Kvikmyndir

Shadow of the Vampire

Leikstjórn: E. Elias Merhige
Handrit: Steven Katz
Leikarar: John Malkovich, Willem Dafoe, Cary Elwes, Aden Gillett, Eddie Izzard, Udo Kier, Catherine McCormack og Ronan Vibert
Upprunaland: Bretland, Bandaríkin og Lúxemborg
Ár: 2000
Lengd: 92mín.
Hlutföll: us.imdb.com/Details?0189998
Einkunn: 2

Ágrip af söguþræði:
Myndin fjallar um gerð frægustu hryllingsmyndar allra tíma, þýska meistaraverksins Nosferatu. Þó er þetta ekki heimildamynd því mörgu hefur verið breytt … eða hvað? F.W. Murnau, leikstjóri Nosferatu, hefur ráðið alvöru vampýru í hlutverk ,,Drakúla greifa“ (eða Orlock greifa eins og hann er kallaður í myndinni vegna þess að Murnau fékk ekki réttinn til að kvikmynda bókina um Drakúla greifa). Honum láðist hins vegar að segja öðrum aðstandendum myndarinnar frá því að alvöru vampýra léki eitt aðalhlutverkið og brátt fer kvikmyndahópurinn að þynnast.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Það er í raun ótrúlegt hversu lítið er um trúarstef í myndinni, en vanalega eru vampýrumyndir hlaðnar tilvísunum í Biblíuna og kristin sakramenti. Myndin er einna áhugaverðust fyrir þær sakir að í henni er varpað fram þeirri spurningu hver sé hin raunverulega blóðsuga: vampýran Orlock eða leikstjórinn Murnau?

Í myndinni segir Orlock greifi við Murnau: ,,Við erum ekki svo ólíkir eftir allt saman!“ Þarna hittir Orlock greifi naglann á höfuðið, en rétt eins og hann er Murnau tilbúinn að fórna mannslífum til að öðlast ódauðleika sem listamaður. Markmið hans er að skapa listaverk sem mannkynið mun lofa hann fyrir, löngu eftir dauða hans, jafnvel þótt það kosti vini hans og samstarfsmenn lífið. Þannig eru þeir báðir í leit að einhverskonar ódauðleika og tilbúnir að fórna öðrum til að öðlast hann.

Það er einnig áhugavert hvernig eiturlyfjaneysla er tengd vampýrisma. Rétt eins og Orlock greifi drekkur blóð til að viðhalda lífi sínu nota flestir aðstaðdendur myndarinnar ópíum eða önnur vímuefni til að komast í gegnum daginn. Eru e.t.v. eiturlyfjaneytendur og siðblindir listamenn vampýrur nútímans?

Í það heila er þetta ágæt mynd en hún var langt frá því það listaverk sem ég baust við. Reyndar efast ég um að þeir sem ekki hafa séð Nosferatu muni hafa mjög gaman af myndinni. Jesú-leikarinn Willem Dafoe er þó stórkostlegur í hlutverki Orlocks greifa og hugmyndin er snjöll.

Persónur úr trúarritum: Vampýra
Sögulegar persónur: Drakúla greifi
Guðfræðistef: Sólarljós
Siðfræðistef: Eiturlyfjaneysla, hórdómur, morð
Trúarbrögð: Kristni
Trúarleg tákn: Kross
Trúarlegt atferli og siðir: Að drepa vampíru með ljósi