Kvikmyndir

Savior

Leikstjórn: Predrag Antonijevic
Handrit: Robert Orr
Leikarar: Dennis Quaid, Natasa Ninkovic, Nastassja Kinski og Sergej Trifunovic
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 1998
Lengd: 103mín.
Hlutföll: us.imdb.com/Details?0120070
Einkunn: 3

Ágrip af söguþræði:
Savior fjallar um bandarískan mann, Joshua Rose, sem missir son sinn og eiginkonu í sprengjutilræði múslima í París. Í hefndarhug ræðast hann inn í mosku og drepur múslima sem liggja þar á bæn. Til að forðast refsingu skráir hann sig í Útlendingahersveitina og sex árum síðar heldur Joshua til fyrrverandi Júgóslavíu þar sem hann berst með Serbum og tekur þátt í hrottalegri þjóðernishreinsun á múslimum. Það er ekki fyrr en Joshua reynir að bjarga lífi nýfædds barns að hann endurheimtir mennskuna og sár fortíðar fara að gróa.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Svo virðist sem hin fjölmörgu kristnu stef í myndinni hafi farið fram hjá flestum kvikmyndagagnrýnendum. Ég las marga kvikmyndadóma á Netinu en enginn þeirra minntist á trúarstefin í myndinni. Nafnið sjálft (frelsari) hefði átt að gefa góða vísbendingu sem og slagorð myndarinnar: ,,Hann heyr stríð sem hann hefur enga trú á, í von um að finna eitthvað til að trúa á.“
Myndin byrjar á því að sýna Maríu, eiginkonu Joshua og Christian son hans við kaþólska messu (takið eftir nöfnunum; María, Christian og Joshua). María tekur um gylltan róðukross sem hún ber um hálsinn, kyssir hann og smeygir honum síðan um háls Christians. Þegar þau hitta Joshua á kaffihúsi stuttu síðar spyr Christian föður sinn hví hann hafi ekki komið til kirkju í dag. Á sama tíma gefur Christian föður sínum róðukrossinn sem María hafið gefið honum.Eins og áður sagði gerist Joshua leyniskytta í her Serba í fyrrverandi Júgóslavíu og eitt það fyrsta sem við sjáum hann gera er að myrða ungan strák sem er að sækja geit. Strax á eftir morðið sést hann handfjalla krossinn sem Christian gaf honum. Á þessari stundu er róðukrossinn aðeins minning um látinn son. Maður fær á tilfinninguna að morðið á stráknum hafi átt að vera ,,auga fyrir auga“, nú væri syndin greidd (2M 21:24; 3M 19:21; 24:20 og Mt 5:38). En vandinn er sá að Joshua er samt sem áður engu hamingjusamari. Hefnd hans virðist ekki geta bætt upp fyrir fjölskyldumissinn. Joshua er farinn að gera sér grein fyrir þessu en það er serbneskur hermaður, Goran að nafni, sem fær hann til að taka fyrstu skrefin. Goran sker fingur af aldraðri íslamskri konu, eingöngu vegna þess að hann langaði í hringinn sem hún bar. Stuttu síðar ætlar hann að myrða serbneska konu, Veru að nafni, sem er í fæðingarhríðum. Synd Veru er að henni var nauðgað í fangelsi múslima og var því barnshafandi. Goran bíður eftir því að barnið láti sjá sig því hann hyggst aflífa það áður en hann drepur Veru. Á þessari stund er Joshua nóg boðið og hann skýtur Goran eftir að hafa reynt að beita fortölum.
Vera virðist hins vegar engu heilbrigðari en Goran. Hún vill ekki sjá barnið og reynir að fremja sjálfsmorð, því að hún er ,,vondur Serbi“. Áhugaverð biblíutilvísun er tengd óhug Veru í garð barnsins. Alltaf þegar Vera er beðin um að sinna barninu er hún sýnd með epli, etandi epli eða epli sýnt við hliðina á barninu. Leikstjóri myndarinnar að hér sé verið að vísa í ávöxtinn í sögunni af Adam og Evu (1M 3). Barnið er ávöxtur syndar og óvinarins, þ.e. það kom undir vegna nauðgunnar og faðir þess er múslimi. Vera er því að mörgu leyti áþekk Joshua. Hún á erfitt með að fyrirgefa fortíðinni og yfirfærir hatur sitt á alla múslima, jafnvel sitt eigið barn. Það kemur svo í hlut barnsins að bjarga Veru og Joshua en eftir að móðurtilfinningar Veru vakna og hún ákveður að halda barninu hverfa öll epli og koma ekki aftur fyrir í myndinni.
Þegar upp kemst um morðið á Goran leita faðir og bróðir Veru Joshua uppi og særa hann síðusári, rétt eins og gert var við Krist á krossinum (Jh 19:34). Fram að þessu hefur róðukrossinn sem Christian gaf Joshua komið fjórum sinnum fyrir. Eftir að Joshua fær síðusárið renna senurnar með krossinn og síðusárið saman.
Í Jóhannesarguðspjalli 15:13 segir: ,,Enginn á meiri kærleik en þann að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína“ og í Matteusarguðspjalli 10:39 segir: ,,Sá sem ætlar að finna líf sitt, týnir því, og sá sem týnir lífi sínu mín vegna, finnur það.“ Þessi orð lýsa örlögum Veru vel. Ást hennar til barnsins vekur hana svo mikið til lífsins að hún fórnar að lokum lífi sínu fyrir það. Barnið, sem áður var aðeins tengt synd, er nú orðið mikilvægara en hennar eigið líf. Vera hafði áður glatað lífi sínu (þ.e. áður en hún lærði að elska barnið) en á píslavættisstundinni er hún full af ást og lífi. Með ást sinni og fórn hefur hún fundið lífið á ný. Það fellur síðan í hlut Joshua að annast hið munaðarlausa barn og á sama tíma má í raun segja að það falli í hlut barnsins að ,,annast“ Joshua. Barnið er orðið að hjálpræði hans, einhverju sem hann getur loks lifað fyrir. Joshua neyðist til að taka rútu og þar sem rútuferðin er eina lífsvon barnsins greiðir Joshua ferðina með róðukrossinum. Á þeirri stundu myndast geislabaugur um höfuð Joshua (vegna loftljóss sem er á bak við hann).
Þegar Joshua kemur að lokum á áfangastað kastar hann vopnum sínum í hafið og brýst í grát. Hann hafði loks lært að hjálpræðið fólst ekki í því að taka líf heldur að bjarga því. Hann hafði misst son sinn í sprengjutilræði múslima og hafði helgað líf sitt því að drepa múslima fyrir vikið. Það er hins vegar ekki fyrr en Joshua bjargar barni sem er að hálfu múslimi að sárin fara að gróa. Joshua hafði verið einn þeirra sem beitti ofbeldi í sögunni af miskunnsama Samverjanum en nú hafði hann gengið í hlutverk miskunnsama Samverjans sjálfs (Lk 10:25-37). Þótt margt bendi til þess að Joshua sé frelsarinn (hann fær jú síðusár og bjargar lífi barnsins) er barnið betri kandídat. Það hafði fært Joshua nýtt líf, nýja von og linað þjáningar fortíðar. Í raun má segja að Vera sé ný María og barnið nýr Christian. Joshua hafði ekki aðeins eignast fjölskyldu að nýju (þótt Vera hafi reyndar dáið) heldur hafði hann einnig öðlast trú á Maríu og Krist að nýju. Þar skiptir krossinn miklu máli. Í upphafi myndarinnar tengist hann aðeins synd og hefnd (eins og barnið hjá Veru) en í lok myndarinnar lærir Joshua (rétt eins og Vera) að fórnin og kærleikurinn er hið sanna líf. Um leið verður krossinn tákn lífs, en ekki dauða. Það skiptir einnig miklu máli að hér er um róðukross að ræða, því það undirstrikar mikilvægi fórnarinnar að hafa Krist hangandi á krossinum.

Hliðstæður við texta trúarrits: 1M 3, 2M 21:24, 3M 19:21, 24:20, Mt 5:38, LMt 10:39, k 10:25-37, Jh 15:13, Jh 19:34
Persónur úr trúarritum: Guð, María mey, Jesús, Joshua
Guðfræðistef: heilagt stríð, kristsgervingur, refsing Guðs
Siðfræðistef: hefnd, lygi, morð, nauðgun, stríð
Trúarbrögð: rómversk kaþólska kirkjan, Grísk rétttrúnaðar kirkjan
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja, moskva
Trúarleg tákn: epli, geislabaugur, róðukross
Trúarlegt atferli og siðir: bæn, messa, prédikun, signun
Trúarleg reynsla: endurlausn, iðrun