Leikstjórn: Morgan Spurlock
Handrit: Morgan Spurlock
Leikarar: Morgan Spurlock, Bridget Bennett, Dr. Lisa Ganjhu, Dr. Daryl Isaacs,Alexandra Jamieson, Dr. Stephen Siegel
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 2004
Lengd: 96mín.
Hlutföll: 1.78:1
Einkunn: 3
Ágrip af söguþræði
Kvikmyndagerðarmaðurinn Morgan Spurlock lifir á fæðu frá McDonalds í 30daga. Við fylgjumst með ferlinu og líðan hans á meðan á þessu stendur. Á meðan á þessu stendur rannsakar hann neysluvenjur Bandaríkjamanna.
Almennt um myndina
Super Size Me! er ein af mörgum áhugaverðum áróðurs-heimildamyndum semhafa verið gerðar á síðustu árum. Líklega eru myndir bandarískakvikmyndagerðarmannsins Michael Moore þekktastar þessara mynda, en hann fékk óskarsverðlaun 2004 fyrir myndina Bowling for Columbine og hlaut síðar á sama ári gullpálmann í Cannes fyrir myndina Fahrenheit 9/11.Myndin er prýðilega gerð og það er greinilegt að Spurlock hefur gott vald á miðlinum. Rauði þráðurinn í myndinni er ofátsmánuður Spurlocks á McDonalds, en inn á milli máltíðanna veltir hann upp ýmsum spurningum tengdum matar- og skyndibitamenningunni þar vestra. Hann nýtur aðstoðar lækna, næringarfræðinga og leitar til margra í myndinni. Þannig má segja að myndin sé tilraun hans til að velta upp spurningumtengdum skyndibitaiðnaðinum í Bandaríkjunum um leið og hún er ætluð sem öfgakennt sýnidæmi á afleiðingum ofneyslu skyndibitans.Viðtökur myndarinnar hafa verið góðar, hún hefur hlotið góða aðsókn og er ein vinsælasta heimildarmyndin sem frumsýnd hefur verið á þessu ári. Hún vakti strax athygli á Sundance kvikmyndahátíðinni og þar fékk Spurlock leikstjórnarverðlaun. Myndin fékk jafnframt MTV-verðlaun á Full Frame heimildarmyndahátíðinni. Það spillir svo ekki fyrir að Spurlock hefur verið duglegur að kynna myndina, hannkom til dæmishingað til lands í tengslum við sýningu hennar sem opnunarmyndar á Indí-kvikmyndahátíð í Háskólabíói í ágúst 2004. Nánar má lesa um þetta á vef Sigríðar Pétursdótturwww.kvika.net.Myndin virðist að einhverju leyti hafa haft áhrif því komið hefurfram að í Bandaríkjunum verði ekki boðið upp á máltíðir í yfirstærð (supersize) frá og með áramótunum 2004-5, en það er einmitt deilt hart á þessar yfirstærðarmáltíðir í myndinni.Við þetta má bæta að Morgan Spurlock heldur útiannál þar sem hægt er að fylgjast með honum kynna myndina og skilja eftir ummæli um myndina.
Greining á trúar- og siðferðisstefjum
Heimildarmyndin Super Size Me fjallar fyrst og síðast um neyslu matar.Það liggur því beint við að skoða hana í ljósi guðfræði og siðfræði fæðunnar. Nærtækt er að skoða hana í ljósi dauðasynda og höfuðdygða, þ.e. að bregða upp skuggsjá dauðasyndarinnar ofáts og dygðarinnar hófsemi og skoða myndina í ljósi þess. En myndin býður einnig upp á að hún sé skoðuð í ljósi píslarsögu Krists.
Píslarsaga og friðþæging
Spurlock rammar myndina svo að segja inn með tveimur vísunum í síðustu kvöldmáltíðina. Unnusta hans er grænmetisæta og áður en hann heldur í þá„frægðarför“ sem dagarnir þrjátíu í faðmi McD eru þá eldar hún fyrir hann kvöldmáltíð – síðustu kvöldmáltíðina. Þetta er undirstrikað með tvenns konar hætti ímyndinni:
MS segir að þetta sé hans síðasta kvöldmáltíð
Sýnt er tilbrigði við fræga kvöldmáltíðarmynd eftir Da Vinci, Jesús birtist þar sem McDonalds trúðurinn og lærisveinarnir eru á formi leikfanga frá McDonalds.
Svipaða vísun í kvöldmáltíðina síðustu er að finna eftir að þrekrauninni er lokið,en þá talar hann um að nú sé kominn tími á síðustu McMáltíðina. Atburðarásin eftir síðustu kvöldmáltíð Jesú og lærisveinanna er í grófum dráttum áþessa leið:
1. Kvöldmáltíð
2. Getsemane
3. Svik – yfirheyrslur – pyntingar – krossburður
4. Krossfesting – dauði
5. Upprisa
Þetta ferli – merkingu krossferils og dauða og upprisu Jesú – hefur verið túlkað ánokkra ólíka vegu í sögu guðfræðinnar. Túlkanir á þessu eru kallaðar friðþægingarkenningar. Ein túlkun var fyrst sett fram á síð-miðöldum af Pétri Abélard. Sú túlkun átti svo aftur miklu fylgi að fagna á tíma upplýsingarstefnunnar og í kjölfar hennar. Hún gekk út á að á krossinum væri Kristur okkur fyrirmynd eða hefði sýnt fordæmi. Jesúmynd upplýsingarinnar var í raun sú að Jesús væri kennari og fyrirmynd. Þar með hefur þessi atburður fyrst og fremst gildi innra með hverjum og einum að því marki sem hann tekur hann til sín, breytingin er huglæg en ekki hlutlæg eins og í ýmsum öðrum nálgunum.
Vel er mögulegt að sjá Super Size Me sem hliðstæðu við píslarsöguna þegar hún ertúlkuð á þennan hátt. Rétt eins og Jesús þarf Morgan Spurlock að gangast undir eitthvað sem hann vill í raun ekki, en hann gerir það til að sýna fram á eitthvað eða fyrir aðra (hér má hafa í huga orð Jesú í Getsemane garðinum þar sem hann segir m.a. „Abba, faðir! allt megnar þú. Tak þennan kaleik frá mér! Þó ekki sem ég vil,ehdlur sem þú vilt.“ (Mk 14.36). Hann gengur svo píslargöngu sína, rétt eins og Jesús – þolir þessar raunir í 30 daga (sem minnir á 40 daga föstu Jesú í eyðimörkinni, sbr. Matt 4.1 og áfram).
Munurinn er hins vegar sá að meðan ganga Jesú endaði í dauða á krossi og síðar upprisu þá lýkur „krossferli“ Morgan Spurlock með því að hann etur sinn síðasta bita og fer síðan að eta hefðbundinn mat. En hann er líka nær dauða en lífi þegar þangað er komið. Og það tekur hann fleiri fleiri mánuði að koma sér í upphaflegt ástand (að rísa upp). Og afraksturinn – og kannski tilgangurinn með þessu öllu – er að kenna og uppfræða (eins og upplýsingin sagði að væri tilgangur Jesú) um hættur skyndibitans.
Um leið má líka segja að Morgan Spurlock hafi gengið inn í aðstæður almennings og inn í aðstæður þess sem þjáist af / stundar ofát. Tekið á sig þessa synd og freistað þess að frelsa mennina undan henni!
Dauðasyndin ofát
Sá löstur sem á ensku kallast gluttony hefur mörg heiti upp á íslensku. Í daglegu tali kallast hann líklega oftast nær ofát, en í fornum handritum er hann stundum kallaður ætni eða matvísi og í nýlegri þýðingu á bók Jaakos Heinimäkis um Syndirnar sjö er fjallað um hann undir yfirheitinu nautnasýki sem reyndar nær yfir fleiri lesti og syndir.
Nautnasýki er ein af dauðasyndunum sjö, hinar eru hroki, ágirnd, öfund,heift, munúð og andleg leti. Um einkenni þeirra segir áðurnefndur Heinimäki:
„Dauðasyndirnar leiða ekki til tafarlauss dauða, það kemur enginn glóandisteinn af himni eða önnur skyndirefsins. Dauðasyndirnar leiða hægt og bítandi tildauða, þær tæra lífsgleðina, angistin þrengir að og kærleikurinn tortímist hægt enóumflýjanlega.“ (Jaako Heinimäki: Syndirnar sjö, bls. 15)
Það mætti næstum halda að Heinimäki hafi séð Super Size Me áður en hann skrifaði þessi orð, svo vel hitta þau í mark gagnvart upplifun Spurlock í myndinni.
Alkuin, sem var einn helsti ráðgjafi Karlamagnúsar á 8. öld, skrifar um matvísi og ætni í ritinu Um kostu og löstu. Hann segir:
„Fyrst líkamleg synd er ofát, það er óstillt fýsi áts og drykks. Fyr það glötuðu hinir fyrstu feður mannkyna paradísar sælu og voru braut rekin í meinsamlega veröld þessa lífs, þar er hver maður getst með synd og lifir við erfiði og deyr með sárleik.“
Matvísi getur að skilningi Alkuins getur verið þrenns konar: 1. Að vilja borða á milli mála; 2. að vilja borða fínni mat en nauðsyn krefur; 3. Að vilja borða meiri mat en nauðsyn krefur. Eða með orðum hans sjálfs:
„Ætni sýnist ríki hafa yfir manni í þremur háttum; það er, þá maður girnist af matbræðis sökum að neyta matar síns fyrir maklega tíð eða setta stund, eða hann býður sér fyrirbúa dýrlegri fæðslur en beiði nauðsyn likams eða tignar hans en, eðahann tekur meira í áti og drykk fyrir girnd óstillingar sinnar en stoði heilsuhans.“
Afleiðingarnar eru skýrar að hans mati: „Af þeirri ætni gerist óstillt gleði, gjálfrun, hégómi, geðleysi, óhreinsa líkams, óstaðfesti hugar, ofdrykkja, lostasemi, því að of fully kviðar safnast líkams losti.“ Lausnin er að sama skapi einföld: „Það stígst yfir með föstum og viðvarnan synda og sýslu nokkurs góðs verks.“
Sjá Þrjár þýðingar lærðar frá miðöldum sem Gunnar Ágúst Harðarson bjó til prentunar og Hið íslenska bókmenntafélag gaf út árið 1989.
Það vekur athygli hversu mikil samsvörun er á milli orða Alkuins og upplifunar Spurlocks eins og hún birtist í myndinni. Geðdeyfð, kyndeyfð, lystarleysi og löngunarskortur eru allt dæmi um vandamál sem hann glímir við – fyrir utan auðvitað þyngdaraukninguna, aukna líkamsfitu, lifrarvandamál og sitthvað fleira. Hvað varðar samanburð á texta Alkuins og Heinimäkis annars vegar og mynd Spurlocks hins vegar verður þó að hafa í huga að þótt skoða megi myndina út frá hinu trúarlega sjónarhorni er lausnin sem boðuð er í henni ekki trúarleg sem slík (þótt ekkert í þeirri lausn sé í andstöðu við trúarlega nálgun).
Auglýsingar og börn
Í eftirminnilegu atriði gerir Spurlock tilraun með það hversu vel börn þekkja mikilvægar persónur. Hann sýnir nokkrum skólakrökkum myndir af George Washington, Jesú Kristi, Línu langsokki og Ronald McDonald (trúðinum). Nokkur börn þekktu George Washington, ekkert þekkti Jesús (þótt eitt spyrji hvort þetta sé nokkuð George W. Bush), ekkert þekkir Línu langsokk. Allir þekkja Ronald McDonald. Enda er markaðssetningunni mikið til beint að börnum. Spurlock hnykkir á þessu með börnin í fleiri atriðum, t.d. þegar hann greinir frá því að í mörgum hverfum í Bandaríkjunum sé einu leikvellina að finna á McDonalds stöðum.
Hér vakna ótal siðferðislegar spurningar um markaðssetningu gagnvart börnum. Í þessu sambandi gæti einnig verið fróðlegt að skoða hliðstæðuna sem Spurlock dregur upp á milli fíknar í skyndibita og fíknar í tóbak. Það verður ekki rætt frekar hér, en þó er rétt að geta þess að Spurlock gerir töluvert af því að bera þetta tvennt saman í myndinni.
Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Matt 26.17-30
Hliðstæður við texta trúarrits: Matt 26.17-30, Matt 26.36-28.10
Persónur úr trúarritum: Jesús
Sögulegar persónur: Leonardo da Vinci, Abelard
Guðfræðistef: endurlausn, friðþæging, upplýsingarstefnan, fasta
Siðfræðistef: ofát, hófsemi, fíkn, lygi, sannleikur, hollusta, græðgi, offita, dygð,löstur, dauðasynd
Trúarleg tákn: kvöldmáltíðarmynd
Trúarlegt atferli og siðir: píslarganga
Trúarlegar hátíðir, sögulegir atburðir: síðasta kvöldmáltíðin
Trúarleg reynsla: örvænting