Kvikmyndir

Sódóma Reykjavík

Leikstjórn: Óskar Jónasson
Handrit: Óskar Jónasson
Leikarar: Björn Jörundur Friðbjörnsson, Eggert Þorleifsson, Helgi Björnsson, Margrét Gústavsdóttir, Sigurjón Kjartansson, Sóley Elíasdóttir, Stefán Sturla Sigurjónsson og Þröstur Guðbjartsson
Upprunaland: Ísland
Ár: 1993
Lengd: 90mín.
Hlutföll: 1.66:1
Einkunn: 3

Ágrip af söguþræði:
Kvikmyndin segir frá sakleysingjanum Axel sem þarf að leita sjónvarpsfjarstýringar móður sinnar um alla Reykjavíkurborg. Kemst hann í kynni við miður heppilegan félagsskap systur sinnar. Leitin berst inn á skemmtistaðinn Sódómu sem er í eigu glæpagengis. Vegna misskilnings vilja eigendur Sódómu Axel feigan og skapast því mikil spenna þar á milli.

Almennt um myndina:
Það eru ekki margar íslenskar kvikmyndir sem hafa orðið langlífar, en þó má finna lítinn hóp og má með sanni segja að Sódóma eigi vel heima í þeim hópi. Á tíu ára afmæli kvikmyndarinnar var myndin gefin út DVD á diski auk aukaefnis. Það er skemmst frá því að segja að mynddiskurinn seldist gríðarlega vel og var meðal annars í efsta sæti á íslenskum vinsældarlistum fyrstu vikurnar í sölu.

Árið 1993 var Sódóma Reykjavík tilnefnd til sex verðlauna í keppni um norrænu kvikmyndaverðlaunin; Óskar Jónasson fyrir bestu mynd annars vegar og bestu leikstjórn og besta handrit hins vegar, Björn Jörundur Friðbjörnsson sem besti karlleikari í aðalhlutverki, Eggert Þorleifsson sem besti leikari í aukahlutverki, Sigurður Sverrir Pálsson fyrir kvikmyndatöku og Sigurjón Kjartansson fyrir bestu kvikmyndatónlistina. Fleiri viðurkenningar mætti telja sem Sódóma hefur verið tilnefnd til eða unnið.

Óskar Jónasson þarft vart að kynna fyrir Íslendingum. Hann er einn vinsælasti leikstjóri og handritshöfundur íslensku þjóðarinnar og hafa verk hans iðulega náð miklum vinsældum. Auk Sódómu Reykjavík gerði hann einnig kvikmyndina Perlur og Svín en hann hefur einnig skrifað og leikstýrt síðustu tveimur áramótaskaupum Ríkissjónvarpsins, þau skaup hlutu mjög góðar undirtektir hjá landsmönnum. Auk þess hefur hann framleitt og/eða leikstýrt sjónvarpsþáttum eins og Fóstbræðrum og 20/20.

Sódóma Reykjavík hefur lengi verið mín uppáhalds kvikmynd sem framleidd hefur verið á Íslandi og er ekki að ástæðulausu að hún hefur verið tilnefnd til þessara verðlauna sem áður er getið, flestir þættir myndarinnar heppnast stórkostlega. Ef maður tekur til einstaka þætti má glögglega sjá hversu vel hefur verið vandað til á hverju sviði fyrir sig.

Tónlistin er afskaplega vönduð. Óskar fékk til liðs við sig þekktustu og vinsælustu tónlistarmenn landsins á þessum tíma til að sjá um tónlistina í myndinni. Má þar nefna Sálina hans Jóns míns, Ham, Björk og KK. Kannski má segja að þetta sé af nauðsynlegum ástæðum þar sem tónlistin skipar gríðarlegan stóran sess í kvikmyndinni. Hún er öll mjög vönduð og flest þeirra laga sem þarna eru spiluð voru öll mjög vinsæl á þeim tíma þegar kvikmyndin kom út og jafnvel fyrr, s.s. Borg mín borg (KK), partíbær (HAM) og svo titillag kvikmyndarinnar Sódóma (Sálin hans Jóns míns).

Vinnsla kvikmyndarinnar virðist almennt góð, ekki er mikið um tæknibrellur enda þær óþarfar. Kvikmyndatakan er ágæt, reyndar stingur það svolítið í augun þegar Axel og Unnur eru á akstri í byrjun myndarinnar. Þar er greinilegt að bifreið Axels er á einhvers konar kerru, þar sem hún stendur mun hærra miðað við aðra umferð á veginum. Klipping myndarinnar er að mínu áliti mjög góð.

Leikararnir eru áberandi góðir, enda fengu nokkrir þeirra tilnefningar sem áður greinir. Það er sterkur leikur hjá Óskari að fá með sér vinsæla söngvara stórhljómsveita (á íslenskan mælikvarða) til að gegna aðalhlutverkunum í myndinni. Það eru þeir Helgi Björnsson (Moli) sem hefur sungið með hljómsveitinni Síðan skein sól og Björn Jörundur Friðbjörnsson sem hefur þanið raddböndin með Ný danskri. Helgi hafði lokið leiklistarprófi en Björn Jörundur ekki, en fyrir þessa mynd hafði hann aðeins leikið í einu verki, þ.e. í uppfærslu Þjóðleikhússins á verkinu Elín, Helga, Guðríður. Þrátt fyrir reynsluleysið stendur hann sig mjög vel og þykir mér einn af bestu leikurum myndarinnar. Aðrir leikarar þykja jafnframt góðir í sínu fagi og sýna það og sanna í þessari kvikmynd. Þó þykir mér Sóley Elíasdóttir vera frekar ósannfærandi í hlutverki Unnar, sérstaklega í byrjun.

Handritið er í senn frumlegt og skemmtilegt sem einkennist af hraðri atburðarrás í undirheimum Reykjavíkur. Nokkuð magnað sjónarhorn á borginni sem hefur með tímanum verið að komast á yfirborðið. Það hlýtur óneitanlega að hjálpa til að handritshöfundur er jafnframt leikstjóri verksins og kemur þar með þeim áherslum í gegn sem hann hafði í huga við skrif handritsins. Að minnsta kosti er útkoman ein af betri myndum sem þá höfðu komið út á Íslandi.

Við vinnslu þessarar umsagnar hafði ég samband við Óskar Jónasson (handritshöfund og leikstjóra) og aðspurður um nafn skemmtistaðarins. Sagði hann að það ætti að undirstrika tegund skemmtistaðarins og hugsun þremenningana í Mafíu Íslands og vísaði hann þar til Biblíunnar. Kvikmyndin ætti sér ekki aðra meðvitaða skírskotun í Biblíuna.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Í þessari umfjöllun ætla ég einkum að bera saman borgina Sódómu sem Guð eyddi og skemmtistaðinn Sódómu sem er eitt aðalsögusvið kvikmyndarinnar. Það er þó ekki úr vegi að líta fyrst til annarra atriða.

Fiskar, tákn kristinnar trúar, gegna mikilvægu hlutverki í myndinni. Í rauninni eru þeir áhrifavaldar að söguþræðinum. Axel fer að leita að fjarstýringunni þar sem hann er svo hræddur um að fiskarnir verða drepnir. Leitin mikla er til björgunar fiskunum.

Ein aðalpersóna myndarinnar er athyglisverð í trúarlegu tilliti. Unnur er prestsdóttir sem er skýrt tilgreint í myndinni og ekki að ástæðulausu. Hún er ekki kristinnar trúar sem kemur glögglega fram þar sem eitt atriði er sérstaklega gert til þess að sýna fram á það. Eftir að hún hnerrar biður Axel hana Guðs hjálpar og svarar hún þá: „Hvað heldurðu að ég trúi á Guð?“ Óskar vill meina að með þessari framsetningu sé verið að sýna að Unnur væri í ákveðinni uppreisn gegn foreldrum sínum. Í æsku hafði Unnur safnað biblíumyndum og hafði hún stolið frá föður sínum slíkum myndum til að bæta í safnið. Hún hafði safnað alls 130 þúsund myndum þegar hún hætti.

Unnur veltir mikið fyrir sér andlegum málefnum, sér í lagi andatrú. Í upphafi myndarinnar er ráðist inn á heimili hennar, kveikt í stól og má sjá á henni nokkra áverka. En það sem hún hefur hvað mestar áhyggjur af er að líflína í lófa hennar er rispuð í sundur. Hún trúir að slíkt boði eitthvað slæmt. Jafnframt ber hún stóran kross um hálsinn sem má líta á sem áherslu á trú hennar á yfirnáttúruleg öfl þó hún sé ekki kristinnar trúar eins og áður sagði. Þegar þau koma á heimili Mola bróður Unnar notar hún tækifærið og spáir í bolla og þar upplýsir hún Axel, sem er þungt hugsi vegna taps sjónvarpsfjarstýringarinnar, um það að hún sé að læra að nota hugarorku til ýmissa aðgerða, s.s. að hækka eða lækka í sjónvarpi og býðst hún til að kenna móður hans þá aðferð. Hún virðist stöðug í trú sinni að það virki sem kemur í ljós í lok myndarinnar þegar móðir Axels þiggur áðurnefnt boð og vill læra að beita hugarorkunni til þessara aðgerða. Unnur beitir hugarorku til að hækka í tækinu og eðlilega hrífst móðirin með, en þær átta sig ekki á að fyrir aftan stendur Mæja með nýja sjónvarpsfjarstýringu og stjórnar raunverulega öllum aðgerðum. Með þessu sýnist mér Óskar setja fram ádeilu á hugarorkuna og kannski um leið á ýmis önnur andleg fyrirbæri.

Ýmis siðfræðistef eru mjög áberandi í textanum enda byggist myndin upp á að sýna undirheima Reykjavíkurborgar og því eðlilegt að ólöglegum verknuðum og siðferðilegum vandamálum séu gerð góð skil. Brjánsi hlaut viðurnefnið sýra vegna fíkniefnaneyslu sinnar en hann sést í einu atriði myndarinnar þar sem hann tekur inn töflur auk þess sem einkenni hinna örvandi lyfja sjást greinilega.

Athyglisvert er að skoða myndina út frá boðorðunum tíu, sérstaklega í ljósi þess að hvert einasta boðorð er brotið í kvikmyndinni. það er að segja hvort og þá hvaða boðorð séu brotin. Mun ég fjalla um hvert og eitt boðorð og nefna dæmi, máli mínu til stuðnings.

1. Ég er Drottinn Guð þinn sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu. Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig.
Það er sérstaklega persóna Unnar sem vert er að skoða í sambandi við þetta boðorð. Með trú á anda og önnur yfirskilvitleg og höfnun á tilveru Guðs eins og framan greinir brýtur hún boðorðið.

2. Þú skalt ekki leggja nafn Drottins Guðs þíns við hégóma.
Fljótlega í myndinni er þetta boðorð brotið, eftir að Mæja hafi skipað Orra að stíga í bíl Axels. Orri svaraði þá: “Jesus Christ” enda þótti honum full mikið gert úr því að fjarstýringin væri týnd.

3. Minnstu þess að halda hvíldardaginn heilagan.
Um þetta ákvæði er ekki gott að segja þar sem myndin gerist á einum sólahring, frá föstudegi til laugardags. Hins vegar hvíldist Guð á sjöunda degi og eru þeir til á Íslandi sem halda hvíldardag sinn á sjöunda degi (laugardegi) vegna þess, til dæmis aðventistar. Hann er ekki haldinn heilagur í kvikmyndinni þar sem verið er að þrífa íbúð móður Axels í lok myndarinnar (laugardegi).

4. Heiðra föður þinn og móður þína.
Systkinin Mæja og Axel er á öndverðum meiði hvað þetta varðar. Axel fylgir þessu í einu og öllu, hann gerir það sem mamma hans segir honum. Mæja er aftur á móti með neikvæðara viðmót í garð móður sinnar. Til dæmis segir hún við Axel: „Þið eruð rugluð“ og á þar við móður sína og bróður þegar hún hefur hafnað ósk móður sinnar að koma heim. Reyndar er hún ekki alveg eindregin í þessari afstöðu sinni, því þegar Axel er beðinn um að geyma „tæki“ Mola í bílskúrunum hjá sér, þá skýtur hún inn í eftir að Axel hefur samþykkt beiðnina: „Viltu ekki spyrja mömmu að þessu fyrst.“

5. Þú skalt ekki morð fremja.
Þetta boðorð er framkvæmt í orði en ekki á borði. Það er gerð tilraun til manndráps þar sem Aggi vill drepa Axel, erkióvininn. Það tekst honum ekki, en kannski má segja að hann hafi brotið boðorðið með hugsunum sínum og vilja. Einnig er rétt að geta þess að Brjánsi hótar afgreiðslumanni í sjoppu lífláti.

6. Þú skalt ekki drýgja hór.
Það á sama við um þetta boðorð og næsta á undan, það er framkvæmt í orði en ekki á borði. Þegar félagarnir í Mafíu Íslands hafa tekið Unni með sér, ræða þeir um að gera skemmtistað þeirra, Sódómu, að hóruhúsi til að geta notað stúlkuna eitthvað. Einnig ræða þeir þá hugmynd sín á milli að hægt værir að nota hana í klámmyndir og koma með nokkrar útfærslur af slíkum myndum.

7. Þú skalt ekki stela.
Brot við sjöunda boðorðinu er stef sem er gegnumgangandi alla myndina, enda segir hún frá undirheimum Reykjavíkurborgar þar sem þjófnaðir, svik og prettir eru allsráðandi. Í raun má segja að fram komi þjófnaður á öllum mögulegum hlutum, allt frá sjónvarpsfjarstýringu til manneskju (Unni og móður Axels), og allt þar á milli, t.d. biblíumyndir, skattsvik (sala ólöglegra drykkja) og öll sú starfsemi sem fer fram á heimili Mola. Allt er þetta brot á ofangreindu boðorði.

8. Þú skalt ekki ljúga.
Eins og í flestum bíómyndum kemur lygi og ósannsögli nokkuð fyrir í myndinni. Móðir Axels ásakar hann um lygi, þrátt fyrir að hann sé alsaklaus af slíkum verknaði, hins vegar er vert að skoða persónu Mola í þessu sambandi. Moli beitir hvítri lygi til að komast í náð Agga og felur þar nafnið sem hann er venjulega kallaður. En raunverulega er Moli sá sem Aggi leitast við að ná og vill drepa.

9. Þú skalt ekki girnast hús náunga þíns.
Þetta ákvæði er brotið eins og öll önnur. Brotist er inn á heimili Axels og húsnæði hans notað sem partýhúsnæði.

10. Þú skalt ekki girnast konu náunga þíns, ekki þræl hans eða ambátt, ekki uxa hans eða asna né nokkuð það sem náungi þinn á.
Brot við þessu boðorði koma fyrir í myndinni, t.d. girnist Moli spurflösku sem Axel á svo hægt sé að halda bruggframleiðslunni áfram. Eina sem Axel vill fá fyrir flöskuna er sjónvarpsfjarstýring, þó eflaust hafi hann getið fengið eitthvað meira.

Gullna reglan kemur fyrir í upphafi kvikmyndarinnar í svolítið breyttri mynd. Allt sem þér viljið, að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra. (Matt. 7.12). Í gullnu reglunni sem og öðrum boðskap Krists er hvatt til góðra verka og mikilvægi þess að láta sér annt um náungann, enda skipti náunginn mann máli. Þetta á að vera einkenni á kristnu samfélagi, enda á kristið samfélag að vera kærleiksríkt. Hins vegar er þessu viðsnúið í kvikmyndinni með orðunum: „Maður gerir ekki neitt fyrir neinn, sem gerir ekki neitt fyrir neinn”. Tilbrigði við þessi orð eru endurtekin nokkrum sinnum í myndinni. Þetta er greinileg andstaða við kærleiksboðskap Krists eins og sést vel á því samfélagi sem birtist í myndinni. Þar er ekki kærleikurinn eða vináttan ríkjandi, enda skilaboðin ekki mjög hvetjandi til að gera náunganum greiða.

Það sem þessi ummæli eiga sameiginlegt er að þau eru látin falla í upphafi; annars vegar í upphafi kristni og hins vegar í upphafi myndarinnar. Þetta er það sem skiptir máli á hvoru sviði fyrir sig.

“En mennirnir í Sódómu voru vondir og stórsyndarar fyrir Drottni.”(1.Mós.13:13.)

Flestir þekkja til borgarinnar Sódómu sem sagt er frá í Gamla testamentinu, nánar tiltekið Fyrstu Mósebók. Hún hefur löngum verið tákn fyrir hið illa og víti til varnaðar enda íbúar borgarinnar stórsyndugir og hugsa fyrst og fremst um eigin hag. Því er verðugt að bera saman söguna af þessu varnaðarvíti og kvikmyndina Sódómu Reykjavík. Það má sjá greinilegar hliðstæður við upphaflegu frásögn Biblíunnar á borginni Sódómu. Fyrirsögnin hér að ofan nær til íbúa Sódómu en gæti einnig átt við eigendur skemmtistaðarins Sódómu.

Íbúar Sódómu lifðu syndsamlegu lífi, gerðu einungis það sem þeim hugnaðist. Þeir hirtu ekki um orð Drottins og líf þeirra var innantómt og þeir gerðu ekki greinarmun á góðu og illu. Þegar englar Drottins komu til Sódómu vildu íbúarnir drepa þá. Þeir töldu englana vera óvini sína.

Það má sjá margt líkt með íbúum borgarinnar og eigendum skemmtistaðarins Sódómu. Öll starfsemi og hegðun eigenda Sódómu byggist á ólöglegum og syndsamlegum gjörðum auk annarra hugmynda sem seint myndu teljast göfugar. Til dæmis að breyta skemmtistaðnum í vændishús eða gera kvikmynd þar sem klám væri aðalviðfangsefnið. Skemmtistaðurinn rekur sig að mestu á ólöglegri áfengssölu þar sem allar vörur á barnum eru afrakstur bruggframleiðslu Mola og Brjánsi, einn mafíósanna, er í harðari fíkniefnaneyslu.

Það kemur víða fram hversu ólögleg og hversu syndsamleg starfsemi Sódómu er. Eigendurnir eru sannarlega glæpamenn sem aðeins hugsa um eigin hag. Örlög skemmtistaðarins verða svipuð og borgarinnar, eldur kviknar sem leiðir til þess að sjálfvirkt vatnsúðunarkerfi fer í gang. Af þessum sökum skemmist húsakynni staðarins og eru í raun endalok hans í kvikmyndinni því síðar þann sama sólahring nær lögreglan forsprakka hópsins og hinir tveir ná að flýja.

Miskunnarleysi félaganna er einnig algjört sem sést hvað best þegar þeir stefna að því að granda Mola, helsta óvini þeirra. Ástæðan fyrir því að þeir vilja ganga frá honum er sú að bruggið sem hann seldi þeim var lélegt og hafði þau áhrif að fólk sofnaði af því sem leiddi það síðan af sér að loka þurfti staðnum mun fyrr en ella. En þeir þekktu ekki óvininn og vissu í rauninni ekki hver hann var. Þeir ætluðu sér að granda Mola en hinn mikli sakleysingi Axel varð hins vegar fórnarlambið.

Í kvikmyndinni eru gerð skýr grein fyrir því hversu saklaus Axel er, þekkir ekki næturlífið og einu áhugamál hans eru bílar og gullfiskar. Hann er eins konar „englapersóna,“ heiðarlegur ljúflingspiltur sem vill engum gera mein og er í raun eina slíka persónan í allri atburðarrásinni sem myndin greinir frá. Allir aðrir taka virkan þátt í næturlífinu og lífi undirheima borgarinnar, þessu lífi sem Axel er að kynnast í fyrsta skiptið í atburðarrás myndarinnar. Engu að síður telja mafíósarnir hann vera sinn aðalóvin og reyna því að drepa hann, líkt og íbúar Sódómu í Gamla testamentinu vildu granda englum Drottins þar sem þeir töldu þá vera sína helstu óvini. Þeir, eins og meðlimir MÍ, þekktu ekki óvini sína, vildu drepa hið saklausa en ekki þá seku.

HeimildirBiblían. Heilög ritning. Gamla testamentið og nýja testamentið. 1981. Hið íslenska Biblíufélag. Reykjavík.

Óskar Jónasson. 1993. Sódóma Reykjavík. Stjórnandi: Óskar Jónasson. Reykjavík. Skífan. [Kvikmynd]

Óskar Jónasson. 2003. Viðtal höfundar við Óskar Jónasson um trúarstef og fleira í kvikmyndinni Sódóma Reykjavík, 28. október.

Hliðstæður við texta trúarrits: 1M 13:13; 1M 18:1-19:24
Persónur úr trúarritum: Guð
Guðfræðistef: Vantrú, synd, hugarorka
Siðfræðistef: Þjófnaður, peningafölsun, bruggun, fíkniefnaneysla, mannrán, ofbeldi, manndrápstilraun, skemmdarverk, vændi, klám, hefnd, einelti, samkynhneigð
Trúarbrögð: Andatrú
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: Sódóma
Trúarleg tákn: Krossar, fiskar
Trúarleg embætti: Prestur
Trúarlegt atferli og siðir: Spáð í bolla, lófalestur