Kvikmyndir

Safar e Ghandehar

Leikstjórn: Mohsen Makhmalbaf
Handrit: Mohsen Makhmalbaf
Leikarar: Nelofer Pazira, Hassan Tantai, Sadou Teymouri, Hoyatala Hakimi, Monica Hankievich, Zahra Shafahi, Safdar Shodjai og Mollazaher Teymouri
Upprunaland: Íran og Frakkland
Ár: 2001
Hlutföll: 1.85:1
Einkunn: 3

Ágrip af söguþræði:
Sólmyrkvi í Kandahar segir sögu blaðakonunnar Nafas, sem fæddist í Afganistan en flýði ung til Kanada með fjölskyldu sinni. Líf systur hennar varð öðruvísi. Hún varð eftir þegar fjölskyldan flýði land og missti fæturna ung af völdum jarðsprengju. Nafas fær bréf frá systur sinni þar sem hún segist hafa ákveðið að fyrirfara sér. Nafas fer til Afganistan í von um að geta bjargað lífi systur sinnar. Hún getur ekki ferðast þangað með hefðbundnum hætti heldur verður að smygla sér inn í landið og leyna því hver hún er. Hvarvetna verður hún vör við þær hörmungar sem talíbanastjórnin hefur leitt þjóðina í.

Almennt um myndina:
Ég hef séð margar fréttamyndir um líf afganskra kvenna undir stjórn Talibana. Geri ráð fyrir að flestar vestrænar kynsystur mínar hafi einhvern tíma reynt að setja sig í spor þessara kvenna sem urðu að hylja líkama sinn og andlit og fengu ekki að ganga í skóla. Sólmyrkvi í Kandahar, mynd hins íranska leikstjóra Mohsen Makhmalbaf var sýnd á kvikmyndahátíðinni í Cannes vorið 2001. Hún fékk einhverja athygli, en engum datt í hug að hún færi í alþjóðlega dreifingu.

Atburðirnir 11. september sama ár breyttu því. Augu heimsins beindust að Afganistan og myndin fékk dreifingu. Fólk sem aldrei hafði leitt hugann að Talibönum og Kandahar vissu allt í einu um hvað málið snerist. Eða taldi sig vita það að minnsta kosti.

Írönsk kvikmyndagerð hefur fengið nokkra athygli undanfarin ár, ég man eftir frábærri mynd frá 1995 eftir Jafar Panahi. Sú heitir “Badkonake sefid” (The White Balloon) og segir frá lítilli stúlku. Hún hefur fengið pening hjá móður sinni til að kaupa gullfisk. Á leiðinni frá heimilinu og í gullfiskabúðina glatar hún peningnum. Sagan sýnir fullorðinsheim með augum barns.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Sagan er byggð á sönnum atburðum, þó leikstjórinn hafi vissulega tekið sér skáldaleyfi. Ekki er lagt mikið í uppbyggingu góðrar fléttu eða persónusköpunnar og leikurinn er á köflum pínlegur. Samt sem áður er sagan heillandi á sinn hátt, líkt og málverk sem sýnir fegurð sem stundum getur búið í hryllingi.

Það sem myndina skortir er bætt upp á sjónrænan hátt. Seiðandi fegurð eyðimerkurinnar, endalausra sandhóla og litríkra Burka, kyrtlanna sem hylja líkama kvennanna. Myndataka Ebraham Ghafouri er frábær. Og sum atriðin eru þannig að þau gleymast seint. Fórnarlömb jarðsprengja reyna að ná gervilimum sem er hent niður í fallhlífum úr þyrlu frá Rauða krossinum, börn læra meira á vopn en nokkuð annað. Lítill drengur nær hring af hendi beinagrindar. Reynir að selja hringinn. Allt til að bjarga sér við þessar skelfilegu aðstæður. Drengurinn, Khak, hefur verið rekinn úr skóla. Skóla þar sem drengirnir læra ekkert annað en að þylja Kóraninn, og er refsað illa ef þeir klikka á því.

Á leið sinni til Kandahar kynnist Nafas bandarískum blökkumanni sem starfar sem læknir í Afganistan og hjálpar hann henni áleiðis. Blökkumaðurinn bendir henni á að það séu ekki aðeins konur sem þurfi að hylja sig vegna fyrirmæla talíbananna heldur þurfi karlmenn að gera það líka með því að láta sér vaxa sítt skegg. Þar sem honum vaxi hins vegar ekkert skegg neyðist hann til að líma það á sig daglega til að lenda ekki vandræðum. Sjálfur segist hann upphaflega hafa komið til landsins í leit að Guði fyrir mörgum árum síðan og barist framan af með helstu stríðsaðilunum, um tíma með Pastönum gegn Tasjíkum og síðan með Tasjíkum gegn Pastönum. Loks hafi runnið upp fyrir honum hversu mjög hann hafði verið á villigötum: „Dag einn fann ég tvö fárveik börn á veginum. Þau voru dauðvona. Annað var Pastani og hitt Tasjíki. Þá skyldi ég að leiðin til Guðs var að hjálpa fólkinu og lækna mein þess.“ Fyrir vikið gerðist hann læknir enda ekki vanþörf á í stríðshrjáðu og bláfátæku landinu þótt aldrei hafi hann lokið læknisfræðinámi.

Umfjöllunin birtist upphaflega á kvikmyndavef Sigríðar Pétursdóttur www.kvika.net en er hér endurbirt í aðlagaðri útgáfu.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Kóraninn (versin sem lesin eru á arabísku voru ekki þýdd á íslensku)
Guðfræðistef: leit að Guði, Guð með oss, bæn, þakkargjörð, máttur Drottins, trúaruppfræðsla, kærleikur
Siðfræðistef: félagsleg staða kvenna, ofbeldi, mannréttindi, blekking, menntun kvenna, læknisskoðun, hefðir, nauðung, fjölkvæni, sjálfsvíg, þjófnaður, góðverk, afleiðingar styrjalda, systkinakærleikur
Trúarbrögð: islam, talíbanar (muslimar)
Trúarleg tákn: burki, slæða, hálfmáni, talnaband, skeggvöxtur
Trúarleg embætti: múlla
Trúarlegt atferli og siðir: bæn, þakkargjörð, ritningarlestur, hneiging, talnaband
Trúarleg reynsla: leit að Guði