Kvikmyndir

Ringo and His Golden Pistol

Leikstjórn: Sergio Corbucci
Handrit: Adriano Bolzoni og Franco Rossetti
Leikarar: Mark Damon, Valeria Fabrizi, Franco De Rosa, Andrea Aureli, Loris Loddi, Giovanni Cianfriglia [undir nafninu Ken Wood], Ettore Manni, John Bartha, Pippo Starnazza, Giulia Rubini og Nino Vingelli
Upprunaland: Ítalía
Ár: 1966
Hlutföll: www.imdb.com/Details?0060563
Einkunn: 2

Ágrip af söguþræði:
Mannaveiðarinn Ringo gerir helst ekki neitt nema að hann sjái einhvern fjárhagslegan ávinning af því. Þannig skýtur hann aðeins þá bófa til bana með gylltu byssunni sinni, sem eftirlýstir hafa verið með veglegri fjárhæð, en leyfir öllum öðrum að halda leiða sinna jafnvel þótt ljóst sé að þeir muni hefna sín við fyrsta tækifæri. Bróðir eins bófaforingjans, sem fallið hafði fyrir hendi Ringos, safnar líka strax liði gegn honum þrátt fyrir að lífi hans hafi verið þyrmt.

Ringo er brátt handtekinn fyrir ólöglegan vopnaburð í bandarískum smábæ og stungið í steininn. Þegar það spyrst út, heldur bróðirinn þangað með lið sitt og krefst þess að fá mannaveiðarann afhentan gegn því að bænum verði þyrmt. Þrátt fyrir að flestir bæjarbúarnir vilji ganga að kröfum bófanna, stendur lögreglustjórinn fast á sínu og neitar að afhenta fangann. Fyrir vikið flýja bæjarbúarnir svo til allir af hólmi þannig að lögreglustjórinn neyðist til að verja fangann nánast einsamall gegn ofureflinu. Ringo ákveður þó að veita honum lið um leið og hann áttar sig á því að mikill gullfengur hefur verið falinn í gamalli fallbyssu við fangelsið.

Almennt um myndina:
Ósköp hefðbundinn spaghettí-vestri sem rétt dugar fyrir allra hörðustu aðdáendurna. Persónusköpunin er einföld og er aldrei vafi á því hver sé góður og hver sé slæmur. Mark Damon er sjálfsöryggið uppmálað í hlutverki stórskyttunnar Ringos, sem lætur sér aldrei bregða sama hvað á gengur. Manndrápin eru líka fleiri en tölu verður á komið og er t.d. flokkur Indíána strádrepinn, sem gengið hafði til liðs við bófana, enda sagðir villimenn upp til hópa. Sem betur fer fá Indíánar ekki lengur slíka útreið í vestrum enda almenningur orðinn betur meðvitaður um kjör þeirra og örlög á liðnum öldum.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Í upphafi kvikmyndarinnar neyðir bófaforingi unga konu til að giftast sér og fær rómversk-kaþólskan prest til að framkvæma vígsluna í þorpskirkjunni. Þó svo að rómversk-kaþólska kirkjan líti á hjónavígsluna sem sakramenti, sýnir bófaforinginn helgihaldinu enga þolinmæði og skipar prestinum að fara á hundavaði yfir athöfnina til að klára hana af sem fyrst. Hjónavígslunni er þó vart lokið þegar Ringo mætir á staðinn og skýtur alla þá, sem eftirlýstir hafa verið. Undir lok myndarinnar hvetur bróðir bófaforingjans Ringo síðan til bænahalds í lokaeinvíginu, enda sannfærður um að hann eigi skammt eftir ólifað.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Mt 28:19
Siðfræðistef: manndráp, hefnd, kynþáttafordómar
Trúarbrögð: rómversk-kaþólska kirkjan
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja
Trúarleg tákn: altari, kross
Trúarlegt atferli og siðir: hjónavígsla, signing, fyrirbæn, blessun