Kvikmyndir

Seven Dollars to Kill

Leikstjórn: Alberto Cardone [undir nafninu Albert Cardiff]
Handrit: Juan Cobos, Melchiade Coletti [undir nafninu Mel Collins], Arnaldo Francolini [undir nafninu Arne Franklin] og Amedeo Mellone [undir nafninu Hamed Wright]
Leikarar: Antonio De Teffè [undir nafninu Anthony Steffen], Roberto Miali [undir nafninu Jerry Wilson], Loredana Nusciak, Elisa Montés, Fernando Sancho, José Manuel Martín, Bruno Carotenuto [undir nafninu Caroll Brown], Halina Zalewska, Franco Fantasia [undir nafninu Frank Farrel], Spartaco Conversi [undir nafninu Spean Convery], Gianni Manera [undir nafninu John Manera] og Alfredo Varelli [undir nafninu Fred Warrel]
Upprunaland: Ítalía og Spánn
Ár: 1966
Lengd: 95mín.
Hlutföll: 1.85:1 (var 2.35:1)
Einkunn: 2

Ágrip af söguþræði:
Enginn hefur skotið jafn marga eftirlýsta bófa eins og mannaveiðarinn Johnny Ashley en það sem umfram allt knýr hann áfram er leitin að mexíkönskum bófaforingja, sem myrti eiginkonu hans og rændi tveggja ára syni þeirra fyrir tveim áratugum. Þegar Ashley loks stendur bófaforingjann að verki við bankarán, skýtur hann manninn til bana án þess að vita hver þar var á ferðinni. Fyrir vikið heitir uppeldissonur mexíkanska bófaforingjans því að hefna hans og sker upp herör gegn Ashely án þess að gera sér grein fyrir því að hann sé raunverulegur faðir hans. Þegar þeir loks mætast í einvígi, stendur Ashley frammi fyrir einum grimmasta bófaforingja, sem á vegi hans hefur orðið.

Almennt um myndina:
Enda þótt þessi spaghettí-vestri hafi ýmislegt til síns ágætis, er vinnslan í heild því miður ekki nógu góð.

Anthony Steffen er fínn sem mannaveiðarinn Johnny Ashley og er raunarsvipur hans einkar viðeigandi. Tónlist Francescos De Masi er sömuleiðis við hæfi en best af öllu er þó lokaratriðið þar sem feðgarnir mætast í einvígi á aðalgötu drungarlegs smábæjar að nóttu til. Það er ekki laust við að expressjónískt atriðið minni eilítið á gömlu gotnesku hrollvekjurnar.

Vandinn við kvikmyndina er hins vegar lengst af slæm leikstjórn og klúðursleg vinnsla. Margir aukaleikaranna eru hreinlega slæmir og meira að segja Anthony Steffen slær feilnótu í atriði þar sem hann ræðir við hestinn sinn snemma í myndinni. Hvert atriðið á fætur öðru er í raun unnið af ótrúlegu metnaðarleysi og klippingarnar eru víða hnökróttar. Þrátt fyrir áhugavert efni er myndin því framan af slök en lokaratriðið nær samt að bæta hana nokkuð.

Einhverja hluta vegna hefur aðstandendaskráin í upphafi myndarinnar á íslenska myndbandinu verið að mestu klippt í burtu. Þannig heyrist aðeins brot af titillaginu meðan titill myndarinnar Seven Dollars to Kill birtist með stórum stöfum í skamma stund að upphafsatriðinu loknu, en leikaranöfnunum ásamt öðrum upplýsingum um aðstandendur myndarinnar er hins vegar sleppt.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Efnistök myndarinnar einkennast af sótsvartri bölsýni í anda grískra harmleika, en áhersla er lögð á tilgangsleysi hefndarinnar. Fljótlega eftir að Johnny Ashley kemst að því hvað komið hafði fyrir eiginkonu hans og son, varar lögreglustjórinn hann við því að taka lögin í sínar eigin hendur: „Sá sem hefnir sín gæti allt eins lent í kast við lögin. Láttu lögin um þetta! Hvaða gagn er af því ef þú endar sem morðingi að lokum?“ En jafnvelt þótt Ashley haldi sig alla tíð við lögin í áralangri baráttu sinni við bófa villta vestursins, kemur hefndarþorstinn og þröngsýnn mannskilningurinn honum aðeins í koll að lokum.

Antonio Bruschini getur þess í bókinni The Wild, the Sadist and the Outsiders í ritröðinni Western All’Italiana að leikstjóri myndarinnar, Alberto Cardone, og framleiðandi hennar, Mario Siciliano, hafi frá árinu 1965 gert nokkra spaghettí-vestra, sem skilgreina megi sem biblíulega. Allir byrji þeir á tilvitnunum í Biblíuna, sem lýsi efni þeirra og boðskap í hnotskurn. Þannig byrji spaghetti-vestrinn Seven Dollars to Kill á biblíutilvitnuninni:

„Gaumgæfðu orð mín sonur minn. Allir menn eru jafnir þegar þeir fæðast, samt er heimskan njörvuð við hjörtu allra ungbarna og sá sem einu sinni heldur af stað á þeirri leið, mun aldrei víkja af henni. Sá sem talar við vísa menn, mun sjálfur verða vís, en sá sem talar við heimskingja, verður sjálfur heimskur.“ (Á ensku er þetta orðað svona: „Heed my words, my son. All men are equal when they come to life, yet foolishness is tied to every infant’s heart and he who starts on that path shall never stray from it. He who speaketh with wise men shall himself be wise, he who speaketh with fools, shall himself be foolish.“)

Þessa tilvitnun er ekki að finna í þeirri útgáfu myndarinnar, sem Arnar video gaf út á myndbandi hér á landi. Sennilega hefur hún þó verið látin fjúka eins og mest öll aðstandendaskráin í byrjun myndarinnar.

Bruschini getur þess ekki hvaðan úr Biblíunni tilvitnunin er fengin, en orðalagið og boðskapurinn minnir mjög á Síraksbók, sem telst til Apokrýfarrita Gamla testamentisins. Rómversk-kaþólska kirkjan viðurkennir Síraksbók sem hluta Biblíunnar, en þar sem flestar kirkjudeildir mótmælenda hafna öllum apokrýfarritum Gamla testamentisins sem heilögum ritningum, vantar þau oftast í biblíuútgáfur þeirra. Á Íslandi er Síraksbók fáanleg í sérriti, sem nefnist Apokrýfar bækur Gamla testamentisins og þýtt er af sr. Árna Bergi Sigurbjörnssyni, en það hefur ekki fylgt íslenskum biblíuútgáfum síðan 1866. Til stendur þó að bæta þessum apokrýfarritum við næstu útgáfu Biblíunnar.

Hvaðan svo sem tilvitnunin er fengin, þá lýsir hún boðskapi myndarinnar einkar vel. Sonurinn varð illur vegna þess að hann var alinn upp sem stigamaður af samviskulausum bófaforingja, en hefði honum ekki verið rænt frá foreldrum sínum í æsku, hefðu örlög hans sennilega orðið önnur. Menn geti því hæglega orðið eins og þeir, sem þeir umgangast. Þar sem faðirinn lítur auk þess á mennina sem annað hvort góða eða vonda, telur hann hina vondu best komna dauða og ljáir þeim ekkert tækifæri til iðrunar. Það er því kaldhæðni örlaganna að hann skuli að lokum þurfa að standa augliti til auglitis við son sinn í einvígi, drenginn týnda sem hann hafði leitað að í tvo áratugi.

Hliðstæður við texta trúarrits: Síraksbók
Guðfræðistef: örlög
Siðfræðistef: manndráp, hefnd, þjófnaður, hýðing, svindl, móðurást, réttlæti, einvígi, kaldhæðni
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja
Trúarleg tákn: kross í hálsmeni
Trúarlegt atferli og siðir: bæn