Ég hef velt því fyrir mér, hvort persónulegar ástæður eða almennt listrænt mat liggur að baki því að ég hef ævinlega flokkað Sjöunda innsiglið eftir Ingmar Bergman meðal þeirra tíu kvikmynda sem ég myndi velja öðrum fremur í úrvalsflokk allra tíma. Jafnvel í hóp þeirra fimm bestu. Sennilega hvort tveggja.
Ég skal gefa skýringu á því hvað ég á við með persónulegar ástæður. Áður en ég kom til náms í Svíþjóð haustið 1954 hygg ég að ég hafi ekki heyrt Ingmar Bergman nefndan. Ég var með blaðamannapassa og sendi stundum hugleiðingar eða pistla um menninguna heim. Ein mín fyrsta grein fjallaði um þrjár norrænar myndir sem ég sá einmitt þennan vetur. Ein þeirra nefndist Kennslustund í ást (En lektion i kärlek) og var eftir upprennandi leikstjóra, Ingmar Bergman, og ég er ekki viss nema þetta sé kannski í fyrsta sinn sem hans var getið í íslenskri menningarumræðu.
Næstu árin fylgdist ég síðan hvernig stjarna hans reis með leifturhraða, bæði heima og erlendis, með myndum eins og Jarðarberjalandið (Smultronstället), Sommarnattens leende (Bros sumarnæturinnar) og Sjöunda innsiglinu (Det sjunde inseglet), sem var frumsýnd 1957. Jafnframt fór maður að kynna sér fyrstu myndir Bergmans, ekki síst Sumarið með Moniku (Sommaren med Monika) og Kvöld trúðanna (Gycklarnas afton), sem óneitanlega eru óvenjulega spennandi byrjendaverk, ef það er þá hægt að kalla slíkar myndir svo.
Jafnframt gafst mér tækifæri að kynnast handbragði Bergmans á leiksviði, en það var hans skóli; það var í Malmö þar sem hann setti til dæmis upp Pétur Gaut með Max von Sydow í aðalhlutverki með ógleymanlegum hætti,1956 að mig minnir; sú sýning situr enn í mér lið fyrir lið, samtímis því sem ótal lélegar leiksýningar eru mér með öllu gleymdar. Síðar gerðist það að Ingmar Bergman var meðal kennara minna í leiklistardeildinni í Stokkhólmi, þar sem hann fór með okkur nemendum sínum í gegnum leiksýningar sem hann hafði stýrt og skýrði fyrir okkur forsendur sínar.
Á Malmöárunum kenndi Bergman við leiklistarskólann þar. Þá samdi hann lítið verk, Trämålning, fyrir nemendur sína. Hugmyndina hefur hann fengið af mynd frá miðöldum þar sem hópur manna helst í hendur og dansar saman í dauðann, minni sem er nokkuð þekkt í miðaldamyndlist. Þetta litla verk lékum við seinna í þýðingu minni og undir minni leikstjórn í Litla leikfélaginu í Tjarnarbæ 1967 undir heitinu Gömul mynd á kirkjuvegg.
Líta má kannski á Gycklarnas afton sem eins konar uppkast að Sjöunda innsiglinu. Líkt og hjá Anatole France í Trúður vorrar frúar er það trúðurinn með sitt hreina hjarta sem er hólpinn. En þó bætist við það sem átti eftir að verða meginstef í verkum Bergmans, leit prestsonarins að Guði, glíma hans við föðurmynd Guðs.
Myndmálið er í senn einfalt og hreint eins og oft í myndlist miðalda. Jafnframt gætir mjög súrrealískra áhrifa, eins og oftlega hefur gerst í verkum Bergmans fyrir svið, annars vegar skýr hreinleiki, hins vegar óræði undirdjúpanna. Og þá er eins gott að rifja það upp, að André Breton og félagar hans fundu engan veginn upp súrreslismann, þó að þeir kæmu þeirri stefnu í tísku í listum upp úr fyrri heimsstyrjöldinn þegar hin áþreifanlega heimsmynd stöðugleikans var hrunin. Hvað var Hieronymus Bosch annað en súrrealisti, svo að þekktasta dæmið sé nefnt? Margt í myndmáli miðaldakirkjulistarinnar er auðvitað sérkennilegt og rýfur böndin við hinn hversdagslega veruleika. Eitt af þeim er minnið með dauðadansinum.
Sjöunda innsiglið er að formi ein allsherjar allegóría, táknmynd. Plága geisar sem mementum mori og allir eru hræddir. Hvað segir Guð um þetta, hví lætur hann þetta yfir okkur ganga? Persónurnar endurspegla ólíka samfélagsþætti, þarna er riddarinn og skósveinn hans, galdrakindin, hjón sem eru trúðar og eiga lítið barn; þau heita af engri tilviljun Jósef og María og áfram mætti telja. Og þarna er dauðinn. Líkt og hjá Torráði og tröllkonunni forðum tefla þeir riddarinn sem Max von Sydow leikur og dauðinn. Bengt Ekerot, enn einn af kennurum mínum frá Svíþjóð – tefla um lífið og dauðann.
Kannski efast Bergman ekki um tilveru Guðs, en hann sættir sig ekki við afskiptaleysi hans, þegar hætta steðjar að og sekir og saklausir verða jafnt fyrir barðinu á plágunni. Kannski er svarið að finna í jólaguðspjallinu eins og það er þýtt í kaþólskum bókum: ekki hjá mönnum sem Guð hefur velþóknun á, heldur á mönnum með góðan vilja, bonae voluntatis. Riddarinn með allar sínar efasemdir sýnir sinn góða vilja í verki þannig að Jósef og María með barnið bjargast, meðan öll hin hrædd og ráðvillt – dansa inn í eilífðina.