Kvikmyndir

Sartana in the Valley of Death

Leikstjórn: Roberto Mauri
Handrit: Roberto Mauri
Leikarar: William Berger, Wayde Preston, Aldo Berti, Jolanda Modio, Luciano Pigozzi [undir nafninu Alan Collins], Pamela Tudor, Carlo Giordana, Franco Ressel, Franco De Rosa, Gaetano Imbro’, Josiane Marie Tanzilli og Betsy Bell
Upprunaland: Ítalía
Ár: 1970
Hlutföll: www.imdb.com/Details?0066333
Einkunn: 1

Ágrip af söguþræði:
Stórskyttan Lee Calloway, sem kallaður er Sartana af þeim sem óttast hann hvað mest, neyðist til að bjarga þrem dauðadæmdum bófum úr fangelsi, sem rænt höfðu miklum gullbirgðum frá hernum. Þar sem Sartana ágirnist gullið sjálfur, krefst hann þess af bófunum að fá hlut í fengnum, en þeir snúa við honum baki og ákveða að losa sig við hann. Sartana kemst þó naumlega lífs af og leitar bófana uppi með byssu í hönd.

Almennt um myndina:
Mjög slakur spaghettí-vestri sem fáir myndu sennilega nenna að horfa á oftar en einu sinni, takist þeim að klára myndina á annað borð. Allt er gert með hangandi hendi og er ensku talsetningunni sérstaklega ábótavant. Sömuleiðis er tónlistin ósköp ómerkileg og á það ekki síst við um titillagið í flutningi Augusto Martelli.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Eitthvað má þó finna af trúarstefjum, þótt léttvæg séu í flestum tilfellum. Þegar Sartana bjargar t.d. dauðadæmdu bófunum úr fangelsinu, segja þeir hann sendan af Guði. Frekar er það þó af hæðni en guðshræðslu, enda hvetja þeir síðar Sartana til að fara með bænirnar sínar, þegar þeir binda hann á borðplötu og koma fyrir sprengju hjá honum. Undir lok myndarinnar táldregur svo bústýra nokkur Sartana með því að gefa honum epli og aðra ávexti á fati, en þegar upp er staðið kemur það aðeins henni sjálfri í koll.

Hliðstæður við texta trúarrits: 1M 3:6
Guðfræðistef: helvíti, heppni
Siðfræðistef: manndráp, svik, dauðarefsing, hefnd
Trúarlegt atferli og siðir: bæn