Kvikmyndir

Superargo Against Diabolicus

Leikstjórn: Nick Nostro
Handrit: Jaime Jesús Balcázar, byggt á sögu eftir Mino Giarda
Leikarar: Giovanni Cianfriglia [undir nafninu Ken Wood], Gérard Tichy, Mónica Randall, Loredana Nusciak, Giulio Battiferri, Francisco Castillo Escalona, Geoffrey Copleston og Castillo Escalona
Upprunaland: Ítalía og Spánn
Ár: 1967
Lengd: 84mín.
Hlutföll: www.imdb.com/Details?0062319
Einkunn: 1

Ágrip af söguþræði:
Enginn jafnast á við fjölbragðaglímukappann Superargo enda er afl hans og úthald ofurmannlegt. Öflugt raflost hefur lítil áhrif á hann og jafnvel þótt hann sé stunginn á hol með beittum hnífi, særist hann ekkert. Eldrauður skuggabúningur hans, sem hann afklæðist ekki einu sinni í návist unnustunnar, er ennfremur skotheldur, en hann tekur heldur aldrei ofan svarta andlitsgrímu sína.

Þegar Superargo verður hins vegar besta vini sínum, Tígrinum, að bana í alþjóðlegri glímukeppni í beinni sjónvarpsútsendingu, glatar hann sjálfsvirðingu sinni og leggst í þunglyndi. Að ósk unnustunnar fær hann sér þó nýja vinnu hjá leyniþjónustuforingjanum Canton, sem er að rannsaka rán á miklu magni af úrani og kvikasilfri úr nokkrum kaupskipum. Superargo kemst brátt að því að þar hafði glæpaforinginn Diabolicus verið að verki, en sá hefur fundið leið til að umbreyta kvikasilfri í gull með kjarnorku. Diabolicus ætlar að nýta nýfenginn auð sinn til að ná heimsyfirráðum og stofnsetja ný heimstrúarbrögð en áður en það tekst hefur Superargo uppi á höfuðstöðvum hans á afskekktri eyðieyju.

Almennt um myndina:
Þetta er ein af þessum kvikmyndum, sem eru í senn svo nautheimskar og stórskemmtilegar, að nær ógjörningur er að gefa þeim stjörnueinkunn við hæfi. Vitsmunalega er myndin hreinræktaður kalkúnn en sjarmi hennar er hins vegar einstakur og skemmtanagildið ótvírætt. Jafnvel íslenski textinn er oftar en ekki álíka skemmtilegur og sjálf myndin. Þegar svikarinn í leyniþjónustunni rænir unnustu Superargos, segir hann t.d. við hana: „Your great hero has failed this time. You better start praying.“ Þetta er hins vegar þýtt á íslensku: „Hetjan mikla er misheppnuð. Þú mátt fara að gráta.“

Fjölmargar ævintýramyndir um ofursvala njósnara voru gerðar á sjöunda áratugnum og stældu þær oftar en ekki James Bond myndirnar. Áhrifum frá Bond myndinni Thunderball, sem gerð var tveim árum áður, gætir hér líka víða, ekki síst í tónlistinni og löngum neðansjávaratriðunum við eyðieyjuna. Sömuleiðis er nóg af tækniundrunum, en þar má kannski fremstan nefna flygil unnustunnar, sem reynist vegleg sendistöð og sjónvarpsupptökutæki.

Eldrauður búningur Superargos minnir einna helst á gráan búning teiknimyndahetjunnar Skugga, sem til margra ára var að finna á síðum Vikunnar hér á landi. Engar skýringar eru hins vegar gefnar á klæðaburði Superargos og meira að segja Diabolicus hristir höfuðið af skilningsleysi yfir svörtu grímunni þegar hann nær að taka hana af eitt andartak.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Athygli vekur að aðalskúrkurinn skuli vilja stofnsetja ný heimstrúarbrögð en það er aldrei útskýrt neitt frekar hvað í því felist. Þegar Superargo er tekinn höndum á eyðieyjunni, tilkynnir Diabolicus honum að hann verði heilaþveginn innan klukkutíma og gerður að þræli, en af þeim sökum er hann ólaður niður í frystiklefa og lokaður þar inni. Kuldinn hefur hins vegar lítil áhrif á Superargo enda yfirbugar hann verðina um leið og þeir sækja hann á ný. Þó svo að Diabolicus virðist áhugasamur um trúarbrögð, er heilaþvotturinn ekki tengdur trúfræðiáhuga hans heldur aðeins skilgreindur sem kúgunartæki alræðissinna. Er það í samræmi við kaldastríðsnjósnamyndir á borð við The Manchurian Candidate frá árinu 1962 og The Ipcress File frá árinu1965, sem bendluðu kommúnista við heilaþvottarstarfsemi.

Siðfræðistef: manndráp, heilaþvottur, sjálfsvirðing, völd, freisting
Trúarbrögð: Ný heimstrúarbrögð Diabolicusar [tilbúningur]
Trúarlegt atferli og siðir: bæn