá. „Þann sem þekkti ekki synd, gjörði hann að synd vor vegna, til þess að vér skyldum verða réttlæti Guðs í honum“ (2.Kor. 5:21).

Það er ekki að ástæðulausu að ýmsir hafa orðið til þess að leiða hugann að Kristi þegar horft er á kvikmyndina Brimbrot. Bess breytir alfarið í þeirri trú að fórn hennar verði manni hennar til góðs og ekki bara það heldur trúir hún því að hún geti með gerðum sínum veitt honum líf og heilsu. Hún gengur því sífellt lengra í því að niðurlægja sig kyn-ferðis-lega og lætur sig engu varða útskúfun samfélagsins. Að lokum gengur hún út í dauðann. Það er grundvallaratriði í kristinni trú að Jesús Kristur hafi gefið líf sitt svo að við mættum lifa og að hann hafi niðurlægt sig allt til dauða á krossi (Fl 2:8). Í ljósi þessara grundvallaratriða hinnar biblíulegu trúar sýnist næsta augljóst að kalla megi Bess Kristsgerving.

Gestaboð Babettu

Áhugi minn er frekar bundinn túlkun á ákveðnum biblíulegum hug-mynd-um í kvikmyndum heldur en kvikmyndum sem leitast við að endursegja ákveðnar Biblíusagnir- eða atburði. Eftirfarandi myndir, Gesta-boð Babettu, Kolja og Dúfnavængir, eru dæmi um forvitnilega notkun og túlkun biblíulegra hugmynda.

Trúarlegir drættir hinnar vinsælu kvikmyndar Gestaboðs Babettu koma fyrst og fremst við sögu í tengslum við máltíðina í tuttugu mínútna löngum kafla í lok myndarinnar.

Myndin fjallar um konu sem flúði frá París í kjölfar uppreisnar þar árið 1870 til afskekkts þorps á Jótlandi. Þar býr fámennt samfélag guðhrædds fólks sem afneitar öllum veraldlegum munaði. Tvær pipar-meyjar, dætur hins látna sóknarprests sem álitinn var dýrlingur af sóknar–börnum sínum, ráða hina dularfullu konu með myrku fortíðina sem ólaunaða eldabusku.

En umbunin fyrir ólaunaða vinnu í fjórtán ár birtist skyndilega í formi tíu þúsund franka happdrættisvinnings. Þorpsbúar vænta þess að Babette pakki saman föggum sínum og fari frá þessum dapurlega af-skekkta stað og snúi aftur til Parísar, en í þess stað ákveður hún að halda upp á hundrað ára afmæli sóknarprestsins með stórfenglegri veislu.

Hinn íhaldssami söfnuður kvíðir máltíðinni, óttast að verið sé að nota hús prestsdætranna fyrir „nornaveiðar“ og ber ugg í brjósti yfir því að „vita ekki einu sinni hvað við fáum að borða.“ Gera þau með sér sam-komulag um að minnast ekki einu orði á mat og drykk undir borðhaldinu og haga sér eins og þau hafi ekki einu sinni bragðskyn.

Á síðustu stundu kemur boð um að óvæntur gestur verði við borð-haldið, Löwenhielm hershöfðingi. Hann veit ekkert um sam-komu-lag hinna gestanna. Nærvera hans þýðir að þátttakendurnir í máltíðinni verða tólf í stað ellefu. Óneitanlega skapar talan tólf hugrenningatengsl við hina síðustu kvöldmáltíð. Orð Babettu „allt er til reiðu“ eru og meðal fyrstu vísbendinganna um þau tengsl (sbr. Mk 14:15). Og ekki er langsótt að líta á Babettu sem Kristsgerving. Hún gefur aleigu sína til þess að geta haldið þessa þakkargjörðarmáltíð. Hún situr ekki til borðs með gestunum en leggur til hinar óvæntu veitingar og er í þeim skilningi þrettánda og mikilvægasta persóna þessarar kvöldmáltíðarveislu.

Undir borðum reynir Löwenhielm hershöfðingi stöðugt að brydda upp á umræðum um matinn. En spurningum hans um hvort maturinn bragðist ekki vel er svarað út í hött, gjarnan með setningum eins og: „Stormurinn er genginn niður.“ Hershöfðinginn segir einnig sögu af kynnum sínum af matargerðarlist í París og nefnir í því sambandi stórkostlegan veit-ingastað, Café Anglais, þar sem yfirkokkurinn hafi verið kona og meðal annars búið til réttinn „kornhænsn í kistu“. Um hana hafi verið sagt að hún hafi „getað breytt máltíð í kærleikssamband.“

Þar kemur að því að það lýkst greinilega upp fyrir hershöfðingjanum hver standi á að bak við þetta borðhald, einmitt þegar „kornhænsn í kistu“ reynast vera meðal allra krásanna. Og svo fer líka um þessa máltíð að hún breytir andrúmsloftinni meðal gestanna þannig að þegar upp er staðið er orðið til kærleikssamband meðal þeirra.

Það er alls ekki langsótt að sjá hliðstæðu við hina heilögu kvöld-máltíð í myndinni. Þar eru raunar til staðar bæði syndajátning og aflausn. Ánægjan yfir matnum og víninu verður þess valdandi að einn þátt-tak-endanna játar gagnvart sessunaut sínum að hann hafi gert á hlut hans og hinn játar að það hafi verið gagnkvæmt og síðan fyrirgefa þeir hvor öðrum og menn taka að óska hver öðrum Guðs blessunar o.s.frv. Fyrir-gefning og sættir ráða ríkjum í lok máltíðar.

Hlutverki Löwenhielms hershöfðingja má líkja við embætti prestsins. Hann leitast stöðugt við að opna augu hinna gestanna fyrir því hvað þau eru raunverulega að borða og drekka og þar líkist hlutverk hans því hlutverki prests að túlka hin táknrænu atriði altarissakramentisins. Ræðan sem hann flytur undir borðum er sömuleiðis líkust prédikun prests. Sú ræða er römmuð inn af tilvitnunum í 85. sálm Saltarans: „Elska og trúfesti mætast, réttlæti og fögnuður kyssast“ (v. 11).

Kolja

23. sálmur Saltarans „Drottinn er minn hirðir“ hefur algjöra sérstöðu meðal Davíðssálma hvað vinsældir og áhrif snertir. Börn hafa lært hann við móðurkné og öldungar hafa dáið með hann á vörunum. Sérstaða sálmsins birtist einnig í því að fræðimenn hafa átt í erfiðleikum með að skipa honum í flokk einhverra helstu flokka sálmanna (angurljóða, hymna, konungssálma, spekisálma o.s.frv.) Að mínu mati fer best á því að kenna hann við það sterka trúartraust sem út úr honum skín.

Í tékknesku kvikmyndinni Kolja, sem hlaut bæði Golden Globe og Óskarsverðlaunin sem besta erlenda kvikmyndin árið 1996, fer 23. sálmurinn með stórt hlutverk og gengur sem rauður þráður í gegnum mynd-ina. Þessi mynd hefur einnig notið mikilla vinsælda hér á landi. Í upphafi þessarar listrænu og fallegu kvikmyndar syngur söngkona fallegt lag við sálm 23 eftir hið kunna tékkneska tónskáld Antonin Dvorak (1841-1904) og í lok hennar hefur drenghnokkinn Kolja, aðalpersóna myndarinnar, yfir orð sálmsins.

Þannig myndar sálmurinn ramma um kvikmyndina og kemur raunar oftar við sögu í henni og gjarnan á þeim stöðum sem greina má ákveðin kaflaskil í henni. Því er eðlilegt að sú spurning vakni hvort boð-skapur myndarinnar sé ekki með ein-hverjum hætti tengdur Sl 23. Ég hef lesið mikið af erlendri umfjöllun kvik-mynda-gagnrýnenda um myndina, en hvergi fundið að menn velti þessari spurn-ingu fyrir sér og kemur það óneitanlega á óvart.

Sérhver áhorfandi hlýtur þó að sjá hversu nálægð dauðans er fyrir-ferðarmikið stef í myndinni og er þar augljóslega tengt við ljóðlínuna „þótt ég fari um dauðans skugga dal“ úr sálminum. Sögusviðið er Tékkó-slóvakía um það leyti sem þjóðin er að losna undan yfirráðum Sovét-manna og lýkur myndinni á flauelsbyltingunni svonefndu. Sterkasta atriði mynd-arinnar er lokaatriðið þegar Kolja litli er á leið heim til Rússlands á nýjan leik, út í óvissuna, og hefur þá yfir sálm 23 á tékknesku. Sálmurinn var það fyrsta sem hann hafði lært í því máli, svo oft hafði hann verið viðstaddur útfarir þegar sálmurinn var sunginn og spilaður af hinum nýja pabba hans. Þessi lok myndarinnar sannfæra áhorfandann um að allt muni fara vel og hann heldur heim sáttur. Guðfræðingur hlýtur líka að spyrja sig þeirrar spurningar hvort ekki megi greina exodus-stefið í myndinni í sögusviðinu þar sem um er að ræða kúgaða þjóð sem er að losna úr ánauð. Jóhanna Þráinsdóttir, stud. theol. og þýðandi myndarinnar á ís-lensku, hefur að mínu mati prýðilega sýnt fram á það í grein sinni um myndina. Þar kemst hún meðal annars þannig að orði:

Í tékknesku kvikmyndinni Kolja má segja að 23. sálmur sé notaður til að innramma tvenns konar þema: Ytri og innri ánauð. Sú ytri er ánauð hernuminnar þjóðar (exódus-mótífið), sú innri er sjálfsköpuð ánauð nútímamannsins innan hjarðar þar sem hver og einn er sinn eigin hirðir og hjálpræðið virðist fólgið í því að firra sig óþægindum. Í fyrra tilvikinu er um hliðstæðu að ræða. Tékkar voru undir yfir-ráðum Rússa í rúm 40 ár. Í síðara tilvikinu varpa þeir Sverak-feðgar fram þeirri spurningu hvort sé í raun vænlegra til mannlegrar farsældar, öryggisfíkn og hjarð-mennska nútímamannsins þar sem hver og einn er þó sjálfum sér næstur þegar á reynir, eða trúin á forsjón síns hirðis, sem virðist hvort eð er grípa inn í líf manna og kollvarpa öllum þeirra áformum, sama hversu vel þeir hafa sjálfir reynt að tryggja hag sinn. Þar eru persónurnar í myndinni fulltrúar hins almenna, en ekki bara fulltrúar vissrar þjóðar í vissum kringumstæðum.

Kvikmyndin Kolja var mikið til umræðu í námskeiði um áhrifasögu Saltarans sem ég hélt í guðfræðideild Há-skóla Íslands á vor-misseri 1998 og veltum við þar meðal annars fyrir okkur þeirri spurningu hvort við sem legðum stund á guðfræði værum e.t.v. bara að „lesa eitthvað inn í“ myndina þegar við töldum okkur koma auga á ýmis hinna stóru og mikil-vægu stefja guðfræðinnar í myndinni. Þessi spurning varð ekki síst áleitin fyrir þá sök að hvergi höfðum við upp á umfjöllun um myndina þar sem bent var á þau atriði sem við töldum okkur sjá.

Því var það sérlega gleðilegt þegar við loks höfðum upp á viðtali við feðgana Zdenek og Jan Sverak, sem eiga mestan heiðurinn af myndinni. Faðirinn samdi handritið og fer með aðalhlutverkið í myndinni en sonur hans leikstýrir henni. Í viðtalinu eru þeir spurðir hvort þeir taki á ein-hvern hátt trúarlega afstöðu til viðfangsefnisins. Jan Sverak svarar spurningunni á þann veg að hvorugur þeirra sé trúrækinn en sjálfur kveðst hann þó óttast Guð. Hann bætir við að í myndinni sé maður sem vinnur í kirkjugarði, í návist dauðans, á mörkum þess að vera eða vera ekki, og hann vinni nálægt líkbrennslu. „Við erum að fjalla um trú og hvers vegna við erum hér og hvert sé hlutverk okkar í lífinu. Auk alls þess er hér hugmyndin um að einhver eða eitthvað vaki yfir okkur,“ segir Jan Sverak.

Þó svo að Sl 23 beri ekki beinlínis á góma í þessu viðtali og ekki sé frekar spurt út í hina trúarlegu drætti myndarinnar fer vart á milli mála af þessum orðum leikstjórans að boðskapur myndarinnar er að umtals-verðu leyti sóttur í Sl 23, bæði hvað varðar áhersluna á nálægð dauðans og ekki síður hins að „einhver vaki yfir okkur“ eins og hirðirinn vakir yfir hjörð sinni.

Sálmur 23 kemur við sögu í fjölmörgum öðrum kvikmyndum. Má þar nefna hina áhrifamiklu kvikmynd Fílamanninn (The Elephant Man, 1980) sem tilnefnd var til átta Óskarsverðlauna á sínum tíma. Það er áhrifamikið atriði í þeirri mynd þegar fílamaðurinn fer með sálm 23. Sú staðreynd að hann kunni sálminn þýddi að hann var meiri vitsmunavera en almennt var talið.

Sálmurinn er mikið notaður andspænis ógn dauðans og þannig kemur hann oft fyrir í kvikmyndum, ekki síst bandarískum kvikmyndum. Nýlegt dæmi þess er í hin geysi-vinsæla kvikmynd Titanic (1997), sem hlaut tólf Óskarsverðlaun. Þegar ljóst er orðið að skipið Titanic er að sökkva koma fyrir nokkrar trúarlegar „senur“. Hljómsveit skipsins tekur að spila „Hærra minn Guð til þín“, prédikari flytur mikla dóms-dags-prédikun og einn úr hópi farþega heyrist fara með ljóðlínuna „þótt ég fari um dauðans skuggadal“ úr Sl 23. Af öðrum kvikmyndum þar sem sálmurinn kemur við sögu má nefna „Let Him Have It“ (1991) og „When the Wind Blows“ (1986). En slíkar eru vinsældir sálmsins að seint yrðu taldar upp allar þær kvikmyndir þar sem sálmurinn gegnir einhverju hlutverki.

Að lokum skal hér nefnd athyglisverð notkun Sl 23 í vestranum Pale Rider (1985). Þar fer unglingsstúlka með sálminn snemma í myndinni eftir að þorp gullleitarmanna, sem hún býr í, hefur orðið fyrir árás og hundurinn hennar drepinn. Þegar hún jarðar hundinn fer hún með sálminn en bætir ýmsu inn í hann, eins og t.d. „mig brestur samt… hann drap hundinn minn… en ég er óttaslegin… ég þarf á krafta-verki að halda… ef þú [Drottinn] ert til“ og á eftir niðurlagi sálmsins „og í húsi Drottins bý ég langa ævi“ bætir hún við: „en ég vildi hljóta meira af þessu lífi fyrst. Ef þú hjálpur okkur ekki munum við öll deyja. Ég bið bara um eitt kraftaverk. Amen.“ Að lokinni þessari bæn stúlkunnar birtist síðan kraftaverkið í formi verndara eða frelsara á hesti. Reynist þar komin aðalsögupersóna myndarinnar, leikin af Clint Eastwood. Hafa ýmsir orðið til að líkja hetjunni sem hann leikur við eins konar Kristsgerving.

Dúfnavængir

Þeim kvikmyndaáhorfendum sem ekki eru vel kunnugir Saltaranum munu trúlega yfirsjást hin biblíuleg stef myndarinnar Dúfna-vængir (The Wings of the Dove, 1997), en heiti myndarinnar er sótt í 55. sálm Saltarans og þegar sálmurinn er skoðaður kemur í ljós að hann leggur myndinni ekki aðeins til nafn heldur eru tengslin milli myndar-innar og sálmsins marg-vísleg og athyglisverð.

Myndin hefur yfirleitt hlotið góða dóma og var hún tilnefnd til fjög-urra Óskarsverðlauna á sínum tíma, þ.á.m. var leikkonan Helena Bonham Carter tilnefnd til verðlauna sem besta leikkona í aðalhlutverki.

Myndin Dúfnavængir er byggð á víðfrægri skáldsögu Henry James. Hún fjallar í stuttu máli um ástfangið par sem vantar peninga til að fá að eigast og kynni þeirra af ungri konu – „ríkasta munaðarleysingja í heimi“ – sem á allt nema ást. Þegar Kate Croy (Helena Bonham Carter) verður ástfangin af róttækum og snauðum blaðamanni Merton Densher að nafni (Linus Roache) stendur hún frammi fyrir því erfiða vali að giftast manninum sem hún elskar og verða „útskúfuð úr samfélaginu“ eða búa áfram við fjárhagslega trygga stöðu í skjóli Maude, hinnar auðugu móðursystur sinnar, sem reynir að koma í veg fyrir að Kate verði á sömu mistök og móður hennar. Ástarævintýri þeirra Kate og Merton verður því að fara leynt. Þáttaskil verða þegar Millie Theale (Alison Elliott), ung, falleg og vellauðug bandarísk kona, kemur til sög-unnar og á einnig sitt leyndarmál. Þegar Kate kemst að því að Millie er orðin hrifin af Merton og ekki bara það heldur einnig dauðvona sér hún þar möguleika á að leysa vanda hennar og Mertons og reynir að fá Merton til að grípa tækifærið. Raunar var hún ekki fyrst til að sjá möguleika fólgna í yfirvofandi andláti Millie. Þann vafasama heiður á Mark lávarður, full-trúi spillingarinnar í mynd-inni, sbr. orð hans: „Ég þarfnast peninga hennar til að halda heimili mínu . . . Hún er veik, deyjandi.“

Sögusviðið er fyrst í London árið 1910 og þaðan liggur leiðin til Feneyja þar sem uppgjörið í þessum sérkennilega þríhyrningi á sér stað.

Eftir að Millie er látin hefur Merton yfir orðin:

„Hjartað berst ákaft í brjósti mér,
ógnir dauðans falla yfir mig,
ótti og skelfing eru yfir mig komin,
og hryllingur fer um mig allan,
svo að ég segi: „Ó, að ég hefði vængi eins og dúfan,
þá skyldi ég fljúga burt og finna hvíldarstað.“

Þessi orð reynast sótt í 55. sálm Saltarans, vers 5-7. Sálmur 55 er dæmigerður harmsálmur, en um þriðjungur allra sálma Saltarans er af þeirri gerð. Harmsálmarnir eru yfirleitt byggðir þannig upp að fyrst kemur ákall til Guðs, því næst lýsing á neyð og harmi þess sem talar og þar koma fjandmenn yfirleitt mjög við sögu, þá bæn um að Guð láti til sín taka og loks fullvissa um bænheyrslu. Öll eru þessi atriði til staðar í Sl 55. Það sem er óvenjulegt við sálminn er hversu persónu-legur hann er og þó einkum það að versti óvinurinn reynist áður hafa verið vinur sálmaskáldsins, sbr. vers 13-15a:

„Því að það er eigi óvinur sem hæðir mig
– það gæti ég þolað,
og eigi hatursmaður minn er hreykir sér yfir mig
– fyrir honum gæti ég farið í felur,
heldur þú, jafningi minn og kunningi,
við sem vorum ástúðarvinir…“

Til þessara orða er aldrei vitnað beint í myndinni, en þau koma óneit-anlega vel heim og saman við tilfinningar Mertons eins og þær birtast okkur þar. Fyrst þegar Kate hafði reynt að leiða Merton og Millie saman ásakar hann hana með orðunum: „Þú sveikst mig ekki bara, þú leiddir mig í gildru.“ Í lok myndarinnar fer ekki á milli mála að Merton er mjög þjakaður af samviskubiti yfir því sem Kate hefur gert á hlut Millie og fengið hann til að taka þátt í því, með því að láta hann „draga dauðvona stúlku á tálar“ til að komast yfir peninga hennar. Undir lok myndarinnar, eftir andlát Millie, er Merton fullur ásökunar í garð Kate og segir henni að taka við peningunum sem Millie hefur arfleitt hann að: „Þetta er vinningurinn þinn.“ segir hann í ásökunartón. Þessar og aðrar ásakanir hans í garð Kate minna óneitanlega á orðin í Sl 55:21-22:

„Vinur minn lagði hendur á þann er lifði í sátt við hann,
hann rauf sáttmál sitt.
Hálli en smjör er tunga hans,
en ófriður er í hjarta hans,
mýkri en olía eru orð hans,
og þó brugðin sverð.“

Orðin í v. 18 lýsa sömuleiðis ágætlega líðan Mertons:

„Kvöld og morgna og um miðjan dag
harma ég og styn…“

Loks má benda á v. 10b-12 þar sem segir:

„því að ég sé kúgun og deilur í borginni.
Dag og nótt ganga þær um á múrum hennar,
en ógæfa og armæða eru þar inni fyrir.
Glötun er inni í henni,
ofbeldi og svik víkja eigi burt frá torgi hennar.“

Óneitanlega skapa þessi orð sterk hugrenningatengsl við persónu Mertons, hins róttæka blaðamanns, sem snemma í myndinni lætur þau orð falla að yfirstéttinni sé ekki viðbjargandi, skrifar blaða-grein um spillingu læknastéttarinnar og lætur seint í myndinni í ljós þá skoðun að allt sem er á Markúsartorgi Feneyja ætti að jafna við jörðu og þess í stað ætti að reisa þar heimili fyrir fátæka. Kynni hans af yfirstéttarfjölskyldu Kate og ekki síst af Mark lávarði eru einnig öll með þeim hætti að þau koma ágætlega heim og saman við þessi orð Sl 55.

Óneitanlega eru tengsl Dúfnavængja og Sl 55 meiri og augljósari en svo að það verði skrifað á reikning tilviljunar. Þangað er sótt nafn myndarinnar, Merton hefur yfir 5.-7. vers sálmsins þegar Millie er látin og tengslin reynast þegar nánar er skoðað mikið umfangsmeiri, eins og sýnt hefur verið hér að framan. Vissulega gefur þessi sýn á myndinni henni nýja vídd og gerir hana áhugaverðari, a.m.k. í augum guðfræðings.

Lokaorð

Allt frá upphafi kvikmyndanna hafa þær átt samleið með Biblíunni. Hún hefur reynst þeim óþrjótandi uppsprettulind og svo er enn. Kvik-myndirnar eru því gott dæmi um áhrifamátt Biblíunnar. Ákveðnar frásagnir og persónur Biblíunnar hafa verið endurskapaðar í kvik-myndum sem hafa verið hugsaðar beinlínis sem sögulegar heimilda-myndir. Mun algeng-ara er þó að leikstjórar kvikmyndanna hafi stuðst við ákveðnar hug–myndir eða stef úr Biblíunni, eða notað skáldverk sem samin hafa verið undir áhrifum frá Biblíunni, og nýtt þau á þann hátt að sá sem er ólæs á Biblíuna verður þess ekki var og fer þá oft á tíðum mikils á mis. Af nógu er að taka enda er óhætt að segja að Biblían fjalli um flest stef mannlegs lífs. Áhrif Biblíunnar í kvikmyndum má raunar greina mun víðar en flesta grunar. Í þessari grein hefur ekki síst verið leitast við að benda á þýðingarmikil biblíuleg stef í kvikmyndum, stef sem ekki liggja ætíð í augum uppi.