Leikstjórn: Brian Dannelly
Handrit: Drian Dannelly, Michael Urban
Leikarar: Jena Malone, Mandy Moore, Macaulay Culkin, Patrick Fugit, Heather Matarazzo, Eva Amurri, Chad Faust, Elizabeth Thai, Martin Donovan, Mary-Louise Parker og Kett Turton
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 2004
Lengd: 92mín.
Hlutföll: 1.85:1
Einkunn: 2
Ágrip af söguþræði:
María er góð og prúð kristin stúlka sem sækir baptistaskóla í Baltimore. Þará hún góða vinkonur, allt góðar kristnar stúlkur, en leiðtogi þeirra er hin sjálfumglaða og trúheita Hilary Faye. Stuttu eftir að María kemst að því að kristinn kærasti hennar, Dean að nafni, er samkynhneigður rotast hún og telur sig sjá sýn þar sem Jesús kemur til hennar. Hún túlkar sýnina þannig að Jesús vilji að hún bjargi kærasta sínum og ákveður því að sænga með honum. Það hjálpar þó Dean lítið og er hann sendur í „afhommunarstöð“ sem rekin er af kirkjunni og eftir stendur María ólétt (nafn hennar líklega engin tilviljun). Þessi reynsla reynir verulega á trú hennar sem á ekki lengur samleið með vinkonum sínum en vingast þess í stað við utangarðskrakka skólans, lamaðan strák í hjólastól (Roland) og vandræðastúlku af gyðingaættum (Cassöndru).
Almennt um myndina:
Saved! er önnur kvikmynd Brians Dannellys og sú fyrsta í fullri lengd. Myndin, sem er í hefðbundnum unglingamyndastíl, er hárbeitt ádeila á kristna bókstafstrú enda hefur hún vakið upp heilmikið fjaðrafok í Bandaríkjunum, meira að segja meðan á tökum hennar stóð.
Myndin er nokkuð vel gerð og á það einkum við um kvikmyndatökuna. Sem dæmi mætti nefna atriði þegar María horfir á stóran neónkross en síðan er klippt í ofanskot, þ.e. sjónarhorn krossins og hvernig hann horfir niður á hana. Þetta atriði nær einstaklega vel fram þeirri lögmálshyggju og dómhörku sem einkennir þann kristindóm sem ræður ríkjum í skólanum. Krossinn vakir nánast ógnandi yfir fólki og horfir á allar gjörðir þeirra. Þegar María horfir eftir strák í leikfimi segir Hilary Faye einmitt: „Ég sé á hvað þú ert að horfa og það gerir Jesús líka.“
Galli myndarinnar er hins vegar klisjurnar og þreyttar staðalmyndirnar. Auðvitað þarf vinsælasta stelpan í skólanum (Hilary Faye) að vera sjálfumhverfur hræsnari og eins og vanalega er það utangarðsfólkið sem nýtur samúðar áhorfendanna og nær að gera þýðingarmikla uppreisn saman. Í það heila er hér þó á ferð áhugaverð og nokkuð skondin mynd.
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Eins og búast má við af kvikmyndum sem varðar fólk í tilteknum trúarhópum er mikið af trúarstefjum i myndinni.
Endurlausnarstef
Framan af virðist myndin umfram allt vera gagnrýnin á trúarbrögð, nánar tiltekið bókstafstrú og lögmálshyggju. Miðað við það hvernig hún byrjar gæti maður haldið að trúarbrögðin komi almennt frekar illa út en sú er þó ekki raunin þegar á líður. Þegar allt kemur til alls er titill myndarinnar réttnefni. Hún geymir áhugavert endurlausnarstef sem vert er að gefa gaum. Í lokin má jafnvel tala um að eins konar heildarendurlausn hafi átt sér stað því að allar aðalpersónurnar takast á við miklar þrautir og koma sterkari út fyrir vikið og flestar öðlast heilbrigðari guðsmynd. En eins og með flestar endurlausnarmyndir fylgjum við persónunum ekki eftir að endurlausnin hefur átt sér stað.
Guðsmynd – lögmál og fagnaðarerindi
Guðsmyndin sem birtist í myndinni og það hvernig hún mótast og þróast skiptir miklu máli við túlkun hennar. Þrjótarnir í myndinni standa allir fyrir öfgakennda lögmálshyggju sem virðist í öllum tilvikum byggja á vandamálum í þeirra eigin lífi.
Móðir Maríu er í kreppu vegna þess að hún eignaðist barn ung og er hrifinn af prestisafnaðarins sem er jafnframt kvæntur. Hjónabandið prestsins er reyndar búið en þau vilja ekki skilja vegna þess að „kristnir menn skilja ekki“. Það hindrar hann hinsvegar ekki í því að hefja samband við móður Maríu. Hilary Faye er í sjálfsmyndarkreppu og vill ekki að það uppgötvist að hún var eitt sinn feit og ljót. Hún er einnig full af sjálfsréttlætingu. Þegar María segir henni til dæmis að hún viti ekkert um kærleika svarar hún að bragði að hún sé full af „kærleika Krists“.
Það sem greinir þessi þrjú frá hinum er í raun að þau eru alltaf á flótta undan vanda sínum – þau takast ekki á við hann og gera hann upp heldur flýja í óheilbrigða guðsmynd. Uppgjör við hana á sér þó stað í myndinni: Móðirin segir loks við Maríu að það hafi ekki verið mistök að eignast hana og fer með henni á fæðingardeildina til að fæða barnið. Presturinn sést ennfremur standa fyrir utan fæðingardeildina með rósir og gefið er til kynna að hann komi inn – og fagni þessari barnsfæðingu og jafnvel að hann gangist við sambandi sínu við móður Maríu. Hilary Faye ekur bíl sínum á stórt skilti með mynd af Jesú með þeim afleiðingum að höfuðið brotnar afhonum og fellur á bílinn: Hún gerir upp við ranga og slæma guðsmynd sína í bókstaflegri og táknrænni merkingu. Samræða hennar og bróður hennar (Roland) eftirslysið er áhugaverð í því sambandi:
– Hilary Faye: „Heldurðu að Jesús elski mig?“
– Roland: „Nei, örugglega ekki!“ Og bætir svo við eftir smá hik: „Jú, auðvitað elskar hann þig.“
Þetta má t.d. skilja svona: Hinn gamli Jesús – sú Jesúmynd sem hún var að gera upp við – elskaði hana í raun aldrei, hann stóð bara fyrir kröfur á kröfur ofan (þ.e. lögmálið). En sú Jesúmynd sem hún finnur í kjölfarið stendur aftur á móti fyrirkærleika. Í raun má fella þennan feril inn í skemað lögmál-fagnaðarerindi og þannig tengja það við guðfræði Marteins Lúther. Þær persónur sem eru fastar í lögmálshyggjunni og bókstafstrú (Biblían er svart-hvít þegar kemur að siðferðisspurningum segir presturinn á einum stað í myndinni) eru dæmi um fólk sem kemst ekki út úr lögmálinu til fagnaðarerindisins, lögmálið „dikterar“ í raun guðsmynd þeirra og þar með viðhorf þeirra til lífsins. Aðrir, sem tekist hafa á við vanda sinn og séð leið út, hafa hins vegar fundið fagnaðarerindið. María leitar t.d. í önnur trúarbrögð og stendur ráðþrota frammi fyrir þeirri spurningu hvort öll trúarbrögð hafi rétt fyrir sér eða öll rangt fyrir sér. Að lokum snýr hún aftur til mildari útgáfu af kristni og sannfærist um tilvist Guðs þegar hún horfir á barnið í fangi sínu.
Það mætti einnig hugsa sér almennari nálgun og umræðu um lögmálshyggju og þarf auðvitað ekki að tengja hana sérstaklega við lútherska guðfræði.
Fjallræðan og sálmur 23
Beinar tilvitnanir í fjallræðuna koma fyrir a.m.k. þrisvar í myndinni. Í tveim tilvikum er vitnað í texta þar sem segir: „Sælir eruð þér þá er menn ofsækja yður…“ og „Þú skalt elska náunga þinn“. Þá er einnig vitnað í eftirfarandi texta úr Jóhannesarguðspjalli: „Þetta er mitt boðorð, að þér elskið hver annan, eins og éghef elskað yður.“ Vel mætti hugsa sér að leggja fjallræðuna til grundvallar við túlkun myndarinnar, sem og þennan texta. Fjallræðan fjallar fyrst og fremst um hræsni og mikilvægi þess að koma fram í kærleika og af heilindum.
Samfélagið í skólanum er í raun andstæða fjallræðu Krists. Þeir sem ráða þar ríkjum eru í hlutverki hræsnara og kúgara. Í fjallræðunni segir einnig að hinir fyrstuverði síðastir og að hinir síðustu verði fyrstir og svo: „Dæmið ekki, svo að þérverðið ekki dæmdir.“ Þetta reynast líka orð að sönnu. Það eru hinir ofsóttu sem standa uppi sem sigurvegarar að lokum og það er guðsmynd þeirra sem stendur eftir óhögguð. Kúgararnir eru hins vegar dæmdir eftir eigin dómum.
Upphafslínur Sálms 23. eru einnig ritaðar á vegg í skólanum: „Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta.“ Sálmurinn er líklega þekktasti texti Biblíunnar í Bandaríkjunum og má því nánast ganga út frá því sem vísu að áhorfendur tengi upphafslínurnar við sálminn allan. Þekktustu orð sálmsins eru í fjórða versinu þar sem segir: „Jafnvel þótt ég fari um dimman dal, óttast ég ekkert illt, því að þú ert hjá mér, sproti þinn og stafur hugga mig.“ Sálmurinn er því huggunarsálmur og í raunyfirlýsing um trúartraust. Hann rætist í raun í lífi Maríu því að þótt hún fari um dimman dal rætist úr öllu að lokum og síðustu orð hennar eru að Guð hljóti að vera til.
Forlagahyggja
Forlagahyggja er einnig fyrirferðamikil í myndinni. Strax við upphaf myndarinnar er því haldið fram að Guð ákvarði um hina smæstu hluti í lífinu. Það er meira að segja kallað kraftaverk frá Guði þegar 9 ára drengur dettur úr tréi og lamast fyrir vikið. Þótt aldrei sé gert formlega upp við forlagatrúna er látið að því liggja í lok myndarinnar að hún sé jafn þunnur þrettándi og hin svart/hvíta biblíuskoðun sem þar birtist.
Samkynhneigð
Samkynhneigð er sömuleiðis fyrirferðamikið stef og er í raun ekki gefið mikið fyrirþau viðhorf að hægt sé að lækna samkynhneigð eða að hún sé almennt í andstöðu við kristin gildi. Þegar presturinn ætlar að vísa fyrrverandi kærasta Maríu út vegna þess að hann er samkynhneigður með þeim orðum að Biblían sé svart hvít þegar kemur að siðferðislegum spurningum bendir María honum á að enginn sé 100% hreinn öllum stundum, hann eigi að vita það best sjálfur og spyr svo: „Hvers vegna skóp Guð okkur svona ólík ef hann ætlaðist til þess af okkur að við yrðum öll eins?“ Það sem skiptir máli er að spyrja sig hvað Jesús hefði gert við sams konar aðstæður. Hann hefði líklega tekið málstað hinna kúguðu og undirokuðu.
Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Biblían; 1M 22; 3M 19:18; Sl 23; Mt 5-7 Mt 22:39; Mk 12:31; Jh 13:34;Jh 15:12; Jh 15:17
Persónur úr trúarritum: Guð, Jesús, María mey, Satan, Abraham
Guðfræðistef: endurlausn, forlagahyggja, heimsendir, synd, þrenningin, eiður,tilvist Guðs, bókstafstrú, lögmálið, fagnaðarerindið, ást,kraftaverk
Siðfræðistef: fóstureyðing, samkynhneigð, skírlífi, kynlífskennsla, hroki, þjófnaður,svik, nektardans, framhjáhald, lauslæti, ást, fordómar
Trúarbrögð: kristin trú, baptistakirkja, gyðingdómur, nýöld
Trúarleg tákn: kross, signing
Trúarleg embætti: prestur
Trúarlegt atferli og siðir: tungutal, bæn, særing
Trúarlegar hátíðir, sögulegir atburðir: jól
Trúarleg reynsla: endurlausn, sýn, kraftaverk