3. árgangur 2003, Innlýsing, Vefrit

Sjöunda innlýsingin

Riddarinn

Stundum kemur það fyrir að maður tekur eftir hlutum, sem eru fyrir augunum á manni alla daga, og finnst samt eins og maður hafi aldrei séð þá áður. Eins og mannshönd, til dæmis. Hugsið ykkur hvað það er í rauninni magnað fyrirbæri!

Þegar hulu hversdagsleikans er svipt af hlutum, oftast á alveg tilviljanakenndan hátt, gerir maður sér kannski fyrst grein fyrir því að maður er lifandi, og ekki bara á lífi. Ég veit enga betri túlkun á þessu en lítið atriði, sem þið munið sjá hér á eftir.

Riddarinn Antonius Block er fastur í hringiðu tímans, eins og við öll. Og tíminn sem hann lifir er harður og miskunnarlaus, eins og alltaf. Plágan mikla geysist um landið og skilur eftir sig sviðna jörð. Riddarinn leitar Guðs, en finnur Dauðann, og það í eigin persónu. Hann veit að hans síðasta skák er hafin, hann teflir um lífið við Dauðann.

Dauðinn er snjall fléttumeistari og hefur líka rangt við, þegar honum svo sýnist. Hann villir á sér heimildir, þykist vera prestur í skriftastól og platar riddarann til að ljóstra upp leikaðferð sinni. Hverfur svo á braut og skilur riddarann einan eftir.

Riddarinn

En í stað þess að gefast upp fyrir hinum óprúttna og skelfilega andstæðingi sínum kviknar eitthvað innra með riddaranum. Hann virðir fyrir sér hönd sína. Finnur að blóðið dunar í æðunum. Hann er enn lifandi. Og í sólarljósinu sem skín inn um lítinn glugga tekur hann ákvörðun um að tefla skákina til enda.

Ég held að það sem riddarinn sér í hendi sér á þessu augnabliki, sé að þrátt fyrir það að leikslok kunni að vera ráðin, þá hafi hann færi á að hafa áhrif á gang leiksins fram að endalokunum. Hann ákveður að halda áætlun sinni til streitu. Grillir kannski í tilgang lífsins í sólargeislanum sem fellur á hönd riddarans?

Flutt í Bæjarbíói, þriðjudaginn 3. júní 2003, á undan sýningu á Det sjunde inseglet.