Leikstjórn: Samira Makhmalbaf
Handrit: Mohsen Makhmalbaf og Samira Makhmalbaf
Leikarar: Said Mohamadi, Behnaz Jafari, Bahman Ghobadi, Mohamad Karim Rahmati, Rafat Moradi, Mayas Rostami, Saman Akbari, Ahmad Bahrami, Mohamad Moradi, Karim Moradi, Hassan Mohamadi, Rasool Mohamadi og Somaye Veisee
Upprunaland: Íran, Ítalía og Japan
Ár: 2000
Hlutföll: 1.66:1
Einkunn: 3
Ágrip af söguþræði:
Takhté siah (Krítartöflur) hefst á því að hópur farandkennara er á ferð um fjallahéruðin í Kúrdistan á landamærum Íran og Íraks í von um að fá lífsviðurværi fyrir að kenna börnum að lesa, skrifa og reikna. Myndin fylgir síðan tveimur þeirra. Annar þeirra verður á vegi hóps af drengjum sem vinna sem burðardýr við að smygla varningi yfir landamærin til Íraks. Hinn slæst í för með öldruðum kúrdískum flóttamönnum sem eru á leið heim til „fyrirheitna landsins“ til að deyja þar, þ.e. gamla heimabæjarins, Halabcheh, sem þeir höfðu flúið eftir efnavopnaárás Íraka. Þetta er erfið hættuför fyrir báða hópana og á landamærum Íran og Íraks bíða vopnaðir hermenn. Verkefni farandkennaranna virðist afkáranlegt og tilgangslítið í aðstæðum þar sem mestu máli skiptir að geta komist af og haldið lífi.
Almennt um myndina:
Leikstjóri Takhté siah, Samira Makhmalbaf, er í rauninni kornung þegar hún gerir myndina eða tvítug að aldri. Þrátt fyrir það er þetta önnur myndin hennar, en frumraun hennar, Sib (Eplið), frá 1998 vakti strax athygli á henni. Í báðum þessum myndum, og raunar þriðju myndinni líka, Panj é asr, frá 2003, nýtur hún aðstoðar föður síns, Mohsen Makhmalbaf, en hann skrifar með henni handritin. Hann er þekktur kvikmyndaleikstjóri og hefur gert fjölda mynda allt frá byrjun níunda áratugar síðustu aldar. Samira á því ekki langt að sækja hæfileika sína auk þess sem hún ólst upp við kvikmyndagerð föður síns og lék stundum lítil hlutverk í þeim. Átta ára gömul lék hún mikilvægt hlutverk í mynd hans Docharkheh Savar (Bicycleras/The Cyclist). Þess má geta að hún tók myndina Sib á afgangsfilmur frá mynd föður hennar Sokhout (The Silence) frá 1998.
Takhté siah lýsir, oft með kaldhæðnu ívafi, aðstæðum kúrdískra flóttamanna á landamærum Íraks og Íran og minnir framsetningin stundum á heimildamynd. Hrjóstrugt landslagið og byssuskot hermanna árétta vel óörugga tilvist fólksins. Myndin dregur upp mynd af ýmsum eftirminnilegum persónum, m.a. ungum drengjum sem starfa sem burðardýr við hættulegar aðstæður (þáttur sem kallast á vissan hátt á við aðra íranska mynd frá árinu 2000, Zamani barayé masti asbha/A Time for Drunken Horses), kennurum sem á örvæntingarfullan hátt reyna að kenna þeim sem hafa orðið á vegi þeirra, þótt aðstæðurnar bjóði á engan hátt upp á það og kennslan sé hálf fáránleg, gömlum manni sem á í vandræðum með þvaglát og kynlegri dóttur hans og syni hennar sem greinilega hafa ekki átt sjö dagana sæla. Allir þrá að komast óhultir á leiðarenda, bæði drengirnir með smyglvarninginn og flóttamennirnir, sem flestir eru orðnir gamlir og vilja það eitt að fá að deyja í sínu heimalandi.
Bent hefur verið á (Dabashi, H. 2001. Close Up. Iranian Cinema, Past, Present and Future, s. 263, 272-276) að Takhté siah sé kvikmynd gegn menningu en með lífinu. Menningin sé persónugerð í hópi atvinnulausra kennaranna sem reyna að miðla þekkingu sinni, sem í raun er gagnslaus og dauð í þeim aðstæðum sem myndin lýsir. Lífið birtist hins vegar í hópi drengjanna sem reyna að draga fram lífið með því að smygla varningi yfir landamærin meðan hópur gamalmenna þráir að deyja í föðurlandi sínu. Þetta sjónarmið á við nokkur rök að styðjast. Kennsla kennaranna kemur hvorugum hópnum að gagni og er því tákn dauðrar menningar. Tilgangsleysi lærdómsins birtist vel þegar einum drengjanna tekst loks að skrifa nafnið sitt á krítartöflu kennarans en er svo skotinn til bana í sömu andrá. Á meðan drekkur kennarinn spenvolga geitamjólk sem geitasmali gefur honum og verður hún tákn fyrir lífið. Kaldhæðnin er sú að meðan kennarinn teigar til sín lífið tileinkar nemandi hans sér gagnslausa þekki!ngu. Leiðsögn kennaranna fær ekki tilgang fyrr en kennarinn sem slóst í för með öldungunum fer að segja þeim til vegar og sannfærir þá loks um að þeir séu komnir til fyrirheitna landsins, lands feðranna. Þá fær boðskapur hans loks merkingu. Líklega endurspeglar þessi neikvæða afstaða til menningar og gagnslausrar kennslu reynslu Samiru af guðræði írönsku klerkastrjórnarinnar og tangarhaldi hennar á menntakerfinu, en sjálf hætti hún opinberu skólanámi 15 ára gömul og einbeitti sér í staðinn að kvikmyndanámi undir handarjaðri föður síns.
Samira Makhmalbaf fékk dómnefndarverðlaunin fyrir myndina á kvikmyndahátíðinni í Cannes árið 2000 og var jafnframt tilnefnd til Gullpálmans. Athygli vekur að nánast allir leikarar myndarinnar eru íbúar af svæðinu og aðeins einn leikaranna er atvinnuleikari, en það er konan sem leikur konuna með barnið. Það kemur að vísu fram í heimildamynd um gerð myndarinnar (Samira cheghoneh ‘Takhté siah’ rol sakht, gerð af bróður Samiru, Maysam Makhmalbaf) að ætlunin var að nota atvinnuleikara til að leika gamla manninn með þvaglátsvandann, en sá oflék svo að það hefði eyðilagt myndina. Í staðinn var valinn gamall maður úr hópi íbúanna á staðnum þegar atvinnuleikarinn hafði dregið sig í hlé.
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Í myndinni Takheté siah gegnir islam töluverður hlutverki. Flóttamennirnir eru trúræknir múslimar sem ákalla Guð um hjálp í neyð sinni. Gamli maðurinn sem á við þvaglátsvandann að stríða ákallar Guð hvað eftir annað og biður hann um að hjálpa sér og miskunna sér. Í því samhengi kemur samband syndar og þjáningar líka við sögu. Eftir að hópur öldunganna hafði reynt að hjálpa honum að pissa með því að leiða hann út í á, en án árangurs, þá ræða þeir saman um ástæður þjáninga hans og velta fyrir sér hvaða syndir hann hafi drýgt úr því hann þurfi að þola slíkar þjáningar. Samtalið minnir að sumu leyti á samræður vinanna við Job í Jobsbók Gamla testamentisins.
Segja má að myndin lýsi för til fyrirheitna landsins og sé þannig viss hliðstæða við för Ísraels um óbyggðir Sínaískaga á leið til Kanaanlands. Landlausir Kúrdar fara um hrjóstrugar óbyggðir frá landinu sem þeir þurftu að flýja til (Íran), heim til lands forfeðranna (Íraks), á endanum undir leiðsögn kennarans sem slegist hafði í för með þeim. Undir lokin virðast þeir ráðvilltir þegar þoka liggur yfir öllu. Þeir eru ekki vissir um hvar þeir eru staddir og óttast nýja efnavopnaárás. Aðstæðurnar minna helst á dómsdag. En þá tekst kennaranum að sannfæra þá um að þeir séu komnir á leiðarenda, til lands forfeðranna. Þegar þeir láta loks sannfærast og sjá gaddavír sem bendir til þess að þeir séu á landamærunum, falla þeir fram og kyssa jörðina og lofa jafnframt Guð fyrir að hafa leitt þá heila á leiðarenda. Landslagið og þokan gerir lokasenurnar á vissan hátt óræðar, þetta getur svo sem verið hvar sem er, en samt er þetta fyrirheitna landið. Dómsdagur virðist vofa yfir í ógn eiturv!opnaárásar, en þá heyrist boðskapurinn um að takmarkinu sé náð, þetta sé fyrirheitna landið.
Hliðstæður við texta trúarrits: 2. Mósebók, Jobsbók
Persónur úr trúarritum: Guð, Satan
Guðfræðistef: dómsdagur, fyrirheitna landið, synd, þjáning
Siðfræðistef: flóttamenn, smygl, stríð
Trúarbrögð: islam
Trúarlegt atferli og siðir: bæn