Kvikmyndir

Roy Colt and Winchester Jack

Leikstjórn: Mario Bava
Handrit: Mario di Nardo
Leikarar: Brett Halsey, Charles Southwood, Marilù Tolo, Teodoro Corrà, Guido Lollobrigida (undir nafninu Lee Burton), Bruno Corazzari, Isa Miranda, Federico Boido (undir nafninu Rick Boyd), Osiride Peverello og Pietro Torrisi
Upprunaland: Ítalía
Ár: 1970
Lengd: 86mín.
Hlutföll: 1.85:1
Einkunn: 1

Ágrip af söguþræði:
Nokkrir bófar í leit að földum fjársjóði svíkja, pretta og drepa hverja aðra en indíánastúlka reynist ofjarl þeirra allra.

Almennt um myndina:
Mario Bava þykir einn af merkilegustu kvikmyndagerðarmönnum Ítala enda þótt hann hafi aðeins gert hræódýrar B-myndir sem sumar urðu jafnvel gjaldþrota áður en gerð þeirra var lokið. Ástæðan fyrir því hversu mjög Bava hefur verið hampað er ekki síst útsjónasemi hans í að nýta sem best það litla fjármagn og efni sem hann hafði til ráðstöfunar hverju sinni. Myndir hans eru flestar stórglæsilegar fyrir augað og sumar hrein frumkvöðlaverk hvað varðar handbragð og efnistök, enda hafa kvikmyndagerðarmenn á borð við Tim Burton og Martin Scorsese ekki aðeins lýst yfir aðdáun sinni á verkum hans heldur játað fúslega að þeir hafi sótt ýmislegt til hans. Bava hefur líka verið lengi einn af uppáhalds kvikmyndagerðarmönnum mínum og tek ég aðeins Krzysztof Kieslowski, Billy Wilder, Roman Polanski og Sergio Leone fram yfir hann, enda þótt Mikail Kalatozov, Orson Welles og Alfred Hitchcock séu þar ekki langt að baki.

Spaghettí-vestrarnir voru þó aldrei sterkasta hlið Bava og gerði hann þá aðeins tilneyddur til að afla fjármagns fyrir aðrar myndir eða hreinlega til að bjarga málunum á síðustu stundu þegar aðrir kvikmyndagerðarmenn höfðu gefist upp og stungið af frá hálfkláruðu verki. Bava þótti handrit Marios di Nardo að spaghettí-vestranum Roy Colt and Winchester Jack svo slæmt að hann ákvað á síðustu stundu að umbreyta myndinni í farsa til þess að engum gæti dottið til hugar að hann hefði tekið verkið alvarlega. Ekki er hægt að segja að það hafi bjargað miklu enda er þetta versta mynd Bava sem ég hef séð til þessa en ég hef séð þær flestar og gef a.m.k. sex þeirra svo til fullt hús stiga.

Engu að síður má finna ýmislegt sem ber handbragð Bava vitni eins og frumleg myndskot og flott litanotkun.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Aðalskúrkur myndarinnar er vafasamur prestur sem segist vera frá Rússlandi og þekkja Raspútín, alræmdan kukklara sem var í nánum tengslum við rússnesku keisarafjölskylduna snemma á tuttugustu öldinni. Hann er þó allan tímann áhugasamari um veraldlega hluti en andlega, enda eltist hann við vændiskonur og faldan fjársjóð með fulltyngi bófagengis.

Þeim Jack, sem kenndur er við Winchester riffilinn, og Roy, sem nefndur er eftir Colt skammbyssunum, semur lengst af illa og saka hvorn annan um svik og pretti í sinn garð. Þannig segir Jack að í samanburði við Roy hafi bróðurmorðinginn Kain verið engill, en sagan af honum er að finna í upphafi Gamla testamentisins, nánar til tekið í I. Mós. 4.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: 1M 4
Persónur úr trúarritum: Kain, djöfullinn
Sögulegar persónur: Raspútín
Guðfræðistef: helgi hjónabandsins, helvíti
Siðfræðistef: ofbeldi, manndráp, hjónaband, vændi, blót, þjófnaður
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja, trúboðsstöð, guðfræðideild
Trúarleg tákn: tótem
Trúarleg embætti: prestur, nunna, páfi
Trúarlegt atferli og siðir: bæn