Kvikmyndir

Ringo: The Mark of Vengeance

Leikstjórn: Mario Caiano
Handrit: Mario Caiano og Eduardo Manzanos Brochero
Leikarar: Anthony Steffen, Frank Wolff, Eduardo Fajardo, Armando Calvo, Alejandra Nilo, Alfonso Godá, Antonio Orengo, Manuel Bermúdez ‚Boliche‘, Ricardo Canales, Amedeo Trilli og Rafael Vaquero
Upprunaland: Ítalía og Spánn
Ár: 1967
Lengd: 96mín.
Hlutföll: 1.85:1
Einkunn: 2

Ágrip af söguþræði:
Tveir byssumenn bjarga tvívegis lífi mexíkansks bófa samdægurs og komast að því að helmingurinn af fjársjóðskorti hefur verið tattóveraður á baki hans en hinn helminginn er að finna á baki spillts lögreglustjóra sem lætur einskis ófreistað að ná því öllu. Kortið hafði verið tattóverað á bök þeirra af samfanga þeirra sem átti skammt eftir ólifað þegar þeir sátu allir í fangelsi nokkrum árum áður. Byssumennirnir semja við Mexíkanann um hlut í fjársjóðinum ef þeir finni hann en brátt fjölgar þeim sem sýna honum áhuga og tvístrar græðgin hópnum að lokum.

Almennt um myndina:
Fjársjóðsleit fégráðugra byssumanna í villta vestrinu er eitt af nokkrum hefðbundnum þemum spaghettí-vestranna og nægir þar að nefna meistaraverkið The Good, the Bad and the Ugly (Sergio Leone: 1966) og gamanmyndina misheppnuðu Roy Colt and Winchester Jack (Mario Bava: 1970). Þó svo að gæði spaghettí-vestrans Ringo: The Mark of Vengeance séu aðeins í meðallagi er hann vel þess virði að sjá, a.m.k. fyrir alla áhugamenn þessarar vanmetnu kvikmyndagreinar. Leikararnir eru margir kunnir úr ótal spaghettí-vestrum og er ekki laust við að stirður leikurinn og óþjál talsetningin hæfi illa rökuðum og óhefluðum sögupersónunum sem beita hnefanum eða sexhleypunni við minnsta tilefni. Anthony Steffen (sem hét réttu nafni Antonio De Teffé) fór sjaldnast vel með þær setningar sem honum voru lagðar í munn en yfirleitt blessaðist það alltaf einhvern veginn í þeim spaghettí-vestrum sem hann lék í, ekki síst í Django the Bastard (Sergio Garrone: 1969) þar sem söguhetjan reis upp frá dauðum og skaut morðingja sína einn af öðrum til helvítis.

Myndin er fáanleg á dvd frá þýzka útgáfufyrirtækinu X-Rated og er þar í fínum gæðum með enskri, þýzkri og ítalskri hljóðrás en auk þess fylgja með stiklur úr nokkrum öðrum spaghettí-vestrum frá sama fyrirtæki. DVD hylkin frá X-Rated eru jafnan í bókarformi og á stærð við gömlu leigumyndböndin en fyrir vikið passa þau illa í hillu með hefðbundnum DVD plasthylkjum. Útlit hylkjanna er þó yfirleitt flott og er ánægjulegt að sjá gömlu auglýsingateikningunum skartað á kápunum eins og í þessu tilfelli. Þýzki titill myndarinnar, Es geht um Deinen Kopf, Amigo, verður auk þess að teljast mun svalari en enski titillinn Ringo: The Mark of Vengeance, en nafnið Ringo er fyrst og fremst sótt til tveggja spaghettí-vestra sem nutu töluverðra vinsælda á árdögum þeirra, A Pistol for Ringo (Duccio Tessari: 1964) og The Return of Ringo (Duccio Tessari: 1964).

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Eins og í svo mörgum spaghettí-vestrum eru söguhetjurnar hér ósköp sjálfhverfar og gera sjaldnast neitt nema til að græða á því og víla þá ekkert fyrir sér. Þannig skjóta t.d. aðalsöguhetjurnar tvær hiklaust þá menn til bana sem eru á hæla mexíkanska bófans í myndarbyrjun en það gera þeir í von um að hann eigi eftir að reynast þeim einhvers virði.

Sömuleiðis skiptir það engu máli hvort mennirnir með tattóveruðu fjársjóðskortin á bakinu séu lifandi eða dauðir en fyrir vikið reyna ófáir að koma þeim fyrir kattarnef. Þegar lögreglustjórinn spillti nær að handtaka Mexíkanann og fylgdarmenn hans ákveður hann að dæma þá alla til hengingar í sýndarréttarhöldum, en áður en til þess kemur bjarga þeir lífi sínu með því að afmá tattóveraða kortið af baki mannsins með því að brenna húð hans með kerti. (Þrátt fyrir að Mexíkaninn sé augljóslega skaðbrenndur eftir þann gjörning er hann samt eldsnöggur að ná sér og er áður en varir kominn með hestaheilsu á ný.) Svo fer að lögreglustjórinn er sjálfur skotinn til bana en þegar byssumennirnir bregða á það ráð að ræna líki hans úr gröfinni grípa þeir í tómt því að einn félagi þeirra hafði náð að ræna því áður (þótt ómögulegt sé að sjá hvernig viðkomandi hafi haft tök á því enda í fylgd með þeim allan tímann og einn þeirra sem lenti í fangelsinu að auki). Lögreglustjórinn var hinn mesti skúrkur og segir meira að segja bæjarpresturinn hann hafa verið slæman mann en hvetur samt þá fáu sem fylgja honum til grafar að biðja fyrir honum því að Guð sé miskunnsamur og geti alveg átt eftir að fyrirgefa honum.

Græðgin eftir fjársjóðinum tvístrar smám saman hópnum og berjast þar jafnvel gamlir vinir upp á líf og dauða. Einn þeirra (leikinn af Anthony Steffen) fær þó nóg að lokum og missir áhugann á gullinu þegar hann loks fær það í hendur og gefur það því allt bágstöddum í staðinn enda orðinn ástfanginn af stúlku sem hann hafði bjargað fyrr í myndinni, en slík málalok verða að teljast nokkuð óvenjuleg fyrir spaghettí-vestra. Að vísu hafði hann skotið bróður hennar til bana þegar hann í sjálfsvörn felldi heilt bófagengi sem haldið hafði mexíkönsku þorpi í heljargreipum, en stúlkan vildi samt ekki erfa það við hann enda honum þakklát fyrir að hafa bjargað sér frá æstum þorpsbúnum sem ætluðu að grýta hana til bana. En ólíkt Jesú Kristi sem sagði hinum syndlausu að kasta fyrsta steininum þegar múgurinn ætlaði að grýta hórseku konuna (Jh 8:7) segir Anthony Steffen harla þvoglumæltur við múginn um leið og hann hleypir stúlkunni inn fyrir dyrnar: „Ef hún hefur gert eitthvað slæmt þá lofa ég því ykkur að henni verði refsað!“

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Biblían, Mt 6:9
Hliðstæður við texta trúarrits: Jh 8:7
Guðfræðistef: miskunnsemi Guðs, fyrirgefning, bæn
Siðfræðistef: manndráp, ofbeldi, fjárhættuspil, græðgi, svik, grafarrán, ást, nauðgunartilraun, meðaumkun, vinátta
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkjugarður
Trúarleg tákn: kross á leiði
Trúarleg embætti: prestur
Trúarlegt atferli og siðir: bæn (faðirvor), fyrirbæn, greftrun