Kvikmyndir

Star Trek (TOS): Bread and Circuses

Leikstjórn: Ralph Senensky
Handrit: Gene L. Coon og Gene Roddenberry, byggt á samnefndri sögu eftir John Kneubuhl
Leikarar: William Shatner, Leonard Nimoy, DeForest Kelley, James Doohan, Nichelle Nichols, Walter Koenig, William Smithers, Logan Ramsey, Lois Jewell og Rhodes Reason
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 15
Lengd: 49mín.
Hlutföll: us.imdb.com/Details?0060028
Einkunn: 2

Ágrip af söguþræði:
Hvernig hefði heimur okkar orðið ef Rómarríki hefði ekki fallið og kristni hefði ekki náð fótfestu fyrr en tvöþúsund árum síðar? Með öðrum orðum hvernig hefði hið rómverka ríki litið út á 20. öldinni? Star Trek þátturinn Bread and Circuses eða Brauð og hringleikir svarar þeirri spurningu.

Enterprise leitar áhafnar geimskipsins Beagle, sem hvarf fyrir mörgum árum en geimskipið fannst mannlaust rétt hjá plánetunni 892-IV. Plánetan er nánast eftirmynd af jörðinni, nema hvað að tæknileg þróun þeirra er sambærileg því sem var á Jörðinni í kringum 1970. Menningin er þó gjörólík því sem við þekkjum því að Rómarríki ræður enn ríkjum, rómverskir guðir eru enn tilbeiðnir og skylmingarþrælar eru enn látnir berjast upp á líf og dauða. Áhorfendur þurfa þó ekki lengur að mæta í hringleikahúsin, því að leikirnir eru sýndir í beinni sjónvarpsútsendingu.

Þegar Kirk, Spock og McCoy fara niður á plánetuna komast þeir að því að margir þrælanna hafa hafnað rómverskum guðum og tilbiðja sólina í staðinn. Þrímenningarnir eru teknir fastir af rómverskum hermönnum og komast þá að því að Merik, skipstjóri geimskipsins Beagle, hafði selt alla áhöfn sína í hringleikina og fengið stjórnunarstöðu í staðinn.

Þegar Kirk neitar að feta í fótspor Merik, eru Spock og McCoy neyddir til að berjast í hringleiknum. Kirk tekst þó að lokum með aðstoðar Meriks að bjarga vinum sínum og komast aftur til geimskipsins. Þar segir Uhura þeim að þeir hafi misskilið átrúnað þrælanna, þeir hafi ekki tilbeðið sól Guðs heldur son Guðs, þ.e. Jesú Krist (á ensku sun/son).

Almennt um myndinaLeikstjórinn Ralph Senensky leikstýrði einnig Star Trek þáttunum This Side of Paradise, Metamorphosis, Obsession, Return to Tomorrow og Is There In Truth No Beauty? Eins og flestir leikstjórar Star Trek þáttanna vann hann að mestu við sjónvarpsþætti en hann kom t.d. að þáttum eins og The Twilight Zone, The Fugitive, The Wild, Wild West, Mission: Impossible, Planet of the Apes, How the West Was Won, Young Maverick og Dynasty.

Gene Roddenberry og Gene L. Coon voru mjög ósáttir við handrit John Kneubuhl og endurskrifuðu það og breyttu nær öllu rétt fyrir tökur. Leikstjórinn Ralph Senensky fékk því kaflana daginn fyrir hvern tökudag. Þess má geta að því var haldið leyndu fram á síðasta tökudag að þrælarnir tilbáðu ekki sól Guðs heldur son Guðs.

Gene Roddenberry er höfundur Star Trek heimsins og meirihluta þeirrar hugmyndafræði sem þar birtist. Hann er því í raun mikilvægara og stærra nafn í heimi geimmynda en t.d. George Lucas, enda fékk hann viðurnefnið ,,The Great Bird of the Galaxy“. Gene Roddenberry fæddist í Texas árið 1921 en lést úr hjartaáfalli 70 ára gamall árið 1991. Hann var nefndur Eugene Wesley Roddenberry en tók síðar upp nafnið ,,Gene“. Í dag hefur Gene Roddenberry nokkurs konar spámannsstöðu á meðal heitra aðdáenda Star Trek, en margir trúfræðingar hafa bent á að myndast hafi költ-átrúnaður í kringum þættina.

Gene var flugmaður að atvinnu og flaug B-17 sprengiflugvél í síðari heimstyrjöldinni. Alls fór hann 89 árásarferðir og fékk tvö heiðursmerki fyrir vikið. Að herþjónustu lokinni lærði hann bókmenntafræði við Columbíuháskólann. Þegar hann sá sjónvarp í fyrsta skiptið áttaði hann sig á því að þarna var miðill sem myndi þurfa á rithöfundum að halda. Hann lagði því flugið á hilluna og flutti til Hollywood. Þegar þangað var komið komst hann hins vegar að því að sjónvarpið var enn á fósturstigi og því erfitt að komast þar að sem rithöfundur.

Gene hafði áður farið í lögregluskóla og réði sig því í lögregluna í Los Angelis. Þar fékk hann dýrmæta reynslu sem átti eftir að nýtast honum vel sem rithöfundi síðar meir. Þegar hann var orðinn aðstoðarvarðstjóri innan lögreglunnar hafði honum einnig tekist að sanna sig sem rithöfundur og t.d. skrifað handrit fyrir þætti eins og Goodyear Theatre, The Kaiser Aluminum Hour, Four Star Theater, Dragnet, The Jane Wyman Theater og Naked City. Hann sagði því lögreglustarfi sínu lausu og fór að vinna alfarið fyrir sjónvarpið.

Þar fékk hann tækifæri til að vinna að sínum eigin sjónvarpsþætti, þ.e. Star Trek. Fyrstu tveir þættirnir féllu reyndar ekki í góðan jarðveg hjá yfirmönnum sjónvarpsstöðvarinnar, en þeim var hafnað á þeirri forsendu að þeir væru of ,,vitsmunalegir“. Sjónvarpsáhorfendur voru þó vitsmunalegri en yfirmennirnir gerðu ráð fyrir því Star Trek eignuðust strax dygga aðdáendur, en þættirnir voru framleiddir á árunum 1966-1969, eða þar til framleiðslu þeirra var hætt vegna fjárhagsörðugleika.

Þótt Gene Roddenberry hafi haft mikið um flest handrit þáttanna að segja þá er hann aðeins skráður sem höfundur tólf þeirra, þ.e. The Cage, Charlie X, Mudd’s Women, The Menagerie, Part I, The Menagerie, Part II, The Return of the Archons, A Private Little War, The Omega Glory, Bread and Circuses, Assignment: Earth, The Savage Curtain og Turnabout Intruder. Að auki er hann skráður höfundur fjögurra þátta í Star Trek: The Next Generation seríunni, þ.e. Encounter at Farpoint: Part I, Encounter at Farpoint: Part II, Hide and Q og Datalore.

Gene Roddenberry framleiddi síðar kvikmyndina Pretty Maids All in a Row með Rock Hudson, Angie Dickinson og Telly Savalas í aðalhlutverkum. Hann hélt einnig áfram að gera sjónvarpsmyndir eins og Genesis II, sem fjallar um afleiðingar þriðju heimstyrjaldarinnar, The Questor Tapes sem fjallar um vélmenni sem leitar að skapara sínum og áframhaldið að Genesis II, þ.e. Genesis II — Planet Earth.

Gene Roddenberry var meðlimur Writers Guild Executive Council og var stjórnandi Academy of Television Arts and Sciences. Hann var heiðraður þremur doktorsnafnbótum, tveim í bókmenntafræði frá Emerson College og Union College og eina í vísindum frá Clarkson College. Gene Roddenberry var húmanisti en hann heillaðist einnig af austurlenskum átrúnaði, þ.e. eins og hann var kynntur á vesturlöndum. Brúðkaup hans var t.d. í Japan en það fór fram að hætti Shinto Búddista.

Gene Roddenberry vann síðar að Star Trek: The Next Generation seríunni frá 1987 fram til dauðadags, en sú sería fékk fjölda Emmy verðlauna þau sjö ár sem hún var í gangi. Hann stóð einnig að sjö Star Trek kvikmyndum en andaðist tveimur dögum eftir að tökum lauk á þeirri sjöundu. Eftir hans dag hafa þrjár Star Trek sjónvarpsseríur bæst í hópinn, þ.e. Star Trek: Deep Space Nine, Star Trek: Voyager og nú nýlega Enterprise.

De Forest Kelley (McCoy) sagði eftirfarandi um Gene Roddenberry: ,,Gene breytti daglegu lífi leikaranna og Guð má vita hvað hann breytti lífi margra annarra sem sáu verk hans. Ég held að áhrifa hans muni gæta áfram að í nánustu framtíð.“

Gene L. Coon var mjög mikilvæg persóna í þróun Star Trek hugmyndafræðinnar. Klingonarnir voru hugmynd hans og hann er höfundur ,,Frumreglunnar“ (Prime Directive) en hún gengur út á það að þróaðri menningarsvæði megi ekki hafa áhrif á vanþróaðri menningarsvæði, því að slíkt gæti haft óæskilegar afleiðingar í för með sér. Ástæðan er sú að öll menningarsvæði verða að fá tíma til að þroskast og þróast á eigin forsendum og á eigin hraða. Þessi regla er grunnurinn í siðfræði Star Trek.

Gene L. Coon framleiddi fyrstu Star Trek þættina og var Bread and Circuses sá síðasti. Hann er einnig skráður höfundur að þáttunum Arena, Space Seed, A Taste of Armageddon, The Devil in the Dark, Errand of Mercy, Metamorphosis og A Piece of the Action. Þá skrifaði hann einnig handrit fyrir sjónvarpsþættina Maverick, Zorro og The Wild, Wild West, en hann kom einnig að framleiðslu þeirrar síðast nefndu. Gene L. Coon skrifaði jafnframt handrit fyrir kvikmyndir eins og Man in the Shadow (1957) með Jeff Chandler og Orson Welles í aðalhlutverki, The Girl in the Kremlin (1957), No Name on the Bullet (1959), The Killers (1964) sem byggð er á sögu Ernest Hemingway og First to Fight (1967).

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Bread and Circuses er jákvæðasti Star Trek þátturinn í garð kristninnar að kannski The Empath frátöldum. Myndin byggir á hinni vinsælu kenningu að hliðstæðar þróanir eiga sér stað á tveim stöðum. Þessi hugmynd hefur ekki aðeins heillað höfunda vísindaskáldverka heldur einnig leikstjóra á borð við Krzysztof Kieslowski, eins og sést t.d. í kvikmyndunum Tvöfalt líf Veróníku og Þrír litir: Rauður.

Ástand plánetunnar 892-IV hefur ekkert breyst í tvöþúsund ár að tækniþróuninni frátaldri. Þrælahald er enn við lýði og skylmingaþrælar berjast enn upp á líf og dauða í hringleikhúsunum. Það er aðeins fyrst núna sem orð Jesú Krists virðast vera farin að breiðast út um heiminn og hafa einhver áhrif og ljóst er að ef það takist muni þrælahald, kúgun og ójöfnuður manna á milli heyra sögunni til; eða eins og Spock segir: ,,Þá mun ást og bræðralag ríkja“.

Þátturinn er leið Genes L. Coon og Genes Roddenberry til að sýna kristindóminum og þá sérstaklega Kristi virðingu sína. Athyglisvert er að áhangendurnir minnast aldrei á krossfestingu eða upprisu heldur aðeins á almennar félagslegar kenningar eins og ást, frelsi, frið og að allir menn séu bræður. Einnig árétta þeir að það sé aðeins til einn Guð og að aðrir svokallaðir guðir séu fallsguðir. Aldrei sjást hinir kristnu á bæn, við guðsþjónustu og ekkert er minnst á sakramentin. Krossar eða fiskar koma ekki einu sinni fyrir. Kristni þessa heims er því mjög húmanísk, þ.e. hún gengur fyrst og fremst út á félagslegar kenningar og kærleika manna á meðal.

Hliðstæður við texta trúarrits: Mt 5-7, Lk 6:20-6:49, Lk 10:29-37
Persónur úr trúarritum: Gabríel, Goblin, Guð, Herkúles, Jesús Kristur, Júpíter, Mars, Nefturn, falsguðir, Satan
Sögulegar persónur: Sesar
Siðfræðistef: friður, kúgun, morð, stríð, vændi, þrælahald
Trúarbrögð: húmanismi, kristni, rómverskur átrúnaður, sólardýrkun
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: Róm
Trúarlegt atferli og siðir: trúartaka
Trúarleg reynsla: trúarsannfæring