Leikstjórn: Joseph Pevney
Handrit: Gene L. Coon og Max Ehrlich, eftir sögu hins síðarnefnda
Leikarar: William Shatner, Leonard Nimoy, DeForest Kelley, James Doohan, Walter Koenig og Keith Andes
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 13
Lengd: 49mín.
Hlutföll: us.imdb.com/Details?0060028
Einkunn: 3
Ágrip af söguþræði:
Skipshöfn geimskipsins Enterprise er send til að rannsaka plánetuna Gamma Trianguli VI. Í fyrstu virðist plánetan vera fullkomin Paradís, en guð þessa Edenlundar virðist ekkert kæra sig um aðkomumennina því að skipverjarnir týna brátt tölunni og öryggi geimskipsins er ógnað.
Hinir einföldu og friðsömu íbúar plánetunnar, sem kallast Vaalbúar (eftir guði sínum Vaal), eldast hvorki né veikjast og þar deyr enginn. Af þessum sökum þurfa þeir ekki að fjölga sér og því eru kynlíf og börn óþekkt á plánetunni. Vaalbúar lifa fyrir það eitt að tilbiðja Vaal, sem virðist vera stórt nöðruhöfuð höggvið í stein, en þeir færa honum matarfórnir (eða réttara sagt orkufórnir því hann virðist lifa á orkumiklu grjóti). Þeir fara eftir lögum Vaals í einu og öllu en í staðinn lætur Vaal regnið falla, plönturnar vaxa og tré bera ávöxt.
Brátt kemst Kirk að því að Vaal er ekki andi eða guðleg vera heldur ofurtölva sem stjórnar öllu því sem gerist á plánetunni. Vaal telur Kirk og menn hans vera ógn við stöðuleika samfélagsins (sem og þeir eru) og tekur því skipverjana til fanga og reynir að eyða geimskipinu Enterprise.
Kirk sér sig því tilneyddan til að heyja stríð við Vaal, ekki aðeins til að bjarga geimskipi sínu og skipshöfn heldur einnig til að bjarga íbúnum frá því sem hann telur vera ömurlega tilvist, því að þótt samfélagið einkennist af kærleika og ást þá á hvorki þroski né þróun sér stað þeirra á meðal. Maðurinn lifir ekki á friðnum einum saman.
Almennt um myndinaLeikstjóri þessarar myndar, Joseph Pavney, leikstýrði 14 þáttum í upprunalegu seríunni, en aðeins Marc Daniels hefur leikstýrt jafn mörgum þáttum. Pavney vann aðallega fyrir sjónvarp og leikstýrði t.d. Mission: Impossible seríunni (1966). Aðrir Star Trek þættir sem hann leikstýrði eru: Arena, The Return of the Archons, A Taste of Armageddon, The Devil in the Dark, The City On the Edge of Forever, Amok Time, Catspaw, Journey to Babel, Friday’s Child, The Deadly Years, Wolf in the Fold, The Trouble with Tribbles og A Immunity Syndrome.
Gene L. Coon sem skrifaði handritið með Max Ehrlich vann einnig mikið við sjónvarpsmyndir og skrifaði t.d. handritið að Wild Wild West þáttunum (1965). Frægasta handritið sem hann skrifaði fyrir bíómynd er líklega The Killers (1964) en hún er fyrst og fremst þekkt fyrir þær sakir að Ronald Reagan lék í henni. Gene L. Coon var einn af framleiðendum Star Trek þáttanna frá 1966-1968 en enginn annar rithöfundur kemur að eins mörgum þáttum í upprunalegu seríunni og Gene L. Coon. Hann er höfundur að sögu sjö þátta og handritshöfundur annarra sjö. Aðrir Star Trek þættir þar sem Gene L Coon er höfundur að sögu og/eða handriti eru: Wink of an Eye, Let That Be Your Last Battlefield, Arena, Space Seed, A Taste of Armageddon, Who Mourns for Adonais?, A Piece of the Action, Bread and Circuses, The Devil in the Dark, Errand of Mercy, Metamorphosis, Spock’s Brain og Spectre of the Gun. Margar þessara mynda verða teknar til umfjöllunar á vefnum síðar, en guðfræðilegust þeirra allra er þó líklega Who Mourns for Adonais?
Leikstjórinn Joseph Pavney og handritshöfundurinn Gene L. Coon gerðu því þrjá aðra Star Trek þætti saman, þ.e. Arena, A Taste of Armageddon og The Devil in the Dark.
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Aðstandendur þáttarins fara ekki í laungötur með að þeir séu að vinna með söguna af Adam og Evu. Nöfnin Eden eða Paradís koma tólf sinnum fyrir í þættinum (sem er 49 mín. að lengd). Að auki er tvisvar minnst á Satan, Adam og Evu og snákahöfuð kemur oft fyrir í myndinni. Þá heitir þátturinn ,,Eplið“ en ljóst er að þar er verið að vísa til ávaxtarins sem Adam og Eva bitu í. Plánetan er jafnframt fullkominn staður þar sem enginn deyr og guð staðarins sér um allar þarfir íbúanna. Kynlíf er einnig bannað, enda þess ekki þörf þar sem dauðinn er ekki til. Þá hefur guð staðarins lagt þegnum sínum lífsreglurnar en dauðarefsing liggur við því að óhlýðnast þeim (en á það virðist ekki hafa reynt). Hliðstæðurnar við söguna af Adam og Evu eru því margar. Í lok þáttarsins segir Spock meira að segja við Kirk:
Spock: – Þú þekkir biblíusöguna í Genesis.
Kirk: – Já. Adam og Eva bitu í eplið og fyrir vikið voru þau hrakin úr Paradís.
Spock: – Nákvæmlega. Og á vissan hátt gáfum við Vaalbúum eplið, þekkingu á góðu og illu, og fyrir vikið var þeim einnig kastað úr Paradís.
Kirk: – [Beinir orðum sínum að Leonard H. McCoy] Læknir skil ég hann rétt? [Beinir orðum sínum að Spock] Ertu að segja að ég sé í hlutverki Satans?
Þótt þetta lokasamtal þróist út í gamansemi þar sem Kirk bendir Spock á að hann sé sá eini á skipinu sem minni á Satan að útliti til (enda með mjó uppstæð eyru) þá er samtalið engu að síður mikilvægt því að í raun voru skipverjarnir á Enterprise í hlutverki Satans. Munurinn á hefðbundnu túlkuninni á sögunni af Adam og Evu og Star Trek þættinum er hins vegar sá að í síðarnefnda dæminu er það ekki illkvittni sem drífur ,,Satan“ áfram heldur kærleikur og umhyggja (eða þannig túlkar skipshöfnin það að minnsta kosti). Kirk og menn hans vilja frelsa ,,Adam og Evu“ þessarar plánetu.
Eins og áður sagði er plánetan Gamma Trianguli VI fullkomin paradís. Jarðvegurinn er frjór og hvergi er að finna eyðiland eða ófrjóan stað. Hitinn er jafn um alla jörðu, meira að segja á pólum plánetunnar. Það er því engin furða að skipverjarnir tala stöðugt um að plánetan minni þá á Eden. Hinn rússneski Chekov (sem gjarn er á að eigna Rússum allt milli himins og jarðar) heldur því reyndar fram að staðurinn minni sig á Moskvu, enda hafi Eden verið við borgarmörk hennar.
Samkvæmt kristinni túlkunarhefð lét Guð engla standa vörð um Eden til að fyrirbyggja að Satan gæti spillt Adam og Evu. Á Gamma Trianguli VI eru að vísu engir englar en plánetan er engu að síður vel varin. Plöntur skjóta eiturörvum á aðkomumenn, grjótið springur og eldingum lýstur á fólk af ótrúlegri nákvæmni.
Íbúarnir minna einnig um margt á þá kristnu mynd sem dregin hefur verið upp af Adam og Evu. Þeir eru saklausir, ofbeldi er ekki til þeirra á meðal og þeir eyða ævi sinni í það að tilbiðja guð sinn Vaal og fara að vilja hans. Í staðinn sér Vaal um allar þarfir þeirra, lætur regnið falla, sólina skína og ávexti vaxa á trjánum.
Kirk og McCoy sjá ástand Vaalbúanna hins vegar ekki sem paradís. Spock er þeim þó ósammála og lendir í deilum við Kirk og McCoy um ástand þeirra, en þessar rökræður eiga sér stað eftir að þeir hafa komist að því að Vaal er ekki guðleg vera heldur ofurtölva. Fyrsta deilan er á milli McCoys og Spocks.
McCoy: – Það eru til algildar reglur, og ein þeirra er réttur mannsins til frjáls og óhefts umhverfis. Réttur til að lifa við þroskandi aðstæður.
Spock: – Önnur regla er að leyfa þeim að velja það stjórnkerfi sem virðist henta þeim.
McCoy: – Jim [Kirk]! Þú ætlar þó ekki að loka augunum fyrir því sem er að gerast hér. Þetta eru manneskjur sem þurfa að dafna og þroskast. Skilurðu ekki hvað mælingar mínar gefa til kynna? Hér hafa engar breytingar orðið eða þróun átt sér stað í a.m.k. 10.000 ár. Þetta er ekki líf, þetta er stöðnun.
Spock: – Læknir! Það er sama hvað þú kallar það, þetta fólk er heilbrigt og hamingjusamt. Þrátt fyrir tilfinningarleg viðbrögð þín virðist þetta kerfi henta því.
McCoy: – Þetta hentar kannski þér Spock, en það hentar mér ekki!
Stuttu síðar lætur Kirk í ljós svipuð viðhorf.
Spock: – Ég hef áhyggjur skipsherra. Þetta er kannski ekki fullkomið samfélag, en það virkar engu að síður.
Kirk: – Bones [McCoy] hefur rétt fyrir sér. Þetta fólk lifir ekki, það er aðeins til. Það skapar ekkert, býr ekkert til. Það hugsar ekki einu sinni. Tilvist þess gengur út á það eitt að þjóna vél.
Spock: – En ef við gerum það sem mér sýnist við ætlum að gera [þ.e. að drepa Vaal] þá brjótum við frumregluna um hafa ekki áhrif á gang mála.
Kirk: – Þetta er fólk, ekki vélmenni! Það hefur rétt til að velja. Við skuldum því það að við grípum inn í.
Þessi neikvæða afstaða til paradísarástandsins er mjög húmanísk í eðli sínu. Maðurinn þarf ekki á einhverjum guði að halda því hann getur leyst og á að leysa vandamál sín með skynseminni einni að vopni. Þótt Vaal sé ofurtölva þá þjónar ,,hann“ engu að síður sama hlutverki og Guð og er því augljóst tákn fyrir guðdóminn. Það er einnig hæpið að skipshöfnin hefði látið það stoppa sig þótt Vaal væri ,,guðleg“ vera, sbr. þáttinn Who Mourns for Adonais?, en þar ráðast þeir á ,,guðinn“ Appoló.
Þessi neikvæða afstaða gagnvart trúnni birtist einna best í því að tákn Vaal skuli vera snákahöfuð. Í ljósi þess hve oft er vísað í söguna af Adam og Evu er ljóst að verið að gefa í skyn að guð Paradísar er ekki kærleiksríkur guð heldur minnir hann meira á djöfulinn. Kærleiksríkur guð myndi leyfa sköpun sinni að þroskast, en ekki halda henni í stöðnuðu ástandi, sama hversu friðsamlegt og þægilegt það er. Hann myndi leyfa henni að njóta lífsins, elskast og hugsa sjálfstætt, en ekki meina henni um nautnir lífsins og neyða hana til að tilbiðja sig. Það er einnig áhugavert að nafnið Vaal minnir mjög á einn hataðasta guð Biblíunnar, þ.e. Baal.
Það er einnig engin tilviljun að Vaalbúar eru sýndir frumstæðir í klæðaburði og hátterni en þeir búa í strákofum, eru málaðir í framan og klæðast eins og miðjarðarhafsbúar. Með því að draga upp þessa mynd af þeim er ýjað að því að ástand og átrúnaður þeirra sé frumstæður. Þróað og þroskað fólk myndi hvorki haga sér svona né hugsa svona.
Nú er það þekkt staðreynd að Gene Roddenberry var húmanisti, en hann hafði lítið álit á skipulögðum trúarbrögðum. Því kemur afstaðan í þættinum ekki á óvart. Eins og áður sagði skiptir hér engu þótt Vaal sé aðeins tölva, boðskapurinn er ljós; raunverulegur þroski og velmegun mannsins á sér ekki stað fyrr en mannkynið hefur losað sið við guði sína og trúarbrögð og lært að hugsa sjálfstætt. Eða eins og Kirk segir í lok þáttarins við íbúana eftir að geimskipi hans tókst að ,,drepa“ Vaal:
„Með okkar hjálp munið þið læra að sjá um ykkur sjálf. Það er ekki svo erfitt að láta ávexti vaxa á trjánum. Þið munið jafnvel njóta þess. Þið lærið að byggja sjálf, hugsa sjálfstætt og vinna fyrir ykkur sjálf. Allt það sem þið skapið er ykkar eigið. Við köllum þetta frelsi. Ykkur mun líka það vel. Og þið munið læra hvernig konur og karlar eiga að vera. Elska hvort annað, vera hamingjusöm og góð við hvort annað. Við köllum það ást. Ykkur mun einnig líka það vel. Ykkur og börnum ykkar.“
Kveðjuræða Kirks kallar fram hugrenningartengsl við sköpunarsöguna í upphafi Fyrstu Mósebókar (1M 1) en við lok hverrar sköpunar er ávallt endurtekið: ,,Og Guð sá að það var Gott“. Þetta minnir á áréttingar Kirks á því að þeim muni ,,líka það“. Maðurinn þarf ekki á skapara að halda, hann getur skapað sín ,,góðu“ örlög sjálfur.
Skilningur húmanismans á Edensögunni er því sá að Adam og Eva hafi ekki fallið, heldur verið frelsuð undan kúgun skapara síns. Hjálpræði Adams og Evu fólst því ekki í því að hlýða Drottni heldur í því að taka Guð af lífi. Að öðrum kosti getur maðurinn hvorki þroskað eðlislæga hæfileika sína né þekkt muninn á góðu og illu. Slík manneskja er, samkvæmt Kirk, ekki maður heldur vélmenni.
Beinar tilvísanir í texta trúarrits: 1M 1-3
Hliðstæður við texta trúarrits: 1M 1-3
Persónur úr trúarritum: Adam, Eva, Baal, snákurinn, Guð, Satan
Guðfræðistef: fallið, kynlíf
Siðfræðistef: ofbeldi, morð
Trúarbrögð: húmanismi
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: Eden
Trúarleg tákn: epli, snákur
Trúarlegt atferli og siðir: fórn, tilbeiðsla
Trúarleg reynsla: opinberun