4. árgangur 2004, Innlýsing, Vefrit

Satan eða Lilit í Píslarsögu Gibsons?

Birtingarmynd Satans í píslarsögu þeirri sem við sjáum hér á eftir hefur vakið athygli margra. Fyrir mér er enginn vafi á því að þessi demóníska vera, sem virðist tvíkynja, sýni margvíslegan skyldleika við Lilit sem við þekkjum úr gyðingdómi.

Rosalinda Celentano í hlutverki Satans.Í gegnum bókmenntir Gyðinga hefur mýtan um Lilit varðveist og þróast í meira en 2500 ár. Í því ferli hefur hún birst sem demón, barnamorðingi, fyrsta eiginkona Adams, ástkona lostafullra anda, brúður demónakonungsins Samaels, hetja feminsta og fyrirmynd og fylgdarvera sálarinnar í gegnum dimm herbergi glundurroða. Hennar hlutverk er í þremur víddum; á himni, á jörðu og í undirheimum.

Hér fjalla ég um ímynd Lilit sem demon. Í Biblíunni kemur hún aðeins fyrir einu sinni, en það er í Jesaja 34:14. Verið að lýsa hefnadardegi yfir Edóm, sem muni verða lagt í eyði og verða dvalarstaður demóna. Sagt er að Lilit ein skuli hvílast þar og finna sér þar hæli.

Lilit hefur sterklega verið tengd við Edens söguna og er þekktust fyrir að vera fyrsta eiginkona Adams. Sagt er að hún hafi verið hrokafull og rifist við eiginmann sinn um jafnrétti í kynlífi. Þar sem þau gátu ekki sammælst flaug hún til Rauða hafsins, þar sem hún bjó með misleitum hópi demona og fæddi á hverjum degi hundrað eða fleiri demonabörn, en andlit þeirra eru tekin og föl. Hún er hvíldarlaus og óróleg vera, sem er dæmd í útlegð frá þjóðfélaginu, en er samt stöðugt að trufla og ógna því.

Snákurinn er endurtekin ímynd í gegnum Biblíuna, hann táknar hið illa vegna hugrenningatengsla við Paradísarsöguna. Lilit er í félagsskap höggormsins, sem með tungulipurð sinni reynir að freista. Snákurinn er stundum sagður vera tvíkynja, hafa karlega og kvenlega eiginleika í senn.

Innan kabbala, sem þróaðist meðal Gyðinga í Palestínu og Egyptalandi, er uppruni Lilit til í nokkrum útgáfum, oftast í tenglum við Adam, en hún festi sig líka við Kain og eignaðist fjöldann allan af öndum og demónum með honum. Sagt er að allar kynslóðir sem komnar eru frá Kain séu illa innrættar.

Lilit er einnig sögð koma frá „himnesku hyldýpi“ sem er tengt við strangan dóm eða refsingu og er á sviði hins illa sem vísar til „dreggja vínsins“. Lilit og Samael koma út frá þeim. Lilit er nefnd höggormur eða endalok daganna. Þessir andar eru bundnir hvorum öðrum, þeir eru tvíkynja Samael er eins og sálin og Lilit er eins og líkaminn. Verk eru unnin af Lilit með valdi Samaels. Oft er minnst á hárið á Lilit, að það sé villt og úfið eins og á dreka, eða mjög sítt og rautt. En ef hún missir hárið tapar hún mætti sínum.

Þegar Gyðingar kynnast Lilit, er hún tengd við myrkur og nóttina sem tíma ótta, varnarleysis og hins illa.

Þótt Lilit komi fyrst fram sem demón, er hún í mörgum hlutverkum fyrir nútímafólk; gyðja, erkitýpa, hetja feminiskra gyðinga og fyrirmynd, en fyrir aðra í meira hefðbundnum átrúnaði, heldur hún áfram að vera demón. En öll hlutverkin hennar eru kraftmikil.

Nokkur einkenni Lilit í kvikmyndinni

Að lokum langar mig að benda á nokkur einkenni Lilit í kvikmyndinni, eins og þau birtast mér, ég sé hana þegar hún er að freista Jesú í Getsemane, að bjóða honum útgönguleið, og hvernig hann bregst við, er bein tilvísun í Parardísarsöguna í 1. Mós. 3:15. Þegar Júdas iðrast gjörða sinna og brjálast, birtast litlu demónabörnin hennar Lilit. Hún gengur á meðal gyðinganna meðan verið er að húðstrýkja Jesú. Og í lok pyntinganna horfir Jesús á hana með barn í fanginu, sem vekur upp hugrenningatengsl við Maríu með barnið.

Í lok myndarinnar þegar Jesús hefur falið anda sinn í Guðs hendur, skynja ég að Lilit hefur samhliða Píslagöngunni ávallt verið til staðar, til að bjóða Jesú að aflétta þjáningum hans, ef hann léti freistast. En hún verður að játa sig sigraða í baráttunni við Guð.

Bryndís Valbjarnardóttir er guðfræðingur. Þessi innlýsing var flutt í Smárabíói, 11. mars 2004, á forsýningu á kvikmyndinni Píslarsögu Krists.