Leikstjórn: Alfred Hitchcock
Handrit: Arthur Laurents
Leikarar: James Stewar, John Dall, Farley Granger, Sir Gedric Hardwicke, Constance Collier og Joan Chandler
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 1948
Lengd: 81mín.
Hlutföll: us.imdb.com/Details?0040746
Einkunn: 3
Ágrip af söguþræði:
Tveir ungir menn ákveða að fremja hið fullkomna morð, þ.e. morð morðsins vegna. Eina ástæðan fyrir því að þeir myrða vin sinn er sú að þeir telja sig vera ofurmenni í anda Nietzsche og því sé það skylda þeirra að losa heiminn við óæðri mannverur. Eftir að hafa myrt vin sinn og komið líkinu fyrir í kistu bjóða þeir gestum í mat og nota kistuna sem veisluborð. Þetta átti að vera listrænt morð og það fólst viss fágun í því að bjóða fjölskyldu fórnarlambsins í mat!
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Þær fáu klippingar sem eru í Rope eru faldar (fyrir utan upphafsatriðið) þannig að öll myndin virðist vera tekin í einni langri töku. Oft geta langar tökur verið þreytandi og langdregnar en Hitchcock tekst að halda uppi spennu hverja einustu mínútu.Rope er fyrst og fremst áhugaverð vegna þeirra siðfræðilegu spurninga sem hún vekur. Morðingjarnir eru í raun holdtekja kenninga Nietzsche um ofurmennið og þrælasiðgæðið. Þeir telja sig æðri mannverur og því telja þeir sig hafa rétt til að losa heiminn við óæðri mannverur. Þeir eru einnig lausir undan þrælasiðgæðinu, hugmyndum eins og það það sé eitthvað til sem er rétt eða rangt, gott eða illt. Slíkar hugmyndir eru aðeins hluti af kúgun hinna veiklynduðu. Í myndinni sýnir Hitchcock okkur afleiðingar slíkra hugmynda og minnir okkur á að það er mjótt bil á milli hugmynda og framkvæmda. Eins og gefur að skilja er hugmyndum Nietzsche hafnað og má á vissan hátt segja að niðurstaða myndarinnar sé í anda Páls Postula: „Hér er enginn Gyðingur né grískur, þræll né frjáls maður, karl né kona. Þér eruð allir eitt í Kristi Jesú“. Í myndinni er þeirri hugmynd einmitt hafnað að til séu ofurmenni og þrælar, þvert á móti séu allir menn jafnir.Hitchcock reynir að komast upp með að fjalla um samkynhneigð, en myndin er gerð á þeim tíma sem slíkt var stranglega bannað. Þótt aldrei sé minnst á samkynhneigð svífur hún engu að síður yfir vötnunum. Hitchcock gerir samkynhneigðum hins vegar engan greiða með þessari mynd því hinir samkynhneigðu eru samviskulausir morðingjar.En Rope er ekki aðeins áhugaverð út frá siðfræðilegu sjónarhorni því í myndinni er einnig vísun í fyrsta bróðurmorðið (þ.e. söguna af Kain og Abel) og altarissakramentið (í Nietzscheskum anda).
Beinar tilvísanir í texta trúarrits: 1M 4:9
Hliðstæður við texta trúarrits: Rm 12:5, Gl 3:28
Persónur úr trúarritum: Satan, Guð, Lassarus
Sögulegar persónur: Nietzsche
Guðfræðistef: mennska, ómennska
Siðfræðistef: gott, illt, menning, morð, rétt, ofurmenni, rangt, samkynhneigð, siðgæði
Trúarbrögð: stjörnuspeki
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: altari, kirkjuklukka,
Trúarleg tákn: fórnarmáltíð