Kvikmyndir

Return of Sabata

Leikstjórn: Gianfranco Parolini [undir nafninu Frank Kramer]
Handrit: Renato Izzo og Gianfranco Parolini
Leikarar: Lee van Cleef, Reiner Schöne, Giampiero Albertini, Mario Brega, Ignazio Spalla [undir nafninu Pedro Sanchez], Annabella Incontrera, Jacqueline Alexandre, Vassili Karis, Nick Jordan [undir nafninu Aldo Canti], Steffen Zacharias, Franco Fantasia og Gianni Rizzo
Upprunaland: Ítalía, Frakkland og Þýzkaland
Ár: 1971
Lengd: 101mín.
Hlutföll: 1.33:1 (var 2.35:1)
Einkunn: 1

Ágrip af söguþræði:
Smábænum Hobsonville í Texas er stjórnað af kirkjuræknum skúrki sem skattleggur hvað eina sem þar er í boði undir því yfirskini að gæta þurfi að framtíð bæjarbúanna. Sirkusleikarinn og stórskyttan Sabata neitar hins vegar að borga skattinn þegar hann kemur til bæjarins til að innheimta þar $5000 sem hann hafði verið svikinn um og lendir fyrir vikið upp á kannt við bæjaryfirvöldin. Í ljós kemur að skattinum er jafnan stungið undan um leið og hann er greiddur og fölsuðum peningum komið fyrir í staðinn í bæjarbankanum til að skúrkurinn geti stungið af með skömmum fyrirvara.

Almennt um myndina:
Þetta er þriðji spaghettí-vestrinn um stórskyttuna Sabata sem jafnan lumar á ótrúlegustu skotvopnum þegar á þarf að halda. Eins og í fyrstu kvikmyndinni leikur Lee van Cleef hér Sabata en í millitíðinni fór Yul Brynner með hlutverk hans. Allar eru þessar myndir í raun gamanmyndir með mörgum slagsmálaatriðum og frekar bjánalegum húmor sem skemmir óhjákvæmilega fyrir þeim. Framhaldsmyndin Return of Sabata er samt nokkuð skárri en sú fyrsta, Sabata, sem sami leikstjóri gerði tveim árum áður og naut ótrúlegra vinsælda.

Smábærinn Hobsonville ætti að vera öllum afkastamiklum spaghettí-vestra-áhorfendum vel kunnur enda hefur hann komið við sögu undir ótal nöfnum í fjölda slíkra mynda. Bæjarkirkjan er t.d. sérstaklega eftirminnileg úr vestrunum The Four of the Apocalypse (Lucio Fulci: 1975) og Mannaja (Sergio Martino: 1977).

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Kirkjutónlist fylgir jafnan skúrkinum sem reynist holdgerfingur hræsninnar. Hann er kirkjurækinn, les Biblíuna reglulega og talar jafnan um mikilvægi kristilegs siðferðis en arðrænir um leið bæjarbúana, er umsvifamikill peningafalsari og lætur myrða hvern þann sem stendur í vegi fyrir honum. Þannig skipuleggur hann jafnvel launmorð hjá altarinu að lokinni guðþjónustu en róðukrossinum snýr hann frá sér rétt á meðan. Hann er eins og hræsnararnir sem Jesús Kristur fordæmdi sem kalkaðar grafir er sýnast fagrar að utan en eru fullar af alls kyns óþverra: „Þannig eruð þér, sýnist hið ytra réttlátir í augum manna, en eruð hið innra fullir hræsni og ranglætis.“ (Mt. 23: 27-28.) Sömu sögu er að segja af prestinum sem predikar um mikilvægi þess að sniðganga þá sem stjórnast af holdlegum girndum og upphefur í staðinn sakleysið fyrir tilkomu syndafallsins, en horfir um leið girndaraugum á fallegustu konuna í guðsþjónustunni og fær sér síðan í laumi gúlsopa úr vínflösku þegar hann stígur niður úr predikunarstólnum.

Má vera að handritshöfundarnir séu með þessu að vísa til kenninga Karls Marx um kirkjuna og kristindóminn, þ.e.a.s. að trúin sé aðeins tæki auðvaldsins til að viðhalda stéttaskiptingunni og arðráni öreiganna. Ýmsir vinstrisinnaðir ítalskir kvikmyndagerðarmenn komu slíkum viðhorfum markvisst fyrir í kvikmyndum sínum til að hafa áhrif á almenning og voru spaghettí-vestrarnir þar engin undantekning en einn sá þekktasti þeirra er myndin A Bullet for the General (Damiano Damiani: 1965). Hafi þetta hins vegar verið boðskapur Gianfrancos Parolinis í myndinni Return of Sabata hefur hann tæpast komist til skila enda tekur hún sig alls ekki alvarlega. Og allt eins má túlka myndina sem gagnrýni á skattlagningu yfirlýstra félagshyggjumanna.

Sjálfur getur Sabata ekki talist góð fyrirmynd enda bæði þjófur og svikahrappur. Einn af félögum hans minnir hann á þau orð Jesú Krists að hann skuli koma fram við aðra eins og hann vilji að þeir komi fram við sig (Mt 7:12) en það kemur samt ekki í veg fyrir að hann skjóti mann og annan. Þessi bölsýna og kaldhæðnislega persónusköpun er eitt helsta einkenni spaghettí-vestranna en flestir bandarísku vestranna boða hins vegar hið góða í manninum, hetjuskap, dygðir og réttlæti.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: 1M 3, Mt 7:12
Hliðstæður við texta trúarrits: Mt. 23: 27-28
Guðfræðistef: guðhræðsla, mennskan, sköpunarverkið
Siðfræðistef: manndráp, fjárhættuspil, hræsni, ofbeldi, kynferðisleg áreitni, vændi, siðferði, siðsemi, svik, peningafölsun, sjálfsvörn, ágirnd, framhjáhald
Trúarbrögð: kristindómur
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja
Trúarleg tákn: altari, predikunarstóll, altaristafla, róðukross, krans
Trúarleg embætti: prestur
Trúarlegt atferli og siðir: bæn, predikun, guðsþjónusta, kirkjuorgelleikur, signun, þakkargjörð, blessun, biblíulestur