Leikstjórn: Richard Donner
Handrit: Mario Puzo, David Newman, Leslie Newman og Robert Benton
Leikarar: Christopher Reeve, Marlon Brando, Gene Hackman, Margot Kidder
Upprunaland: Bretland
Ár: 1978
Lengd: 143mín.
Hlutföll: us.imdb.com/Details?0078346
Einkunn: 3
Ágrip af söguþræði:
Myndin hefst á því að foreldrar frá plánetunni Krypton senda son sinn til jarðar til að bjarga lífi hans og hjálpa jarðarbúum. Drengurinn hefur ofurkrafta og getur meira að segja flogið. Hann verður þó að gæta þess að enginn komist að því hver hann raunverulega er eða hvers hann er megnugur. Því neyðist hann til að lifa tvöföldu lífi, annars vegar sem venjulegur maður og hins vegar sem goðumlík ofurhetja. Ofurmennið berst fyrir réttvísina og þarf að lokum að bjarga milljón mannslífa.
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Upphaflegir höfundar sögunnar um Superman voru gyðingar en hugmynd þeirra var að Superman væri svar við ofríki Hitlers. Hann átti að vera ofurgyðingur, Messías sjálfur, kominn til jarðar til að gera heiminn að réttlátum og kærleiksríkum stað. Í kvikmyndinni er Superman hins vegar ekki lengur ofurgyðingur heldur fremur ígildi sjálfs Krists. Myndin hefst á því að þrír glæpamenn eru fundnir sekir fyrir hryllilega glæpi. Þeim er varpað burt af himnum en samkvæmt kristinni túlkunarhefð var hið sama gert við Satan og hans lýð. Það má því sjá þessa þrjá einstaklinga sem vanhelga þrenningu. Eftir þessa senu fáum við hina heilögu þrenningu, þ.e. faðirinn Jor-El, soninn Kal-El og móðurina sjálfa (heilagur andi?) en El merkir Guð á hebresku. Málfar föðurins Jor-El er biblíulegt og þá sérstaklega kveðjuræða hans: „Við munum aldrei yfirgefa þig […] Allt sem er mitt, er þér veitt, elsku sonur minn […] Ég mun vera með þér alla þína daga […] Sonurinn verður faðirinn og faðirinn sonurinn.“ Biblíulegra verður það varla! Og fyrir þá sem efast enn þá má geta þess að handritshöfundurinn ræðir þessar tilvísanir á nýju útgáfunni á DVD. Sonurinn Kal-El er síðan settur í stjörnu og sendur í henni til jarðar, en það minnir óneitanlega á Betlehemstjörnuna. Hann „fæðist“ síðan úr „kvið“ þessarar stjörnu, eingetinn og án jarðnesks föðurs, rétt eins og Kristur. Superman er síðan alinn upp sem maður og þarf að lifa sem maður og himnestk vera á sama tíma. Uppruni hans er himneskur og jarðneskur og hann á bæði himneska og jarðneska foreldra. Hann er bæði Superman og Clark Kent. Samkvæmt Kristinni trú var Jesús Kristur bæði maður og Guð, himneskur og jarðneskur. Áður en Kristur hóf starf sitt fór hann út í eyðimörkina. Það sama gerir Superman, en áður en hann lagði af stað sagði stjúpfaðir hans við hann að hann hafi verið sendur til jarðar í ákveðnum tilgangi. Út í auðninni talar hans raunverulegi faðir við hann og segir: „Ég hef sent þig til þeirra, elsku sonur minn, til að leiðbeina þeim.“ Og tilvísanirnar eru fleiri. Fjandmaður Supermans er Lex Luthor, en nafnið minnir á Lúsifer (og Lúther ef út í það er farið!). Luthor býr neðanjarðar, rétt eins og Kölski sjálfur (samkvæmt hefðinni). Superman „deyr“ á táknrænan hátt þegar Krypton steinninn er settur um háls hans og honum er kastað í laug en vatnsskírn er nátengd dauða og greftrun Krists (Rm 6:4). Superman rís síðan upp úr lauginni og flýgur úr neðanjarðarbústað Luthor upp til jarðar, en það samræmist einnig Kristnum átrúnaði um að Kristur hafi dvalið í helvíti í þrjá daga og síðan risið upp. Það má einnig sjá hliðstæðu við það að Kristur steig niður til heljar þegar Superman flýgur niður í jarðsprunguna og flýgur í gegnum heitt hraunið. Afleiðing „upprisu“ Supermans er einnig áþekk upprisu Krists. Hann færir heiminn aftur til betri vegar og lífgar hina dauðu við (sbr. Lois Lane). Myndin endar síðan á því að Superman flýgur upp til himins, en hér má einnig sjá hliðstæðu við uppstigninguna. Það eru einnig fleiri tilvísanir í myndinni. Ritstjóri Heimspressunnar segir að viðtal við Superman yrði besta viðtal sem skráð hafi verið síðan Guð talaði við Móse og Lois Lane hugsar þegar hún flýgur með Superman: „Ég leiði Guð.“ Superman er því mjög gott dæmi um kristsgerving í kvikmynd.
Framhald umræðunnar á umræðutorginu
Hliðstæður við texta trúarrits: Mt 2:2, Mt 27:45-28:10, Mk 15:33-16:20, Lk 10:18, Lk 23:44-24:49, Jh 19:28-20:23 Rm 6:4
Persónur úr trúarritum: Guð, Heilagur andi, Jesús Kristur, Lúsifer, Móse, Satan, Þrenningin
Guðfræðistef: kristsgervingur, örlög
Siðfræðistef: græðgi, heiðarleiki, lygi, sjálfselska
Trúarleg tákn: Betlehemstjarnan
Trúarlegt atferli og siðir: bæn, jarðarför
Trúarleg reynsla: vitrun