Kvikmyndir

Shrek

Leikstjórn: Andrew Adamson, Vicky Jenson
Handrit: William Steig, Ted Elliot o.fl.
Leikarar: Mike Myers, Eddie Murphy, Cameron Diaz, John Lithgow
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 2001
Lengd: 90mín.
Hlutföll: us.imdb.com/Details?0126029
Einkunn: 3

Ágrip af söguþræði:
Græna tröllið Shrek er mikill einfari. Hann lendir í miklu ævintýri þegar smámennið Farquaad lávarður fær hann til að bjarga prinsessunni Fíónu úr klóm ógurlegs dreka. Fíóna hefur verið hneppt í álög sem verða ekki losuð af henni fyrr en hún gengur að eiga sína sönnu ást. Með dyggri hjálp fáksins (eiginlega asnans) berst Shrek við ofureflið og bjargar prinsessunni. En hver er hinn raunverulegi prins sem Fíónu prinsessu er ætlað að eiga og í hverju felast eiginlega álögin sem hún hefur verið hneppt í.

Sönn ást, prinsessa, hetja, einræðisherra, dyggur fákur og ótrúlegur fjöldi af tilvísunum til hefðbundnari ævintýra. Shrek hefur allt sem maður gæti óskað sér og meira til. Eins og kynningartexti myndarinnar segir: „Mesta ævintýri sem aldrei hefur verið sagt frá.“ Þetta er frábært og all verulega óhefðbundið ævintýri sem hægt er að mæla með fyrir ungt fólk á öllum aldri.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Shrek er, eins og ævintýrin öll, dæmisaga af ákveðnum toga. Boðskapurinn er einfaldur: Það er ekki ytra byrðið sem skiptir mestu máli heldur hinn innri maður (eða tröll) og hjartalag. Hetja myndarinnar, Shrek, er tröll (á ensku ogre) og sem slíkur hefur hann neyðst til að lifa einn fyrir utan samfélagið. Ástæðan er útlit hans og það orðspor sem almennt fer af tröllum, en menn forðast þau fram í rauðan dauðann. Oftar en einu sinni kemur það fram í myndinni að Shrek vilji ekki lifa svona, en aðstæður bjóða ekki upp á annað.

Þessar aðstæður leiða hugann að lífi og starfi Jesú Krists. Í guðspjöllunum eru margar frásögur af því hvernig hann leitaði uppi þá sem minna máttu sín og hafði af einhverjum sökum verið útskúfað úr samfélaginu. Hvernig hann hafði samfélag við þetta fólk og neytti jafnvel kvöldverðar með þeim – yfirleitt í óþökk ráðandi afla í samfélaginu. Dæmi um þetta er Lk 15.2 þar sem segir: „[F]arísear og fræðimenn ömuðust við því og sögðu: ‘Þessi maður tekur að sér syndara og samneytir þeim.'“

Þótt enginn sé utanaðkomandi frelsarinn í þessari mynd öðlast Shrek á vissan hátt frelsun. Í för sinni til að bjarga Fíónu prinsessu eignast hann samferðamenn og hittir sína sönnu ást. Hann eignast góða vini í Asnanum og Fíónu. Samfundir hans og Fíónu verða til að sýna honum fram á að hann er ekki einn í heiminum og að einhverjum kann að lítast vel á hann eins og hann er. Álögin sem lögð voru á prinsessuna (og nú skulu þeir sem ekki hafa séð myndina hætta að lesa) eru þess eðlis að hún er mennsk fegurðardís að degi, en tröllsleg fegurðardís að nóttu. Þessir álagafjötrar munu ekki leysast fyrr en Fíóna er kysst af sinni sönnu ást. Það sem þá mun gerast er að hennar sanna fegurð mun koma í ljós. En Shrek er hennar sanna ást og hún endar sem tröll eins og hann. Myndir endar að sjálfsögðu (eins og öll góð ævintýri) á því að þau ná saman og lifa væntanlega hamingjusöm um ómunatíð (eins og við sjáum væntanlega betur í Shrek 2).

Það sem er gott við þessa mynd er hversu afgerandi afstöðu hún tekur gegn kynþáttahatri og gegn þeirri gegndarlausu útlitsdýrkun sem við búum við í samfélaginu. Í þessu sambandi má hafa í huga yfirlýsinguna sem gefin er í 1M 1.27: „Og Guð skapaði manninn eftir sinni mynd, hann skapaði hann eftir Guðs mynd, hann skapaði þau karl og konu.“ Þetta gildir um alla menn – karla og konur – hvernig sem þeir líta út, hvert sem innræti þeirra er. Að uppruna eru þau Guðs góðs sköpun. Og Shrek er ótvíræð hetja myndarinnar þrátt fyrir að hann sé grænn og feitur, andfúll og önugur. Og hann er verður þess að vera elskaður og álitinn fallegur, rétt eins og Fíóna er það, bæði sem manneskja og sem tröll. Þetta er bæði góður boðskapur og mikilvægur á okkar tímum.

Eitt enn stef er vert að minnast á. Farquaad vill skapa hið fullkomna ríki með því að losa sig við allar ævintýraskepnur og þar með allt barnalegt úr landi sínu. Farquaad er hér ef til vill fulltrúi einhvers konar skynsemishyggju. Andstæðu þessarar stefnu hans er hinsvegar að finna í orðum Krists í Mt 18.3 þar sem hann segir: „Sannlega segi ég yður: Nema þér snúið við og verðið eins og börn, komist þér aldrei í himnaríki.“

Hliðstæður við texta trúarrits: Lk 15.2; Mt 18.3
Guðfræðistef: kærleikur, sáttagjörð, hinn fullkomni heimur
Siðfræðistef: útskúfun, kynþáttahatur, skortur á umburðarlyndi, útlitsdýrkun
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja
Trúarlegt atferli og siðir: hjónavígsla