Kvikmyndir

Tamango

Leikstjórn: John Berry
Handrit: John Berry, Lee Gold, Tamara Hovey og Georges Neveux, byggt á sögu eftir Prosper Mérimeé
Leikarar: Dorothy Dandridge, Curd Jürgens, Jean Servais, Alex Cressan, Roger Hanin, Guy Mairesse, Clément Harari, Julien Verdier, René Hell, Assane Fall og Ababakar Samba
Upprunaland: Frakkland og Ítalía
Ár: 1957
Lengd: 98mín.
Hlutföll: 1.33:1 (var 2.35:1)
Einkunn: 3

Ágrip af söguþræði:
Árið 1820 stendur afríski stríðsmaðurinn Tamango fyrir uppreisn um borð í hollenska þrælaskipinu Esperanza á leið frá Guineu til Kúbu.

Almennt um myndina:
Þessi áhugaverða kvikmynd um þrælaflutningana frá Afríku til Ameríku snemma á nítjándu öldinni jafnast alveg á við sjónvarpsþáttaröðina Roots (Marvin J. Chomsky, John Erman, David Greene og Gilbert Moses: 1977), sem sýnd var á sínum tíma í Ríkissjónvarpinu hér á landi undir nafninu Rætur og fjallaði um örlög þrælsins Kunta Kinte og afkomenda hans. Enda þótt myndin sé ekki gallalaus, hefur hún elst ótrúlega vel og eru efnistökin raunsærri en kannski hefði mátt búast við af svo gamalli mynd.

Blökkukonan Dorothy Dandridge er stórkostleg í hlutverki gullfallegrar ambáttar skipstjórans, sem lengst af er tvístígandi með hverjum hún eigi að standa í uppreisninni, enda búið að heita henni frelsi þegar leiðarenda væri náð. Dandridge þótti alla tíð hæfileikarík leikkona og var hún t.d. fyrsta blökkukonan sem tilnefnd var til óskarsverðlauna, en það var fyrir leik hennar í kvikmyndinni Carmen Jones (Otto Preminger: 1954). Vegna kynþáttar síns fékk hún hins vegar fá hlutverk og mátti hún t.d. ekki gista á hótelum hvítra, en dæmi voru um að sundlaugar þeirra væru tæmdar til að fyrirbyggja að hún nýtti sér þær meðan hún væri þar að skemmta gestum. Tamango þykir ein af bestu myndum Dandridges, en hún var ekki framleidd af Bandaríkjamönnum heldur Frökkum og Ítölum. Það verður að teljast kaldhæðnislegt að myndin skuli hafa verið bönnuð um tíma í Bandaríkjunum (a.m.k. fékkst hún ekki sýnd þar um nokkurt skeið) á þeirri forsendu að þar svæfi hvítur skipstjóri hjá blökkukonu. Efnistök myndarinnar og málalyktirnar í henni eru líka ósköp óamerísk, allavega fyrir Hollywood á þessum árum. Sjálf varð Dorothy Dandridge ekki langlíf, en hún lést tæplega fjörtíu og tveggja ára gömul, átta árum eftir gerð myndarinnar.

Þýzki leikarinn Curd Jürgens er sömuleiðis sannfærandi í hlutverki skipstjórans, hæfilega viðkunnanlegur við alla þá sem þóknast honum en grimmur við hvern þann sem óhlýðnast. Þeir eru þó litlu síðri franski eðalleikarinn Jean Servais í hlutverki skipslæknis, sem vill gjarnan krækja sér í ambátt skipstjórans líka, og blökkumaðurinn Alex Cressan í hlutverki uppreisnarforingjans Tamangos, en þetta mun vera eina myndin sem hann lék í. Leikstjórinn John Berry hafði áður starfað í Bandaríkjunum en hann færði sig um set yfir til Evrópu eftir að hafa lent á svörtum lista í Hollywood vegna umdeildrar heimildamyndar, sem hann hafði gert snemma á sjötta áratugnum.

Kvikmyndin Tamango var upphaflega gerð í Cinemascope og kemur hún því herfilega illa út í hálfu „pan and scan“ útgáfunni, sem gefin var út á myndbandi hér á landi. Ensku talsetningunni er líka ábótavant, sérstaklega í tilfelli sumra af aukaleikurunum. Engu að síður er myndin virkilega þess virði að sjá.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Þrælaveiðar hvítra manna í Afríku eru með svörtustu blettum mannkynssögunnar. Sumir reyndu að réttlæta þrælaveiðarnar með Biblíunni (einkum 1M 9:24-25 þar sem Kanaan er bölvað sem auvirðilegum þræli vegna synda föður hans) enda þótt þær hafi klárlega ekki samrýmst kærleiksboðskap Jesú Krists (sbr. t.d. Lk 10:25-37). Athyglisvert er að margir af hvítu þrælaveiðurunum skuli bera kross um hálsinn í myndinni, en að öðru leyti koma trúarbrögð lítið sem ekkert við sögu í henni. Meðal þrælanna eru þó galdralæknir sem notaður er til að hafa heimil á þeim, en hann kemur samt lítið við sögu.

Boðskapur myndarinnar er þó fyrst og fremst fordæming á því hryllilega misrétti, sem margir hvítir menn beittu svarta meðbræður sína á þessum tíma, og verða efnistökin að teljast viðeigandi.

Guðfræðistef: frelsi, illur andi
Siðfræðistef: þrælaveiðar, þrælahald, morð, manndráp, niðurlæging, dauðarefsing, aftaka, uppreisn
Trúarbrögð: svarti galdur
Trúarleg tákn: kross í hálsfesti
Trúarleg embætti: galdralæknir