Kvikmyndir

Stargate

Leikstjórn: Roland Emmerich
Handrit: Dean Dewlin og Roland Emmerich
Leikarar: Kurt Russell, James Spader, Viveca Lindfors, Alexis Cruz, Mili Avital, Leon Rippy, John Diehl, Carlos Lauchu, Djimon Hounsou, Eric Avari, French Stewart, Gianin Loffler, Jaye Davidson, Christopher John Fields, Derek Webster og fleiri
Upprunaland: Frakkland og Bandaríkin
Ár: 1994
Lengd: 113mín.
Hlutföll: 2.35:1
Einkunn: 2

Ágrip af söguþræði:
Árið 1928 finna fornleifafræðingar stóran og sérkennilegan steinhring grafinn í jörðu í Egyptalandi. Tæplega 70 árum síðar tekst dr. Daniel Jackson (James Spader) að ráða í dularfullt letrið á hringnum sem verður upphafið að ferðalagi yfir á plánetu, sem kallast Abydos og er í Kalyem stjörnuþokunni, í áður óþekktum hluta vetrarbrautarinnar. Ferðalangarnir, lítill flokkur hermanna með ofurstanum O’Neil (Kurt Russel) í fararbroddi ásamt dr. Jackson, finna þar eftirmynd af pýramídanum við Giza ásamt litlu samfélagi frumstæðra manna sem er stjórnað af öflugri geimveru sem tekið hefur sér guðlega stöðu undir nafninu Ra eftir sólguði Egypta til forna.

Almennt um myndina:
Þýski leikstjórinn og handritshöfundurinn Roland Emmerich á að baki margar stórmyndir á borð við Independence Day, Godzilla, Universal Soldier, The Patriot og nú síðast The Day after Tomorrow. Þessa dagana er Emmerich með nokkrar myndir í vinnslu og þar á meðal aðra mynd sem tengist Egyptalandi til forna. Sú mynd heitir King Tut og fjallar um Tútankamon faraó.

Það var lengi búinn að vera draumur Emmerichs að skrifa mynd um Egyptaland til forna og í samstarfi við Dean Devlin varð handritið að veruleika. (Stargate (1994): Audio commentary with director Roland Emmerich and producer Dean Devlin.) Höfðað var mál gegn þeim af nema í egyptalógu sem sagðist hafa sent þeim hugmyndina af þessu handriti tíu árum áður en myndin var gerð. Virtur fræðimaður í egyptalógíu við John Hopkins háskólann ábyrgðist auk þess nemandann einkum vegna þess að hans eigin kenningar voru hluti af hugmyndinni. Eini munurinn á hugmynd nemandans og á myndinni sjálfri voru nokkrar nafnabreytingar. Málið var að lokum leyst utan dómssala. (http://www.imdb.com/title/tt0111282/trivia.)

Handritið er mikið byggt á sögulegum staðreyndum hvað varðar Egyptaland til forna og er það hlutverk dr. Jacksons að flytja okkur þessar staðreyndir sem fræðimaður í egyptalógíu, sérhæfður í 4. og 5. konungsdæmi faróanna (u.þ.b. 2500 f.kr.). Skrift eða helgiletur öðru nafni er talið hafa komið fram í kringum 2500 f.Kr. og eru kenningar dr. Jacksons látnar vera þær að helgiletrið sé í raun mikið eldra og að hann hafi fundið dæmi um vel þróað ritmál á 1. og 2. konungsdæminu. Í myndinni reynist stjörnuhliðið og þekjusteinarnir vera 10000 ára gamlir og helgiletrið því sömuleiðis 5000 árum eldra en það er í raunveruleikanum. Pýramídarnir miklu við Giza koma mikið við sögu, bæði þeir einu sönnu sem og eftirmynd stærsta pýramídans við Giza sem leiðangursmenn finna á plánetunni á hinum enda Stjörnuhliðsins.

Helgiletur er mikið notað í myndinni, og var haft samband við fornleifafræðinginn dr. Stuart Smith sem hafði yfirumsjón með framsetningu þess ásamt því að lífga við forn-egypska tungumálið. Helgiletrið sem og tungumálið var sett fram eins nákvæmlega og nýjustu heimildir gefa til kynna, (Stargate (1994): Audio commentary with director Roland Emmerich and producer Dean Devlin) en tungumálið sjálft hefur ekki verið notað í um 4000 ár. Þó vilja ýmsir fræðimenn halda því fram að ákveðnar mállýskur innan arabískunnar séu hið forn-egypska tungumál lítið breytt. (Sjá: http://www.egypt-tehuti.org/articles/arabic-language.html.)

Tónlistin í Stargate er hrífandi og spennandi og á vel við umfjöllunarefnið, sérstaklega aðalstefið sem er grípandi. Að sögn Emmerichs og Devlins settu þeir tónlistarhluta myndarinnar alveg í hendur Davids Arnolds. Það var ekki fyrr en Arnold var búinn að semja tónlistina, taka hana upp og setja við myndina að Emmeric og Devlin heyrðu árangurinn og voru þeir yfir sig ánægðir. Þeim þótti takast það vel til að þeir lýstu því fúslega yfir að tónlistin væri besta verk Arnolds hingað til. Tónlistin væri spennuþrungin sem gerði myndina dularfyllri og dýpri. (Stargate (1994): Audio commentary with director Roland Emmerich and producer Dean Devlin.)

Stargate er að mestu leyti tekin í eyðimörk í Arizonafylki í Bandaríkjunum og voru skilyrði til kvikmyndagerðar afskaplega erfið meðal annars vegna hitans en meðalhitinn í skugga var um 45°C. Góðar tæknibrellur gáfu svo myndinni líf og hafa þær elst vel á 11 árum. Fyrst má nefna stjörnuhliðið sjálft og sögðu Emmerich og Devlin frá því að upprunalega átti það að vera svart á lit en leit þá út eins og risastór hjólbarði, og var litnum því breytt í stál. Upprunalega hugmyndin sagði líka til um að hliðið væri þríhyrnt, en það þótti koma illa út svo því var breytt í hring. Til að ná fram sérstökum vatnskenndum áhrifum þegar hliðið var gangsett, var notaður stór tankur fullur af vatni. Tekið var á filmu þegar þungur hlutur var látinn falla ofan í hann og hin mikla iða myndaðist. En þegar hópurinn gekk í gengum hliðið, þá hafði tölvugrafíkin tekið yfir. Tölvugrafíkin á einmitt mikinn þátt í myndinni, þar sem að mestur partur stóru bygginganna og píramídanna, geimskipsins, litlu flugvélanna sem og sandstormsins stóra var unnið í tölvu. (Stargate (1994): Audio commentary with director Roland Emmerich and producer Dean Devlin.) Ég myndi segja að á þessum tíma hafi tæknibrellurnar þótt mjög góðar þótt að á einstaka stöðum megi sjá vankanta á.

Kurt Russel leikur ofurstann Jack O’Neil, „a suicidal soldier in need of redemption“, sem fer fyrir flokk hermanna ásamt dr. Jackson í gegnum stjörnuhliðið. Vegna nýliðins atburðar heima fyrir, þegar ungur sonur hans náði í skammbyssu og dó af hennar völdum, var O’Neil tilbúinn að fara í þessa ferð jafnvel þótt óvíst væri hvort hann kæmist til baka. Russel fer vel með hlutverk hins villuráfandi og sorgmædda föður annars vegar og hins ákveðna og ábyrgðarfulla yfirmanns í hernum hins vegar.

James Spader er vel valinn til að leika hlutverk dr. Daniel Jackson, hins síðhærða fræðimanns í egyptalógíu sem alltaf er utan við sig og hnerrar þegar hann ferðast. Kenningar dr. Jacksons um uppruna egypsku pýramídanna við Giza þykja sér í lagi óvenjulegar og falla ekki í kramið í heimi fræðimanna. Því er svo komið að allir rannsóknarstyrkir hans eru uppurnir og búið er að bera hann út úr íbúð sinni. Vonleysið uppmálað og með aleiguna í tveimur ferðatöskum fær hann óvænt boð um starf við þýðingu á egypsku helgiletri. Spader túlkar persónu hans á skemmtilegan og sannfærandi hátt. Fræðimaðurinn í honum er alltaf greinilegur, þar sem hann fer hægt yfir og skoðar alla hluti gaumgæfilega. Það er skemmtilegt mótvægi við vélræna hegðun hermannanna enda er persóna James Spaders að öllu leyti í mótvægi við persónu Kurt Russels.

Með hlutverk Ra fer leikarinn Jaye Davidson sem þekktastur er fyrir hlutverk sitt í kvikmyndinni The Crying Game. Davidson er helst til of kvenlegur og því ósannfærandi í hlutverki hins mikla sólarguðs ásamt því að vera stífur og vandræðalegur á köflum.

Mjög vinsælir sjónvarpsþættir sem heita Stargate SG-1 hófu göngu sína í framhaldi af myndinni. Þeir eru búnir að ganga í 8 ár á Sci-fi sjónvarpsstöðinni í Bandaríkjunum og er níunda serían núna í framleiðslu. Í þessum þáttum, sem taka upp þráðinn þar sem frá var horfið í Stargate kvikmyndinni, eru ýmis atriði hvað varðar trúarbrögðin, geimverurnar og fleira útskýrt. Helstu persónur eru áfram þær sömu en leiknar af nýjum leikurum. Fyrir ári síðan hófu göngu sína afsprengi-þættir af Stargate Sg-1 sem heita Stargate: Atlantis. (Sjá: http://www.tvtome.com/StargateSG1/ og http://www.tvtome.com/StargateAtlantis/.) Hugmyndin á bakvið kvikmyndina Stargate lifir því enn góðu lífi í tveimur aðskildum og vinsælum framhaldsþáttum 11 árum eftir útkomu hennar.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Þungamiðja Stargate er sú hugmynd að guð manna sé í raun geimvera. Þar blandast við forn-egypsk trúarbrögð og fornleifafræði, ásamt þrælahaldi og síendurtekinni tilhneigingu mannsins til að leysa öll vandamál með ofbeldi og hernaði. Lítið ber á annarri trú að einu atriði undanskildu þegar einn hermannanna kyssir hálsmen sitt áður en hann gengur í gegnum stjörnuhliðið í fyrsta sinn. Þess konar siður tengist Ágústínusi kirkjuföður í kristinni trú.

Kenning myndarinnar er sú að í kringum 8000 f.Kr. hafi deyjandi geimvera lent á jörðinni og tekið sér bólfestu í ungum manni sem hún fann fyrir í litlum hóp manna sem síðar varð kallaður Egyptar. Þó er hálf óljóst hvort geimveran tók sér mannlega mynd sólarguðsins Ra eða hreinlega bjó hann til vegna eigin hagsmuna (geri ég þó ráð fyrir hinu síðarnefnda). Ra hefur þvínæst líklega látið byggja pýramída svo geimskip hans geti lent og í gegnum stjörnuhlið flutti hann svo þræla til annarrar plánetu til að vinna í málmanámu. Egyptarnir á jörðinni gerðu að lokum uppreisn og grófu stjörnuhliðið í jörðu en ofan á lögðu þeir þekjusteina (e. coverstones). Á þekjusteinana höfðu þeir ritað „heimilisfang“ hinnar plánetunnar með stjörnumerkjum ásamt skýringu á uppreisninni. Dr. Jackson þýðir það á eftirfarandi hátt, „Million years ago the sky’s Ra sun god sealed and buried for all time stargate.“ Ra hafði því ekki meira af jörðinni að segja. Til að koma í veg fyrir uppreisn á hinni plánetunni Abydos, bannaði hann lestur og skrift þar.

Hernaður og yfirráð hans eru ríkjandi í myndinni. Stjörnuhliðið er í varðveislu bandaríska flughersins og geymt leynilega í afskekktri herstöð. Catherine Langford, dóttir fornleifafræðingsins sem á sínum tíma fann hliðið í Egyptalandi, hefur haft fullkomna sjálfstjórn innan hersins yfir því verkefni að reyna að leysa gátuna um stjörnuhliðið. O’Neil ofursti er hins vegar kvaddur á svæðið og tekur yfir. Þegar Langford innir hann eftir því hvers vegna hann sé kominn, svarar hann því til að hann sé á svæðinu ef ske kynni að henni tækast að ná árangri. Þegar tekist hefur að opna Stjörnuhliðið með hjálp dr. Jacksons (maður veltir reyndar fyrir sér hvers vegna herinn með öll sín tæki, tól og bolmagn var ekki búinn að finna lausnina á stjörnuhliðinu á þessum tveimur árum sem það hafði verið í þeirra vörslu) fer lítill flokkur hermanna í gegn ásamt honum sjálfum. Hlutverk dr. Jacksons í leiðangrinum er að finna út úr táknunum á hliðinu hinum megin svo flokkurinn komst aftur heim. O´Neil ofursti fer fyrir flokknum en hann hefur leynilegt verkefni fyrir höndum. Skipanir hans eru einfaldar: ef einhvers konar hættur fyrirfinnast hinum megin við hliðið, skyldi hann sprengja það upp með þar til gerðri sprengju sem send var með þeim. Síðar í myndinni finnur Ra hins vegar sprengjuna og ákveður að senda hana til baka í gegnum stjörnuhliðið ásamt slatta af málmum úr námu þrælanna sem muni margfalda áhrif sprengjunnar. Ra segir við dr. Jackson, „I created your civilazation … now I will destroy it!“

Það hefur lengi verið ágreiningur um það innan fornleifafræðinnar og sagnfræðinnar hvort þrælahald hafi í raun verið stundað í Egyptalandi til forna, eða að minnsta kosti í þeim skilningi sem venjulega er lagt í þrælahald. Biblían talar þó um að Egyptaland hafi verið land þrælkunar. Í Stargate leikur hins vegar enginn vafi á því að geimveran Ra flutti jarðarbúa á plánetuna Abydos til þrælavinnu í málmanámum. Notaði hún þá sjálfskipaða guðlega stöðu sína og tæknilega yfirburði til að ríkja yfir varnarlausum jarðarbúum. Til samanburðar má nefna þegar nýlenduherrar fyrri tíma settu sig í ákveðna guðlega valdastöðu þegar þeir sölsuðu undir sig heilu löndin með því einu að markmiði að ríkja yfir þeim sem fyrir voru og eigna sér allt og alla. Réttlætingin? Jú, hvíti maðurinn var þeim æðri, hann var þróaðri, tæknivæddari og hvítari. Þess vegna taldi hann sig hafa þann rétt að allir aðrir þjónuðu hagsmunum hans, viljugir eða óviljugir.

Það kemur í ljós þegar Dr. Jackson og hermennirnir eru komnir í búðir innfæddra að skrift er bönnuð. Dr. Jackson finnur hins vegar leifar gamals helgileturs með hjálp ungrar konu úr ættbálknum og kemst þá að sögunni á bak við geimveruna sem kallar sig Ra. Dr. Jackson, herflokkurinn og íbúar Abydos taka sig saman með skotkrafti hersins og kænsku innfæddra til að sigra Ra eftir að Dr. Jackson hafði sannfært þá um að Ra og menn hans væru engir guðir. Ra væri einfaldlega kúgari og þrælahaldari og Anubis og Horus mannleg handbendi hans. Eftir mikinn og blóðugan bardaga er Ra sigraður.

Deus ex machina eða guð úr vélinni er vel þekkt hugtak í heimi vísindaskáldsagna, þar sem maðurinn hagar sér eins og guð með tæknilega yfirburði sína. Stargate fellur ágætlega undir þetta hugtak þar sem hermenn okkar tíma taka sér guðlega stöðu með alla sína tækni og uppfinningalegu yfirburði þegar þeir hitta fyrir frumstætt samfélag manna sem þeir síðan bjarga úr ánauð.

Í forn-egypskum trúarbrögðum er Ra sólarguð. Hann er yfirleitt álitinn guð guðanna, einn af þeim fyrstu sem fram komu við sköpun heimsins. Heimildum ber þó ekki saman um hvort hann hafi verið einna fyrstur guða til að koma fram eða hvaðan hann kemur nákvæmlega. Þó trúðu Forn-Egyptar því að Ra ferðaðist yfir himininn frá sólarupprás til sólseturs á sólarbát sínum. Þegar sólin settist ferðaðist Ra til undirheima þar sem allskyns hættur urðu á vegi hans uns hann fæddist aftur á austurhimni með sólarupprásinni. Ra var álitinn sköpunarguð og faðir konunga. Að auki má geta þess að Ra var eitt af viðurnefnum Yahweh, guðs biblíunnar. (Sjá: http://allthenamesofgod.com/atnog.php.) Í Stargate er Ra hins vegar sýndur sem illgjörn, kvenleg vera sem fer hugsanlega illa með börn og ofsækir menn. Hann er miskunnarlaus og grimmur þrælahaldari, sem valdi sér líkama manneskju vegna þess hve auðvelt væri að halda honum við. Í seinni hluta myndarinnar talast dr. Jackson og Ra við um íbúa Abydos og Ra segir reiðilega, „I am their only god! There can only be one Ra!“

Að guðirnir séu geimverur er óhefðbundið viðhorf lítils hóps sem trúir að við séum til vegna afskipta geimvera og byggir Stargate á því þar sem hún reynir að útskýra áhrif þeirra á manninn allt frá upphafi siðmenningar okkar sem og annarsstaðar. Álíka kenningar um að geimverur eigi einhvern þátt í samfélagi mannanna, hafa reglulega komið fram á síðustu öld. Einna þekktasti kenningasmiðurinn er líklega Svisslendingurinn Erik Von Deniken sem á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldrar kom fram með þá kenningu að geimfarar frá fjarlægum stjörnum hefðu komið til jarðarinnar fyrir mörg þúsund árum og lagt grunninn að siðmenningu okkar. Í þremur bókum tilgreindi hann, máli sínu til stuðnings, fjöldann allan af fornminjum og þar á meðal pýramídanna í Egyptalandi sem hann sagði að hefði verið óhugsandi fyrir samfélag þess tíma að byggja. Geimverur hefðu því komið að gerð þeirra. (Sjá: http://visindavefur.hi.is/?id=4555.) Ótal kvikmyndir hafa verið gerðar þar sem geimverur koma við sögu á einhvern hátt. Hins vegar hafa ekki verið gerðar margar myndir þar sem geimverur eru beinlínis sagðar vera guðir okkar eða hafi komið að sköpun okkar eða samfélags okkar á einhvern hátt. Myndir eins og 2001: A Space Odyssey, Alien vs. Preditor og X-files kvikmyndin gætu þó fallið í þann flokkinn.

Grímubúnir verðir og hermenn í guðalíki voru við hlið Ra í Stargate. Tvær gerðir voru af grímunum sem þeir báru; Anúbis annars vegar og Hórus hins vegar. Í trúarbrögðum Forn-Egypta var Anúbis guð hinna dauðu, verndari hinna látnu og yfirleitt sýndur í líki sjakala. Hórus var guð himins og konungur jarðar og tóku faróar sér titilinn „living Horus“. Hann var ætíð sýndur sem maður með haukshöfuð og átti hann sitt eigið tákn sem var auga og kallast einfaldlega Auga Hórusar. Auga Hórusar átti að verja hvern þann sem það bar frá öllu illu. Í Stargate er augað hins vegar eignað Ra. Snemma í myndinni fær dr. Jackson hálsmen með auganu á að láni hjá Catherine Langford með þeim orðum að það hafi fært henni gæfu. Hálsmenið verður til þess að íbúar plánetunnar taka dr. Jackson og hermönnunum sem guðum sendum af Ra. Síðar verður hálsmenið til þess að Ra þyrmir dr. Jackson þegar búið er að skjóta á og fangelsa hermennina sem með honum voru.

Fyrir fram pýramídann á plánetunni má sjá tvær miklar broddsúlur. Broddsúlur sem slíkar voru algengar fyrir framan hof tileinkuð sólguðinum Ra í hinu forna Egyptalandi og máttu eingöngu prestar, faróar og aðrir háttsettir einstaklingar fara þar inn.

Í annars litlausri mynd eyðimerkurinnar og grænna herbúninga, stendur upp úr klæðnaður höfðingjans í flokki innfæddra sem klæðist rauðleitum búningi. Í fornum samfélögum klæddust höfðingjar, prestar og aðrir háttsettir oft purpuralitum klæðum enda hefur liturinn lengi verið tengdur valdi eða yfirvaldi. Hýbýli Ra í kvikmyndinni, sem og hann sjálfur og hans fylgismenn og börn eru einnig litrík. Ra klæðist mikið rauðum og bláum litum. Sumar heimildir vísa til þess að í samfélagi Forn-Egypta hafi rauður litur táknað eyðimörkina ásamt því að vera litur sólarguðsins Ra. Blái liturinn vísar í ríkidæmi og yfirburði og var hann í hávegum hafður hjá Forn-Egyptum. Gyllt og blátt var litur faróanna enda voru þeir taldir synir sólarguðsins Ra. (Sjá: http://www.multimedia.hi.is/lecturers/petursdottir_print.htm.)

Hliðstæður við texta trúarrits: Genisis, Exodus
Persónur úr trúarritum: Ra, Hórus, Anubis
Guðfræðistef: Eilíft líf, dauði, frelsi, miskunn guðs, réttlæti, guðsótti
Siðfræðistef: Hernaður, hroki, mannréttindi, morð, valdbeiting, ofbeldi, ótti, kúgun, þrælkun, ást, vinátta
Trúarbrögð: Forn egypsk trúarbrögð, kristni
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: Egypskir pýramídar, broddsúlur
Trúarleg tákn: Auga Ra (Hórusar), rauður og blár, dauðagríma, kista, kettir, hálsmen með St. Ágústínus
Trúarlegt atferli og siðir: tilbeiðsla, lán á hálsmeni sem færir gæfu
Trúarleg reynsla: Endurlausn, sorg