Kvikmyndir

Star Trek (TOS): The Empath

Leikstjórn: John Erman
Handrit: Joyce Muskat
Leikarar: William Shatner, Leonard Nimoy, DeForest Kelley, James Doohan, George Takei, Kathryn Hays, Willard Sage og Alan Bergmann
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 6
Lengd: 49mín.
Hlutföll: us.imdb.com/Details?0060028
Einkunn: 2

Ágrip af söguþræði:
Geimskipið Enterprise er sent til að sækja vísindamenn sem eru á annarri plánetu Minara stjörnunnar. Þegar Kirk, Spock og McCoy mæta á staðinn eru vísindamennirnir hins vegar horfnir. Þar sem Enterprise neyðist til að fara tímabundið frá plánetunni vegna geislastorms, eru þremenningarnir skildir þar eftir. Þeir nota því tímann til að skoða síðustu upptökurnar frá vísindamönnunum og sjá þá hvernig þeir gufa að því er virðist allt í einu upp. Skömmu síðar hverfa þremenningarnir svo þannig sjálfir en birtast síðan aftur í stóru og myrku herbergi.

Í herberginu finna þeir mállausa konu sem þeir gefa nafnið Gem, en hún er gædd þeim einstæðu eiginleikum að geta tekið á sig mein annarra og grætt þau síðan á sjálfri sér. Þremenningarnir komast að því að vísindamennirnir höfðu látist þegar þeir voru notaðir sem tilraunadýr annarra vísindamanna á plánetunni og mega þeir nú búast við sömu örlögum. Þar sem sól þessa sólkerfis mun brátt springa og vísindamenn plánetunnar megna ekki að bjarga nema einni þjóð í burt, vilja þeir finna út hver þeirra sé þess verðugust. Ef Gem sannar að hún getur fórnað sér fyrir aðra, verður þjóð hennar fyrir valinu, en markmið vísindamannanna er að vekja samúð og meðaumkun hjá henni með öðru fólki.

Vísindamennirnir pynta fyrst Kirk en bjóða honum síðan að velja hver þeirra gangi undir lífshættulega tilraun. McCoy veit vel að Kirk og Spock munu krefjast þess að fá að fórna sér og sprautar þá því með svæfingarlyfi og fer í stað þeirra. Þegar Kirk, Spock og Gem finna McCoy aftur er hann nær dauða en lífi. Gem reynir að lækna hann en hættir við vegna þeirra kvala sem hún upplifir. Hún vinnur þó bug á ótta sínum og fórnar sér að lokum með því að taka á sig benjar McCoys. Vísindamennirnir bjarga samt lífi Gem á síðustu stundu og lýsa því yfir að hún hafi bjargað þjóð sinni.

Almennt um myndina:
Þetta er eini Star Trek þátturinn sem leikstjórinn John Erman og handritshöfundurinn Joyce Muskat komu nálægt. Reyndar hef ég ekki hugmynd um hver þessi handritshöfundur er en leikstjórinn er vel þekktur enda margverðlaunaður sjónvarpsleikstjóri. John Erman var t.d. einn af fjórum leikstjórum hinna stórgóðu og vinsælu sjónvarpsmyndar Roots (1977), sem gerð var í átta hlutum. John Erman var útnefndur til Emmy verðlauna fyrir vikið og hlaut DGA verðlaunin.

Sjónvarpsserían var feyki vinsæl hér á landi og á tímabili var nafnið Kunta Kinte jafn þekkt á íslenskum heimilum og Gunnar á Hlíðarenda. Sjálfur er ég þeirrar skoðunar að enginn sjónvarpsþáttur hafi haft eins mikil áhrif á Íslendinga og Rætur en allt í einu varð þjóðin meðvituð um illsku kynþáttahaturs. Mér fannst sem fólk liti svart fólk allt öðrum augum eftir að þessir frábæru þættir voru sýndir í sjónvarpinu.

John Erman vann Emmy verðlaunin fyrir ofurdramað Who Will Love My Children? (1983), sem vakti einnig mikla athygli hér á landi og var hann tilnefndur til sömu verðlauna fyrir myndina Breathing Lessons. Þá var hann sömuleiðis tilnefndur til Emmy veðlaunanna og hlaut DGA verðlaun fyrir sjónvarpsmyndina An Early Frost (1985). Alls hefur John Erman leikstýrt 60 verkum en hann hefur nánast undantekningarlaust helgað sig sjónvarpi.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Trúarstefin í The Empath eru fjölmörg, en upphaf þáttarins gefur þar strax tóninn. Þegar Kirk, Spock og McCoy skoða upptökuna á vísindamönnunum, sem þeir voru sendir til að sækja, segir annar vísindamaðurinn við hinn um leið og jörðin nötrar: ,,Í hendi hans eru jarðardjúpin. Sálmur 95, vers 4.“ Þá svarar hinn vísindamaðurinn: ,,Svo virðist sem hann hafi heyrt í þér.“

Krossfestingarstellingar koma nokkrum sinnum við sögu. Þegar Kirk hverfur, fellur hann fyrst í krossfestingarstellingu á gólfið og skilur síðan þar eftir svitabletti sem mynda kross. Þegar Kirk og McCoy eru svo pyntaðir, eru þeir báðir hengdir upp í krossfellingarstellingu.

Deilan um það hver þeirra fái að fórna sér fyrir hina, minnir á ævi og boðskap Krists en í Jóhannesarguðspjalli 15:13 segir Jesús t.d.: ,,Enginn á meiri kærleika en þann að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína.“

Og kristsvísanirnar eru fleiri því að þegar Gem örmagnast við síðustu tilraun sína til að lækna McCoy, fellur hún einnig í krossstellingu, meira að segja með hæl vinstri fótar yfir rist þess hægri. Hæfileikar Gem til að taka á sig benjar annarra minnir sömuleiðis á fjórða þjónsljóðið í Jesajaritinu (52:13-53:12), en sá texti hefur frá upphafi kristindóms verið túlkaður sem spádómur um fórn Jesú Krists (sjá t.d. Mt 8:17, P 8:30-35 og 1Pt 2:24). Þar segir meðal annars (Jes 53:4-5, 7, 10-11):
„En vorar þjáningar voru það, sem hann bar, og vor harmkvæli, er hann á sig lagði […] og fyrir hans benjar urðum vér heilbrigðir. […] Hann var hrjáður, en hann lítillætti sig og lauk eigi upp munni sínum. Eins og lamb, sem leitt er til slátrunar, og eins og sauður þegir fyrir þeim, er klippa hann, lauk hann eigi upp munni sínum. […] En Drottni þóknaðist að kremja hann með harmkvælum: Þar sem hann fórnaði sjálfum sér í sektarfórn, skyldi hann fá að líta afsprengi og lifa langa ævi og áformi Drottins fyrir hans hönd framgengt verða. Vegna þeirra hörmunga, er sál hans þoldi, mun hann sjá ljós og seðjast.“

Þessi texti er allt of líkur söguþræði þáttarins til að það geti talist tilviljun ein. Eins og hinn líðandi þjónn lýkur Gem ekki upp munni sínum (enda mállaus) og hún ber ekki aðeins þjáningar annarra heldur tekur hún bókstaflega á sig sár þeirra og fyrir hennar ,,benjar“ verða þeir,,heilbrigðir“. Einnig fórnar hún sjálfri sér að lokum og fyrir vikið fær hún að ,,lifa langa ævi.“ Hún fellur ekki aðeins niður í krossfestingarstellingu, heldur verður fórn hennar einnig til þess að bjarga þjóð hennar. Myndin endar meira að segja á því að vísindamennirnir stíga upp til himna með Gem í fanginu.

Það er einnig áhugavert að í upphafi þáttarins er vitnað í Sálm 95, vers 4: ,,Í hendi hans eru jarðardjúpin.“ Þessi tilvísun gefur þjáningu Gem guðfræðilegri vídd, eða eins og segir í þjónsljóðinu: ,,En Drottni þóknaðist að kremja hann með harmkvælum.“ Gem er því dæmigerður kristsgervingur og það má jafnvel segja það sama um þremenningana sem berjast um að fá að fórna lífi sínu fyrir vini sína.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Sl. 95:4
Hliðstæður við texta trúarrits: Jes 52:13-53:12, Mt 8:17, P 8:30-35, 1Pt 2:24, Jh 15:13
Guðfræðistef: kristsgervingur
Siðfræðistef: fórn, kærleikur
Trúarleg tákn: kross
Trúarlegt atferli og siðir: fórn