Kvikmyndir

Sadisterotica

Leikstjórn: Jesus Franco
Handrit: Luis Revenga og Jesus Franco
Leikarar: Janine Reynaud, Rosanna Yanni, Adrian Hoven, Michel Lemonie, Chris Howland, Marta Reves, Alexander Engel, Ana Cassares, Manuel Otero og Julio Pérez Tabernero
Upprunaland: Þýzkaland og Spánn
Ár: 1967
Lengd: 80mín.
Hlutföll: 1.58:1 (var sennilega 1.85:1)

Ágrip af söguþræði:
Einkaspæjararnir Díana og Regína eru föngulegar ungar stúlkur, sem klæðast sjaldnast meiru en bíkíní-baðfötum og nota rauðar varir sem kennimark sitt. Þær sannfærast um að eitt af torskildari málverkum sérviturs listmálara sé af stúlku, sem ekkert hefur spurst til um langt skeið, og ákveða að freista þess að hafa uppi á henni. Listmálarinn neitar hins vegar öllum um áheyrn, sem eftir því sækjast, og hafa ekki einu sinni nánustu starfsmenn hans litið hann augum. Þegar þeim Díönu og Regínu tekst loks að finna listmálarann, reynist hann raðmorðingi, sem sækir innblástur í expressionísk málverk sín með því að fylgjast með varúlfinum Morpho myrða fyrirsæturnar.

Almennt um myndina:
Eflaust súpa flestir kveljur yfir titlinum Sadisterotica, sem verður að teljast með þeim svakalegri. Sjálfur hét ég því að horfa aldrei á þessa kvikmynd þegar ég sá hana fyrst á íslenskri myndbandaleigu enda alls ekki hrifinn af kynferðislegum kvalalosta. En eftir að áhugi minn vaknaði á evrópskum cult myndum og ég fór að kynna mér verk kvikmyndagerðarmanna á borð við Spánverjans Jesú Franco, komst ég brátt að því, að það gæti verið þess virði að leita Sadisterotica uppi.

Titillinn reyndist líka mjög svo villandi fyrir efnisinnihald myndarinnar, enda er hinn svonefndi erótíski kvalalosti bundinn við torskilin klessumálverk, sem sögð eru hafa orðið til þegar varúlfur myrti fyrirsæturnar, en fæst af því er sýnt. Ofbeldið í James Bond myndunum er mun grófara, enda slapp bíómyndin Sadisterotica, sem gerð var árið 1967, óstytt í gegnum breska kvikmyndaeftirlitið snemma á tíunda áratugnum ­- kvikmyndaeftirlit sem hefur ýmist bannað eða stytt ótal Hollywood myndir enda eitt hið strangasta í allri Evrópu. Að vísu er myndin bönnuð innan 18 ára í Bretlandi en sennilega er titillinn megin ástæðan fyrir því auk þess sem um er að ræða svonefnd ‚snuff‘ málverk, þ.e.a.s. fyrirsæturnar eru sagðar hafa verið myrtar meðan þau voru máluð. Sennilega hefði myndin í mesta lagi verið bönnuð innan 12 ára hér á landi, jafnvel á níunda áratugnum þegar kvikmyndaeftirlitið var hvað strangast.

Kvikmyndin Sadisterotica er hreinræktuð evrópsk ruslmynd (oftast nefnt evrurusl), sem er í senn hroðalega léleg en samt bráðskemmtileg. Franco blandar saman alls kyns kvikmyndaafbrigðum, svo sem morðgátum, gamanmyndum, leynilöggum, hrollvekjum og njósnurum, í undarlegan hrærigraut sem einna helst minnir á ærslafengna teiknimyndasögu. Litskrúðug tískan er sjöundi áratugurinn í hnotskurn enda myndu margir aðdáendur kvikmyndanna The Spy Who Shagged Me (Jay Roach: 1999) og Goldmember (Jay Roach: 2002), sem draga njósnamyndir þess tíma sundur og saman í háði, eflaust hafa nokkurt gaman af henni.

Burt séð frá nautheimskri sögufléttunni og ferlega slæmum leikurunum er enska talsetningin tvímælalaust versti galli myndarinnar. Raunar er hún með því versta sem ég hef heyrt til þessa, en myndin mun sennilega hafa verið gerð á þýzku eða spönsku eða jafnvel hljóðlaus og því talsett eftir á. Slæm talsetningin breytir því hins vegar ekki að myndin er vel þess virði að sjá, að minnsta kosti hvað varðar einlæga aðdáendur evrópskra ruslmynda.

Anchor Bay fyrirtækið í Bandaríkjunum gaf kvikmyndina út á DVD undir titlinum Two Undercover Angels (í hlutföllunum 1.33:1) fyrir nokkrum árum en hún er fyrir löngu uppseld. Sennilega hefur sá titill þótt söluvænlegri í siðvöndum bandarískum kvikmyndaverslunum en sá upphaflegi, sem Redemption myndbandaútgáfan í Bretlandi notaði.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Kvikmyndin er ekki aðeins algjörlega úr tengslum við raunveruleikann heldur fer hún eigin leiðir í svo til öllu sem þar kemur við sögu. Varúlfurinn Morpho á t.d. lítið skilt með hefðbundnum varúlfahrollvekjum kvikmyndasögunnar. Hann birtist aðeins sem handbendi listmálarans, sem veitir honum listrænan innblástur þegar á þarf að halda, en uppruni hans og tilvist eru aldrei útskýrð.

Jesús Franco hefur verið ófeiminn við að endurnýta mannanöfn í kvikmyndum sínum og er Morpho eitt það algengasta hjá honum, en krypplaður aðstoðarmaður dr. Orlofs, nokkurs konar Igor Frankenstein-myndanna, í hrollvekjunni The Awful Dr. Orlof heitir einnig Morpho. Nafnið er mögulega sótt til draumaguðsins Morfeusar í grísku goðafræðinni en ekki er alveg ljóst með hvaða hætti það gæti tengst persónusköpun Morphos í kvikmyndum Francos, liggi einhver hugsun þar að baki á annað borð.

Persónur úr trúarritum: varúlfur
Siðfræðistef: manndráp, erótík, sadismi, snuff málverk, siðleysi